8.4.2023

Hringrásarhagkerfi íslenskunnar

Morgunblaðið, laugardagur, 8. apríl 2023.

Leit­in að líf­væn­leg­um rekstr­ar­grunni fyr­ir prent­miðla á ís­lensku hef­ur ekki borið ár­ang­ur eins og dauði Frétta­blaðsins 31. mars 2023 sýndi.

Nú eru sex ár frá því að Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir fékk fjöl­miðlavand­ann í fangið sem menn­ing­ar­ráðherra. Í grein hér í blaðinu 3. apríl sagði Hanna Katrín Friðriks­son, þing­flokks­formaður Viðreisn­ar, Lilju Dögg ekki öf­undsverða af því að reyna að ná sam­stöðu um aðgerðir í þágu fjöl­miðlanna og það taki tíma.

Stöðugt hef­ur þrengt að fjöl­miðlun­um. Nær­tækt er að nefna það sem gerst hef­ur á þess­um vetri: Tvær litl­ar einka­rekn­ar sjón­varps­stöðvar hafa hætt út­send­ing­um og lokað: N4 og Hring­braut. Tveir vef­miðlar hafa orðið að ein­um, Kjarn­inn og Stund­in breytt­ust í Heim­ild­ina sem hef­ur hökt af stað und­an­farna mánuði. Yfir Heim­ild­inni hvíl­ir skuggi vegna vand­ræðal­egr­ar um­gengni rit­stjórn­ar­inn­ar við siðaregl­ur blaðamanna. Gunn­ar Smári Eg­ils­son sem stofnaði Frétta­blaðið fyr­ir rúm­um tveim­ur ára­tug­um og rak það með auðmönn­um stend­ur nú fyr­ir nýj­um miðli, Sam­stöðinni. Hún nýt­ur þess að flokk­ur sósí­al­ista fær rík­is­styrk vegna fylg­is í þing­kosn­ing­un­um 2021.

Á meðan Lilja Dögg vinn­ur áfram að því að ná sam­stöðu um aðgerðir vill Hanna Katrín þess­ar þrjár mála­miðlan­ir: (1) Aug­lýs­inga­tekj­ur er­lendra net­miðla hér á landi verði skattlagðar. (2) Leyfðar verði áfengisaug­lýs­ing­ar í ís­lensk­um miðlum. (3) Dregið verði úr yf­ir­burðastöðu RÚV á aug­lýs­inga­markaði.

Óli Björn Kára­son, þing­flokks­formaður sjálf­stæðismanna, kynnti miðviku­dag­inn 5. apríl hér í blaðinu þrjár til­lög­ur um hvernig styrkja mætti stoðir sjálf­stæðra fjöl­miðla, væri til þess póli­tísk­ur vilji: (1) Fella niður trygg­ing­ar­gjald af laun­um fjöl­miðla. (2) Af­nema virðis­auka­skatt af áskrift­um. (3) Draga Rík­is­út­varpið út af sam­keppn­ismarkaði. Taldi hann að fram­kvæmd til­lagn­anna skapaði fjöl­miðlum „heil­brigðara og sann­gjarn­ara“ starfs­um­hverfi en nú er. Óli Björn vill að hug­mynd­ir um beina rík­is­styrki verði sett­ar ofan í skúffu og henni læst. Að því loknu yrði hægt að snúa sér að því að verj­ast strand­höggi er­lendra sam­fé­lags­miðla.

Hvor­ug­ur þing­flokks­formaður­inn minn­ist á rík­is­styrki. Kom­ist stjórn­mála­menn að sam­komu­lagi um viðun­andi starfs­um­hverfi fjöl­miðla að eig­in mati, ráða þeir ferðinni á sín­um vett­vangi. Bæði Hanna Katrín og Óli Björn telja að skakkt sé gefið í þágu RÚV. Raun­ar þarf ekki stjórn­mála­menn til að sjá þetta. Eng­ir rík­is­styrk­ir brúa bilið.

RÚV verður seint gjaldþrota eins og Frétta­blaðið, Hring­braut og N4. Eitt­hvað má líka á milli vera. Op­in­bera rekstr­ar­um­gjörðin er núna RÚV alltof mikið í vil á kostnað einka­rek­inna miðla. Sum­ir stjórn­mála­menn virðast láta sér þetta í léttu rúmi liggja. Ástandið er þó óviðun­andi.

