1.11.2024

Icesave-varnarrit Svavars

Morgunblaðið, föstudagur 1. nóvember 2024.

Það sem sann­ara reyn­ist ★★★½· Eft­ir Svavar Gests­son. Hóla­sel, 2024. Kilja, 428 bls., heim­ilda- og nafna­skrár.

Nú hafa frá­sagn­ir höfuðleik­ara úr gamla Alþýðubanda­lag­inu í Ices­a­ve-mál­inu birst. Stein­grím­ur J. Sig­fús­son og Ögmund­ur Jónas­son sem sátu í rík­is­stjórn 2009 til 2013 hafa gefið út end­ur­minn­ing­ar. Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, for­seti Íslands 1996 til 2016, hef­ur birt valda kafla úr dag­bók­um sín­um. Málsvörn aðal­samn­inga­manns­ins um Ices­a­ve, Svavars Gests­son­ar (1944-2021), er í bók­inni Það sem sann­ara reyn­ist.

Svavar hafði rétt lokið við að setja punkt­inn aft­an við text­ann 1. októ­ber 2020 þegar hann veikt­ist hast­ar­lega á ferðalagi og andaðist 18. janú­ar 2021. Í for­mála seg­ir að þungt hald­inn á sjúkra­beði hafi hann áréttað mik­il­vægi út­gáfu bók­ar­inn­ar. Hóla­sel, fé­lag hans nán­ustu, stend­ur að verk­inu með For­lagið sem bak­hjarl.

Í sam­tali við Guðrúnu Ágústs­dótt­ur ekkju Svavars sem birt­ist hér í blaðinu 22. októ­ber 2024, seg­ir að á sín­um tíma hafi Svavar vegna starfa sinna sem sendi­herra ekki talið eðli­legt að blanda sér í umræðurn­ar um Ices­a­ve-samn­ing­ana. Síðar þegar hann skrifaði ævi­sögu sína Hreint út sagt, sem kom út 2012, hafi hann skautað yfir Ices­a­ve-málið til að það skyggði ekki á póli­tíska sögu hans. Með ár­un­um og stöðugum umræðum um Ices­a­ve í póli­tísku sam­hengi hafi hann svo fundið sig knú­inn til að segja sína hlið.

Tæp­ur helm­ing­ur bók­ar­inn­ar (202 blaðsíður) snýst um aðdrag­anda sjálfra Ices­a­ve-samn­ingaviðræðnanna. Á bls. 208 seg­ir: „Á þeim blaðsíðum sem framund­an eru verður farið í gegn­um haug af einkapapp­ír­um og minn­is­blöðum mín­um um sögu Ices­a­ve-máls­ins sem ég flokkaði seint í nóv­em­ber 2017.“

Jó­hanna Sig­urðardótt­ir, Sam­fylk­ingu, varð for­sæt­is­ráðherra í minni­hluta­stjórn með Vinstri­hreyf­ing­unni – grænu fram­boði (VG) und­ir for­mennsku Stein­gríms J. Sig­fús­son­ar 1. fe­brú­ar 2009. Sem fjár­málaráðherra bar Stein­grím­ur J. ábyrgð á lausn Ices­a­ve-deil­unn­ar við Hol­lend­inga og Breta.

Kaupþing og Lands­bank­inn ráku net­bankaþjón­ustu í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi fram að hruni haustið 2008. Lands­bank­inn kallaði reikn­ing sinn Ices­a­ve. Við gjaldþrot bank­anna urðu inn­stæðueig­end­ur í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi æv­areiðir og hrædd­ir um sinn hag. Stjórn­völd land­anna komu til bjarg­ar en gerðu end­ur­kröfu á hend­ur ís­lensk­um stjórn­völd­um. Deil­an við Þjóðverja leyst­ist fljótt en mik­ill hiti hljóp í deil­ur við Hol­lend­inga og Breta sem lyktaði ekki fyrr en með dómi EFTA-dóm­stóls­ins 28. janú­ar 2013.

