Icesave-varnarrit Svavars
Morgunblaðið, föstudagur 1. nóvember 2024.
Það sem sannara reynist ★★★½· Eftir Svavar Gestsson. Hólasel, 2024. Kilja, 428 bls., heimilda- og nafnaskrár.
Nú hafa frásagnir höfuðleikara úr gamla Alþýðubandalaginu í Icesave-málinu birst. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson sem sátu í ríkisstjórn 2009 til 2013 hafa gefið út endurminningar. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands 1996 til 2016, hefur birt valda kafla úr dagbókum sínum. Málsvörn aðalsamningamannsins um Icesave, Svavars Gestssonar (1944-2021), er í bókinni Það sem sannara reynist.
Svavar hafði rétt lokið við að setja punktinn aftan við textann 1. október 2020 þegar hann veiktist hastarlega á ferðalagi og andaðist 18. janúar 2021. Í formála segir að þungt haldinn á sjúkrabeði hafi hann áréttað mikilvægi útgáfu bókarinnar. Hólasel, félag hans nánustu, stendur að verkinu með Forlagið sem bakhjarl.
Í samtali við Guðrúnu Ágústsdóttur ekkju Svavars sem birtist hér í blaðinu 22. október 2024, segir að á sínum tíma hafi Svavar vegna starfa sinna sem sendiherra ekki talið eðlilegt að blanda sér í umræðurnar um Icesave-samningana. Síðar þegar hann skrifaði ævisögu sína Hreint út sagt, sem kom út 2012, hafi hann skautað yfir Icesave-málið til að það skyggði ekki á pólitíska sögu hans. Með árunum og stöðugum umræðum um Icesave í pólitísku samhengi hafi hann svo fundið sig knúinn til að segja sína hlið.
Tæpur helmingur bókarinnar (202 blaðsíður) snýst um aðdraganda sjálfra Icesave-samningaviðræðnanna. Á bls. 208 segir: „Á þeim blaðsíðum sem framundan eru verður farið í gegnum haug af einkapappírum og minnisblöðum mínum um sögu Icesave-málsins sem ég flokkaði seint í nóvember 2017.“
Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingu, varð forsætisráðherra í minnihlutastjórn með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði (VG) undir formennsku Steingríms J. Sigfússonar 1. febrúar 2009. Sem fjármálaráðherra bar Steingrímur J. ábyrgð á lausn Icesave-deilunnar við Hollendinga og Breta.
Kaupþing og Landsbankinn ráku netbankaþjónustu í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi fram að hruni haustið 2008. Landsbankinn kallaði reikning sinn Icesave. Við gjaldþrot bankanna urðu innstæðueigendur í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi ævareiðir og hræddir um sinn hag. Stjórnvöld landanna komu til bjargar en gerðu endurkröfu á hendur íslenskum stjórnvöldum. Deilan við Þjóðverja leystist fljótt en mikill hiti hljóp í deilur við Hollendinga og Breta sem lyktaði ekki fyrr en með dómi EFTA-dómstólsins 28. janúar 2013.
Svavar Gestsson starfaði með Steingrími J. í Alþýðubandalaginu en leiðir skildi milli þeirra 1998 þegar Svavar og Alþýðubandalagið stóðu að stofnun Samfylkingarinnar en VG varð til fyrir samvinnu Steingríms J., Ögmundar Jónassonar og Hjörleifs Guttormssonar. Svavar segist fyrst hafa séð það við lestur 20 ára sögu VG (Hreyfing rauð og græn) að undirbúningur að stofnun nýs flokks hafi verið hafinn löngu áður en Alþýðubandalagið ákvað að standa að Samfylkingunni og hann spyr: „Af hverju var ég ekki látinn vita af því? Ég hefði viljað vita af því“ (285).
Svavar segist hafa átt frumkvæði að því að kalla Ögmund inn í þingflokk Alþýðubandalagsins í þingkosningunum 1995 sem óháðan þriðja mann á lista flokksins í Reykjavík. Ögmundi hafi verið vel tekið af flokknum 1995 – að vísu ekki af þáverandi formanni Alþýðubandalagsins, Ólafi Ragnari Grímssyni (284).
Svavar var þó ekki í framboði í þingkosningunum 1999. Hann segir að Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson hafi sameinast um að koma sér út úr efsta sæti lista Samfylkingarinnar í Reykjavík (240).
Svavar var ráðinn til starfa í utanríkisþjónustunni árið 1999 og var sendiherra í Kaupmannahöfn þegar Steingrímur J. kallaði hann til að leiða samningaviðræðurnar við Hollendinga og Breta um Icesave-uppgjörið undir lok febrúar 2009.