173236694754577122973196.60344316

Sig­ríður Dögg Auðuns­dótt­ir, fréttamaður á RÚV, er formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands (BÍ). Formaður­inn ber þrátt fyr­ir allt blak af fjöl­miðlaráðherr­an­um, fram­sókn­ar­ráðherr­an­um Lilju Dögg Al­freðsdótt­ur, hana skorti bara skiln­ing hjá sam­starfs­ráðherr­um í VG og Sjálf­stæðis­flokki. Skiln­ing á hverju? Spyrja má því að ráðherr­ann sveifl­ast í af­stöðu sinni. Á málþingi í húsa­kynn­um BÍ 7. fe­brú­ar 2022 sagðist ráðherr­ann til dæm­is vera „ákveðin í af­stöðu sinni að Rík­is­út­varpið hverfi af aug­lýs­inga­markaði,“ svo að vitnað sé í frétt á vis­ir.is frá málþing­inu.

Formaður BÍ krafðist þess 31. mars í Morg­un­blaðinu að hætt yrði að ræða um að taka RÚV af aug­lýs­inga­markaði, væri ekki ætl­an manna að gera það. Sig­ríður Dögg sagði: „Nú er nóg komið! Takið RÚV af aug­lýs­inga­markaði ef það er það sem stend­ur í vegi fyr­ir því að hægt sé að ráðast í aðgerðir sem skipta raun­veru­lega máli fyr­ir einka­rekna miðla og lýðræðis­lega umræðu í land­inu.“

Skýr­ara verður þetta ekki. Voru þetta skila­boð til fjöl­miðlaráðherr­ans?

Grein­ing á fjöl­miðlaum­hverf­inu er ekki flók­in. Prent­miðlarn­ir standa verst, fall Frétta­blaðsins sann­ar það. Lands­byggðarmiðlar standa einnig illa, fall N4 sann­ar það. Vandi á lands­byggðinni er ekki síst sá að RÚV er eins og ryk­suga á aug­lýs­ing­ar miðlanna þar. Miðlar á höfuðborg­ar­svæðinu stæðu auðvitað einnig bet­ur ef dregið yrði úr um­svif­um RÚV á aug­lýs­inga­markaði.

Hvaða fjöl­miðlar óska eft­ir rík­is­styrkj­um? Á ekki að líta til framtíðar? Þróun spjall­menna í krafti gervi­greind­ar er bylt­ing­ar­kennt ný­mæli. Árið 2006 var haf­in skipu­leg söfn­un á fjöl­breytt­um ís­lensk­um textum frá og með ár­inu 2000 m. a. í sam­vinnu við Morg­un­blaðið. Text­arn­ir yrðu í gagna­banka eða „mál­heild“ eins og verk­efn­is­stjór­inn, Sigrún Helga­dótt­ir töl­fræðing­ur, sagði. Ei­rík­ur Rögn­valds­son pró­fess­or átti hlut að verk­efn­inu og sagði þess vænst að í mál­heild­inni yrðu um 25 millj­ón orð úr 1000 textum frá ára­bil­inu 2000-2007. Efnið yrði meðal ann­ars notað í þágu mál­tækni.

Skoða má ri­sa­mál­heild­ina á vefsíðu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum. Þar seg­ir að nýj­asta út­gáfa mál­heild­ar­inn­ar (2021) hafi að geyma texta sem komu út til loka árs 2020. Í henni séu um 1871 millj­ón les­málsorða. Þarna hafa því orðið til mik­il ný verðmæti, ótæm­andi brunn­ur fyr­ir spjall­menn­in.

Mál­heild­in er nú upp­spretta nýrra verðmæta. Í hana streym­ir ritað og talað efni. Það er sjálf­stætt mark­mið að halda úti fjöl­miðlum á ís­lensku í þágu þess að tung­an nýt­ist og þró­ist í krafti gervi­greind­ar. Hvernig væri að greiða fyr­ir af­hend­ingu þess­ara verðmæta og fjár­magna greiðslurn­ar með skött­um á er­lend­ar efn­isveit­ur og sam­fé­lags­miðla? Þá yrði til hringrás­ar­hag­kerfi í þágu ís­lensk­unn­ar.