2f1173f3-82de-4026-afa3-c25b4408c480

Svavar Gests­son starfaði með Stein­grími J. í Alþýðubanda­lag­inu en leiðir skildi milli þeirra 1998 þegar Svavar og Alþýðubanda­lagið stóðu að stofn­un Sam­fylk­ing­ar­inn­ar en VG varð til fyr­ir sam­vinnu Stein­gríms J., Ögmund­ar Jónas­son­ar og Hjör­leifs Gutt­orms­son­ar. Svavar seg­ist fyrst hafa séð það við lest­ur 20 ára sögu VG (Hreyf­ing rauð og græn) að und­ir­bún­ing­ur að stofn­un nýs flokks hafi verið haf­inn löngu áður en Alþýðubanda­lagið ákvað að standa að Sam­fylk­ing­unni og hann spyr: „Af hverju var ég ekki lát­inn vita af því? Ég hefði viljað vita af því“ (285).

Svavar seg­ist hafa átt frum­kvæði að því að kalla Ögmund inn í þing­flokk Alþýðubanda­lags­ins í þing­kosn­ing­un­um 1995 sem óháðan þriðja mann á lista flokks­ins í Reykja­vík. Ögmundi hafi verið vel tekið af flokkn­um 1995 – að vísu ekki af þáver­andi for­manni Alþýðubanda­lags­ins, Ólafi Ragn­ari Gríms­syni (284).

Svavar var þó ekki í fram­boði í þing­kosn­ing­un­um 1999. Hann seg­ir að Jó­hanna Sig­urðardótt­ir og Össur Skarp­héðins­son hafi sam­ein­ast um að koma sér út úr efsta sæti lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Reykja­vík (240).

Svavar var ráðinn til starfa í ut­an­rík­isþjón­ust­unni árið 1999 og var sendi­herra í Kaup­manna­höfn þegar Stein­grím­ur J. kallaði hann til að leiða samn­ingaviðræðurn­ar við Hol­lend­inga og Breta um Ices­a­ve-upp­gjörið und­ir lok fe­brú­ar 2009.

Svavar þekkti sitt heima­fólk og hann gekk vel frá samn­ings­um­boði sínu með sam­töl­um við það, all­ir vildu semja. Í bók­inni rek­ur hann ná­kvæm­lega þing­lega meðferð Ices­a­ve, sitt hlut­verk hafi verið að ná sem bestri niður­stöðu í sam­ræmi við fjár­hags- og efna­hags­lega stöðu þjóðar­inn­ar. Þessu mark­miði taldi hann náð 5. júní 2009.

Samn­ing­um hans var vel tekið í rík­is­stjórn. Svavar seg­ir að Ögmund­ur hafi að vísu setið með „yggli­brún“ þegar samn­ing­ur­inn var kynnt­ur í rík­is­stjórn­inni. Síðar hafi Ögmund­ur komið „þung­ur á brún“ af þing­flokks­fundi VG þar sem Stein­grím­ur J. kynnti samn­ing­inn. Svavar spurði Ögmund hvað væri að. Það eru „vinnu­brögðin“, svaraði Ögmund­ur, og gaf Svavari ekki frek­ari skýr­ingu (260). Svavar seg­ir að í Ices­a­ve-mál­inu hafi Ögmund­ur orðið „fórn­ar­lamb þeirr­ar hjarðar sem hann þótt­ist leiða“. Síðan birt­ast sár­indi: „Við Ögmund­ur vor­um nán­ir fé­lag­ar í ára­tugi. Nú sakna ég vin­ar í stað“ (288).

Frá 5. júní ríkti næsta stjórn­laust upp­nám vegna Ices­a­ve-máls­ins. Svavar fylgd­ist „með vax­andi undr­un“ (264) með umræðum á þingi.

Samn­ing­arn­ir voru lög­fest­ir sam­hljóða á Alþingi 28. ág­úst 2009 og staðfesti Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son for­seti Íslands lög­in 2. sept­em­ber 2009 (350). Þingið setti fyr­ir­vara sem urðu til þess að Hol­lend­ing­ar og Bret­ar töldu sig ekki bundna af samn­ing­un­um sem þeir höfðu gert.

