Hugmynd verður að hátæknirisa
Morgunblaðið, þriðjudagur, 30. janúar 2024
Ævintýrið um Marel ★★★½· Eftir Gunnar Þór Bjarnason. Mál og menning, 2023. Innb., 288 bls., myndir og skrár.
Bókin Ævintýrið um Marel – sprotafyrirtækið 1983-1999 eftir Gunnar Þór Bjarnason sýnir að það er ekki í fyrsta skipti núna sem tvísýnt er um framtíð Marels. Fjörutíu ára saga fyrirtækisins er ekki snurðulaus sóknarganga. Þar hafa skipst á skin og skúrir.
Í kynningu á bókinni segir að vorið 2023 hafi um átta þúsund manns starfað hjá Marel í rúmlega 30 löndum. Fyrirtækið breyttist á 40 árum úr sprotafyrirtæki í hátæknirisa sem framleiðir tæki fyrir margar greinar matvælaiðnaðar.
Í apríl 2022 var tilkynnt að Marel hefði keypt alþjóðafyrirtækið Wenger Manufacturing LLC með höfuðstöðvar í Kansas í Bandaríkjunum. Fyrirtækið sérhæfir sig í matvælavinnslu úr plöntupróteinum og lausnum í fóðurframleiðslu fyrir gæludýr og fiskeldi. Í tilkynningu frá Marel sagði að kaupin á Wenger væru stórt skref á þeirri leið að mynda „fjórðu tekjustoð félagsins, til viðbótar við alifugla-, kjöt- og fiskiðnað“ (12).
Þá er þess getið að árið 2022 hafi tekjur Marels verið 1,7 milljarðar evra eða um 243 milljarðar íslenskra króna miðað við meðalgengi á árinu.
Í nútímamálsorðabókinni er sprotafyrirtæki lýst sem „fyrirtæki sem sprottið er upp úr rannsókna- eða þróunarverkefni einstaklinga, hópa, háskóla, rannsóknarstofnana eða annarra fyrirtækja og byggjast á sérhæfðri þekkingu eða tækni“.
Þessi lýsing á nákvæmlega við um Marel. Það er sprottið af rannsóknum og þróun undir forystu Rögnvalds Ólafssonar, dósents við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands og sérfræðings við Raunvísindastofnun skólans. Skýrsla sem hann og Þórður Vigfússon hagverkfræðingur birtu um aukna sjálfvirkni í frystihúsum á vegum Raunvísindastofnunar árið 1978 gat af sér Marel.
Þegar Sigurður Markússon, framkvæmdastjóri Sjávarafurðadeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og framkvæmdastjórnarmaður SÍS, las skýrsluna vakti hún strax áhuga hans (27).
Ungur viðskipta- og hagfræðingur, Gylfi Aðalsteinsson, starfaði að því að bæta nýtingu frystihúsa SÍS. Þeir Rögnvaldur hittust. Rafeindavogin eða borðvogin varð til eftir þau kynni. Samstarf tókst um hugbúnaðargerð og rafeindahönnun á tækjum sem fyrirtæki SÍS, Framleiðni, framleiddi og seldi. Til varð Marel (30). Gylfi varð síðar fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur fékk verðlaun Jóns Sigurðssonar árið 2022 fyrir markverðan skerf til aukinnar þekkingar og skilnings á sögu Íslands með rannsóknum sínum og ritverkum. Rannsóknir hans hafa m. a. tengst sjálfstæðisbaráttu Íslendinga í upphafi 20. aldar, fyrri heimsstyrjöldinni og spænsku veikinni.
Gunnar Þór rekur sögu Marels af alúð og nákvæmni. Bókin er í 11 köflum og mörgum undirköflum. Þar er mikið af myndum og fjölda einstaklinga er getið við lýsingu á þróun og stækkun fyrirtækisins stig af stigi. Skrár yfir tilvísanir, heimildir, myndir og nöfn fylgja. Bókin er í fallegu bandi og öll gerð hennar vönduð.
Eftir að borðvogin hafði hleypt Marel á flot varð skipavogin til þess að fleyta fyrirtækinu áfram þegar lá við strandi undir lok árs 1988. Þá barst pöntun á 110 skipavogum frá Sovétríkjunum fyrir útgerðarfyrirtæki á Kyrrahafsströnd þeirra (119). Þá var Geir A. Gunnlaugsson, verkfræðingur og prófessor, orðinn forstjóri Marels.
Sovésku pöntunina mátti rekja til sjávarútvegssýningar í Seattle í Bandaríkjunum haustið 1987 þar sem menn frá Marel hittu sovéska útgerðarmenn og sýndu þeim vogina. Geir fór síðar til dæmis alla leið austur á rússnesku Kyrrahafsströndina til að halda kynningarfund fyrir útgerðarmenn og skipstjóra skammt frá Vladivostok (127). Með því að vigta rétt um borð í rússnesku skipunum gjörbreyttist afkoma útgerðanna.
Hefði Marel ekki skapað sovésk viðskiptatengsl í Seattle áður en sovétkerfið hrundi hefðu Rússar varla keypt margar skipavogir af Íslendingum (136).
Árið 1997 hófst nýr kafli í samskiptum Marels og Rússa. Marel tók að sér sölu á afla rússneskra togara til að kosta endursmíði togaraflotans. Þetta endaði með ósköpum. Rússar stóðu ekki í skilum, sumir þeirra tengdust rússneskum undirheimum og við tóku málaferli (239). Taldi Geir forstjóri að þetta hefði verið „versta viðskiptalega ákvörðun“ í 12 ára forstjóratíð hans (240).
Annar forvitnilegur þáttur í ytra umhverfi Marels snýr að spennunni í samskiptum viðskiptahópa innan lands þegar Eimskip og SÍS mynduðu tvo póla. Að lokum varð umpólun í eignarhaldi á Marel. Eimskip varð ráðandi í eigendahópnum. Síðan er þó mikið vatn til sjávar runnið og nær bókin ekki til þeirrar sögu – henni lýkur um aldamótin.
Þegar saga eins fyrirtækis er skráð kann að vera erfitt fyrir höfund að draga skil á milli þess sem hefur almenna skírskotun og hins sem höfðar beint til þeirra sem þekkja til innan dyra í fyrirtækinu. Hér hefði höfundur mátt höfða meira til almenns lesanda með þyngri áherslu á stóru línurnar í sögu Marels.
Nýsköpun, gæði og vandvirkni ásamt þrautseigju og góðu starfsfólki sem lagði nótt við nýtan dag, væri því að skipta, gerði kleift að sigla Marel milli skers og báru og út á heimshöfin í orðsins fyllstu merkingu.