Hvíta-Rússland er prófsteinn
Morgunblaðið 27. nóvember 2020
Tuttugu dögum eftir kjördag eða mánudaginn 23. nóvember gaf Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, embættismönnunum sem vinna að stjórnarskiptunum 20. janúar 2021 loks leyfi til að opna fjárheimildir og opinberar byggingar fyrir starfsmönnum Joes Bidens, verðandi forseta. Þá höfðu allar tilraunir Trumps til að ógilda kosningarnar í einstökum ríkjum mistekist.
Þetta leyfi Trumps var þá stærsta viðurkenning hans á að hafa tapað kosningunum. Joe Biden hlaut 306 kjörmenn (þurfti 270), um 79,9 milljón atkvæði eða 51%, Donald Trump hlaut 232 kjörmenn, um 73,9 milljón atkvæði eða 47%. Glæsileg úrslit fyrir báða. Engir hafa áður fengið svo mörg atkvæði í forsetakosningum. Barack Obama er þriðji í röðinni með 69,5 milljónir atkvæða árið 2008.
Bandarískir stjórnarhættir næstu ára mótast af því hvernig aukakosningar til öldungadeildarinnar fara í Georgíuríki 5. janúar 2021. Sigri repúblikanar festir það Biden á miðjunni, annars verða vinstrisinnaðir demókratar of ráðríkir.
Daginn sem Trump gaf græna ljósið birtust nöfn þeirra sem Biden tilnefnir til að fara með stjórn utanríkis- og þjóðaröryggismála. Þeir eru Antony Blinken og Jack Sullivan. Valið á þeim sýnir að Biden vill halda í hefðirnar sem ríktu við stjórn utanríkis- og þjóðaröryggismála fyrir daga Trumps.
Antony Blinken, verðandi utanríkisráðherra, hefur unnið árum saman fyrir Biden. Hann vill að Bandaríkjastjórn beiti sér innan alþjóðastofnana. Með þeim stjórnarháttum eru strax dregin skil á milli þess sem vænta má af stjórn Bidens og hins sem menn kynntust í forsetatíð Donalds Trumps. Hann taldi sér til framdráttar að fara niðrandi orðum um NATO áður en hann varð forseti og hafa í heitingum við bandamenn sína eftir að hann settist í embætti. Hann gerði lítið úr fjölþjóðakerfinu sem Bandaríkjastjórn mótaði á fimmta áratug 20. aldarinnar.
Nú gefst frjálslyndum lýðræðisríkjum að nýju tækifæri til að vinna með fulltrúum Bandaríkjanna í þessu kerfi sem reynst hefur þeim og samfélagi þjóðanna best á undanförnum áratugum. Þar eiga norrænu ríkin fimm að skipa sér í fremstu röð í þágu gildanna sem einkenna stjórnarhætti þeirra: lýðræðis, mannréttinda og virðingar fyrir réttarríkinu.
John Sullivan er tilnefndur sem þjóðaröryggisráðgjafi. Hann starfaði með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Baracks Obama, á sínum tíma. Sullivan og Blinken eru samstiga um gildi hagsmunagæslu í fjölþjóðastofnunum. Afstaða þeirra er talin harðari en stefnan sem Obama-stjórnin fylgdi. Sullivan vildi til dæmis að Bandaríkjastjórn léti Úkraínumönnum í té öflugri vopn en Obama samþykkti. Trump lét þá síðan hafa vopnin. Blinken studdi innrásina í Írak árið 2002. Hann sagði oft „risaveldi blekkja ekki“ og gagnrýndi þannig að Obama stóð ekki við yfirlýsingu sína um „rauðu línuna“ þegar efnavopnum var beitt í Sýrlandi.
Hvíta-Rússland
Ástandið í Hvíta-Rússlandi er ömurlegt. Nú hafa mótmælaaðgerðir gegn forseta landsins staðið í 110 daga í höfuðborginni Minsk. Hann er sakaður um kosningasvindl.
Eftir að mótmælandinn Raman Banderenka, 31 árs, dó 12. nóvember vegna harkalegra barsmíða lögreglu efldust mótmælin eftir stutta lægð. Tóku þúsundir manna þátt í útför Banderenka 20. nóvember og hrópuðu: Þú ert hetja! og Lengi lifi Hvíta-Rússland.
Svetlana Alexievitsj (72 ára) sem fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015 yfirgaf Minsk í september 2020 til lækninga í Berlín. Í minningu Banderenka ræddi hún við Der Spiegel 20. nóvember. Hún ætlar ekki að snúa aftur til Minsk fyrr en Alexander Lúkasjenkó forseti er farinn frá völdum. Frá kjördegi 9. ágúst hafi 27.000 einstaklingar verið teknir fastir. Lúkasjenkó eyðileggi landið, segir hún.
