6.5.2019

Hörður Sigurgestsson – minning

Morgunblaðið, mánudaginn 6. maí 2019

Eftir innritun í Háskóla Íslands og við þátttöku í störfum stúdentaráðs um miðjan sjöunda áratuginn hafði ég fyrst spurnir af dugnaði Harðar Sigurgestssonar. Hörður var formaður stúdentaráðs 1960 til 1962 fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta. Hann lét verulega að sér kveða, til dæmis við rekstur á Hótel Garði. Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur árið 1965 og fór síðan til MBA-náms við Wahrton School University of Pennsylvania í Philadelphia í Bandaríkjunum. Fáeinum árum eftir að hann kom þaðan árið 1968 tókust með okkur góð kynni sem urðu að vináttu í áranna rás og hittumst við reglulega með góðum félögum til að ræða landsins gagns og nauðsynjar eins lengi og heilsa Harðar leyfði.

H.sigMyndin birtist í Morgunblaðinu 7. maí með þessum texta: Útför Harðar Sigurgestssonar, fyrrverandi forstjóra, fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í gær. Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng, organisti var Kári Þormar. Örnólfur Kristjánsson lék einleik á selló, Viðar Gunnarsson söng einsöng og Kammerkór Dómkirkjunnar söng. Jarðsett var í Gufuneskirkjugarði.Líkmenn voru Björn Bjarnason, Þórður Sverrisson, Garðar Halldórsson, Grétar Br. Kristjánsson, Vigdís Þórarinsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Brynjólfur Bjarnason og Þórður Magnússon.

Hörður lagði lykilskerf af mörkum við að skapa nýjan stíl við stjórnun íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri. Um langt árabil var ekkert mikilvægt mál leitt til lykta í íslensku viðskiptalífi án þess að Hörður kæmi að því beint eða óbeint.

Hörður var gætinn og íhugull. Kynnti sér mál til hlítar með vísan til góðrar greiningar. Allar ákvarðanir hans voru vel rökstuddar.

Hörð rak aldrei í vörðurnar og lagði alltaf eitthvað til mála hvort heldur rætt var um stjórnmál, viðskipti, ferðalög eða menningarmál, svo að ekki sé minnst á flugvélategundir eða bíla, nýjar bækur eða uppfærslu á óperum austan hafs og vestan.

Áhugi hans á stjórnmálum var einlægur og mikill. Á sínum tíma vann hann að því sem félagi í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að hvetja fólk til að kjósa flokkinn á kjördag. Alla tíð fylgdist hann náið með framvindu mála á vettvangi flokksins, sótti Varðarfundi og landsfundi.

Hollusta hans var mikil við það sem honum þótti einhverju skipta. Var mikill fengur fyrir Háskóla Íslands að Hörður samþykkti árið 1999 að setjast í háskólaráð þegar menn utan skólans settust í fyrsta sinn í ráðið. Sinnti hann því verkefni af eins miklum áhuga og öllu öðru. Hann varð fljótt áhrifamikill á vettvangi skólans og ráðsins. Af sömu alúð sinnti Hörður formennsku í stjórnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Landsbókasafns Íslands.

Á þessum vettvangi lágu leiðir okkar Harðar saman en ekki í viðskiptalífinu. Ómetanlegt var að maður með hans reynslu og viðhorf gæfi sér tíma til forystu á þessum sviðum.

Við Rut minnumst með þakklæti og gleði stundanna með Áslaugu og Herði. Við voum nágrannar í Fljótshlíðinni og í réttum tók Hörður gjarnan að sér hliðvörslu fyrir nágranna okkar, Ásgeir heitinn Tómasson í Kollabæ.

Síðast lágu leiðir okkar fjögurra saman erlendis í Semperoper í Dresden í sumarbyrjun 2016 þegar við sáum Lohengrin eftir Wagner. Þangað komu Áslaug og Hörður akandi frá Kaupmannahöfn og dáðumst við hin að dugnaði þeirra. Minningin frá því þegar við stóðum í sólskini og hita á svölum þessa sögufræga óperuhúss varpar birtu á allar ánægjustundirnar með Herði.

Við vottum Áslaugu, börnum þeirra og öðrum ástvinum innilega samúð.

Blessuð sé minning Harðar Sigurgestssonar.