Í leit að föðurlandi
Morgunblaðið, mánudagur 12. ágúst 2024.
Gyðingar á faraldsfæti ★★★★· Eftir Joseph Roth. Þýðandi: Jón Bjarni Atlason. Útgefandi: Ugla. Kilja, 175 bls. Reykjavík 2024.
Bókin Gyðingar á faraldsfæti eftir Joseph Roth kom fyrst út hjá forlagi í Berlín árið 1927, um 10 árum eftir að A. J. Balfour utanríkisráðherra Breta sagði í bréfi (2. nóvember 1917) til L. W. Rothschilds, forystumanns samtaka breskra gyðinga, að breska stjórnin styddi að Palestína yrði „þjóðarheimkynni“ (e. national home) gyðinga.
Leiðtogar Zíonista í Bretlandi höfðu gengið eftir því við stjórnvöld að þau tækju af skarið um að Palestína yrði þjóðlenda gyðinga en í Balfour-yfirlýsingunni er sérstaklega tekið fram að við framkvæmd hennar megi ekkert gera sem skerti borgaraleg eða trúarleg réttindi annarra í Palestínu þrátt fyrir komu gyðinga. Þessi réttindi eru hins vegar ekki skilgreind í yfirlýsingunni og ekki eru neinir íbúar eða hópar þeirra í Palestínu nefndir. Hvað sem því leið tóku gyðingar því fagnandi að mega setjast að í Palestínu.
Nauðsynlegt er að hafa þessa nýju umgjörð um aðsetur gyðinga í huga þegar bókin er lesin. Joseph Roth segir að gyðingar vilji ekki aðeins varðveita þjóðareinkenni sín. Þeir vilji rétt til að lifa, heilbrigði og persónulegt frelsi, réttindi sem nærri öll Evrópulönd neituðu þeim um. Í Palestínu ætti sér í raun og veru stað endurfæðing þjóðar þeirra. Hann nefnir landtökufólk gyðinga til sögunnar „hugrakka bændur og verkamenn“, einkum frá Austur-Evrópu, sem sönnuðu hæfni gyðingsins „til vinnu og að stunda akuryrkju og verða afkomandi jarðarinnar enda þótt hann hafi um aldir meira verið gefinn fyrir bækur“.
Þá segir að því miður sé landtökufólkið einnig neytt til að berjast, að vera hermenn og verja landið fyrir Aröbum. Á þennan hátt sé búið að yfirfæra „evrópska módelið á Palestínu“. Landtökumaðurinn snúi ekki aðeins til lands feðra sinna með réttlátan tilgang hins vinnandi manns heldur sé hann einnig „boðberi menningar“. Þá segir: „Hann er jafnmikill gyðingur og Evrópumaður. Hann færir Aröbum rafmagn, blekpenna, verkfræðinga, vélbyssur, yfirborðskennda heimspeki og allt heila draslið sem kemur frá Englendingum.“
Yfir nýjum og fallegum vegum ættu Arabar að gleðjast en af náttúrulegu eðli mannsins hneykslist þeir á innrás „engilsaxnesk-amerískrar siðmenningar“. Og enn segir: „Gyðingurinn á rétt á Palestínu, en ekki vegna þess að hann er frá þessu landi heldur vegna þess að ekkert annað land vill hann“ (32-33).
Eins og þessi stutta endursögn af opnu í bókinni sýnir á hún fullt erindi til okkar á líðandi stundu þegar gyðingar og Arabar takast enn á um Palestínu. Nú eru þetta ekki átök í fjarlægri eyðimörk. Þau eru háð í beinni útsendingu til heimsbyggðarinnar. Barist er með hátæknivopnum milli Ísraela, ríkis gyðinga, og hópa hryðjuverkamanna sem njóta stuðnings og lúta að nokkru forystu öfgafullra múslíma í Íran sem vilja gjöreyða Ísrael.
Heimurinn skiptist í fylkingar og í fjarlægum borgum eða háskólum eru öryggisaðgerðir hertar vegna illvígra deilna heimafólks. Enginn veit enn hvernig eða hvenær þessum átökum lýkur. Átök í þeirri mynd sem við þekkjum hafa staðið með hléum í um það bil eina öld og ógna nú heimsfriði.
Jón Bjarni Atlason, aðjúnkt við Háskóla Íslands, þýddi þessa bók Roths úr þýsku á íslensku og bætir við skýringum neðanmáls lesandanum til glöggvunar fyrir utan að rita viðauka um blaðamanninn og rithöfundinn Joseph Roth sem fæddist í Úkraínu 1894 og andaðist í París 1939 aðeins 44 ára að aldri. Segir Jón Bjarni að Roth hafi sjaldan haft íverustað til lengri tíma. Hann bjó „meira eða minna á hótelherbergjum síðustu tvo áratugi ævinnar“ (167). Roth var því sjálfur gyðingur frá Austur-Evrópu á faraldsfæti en bókin snýst einmitt um örlög þessa fólks á árunum milli heimsstríðanna.
Roth hefur verið, eins og Jón Bjarni segir, afar næmur á umhverfi sitt og birtist það í þessari bók hans þar sem í senn eru dregnar meginlínur en einnig brugðið upp myndum eins og þessari: „Ég fór í jaddískt leikhús í París. Barnavagnar voru skildir eftir í fatahenginu. Regnhlífar voru teknar með í salinn. Fyrir framan sviðið sátu mæður með ungabörn … Einn yfirgaf sæti sitt, annar settist. Inni í salnum voru borðaðar appelsínur. Vökvinn spýttist með tilheyrandi lykt. Það var talað hátt …“ (106).
Jóni Bjarna tekst vel að koma litríkum textanum til skila en einnig þeim boðskap sem í honum felst um gildi þess fyrir farandgyðinginn að eignast eigið föðurland.
Þegar Balfour-yfirlýsingin var gefin vonaði breska ríkisstjórnin að hún myndi snúa gyðingum, einkum í Bandaríkjunum, til stuðnings við bandamennina sem börðust gegn Miðveldunum í heimsstyrjöldinni 1914-18. Stjórnin vonaði einnig að gyðingar í Palestínu myndu standa með sér við að verja Súez-skurðinn í nágrannaríkinu Egyptalandi og tryggja þannig siglingaleiðina milli Bretlands og Indlands, bresku nýlendunnar.
Þjóðabandalagið fól Bretum forræði yfir Palestínu árið 1922. Breska stjórnin hafði árið 1939 áform um að setja þak á fjölda gyðinga sem settust að í Palestínu. Þau urðu að engu í heimsstyrjöldinni 1939-45 og síðan var Ísraelsríki stofnað 1948.
Í bókinni Gyðingar á faraldsfæti er okkur sögð sagan af gyðingum í Evrópu þegar þeir tóku að festa rætur í Palestínu og aðdraganda þess að nazistar vildu uppræta þá. Þessi saga á erindi við samtímann ef við viljum skilja betur bakgrunn ófriðarins sem nú ríkir og getur orðið að þriðja heimsbálinu.