Konur hafa skipað sér í fremstu röð mómælenda í Hvíta-Rússlandi,
Alexievitsj segir að nú ráði vopnin í Hvíta-Rússlandi. Blaðamaður Der Spiegel víkur að því að ólga sé í mörgum ríkjum við jaðar Rússlands: Hvíta-Rússlandi, Úkraínu, Georgíu, Kirgistan, Moldóvíu, Aserbaídsjan og Armeníu, þremur áratugum eftir fall Sovétríkjanna.
Nóbelshöfundurinn segir að stórveldið hafi veikst og elíta kommúnista sé alls staðar í vanda. Nú berjist þeir innbyrðis sem enn haldi velli. Þetta sé stór pottur þar sem allt kraumi: gamlir kommúnistar, nýir kapítalistar.
Fyrir forsetakosningarnar gagnrýndi Joe Biden keppinaut sinn, Donald Trump, fyrir að sýna mótmælendum í Hvíta-Rússlandi of lítinn áhuga og stuðning. Sjálfur sagðist Biden standa með almenningi í Hvíta-Rússlandi og styðja lýðræðisvonir hans gegn mannréttindabrotum Lúkasjenkó-stjórnarinnar.
Nú kveður því við annan tón gagnvart einræðisherrum á borð við Lúkasjenkó hjá ráðamönnum í Washington. Trump hélt gjarnan aftur af stóryrðaflaumi sínum þegar kom að Valdimír Pútín og ýmsum af svipuðu sauðahúsi.
Ögranir Rússa
Á nýlegu árlegu málþingi Finna og Svía um varnar- og öryggismál, svonefndu Hanatingi, var Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, meðal ræðumanna. Hann sagði varnarstefnu Svía reista á tveimur stoðum, alþjóðlegu varnarsamstarfi og eigin herafla. Með því að nefna þessa tvo þætti staðfesti ráðherrann enn einu sinni gjörbreytinguna á sænskri varnarmálastefnu frá því fyrir 30 árum. Þá treystu Svíar alfarið á eigin varnarmátt, áréttuðu hlutleysi sitt og stöðu utan hernaðarbandalaga.
Eftir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti innlimaði Krímskaga í Rússland árið 2014 endurskipulögðu Svíar varnir sínar Á föstu verðlagi vaxa útgjöld Svía til varnarmála um 85% á árunum 2014 til 2025. Þeir starfa nú náið með Bandaríkjamönnum og NATO.
Peter Hultqvist sagði að enn stæðu Svíar og aðrir frammi fyrir Rússum sem ögruðu skipan öryggismála í Evrópu og hefðu alþjóðalög að engu. Árásir Rússa á Georgíu og Úkraínu sýndu að Rússar hikuðu ekki við að beita hervaldi til að ná pólitískum markmiðum sínum. Nú síðast hefðu viðbrögð ráðamanna í Moskvu við mótmælum almennings í Hvíta-Rússlandi, nánasta samstarfsríki Rússa, vakið athygli. Af þeim mætti álykta að Rússar hindruðu að andstæðingar Lúkaskjenkós kæmu honum frá völdum eða mótuðu stefnu fyrir Hvíta-Rússland án áhrifa Rússa. Með frjálsum aðgangi Rússa að yfirráðasvæði og lofthelgi Hvíta-Rússlands skapaðist óvissa og óljóst ástand. Ráðamenn í Moskvu hefðu þá í hendi sér að flytja herafla sinn inn í Hvíta-Rússland, vildu þeir ógna öðrum á þann hátt.
Sænski varnarmálaráðherrann vék einnig að sívaxandi hervæðingu Rússa meðal annars með kjarnorkuvopnum í nágrenni Svíþjóðar. Þá ykju Rússar hernaðarumsvif sín á norðurslóðum, beittu fjölþátta aðferðum, netárásum og undirróðri gagnvart öðrum ríkjum. „Því verður haldið áfram á morgun á sama hátt og gert er í dag,“ sagði Peter Hultqvist.
Framvindan í Hvíta-Rússlandi er mikilvægur prófsteinn. Ekki aðeins fyrir lýðræðisþjóðirnar heldur einnig fyrir ráðamenn í Moskvu. Pútín kann að nota umþóttunartímann í Washington og farsóttarástandið til að sölsa Hvíta-Rússland undir sig og láta nýja bandaríska stjórnarherra standa frammi fyrir orðnum hlut. Stjórnarskiptin í Washington eru örlagarík í mörgu tilliti.