Ímynd Íslands og Grænlands
Bækur - Sagnfræði - Morgunblaðið 26. nóvember 2020
Í fjarska norðursins ****½ -
Eftir Sumarliða R. Ísleifsson. Útgefandi Sögufélag, Reykjavík 2020. 381 bls. innb., ríkulega myndskreytt.
Þegar ég hóf að sækja stjórnmálafundi fyrir um 65 árum ræddu menn gjarnan ávinninginn af því að fámenn þjóð á norðurhjara veraldar fékk sjálf stjórn eigin mála, stofnaði lýðveldi og skapaði sér lífvænlega stöðu á alþjóðavettvangi og efnahagslega. Ekkert af þessu laut náttúrulegu lögmáli og ekki heldur hitt að síðari heimsstyrjöldin gerði eyjarnar í Norður-Atlantshafi að hluta af „miðjunni“ með Norður-Atlantshafsbandalaginu, NATO.
Hefðu framboðsræður mínar fjallað um þetta á fundum á tíunda áratug 20. aldarinnar hefðu þær þótt tímaskekkja. Svo sjálfsagt var þetta þá talið. Umræðurnar snerust um einstakt gildi þess að samið yrði um nýja aðild að „miðjunni“ með Evrópska efnahagssvæðinu, EES.
Lína er dregin gegn valdi „miðjunnar“ hér. Við afsölum okkur ekki stjórn fiskveiða til hennar. Baráttan fyrir 200 mílna efnahagslögsögu í norðri yrði að engu. Sumir telja sjálft fullveldið í hættu verði rafstrengur tengdur héðan til „miðjunnar“.
Sumarliði R. Ísleifsson
Bókin Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland viðhorfssaga í þúsund ár eftir dr. Sumarliða R. Ísleifsson, lektor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, snýst um viðhorf annarra þjóða manna til Íslands, ímynd þeirra hefur svo áhrif á viðhorf okkar sjálfra. Hve oft heyrist ekki að þetta eða hitt atvikið á heimavelli spilli orðspori þjóðarinnar út á við?
Sumarliði segir:
„Hugtakið ímynd verður mikið notað í þessu verki. Hér er það ekki notað um myndir eða myndlíkingar heldur sem mynd eða hugmynd sem við teljum einkennandi fyrir tiltekinn hóp, fjölskyldu, þjóð eða einhvern annan hóp. Þess háttar ímynd hefur áhrif á og stjórnar afstöðu okkar og hegðun gagnvart viðkomandi hópi eða fyrirbæri og leiðir til neikvæðra eða jákvæðra ályktana og ímynda. Hér er því um að ræða aðgreiningu í „okkur“ og „hina“. (15)
Og enn segir:
„Þjóðarímyndir byggja að hluta til á aðstæðum sem erfitt er að breyta. Mikilvæg hugtakapör í þessu samhengi eru smæð-stærð, völd-valdaleysi, norður-suður, austur-vestur, svartur-hvítur, miðja-jaðar, eyja-meginland, svo nokkur pör séu nefnd. Þannig er talað um ákveðið regluverk í tengslum við ímyndarsköpunina. Ímyndir eiga sér oft djúpar sögulegar rætur og geta verið hrærigrautur af sögulegum viðburðum, sögusögnum og misskilningi.“ (17)
Hafi lesandinn þetta leiðarstef í huga auðveldar það honum að átta sig á efnistökum Sumarliða þegar hann leiðir erlenda menn fram í því skyni að bregða ljósi á norðlægu eyjarnar Ísland og Grænland. Þær eru gjörólíkar með vísan til jarðfræði, landnytja, búsetu og menningar. Stjórnarhættir og tengsl við „miðjuna“ eru ólík, Ísland hjálenda en Grænland nýlenda. Báðar voru þær hins vegar taldar á mörkum hins byggilega heims eða jafnvel handan hans.
Bók Sumarliða skýrir vel hve merkilegt það er að fyrst nú í ár fær Reykjavík lykilhlutverk í sjóflutningum Grænlendinga. Þar skipir framtak Eimskips máli. Þá er hitt ekki síður merkilegt í ljósi sögunnar að nú sér Lambhagi Grænlendingum fyrir fersku grænmeti frá Íslandi.