Svavar seg­ir að á síðasta fundi nefnd­ar sinn­ar, 12. júní 2009, hafi verið bókað að birta ætti samn­ing­ana frá 5. júní fyrr en síðar og lög­manns­stof­an Lex ætti að skrifa grein­ar­gerð með skýr­ing­um á ákvæðum samn­ing­anna. Hvor­ugt var gert (256).

Jó­hanna og Stein­grím­ur J. ætluðu lík­lega að lauma samn­ing­un­um í gegn­um þingið, helst umræðulaust. Ein­hver lak þeim í ómerktu um­slagi til frétta­stofu rík­is­út­varps­ins 17. júní 2009.

Sum­arið 2009 breytt­ist Ices­a­ve í póli­tískt sprengi­efni. Svavar vík­ur ekki að reiðinni vegna orða sem hann lét sjálf­ur falla þegar hann skilaði samn­ing­un­um. Fleiri glopp­ur má finna í frá­sögn­inni. Tímaröð henn­ar er ekki alltaf skýr. Hann nefn­ir ekki hlut Carls Bau­den­bachers dóms­for­seta í frá­sögn af niður­stöðu EFTA-dóm­stóls­ins. Afstaða Svavars til dóms­ins er nei­kvæð.

Það er óvenju­legt að lesa bók þar sem höf­und­ur deil­ir á ræður alþing­is­manna og gef­ur þeim ein­kunn­ir. Svavar ger­ir þetta af sam­visku­semi og nýt­ir þar ára­langa þekk­ingu á þing­störf­um og póli­tíska reynslu. Hon­um finnst dag­skrárliðirn­ir fund­ar­stjórn for­seta, óund­ir­bún­ar fyr­ir­spurn­ir og andsvör hafa orðið þannig í fram­kvæmd að þetta líti út „eins og fífla­læti en ekki al­vöruþing­hald“. Hann spyr: „Virðing Alþing­is – hvað er nú það?“ (265).

Póli­tískt mat Svavars á mönn­um, mál­efn­um og sam­starfi milli flokka ræðst af póli­tík og hags­mun­um hans. Hann er á móti aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og velt­ir oft­ar en einu sinni vöng­um yfir sinna­skipt­um VG í mál­inu. Hann seg­ir:

„Eða var það kannski klókt hjá VG að fall­ast á um­sókn­ina [um aðild] til að stoppa aðild­ina sem ella hefði lík­lega orðið verk Sjálf­stæðis­flokks­ins og Sam­fylk­ing­ar…“ (200). ESB-aðild­arfl­anið sum­arið 2009 var með öðrum orðum liður í valda­brölti. Hann rangtúlk­ar af­stöðu Sjálf­stæðis­flokks­ins til ESB, flokk­ur­inn hefði aldrei ljáð máls á aðild nema þjóðin hefði samþykkt að sótt yrði um hana. VG og Sam­fylk­ing felldu til­lögu sjálf­stæðismanna um það 2009.

Þótt Svavar hafi ætlað í fram­boð fyr­ir Sam­fylk­ing­una 1999 var hann alltaf VG-maður inn við beinið. Hon­um þótti þess vegna enn sár­ara en ella hvernig gömlu flokks­fé­lag­arn­ir, Stein­grím­ur J., Ögmund­ur, Össur og Ólaf­ur Ragn­ar, skildu hann eft­ir á Ices­a­ve-klak­an­um.

Varn­ar­rit Svavars Gests­son­ar staðfest­ir að vand­ræðagang­ur­inn vegna Ices­a­ve-máls­ins frá 1. fe­brú­ar 2009 þar til yfir lauk 28. janú­ar 2013 reynd­ist öðrum þræði upp­gjör fé­laga sem fóru með völd í gamla Alþýðubanda­lag­inu. Þeir ætluðu að sanna að þeir gætu sótt og varið hags­muni þjóðar­inn­ar. Þeim mistókst það hrap­al­lega.