Svavar þekkti sitt heimafólk og hann gekk vel frá samningsumboði sínu með samtölum við það, allir vildu semja. Í bókinni rekur hann nákvæmlega þinglega meðferð Icesave, sitt hlutverk hafi verið að ná sem bestri niðurstöðu í samræmi við fjárhags- og efnahagslega stöðu þjóðarinnar. Þessu markmiði taldi hann náð 5. júní 2009.
Samningum hans var vel tekið í ríkisstjórn. Svavar segir að Ögmundur hafi að vísu setið með „ygglibrún“ þegar samningurinn var kynntur í ríkisstjórninni. Síðar hafi Ögmundur komið „þungur á brún“ af þingflokksfundi VG þar sem Steingrímur J. kynnti samninginn. Svavar spurði Ögmund hvað væri að. Það eru „vinnubrögðin“, svaraði Ögmundur, og gaf Svavari ekki frekari skýringu (260). Svavar segir að í Icesave-málinu hafi Ögmundur orðið „fórnarlamb þeirrar hjarðar sem hann þóttist leiða“. Síðan birtast sárindi: „Við Ögmundur vorum nánir félagar í áratugi. Nú sakna ég vinar í stað“ (288).
Frá 5. júní ríkti næsta stjórnlaust uppnám vegna Icesave-málsins. Svavar fylgdist „með vaxandi undrun“ (264) með umræðum á þingi.
Samningarnir voru lögfestir samhljóða á Alþingi 28. ágúst 2009 og staðfesti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands lögin 2. september 2009 (350). Þingið setti fyrirvara sem urðu til þess að Hollendingar og Bretar töldu sig ekki bundna af samningunum sem þeir höfðu gert.
Svavar segir að á síðasta fundi nefndar sinnar, 12. júní 2009, hafi verið bókað að birta ætti samningana frá 5. júní fyrr en síðar og lögmannsstofan Lex ætti að skrifa greinargerð með skýringum á ákvæðum samninganna. Hvorugt var gert (256).
Jóhanna og Steingrímur J. ætluðu líklega að lauma samningunum í gegnum þingið, helst umræðulaust. Einhver lak þeim í ómerktu umslagi til fréttastofu ríkisútvarpsins 17. júní 2009.
Sumarið 2009 breyttist Icesave í pólitískt sprengiefni. Svavar víkur ekki að reiðinni vegna orða sem hann lét sjálfur falla þegar hann skilaði samningunum. Fleiri gloppur má finna í frásögninni. Tímaröð hennar er ekki alltaf skýr. Hann nefnir ekki hlut Carls Baudenbachers dómsforseta í frásögn af niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Afstaða Svavars til dómsins er neikvæð.
Það er óvenjulegt að lesa bók þar sem höfundur deilir á ræður alþingismanna og gefur þeim einkunnir. Svavar gerir þetta af samviskusemi og nýtir þar áralanga þekkingu á þingstörfum og pólitíska reynslu. Honum finnst dagskrárliðirnir fundarstjórn forseta, óundirbúnar fyrirspurnir og andsvör hafa orðið þannig í framkvæmd að þetta líti út „eins og fíflalæti en ekki alvöruþinghald“. Hann spyr: „Virðing Alþingis – hvað er nú það?“ (265).
Pólitískt mat Svavars á mönnum, málefnum og samstarfi milli flokka ræðst af pólitík og hagsmunum hans. Hann er á móti aðild að Evrópusambandinu og veltir oftar en einu sinni vöngum yfir sinnaskiptum VG í málinu. Hann segir:
„Eða var það kannski klókt hjá VG að fallast á umsóknina [um aðild] til að stoppa aðildina sem ella hefði líklega orðið verk Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar…“ (200). ESB-aðildarflanið sumarið 2009 var með öðrum orðum liður í valdabrölti. Hann rangtúlkar afstöðu Sjálfstæðisflokksins til ESB, flokkurinn hefði aldrei ljáð máls á aðild nema þjóðin hefði samþykkt að sótt yrði um hana. VG og Samfylking felldu tillögu sjálfstæðismanna um það 2009.
Þótt Svavar hafi ætlað í framboð fyrir Samfylkinguna 1999 var hann alltaf VG-maður inn við beinið. Honum þótti þess vegna enn sárara en ella hvernig gömlu flokksfélagarnir, Steingrímur J., Ögmundur, Össur og Ólafur Ragnar, skildu hann eftir á Icesave-klakanum.
Varnarrit Svavars Gestssonar staðfestir að vandræðagangurinn vegna Icesave-málsins frá 1. febrúar 2009 þar til yfir lauk 28. janúar 2013 reyndist öðrum þræði uppgjör félaga sem fóru með völd í gamla Alþýðubandalaginu. Þeir ætluðu að sanna að þeir gætu sótt og varið hagsmuni þjóðarinnar. Þeim mistókst það hrapallega.