Hrópandi þögn um öryggismál
Morgunblaðið, laugardagur 23. nóvember 2024.
Ríkisstjórn að loknum kosningunum um næstu helgi mun standa frammi fyrir mörgum alvarlegum verkefnum sem snúa að öryggi þjóðarinnar og stöðu við nýjar aðstæður í heimsmálum. Það vekur þess vegna undrun hve lítil athygli beinist að þessari staðreynd í aðdraganda kosninganna. Líklega stafar það af því að þorri stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og álitsgjafa hefur hvorki þekkingu né áhuga á því sem snýr að öryggi þjóðarinnar.
Ríkisstjórnir annars staðar á Norðurlöndunum búa þjóðir sínar undir hættur vegna hugsanlegra stríðsátaka.
Sænsk stjórnvöld senda rúmlega fimm milljónir bæklinga til íbúa í Svíþjóð. Þar er bent á hvernig þeir skuli búa sig undir lokun samfélagsins vegna stríðs eða hamfara. Strax í janúar í ár hófu sænskir ráðherrar og hershöfðingjar að ræða stríðshættuna opinberlega og hvetja almenning til árvekni.
Finnsk stjórnvöld opnuðu í vikunni vefsíðu með nákvæmum upplýsingum um bestu viðbrögð landsmanna við hættuástandi, þar á meðal stríði. Á síðunni er lýst hvernig ríkisstjórnin og forsetinn myndu bregðast við árás á landið en jafnframt áréttað að varnir landsins séu traustar. Í Helsinki, höfuðborg Finnlands, búa um 700 þúsund manns og þar er skýlisrými fyrir 900 þúsund.
Norðmenn fengu nýlega bækling frá almannavarnastofnun sinni þar sem þeir eru hvattir til að eiga það sem til þarf til viðurværis í að minnsta kosti eina viku ef neyðarástand skapast af völdum stríðs, náttúruhamfara eða annarra ógna.
Í lok ágúst 2024 var stofnað nýtt danskt ráðuneyti um almannaöryggi og viðbúnað með verkefni úr átta ráðuneytum og nær það til Færeyja og Grænlands. Markmiðið er að styrkja þennan þátt danskra varna og gera áætlanir um almannaöryggi á hættutímum.
Við Tjörnina í Reykjavík að morgni fimmtudagsins 21. nóvember.
Þegar fyrstu almannavarnalögin voru sett hér árið 1962 var lögð áhersla á ráðstafanir sem miðuðu að því að koma í veg fyrir að almenningur yrði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum hernaðaraðgerða. Gerðar voru áætlanir vegna hernaðarátaka, kjarnorku- og sýklavopna í skugga Kúbudeilunnar. Þrýstingur var á stjórnvöld á að tryggja öryggi almennra borgara með tilliti til afleiðinga kjarnorkuárásar. Andrúmsloft alþjóðamála er svipað núna.
Á vefsíðu almannavarna ríkisins er hins vegar hvergi að finna upplýsingar um viðbrögð við hernaðarvá. Þar eins og í kosningabaráttunni er ekki talað um viðbúnað ef ráðist yrði á landið. Þögnin er þó alls ekki besta vörnin.
Hætturnar sem steðja að Íslandi vegna hernaðar eru ekki minni en þær sem hinar norrænu þjóðirnar búa sig undir á þann hátt sem að ofan er lýst. Hér er lykilaðstaða til að ráða yfir samgönguleiðum milli Norður-Ameríku og Evrópu, þær eru lífæð NATO.
Hér býr fámenn þjóð að helmingi í grennd við flugvelli og hafnir sem hafa aðdráttarafl í hernaði. Hvar eru viðvörunarkerfi, sprengjuheld skýli, flóttaleiðir, merktir áfangastaðir flóttamanna með húsnæði, fæði og klæði, heilbrigðisþjónusta eða sjúkragögn? Upplýsingar um ákveðnar flutningsleiðir um flugvelli og hafnir á landsbyggðinni?
Það er ekki einungis skylda stjórnvalda að gera viðbragðsáætlanir heldur þarf að upplýsa almenning um framkvæmd þeirra á hættustundu og æfa reglulega viðbragð. Tómlætið er því miður of mikið hér í þessum málum.
Árum saman hefur meirihluti alþingismanna ekki hlustað á viðvaranir um hættuna af því að hafa slakari útlendingalöggjöf hér en annars staðar. Seint og um síðir vöknuðu stjórnvöld þó við vondan draum vegna ónógrar landamæravörslu og úreltra útlendingalaga. Á þessu ári hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft forystu um stórátak til að snúa þar vörn í sókn. Eftir að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu blasir við að bæði vinstri grænir og framsóknarmenn draga lappirnar í þeim málum.
VG gengur til kosninga með andstöðu við NATO á stefnuskrá sinni. Flokkurinn skipar sér þar í hóp með evrópskum öfgaflokkum. Þá hallar VG sér að samtökum um engin landamæri. Sósíalistaflokkurinn þegir um utanríkisstefnu sína en hann er á sömu bylgjulengd og VG.
Í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar er ekki minnst einu orði á öryggis- og varnarmál og textinn um útlendingamál er moðsuða. Upphaflegt slagorð flokksins fyrir kosningar: Sterk velferð, stolt þjóð, þótti of ögrandi og nú er slagorðið: Við erum með plan. Flatneskjan verður ekki meiri.
Stefna Viðreisnar í varnar- og öryggismálum er skýr: aðild að NATO, Schengen-samstarfinu, öflugt landamæraeftirlit ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.
Miðflokkurinn skilar auðu í utanríkis- og varnamálum ef marka má vefsíðu hans. Málaflokkinn er ekki heldur að finna meðal áherslumála Flokks fólksins. Þögn er einnig um þessi mál í kosningastefnu Pírata. Í kosningaáherslum Framsóknarflokksins eru utanríkis- og varnamál ekki nefnd.
Ísland tekur þátt í NATO sem varnarbandalagi, en ekki árásarbandalagi, segir Lýðræðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og starfa áfram þétt með bandalagsþjóðum okkar í NATO.
Fulltrúar allra flokka sátu fyrir svörum um öryggis- og varnarmál á kosningafundi Varðbergs 14. nóvember. Einn fundarmanna, Birgir Loftsson sagnfræðingur, sagði hér í blaðinu 21. nóvember að fundurinn hefði sýnt mikið þekkingarleysi stjórnmálaelítunnar og kannski væri niðurstaðan sú að Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem hefði virkilegan áhuga og þekkingu á málaflokknum.
Þetta er rétt og þannig hefur þetta verið síðan lýðveldið var stofnað hér fyrir 80 árum.