Hringrásarhagkerfi íslenskunnar
Morgunblaðið, laugardagur, 8. apríl 2023.
Leitin að lífvænlegum rekstrargrunni fyrir prentmiðla á íslensku hefur ekki borið árangur eins og dauði Fréttablaðsins 31. mars 2023 sýndi.
Nú eru sex ár frá því að Lilja Dögg Alfreðsdóttir fékk fjölmiðlavandann í fangið sem menningarráðherra. Í grein hér í blaðinu 3. apríl sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, Lilju Dögg ekki öfundsverða af því að reyna að ná samstöðu um aðgerðir í þágu fjölmiðlanna og það taki tíma.
Stöðugt hefur þrengt að fjölmiðlunum. Nærtækt er að nefna það sem gerst hefur á þessum vetri: Tvær litlar einkareknar sjónvarpsstöðvar hafa hætt útsendingum og lokað: N4 og Hringbraut. Tveir vefmiðlar hafa orðið að einum, Kjarninn og Stundin breyttust í Heimildina sem hefur hökt af stað undanfarna mánuði. Yfir Heimildinni hvílir skuggi vegna vandræðalegrar umgengni ritstjórnarinnar við siðareglur blaðamanna. Gunnar Smári Egilsson sem stofnaði Fréttablaðið fyrir rúmum tveimur áratugum og rak það með auðmönnum stendur nú fyrir nýjum miðli, Samstöðinni. Hún nýtur þess að flokkur sósíalista fær ríkisstyrk vegna fylgis í þingkosningunum 2021.
Á meðan Lilja Dögg vinnur áfram að því að ná samstöðu um aðgerðir vill Hanna Katrín þessar þrjár málamiðlanir: (1) Auglýsingatekjur erlendra netmiðla hér á landi verði skattlagðar. (2) Leyfðar verði áfengisauglýsingar í íslenskum miðlum. (3) Dregið verði úr yfirburðastöðu RÚV á auglýsingamarkaði.
Óli Björn Kárason, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, kynnti miðvikudaginn 5. apríl hér í blaðinu þrjár tillögur um hvernig styrkja mætti stoðir sjálfstæðra fjölmiðla, væri til þess pólitískur vilji: (1) Fella niður tryggingargjald af launum fjölmiðla. (2) Afnema virðisaukaskatt af áskriftum. (3) Draga Ríkisútvarpið út af samkeppnismarkaði. Taldi hann að framkvæmd tillagnanna skapaði fjölmiðlum „heilbrigðara og sanngjarnara“ starfsumhverfi en nú er. Óli Björn vill að hugmyndir um beina ríkisstyrki verði settar ofan í skúffu og henni læst. Að því loknu yrði hægt að snúa sér að því að verjast strandhöggi erlendra samfélagsmiðla.
Hvorugur þingflokksformaðurinn minnist á ríkisstyrki. Komist stjórnmálamenn að samkomulagi um viðunandi starfsumhverfi fjölmiðla að eigin mati, ráða þeir ferðinni á sínum vettvangi. Bæði Hanna Katrín og Óli Björn telja að skakkt sé gefið í þágu RÚV. Raunar þarf ekki stjórnmálamenn til að sjá þetta. Engir ríkisstyrkir brúa bilið.
RÚV verður seint gjaldþrota eins og Fréttablaðið, Hringbraut og N4. Eitthvað má líka á milli vera. Opinbera rekstrarumgjörðin er núna RÚV alltof mikið í vil á kostnað einkarekinna miðla. Sumir stjórnmálamenn virðast láta sér þetta í léttu rúmi liggja. Ástandið er þó óviðunandi.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, er formaður Blaðamannafélags Íslands (BÍ). Formaðurinn ber þrátt fyrir allt blak af fjölmiðlaráðherranum, framsóknarráðherranum Lilju Dögg Alfreðsdóttur, hana skorti bara skilning hjá samstarfsráðherrum í VG og Sjálfstæðisflokki. Skilning á hverju? Spyrja má því að ráðherrann sveiflast í afstöðu sinni. Á málþingi í húsakynnum BÍ 7. febrúar 2022 sagðist ráðherrann til dæmis vera „ákveðin í afstöðu sinni að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði,“ svo að vitnað sé í frétt á visir.is frá málþinginu.
Formaður BÍ krafðist þess 31. mars í Morgunblaðinu að hætt yrði að ræða um að taka RÚV af auglýsingamarkaði, væri ekki ætlan manna að gera það. Sigríður Dögg sagði: „Nú er nóg komið! Takið RÚV af auglýsingamarkaði ef það er það sem stendur í vegi fyrir því að hægt sé að ráðast í aðgerðir sem skipta raunverulega máli fyrir einkarekna miðla og lýðræðislega umræðu í landinu.“
Skýrara verður þetta ekki. Voru þetta skilaboð til fjölmiðlaráðherrans?
Greining á fjölmiðlaumhverfinu er ekki flókin. Prentmiðlarnir standa verst, fall Fréttablaðsins sannar það. Landsbyggðarmiðlar standa einnig illa, fall N4 sannar það. Vandi á landsbyggðinni er ekki síst sá að RÚV er eins og ryksuga á auglýsingar miðlanna þar. Miðlar á höfuðborgarsvæðinu stæðu auðvitað einnig betur ef dregið yrði úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði.
Hvaða fjölmiðlar óska eftir ríkisstyrkjum? Á ekki að líta til framtíðar? Þróun spjallmenna í krafti gervigreindar er byltingarkennt nýmæli. Árið 2006 var hafin skipuleg söfnun á fjölbreyttum íslenskum textum frá og með árinu 2000 m. a. í samvinnu við Morgunblaðið. Textarnir yrðu í gagnabanka eða „málheild“ eins og verkefnisstjórinn, Sigrún Helgadóttir tölfræðingur, sagði. Eiríkur Rögnvaldsson prófessor átti hlut að verkefninu og sagði þess vænst að í málheildinni yrðu um 25 milljón orð úr 1000 textum frá árabilinu 2000-2007. Efnið yrði meðal annars notað í þágu máltækni.
Skoða má risamálheildina á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar segir að nýjasta útgáfa málheildarinnar (2021) hafi að geyma texta sem komu út til loka árs 2020. Í henni séu um 1871 milljón lesmálsorða. Þarna hafa því orðið til mikil ný verðmæti, ótæmandi brunnur fyrir spjallmennin.
Málheildin er nú uppspretta nýrra verðmæta. Í hana streymir ritað og talað efni. Það er sjálfstætt markmið að halda úti fjölmiðlum á íslensku í þágu þess að tungan nýtist og þróist í krafti gervigreindar. Hvernig væri að greiða fyrir afhendingu þessara verðmæta og fjármagna greiðslurnar með sköttum á erlendar efnisveitur og samfélagsmiðla? Þá yrði til hringrásarhagkerfi í þágu íslenskunnar.