Efnið sem Sumarliði færir okkur á skýran og aðgengilegan hátt í bók sinni skapar samtímanum dýpt. Hún minnir einnig á gildi varðstöðu um ímynd Íslands. Framandleg þjóðin var bjargarlaus í þessu efni um aldir, eins konar illa lyktandi sýningargripur í óhrjálegum híbýlum við dyr eldfjalla ef ekki sjálfs vítis.
Á 16. öld var svo komið að menntaðir Íslendingar „sem störfuðu við helstu stofnanir í landinu, skóla og biskupsstóla, settu fyrir sig þær hugmyndir sem algengar voru um Ísland erlendis, hugmyndir, sem gerðu lítið úr landi og þjóð og sýndu það á annan hátt í neikvæðu og annarlegu ljósi að þeirra mati. Þeir vildu svara fyrir sig.“ (108)
Árið 1625 kom út á ensku varnarritið Crymogæa (ísl. Ísafold) eftir Arngrím Jónsson lærða þar sem lýst var samfélagi á Íslandi „sem svipaði til annarra samfélaga sem Íslendingar höfðu mest samskipti við í Vestur-Evrópu“. (109) Erlendir höfundar studdust við rit Arngríms lærða og ímynd Íslands breyttist. Þar er nefndur til sögunnar kunnur franskur fræðimaður, Isaac de la Peyrère, sem sendi frá sér bók um Ísland árið 1663. Hann endursagði texta Arngríms að stórum hluta, meðal annars um íslenska menningararfinn sem erlendir menn þekktu ekki. Var verk Frakkans gefið út í þremur frönskum útgáfum en auk þess á ensku og dönsku.
Sumarliði rekur sögu hugmynda um Ísland og Grænland allt fram til okkar daga. Hann lýsir vel hvernig meginhugmyndin um löndin og þjóðirnar mótast af menningarlegum og hugmyndafræðilegum straumum hvers tímaskeiðs fyrir sig. Upplýsingaöldin beinir athygli frá skrímslum og forynjum að því sem þykir í raun virði að rannsaka í náttúru og mannlífi. Rómantíkin vekur tilfinningar fyrir fegurð landsins og menningarlegum afrekum fortíðar – ættjarðarástinni.
Erum við stödd á nýjum krossgötum nú á tímum? Hringborð norðursins dregur þúsundir manna ár hvert í Hörpu til að ræða málefni norðurslóða. Grænland vekur áhuga fjárfesta vegna vinnslu á sjaldgæfum jarðefnum eða olíu. Fréttir berast um dýrmæt jarðefni í og á hafsbotni í norðri. Rannsóknir á auðlindum eru meiri en nokkru sinni. Reglulegar siglingar í Norður-Íshafi eru taldar á næsta leiti. Því er jafnvel spáð að Ísland verði Singapúr norðursins.
Keppni stórvelda magnast á svæðinu. Smáþjóðir vilja að lágspenna ríki á norðurslóðum. Koma þær sér saman um hvernig best verði stuðlað að því?
Fyrir hvern þann sem vill dýpka skilning sinn á viðhorfinu til Íslands og Grænlands og þar með norðrinu í aldanna rás er bók Sumarliða R. Ísleifssonar kjörið lesefni.
Í fjarska norðursins er glæsileg bók í öllu tilliti. Brotið er stórt, allar skrár eru vandaðar og alúð lögð við umbrot og frágang. Á þriðja hundrað myndir eru í bókinni en Margrét Tryggvadóttir er myndaritstjóri.
Sumarliði R. Ísleifsson er vandaður og varfærinn fræðimaður. Stundum gerir hann of mikinn fyrirvara við efnistök sín eða notkun heimilda. Þær eru ríkulegar og oft vitnað beint í þær í sérstökum köflum.
Íslendingum þótti fyrr á öldum nóg um áhuga útlendinga á Heklu. Þeir og landið hefðu einnig annað að bjóða. Við vorum hins vegar minnt rækilega á aðdráttarafl eldfjalla árið 2010 eftir gosið í Eyjafjallajökli. Bylting varð í komu ferðamanna. Norðlæga eyjan hefur mikið aðdráttarafl þótt fólkið sé ekki eins framandlegt og áður.
Við endurreisn að loknum heimsfaraldri á að laða hópa ferðamanna að nýju til landsins. Efni þessarar bókar á erindi til þeirra sem þar koma að verki. Vegleg umgjörð textans má ekki skapa þá ímynd að hann sé skráður til hátíðarbrigða. Kynning á Íslandi samtíðarinnar á rætur í því sem þarna er sagt.