Hófsemd Eðvarðs – þvermóðska Eflingar
Morgunblaðið, laugardagur 18. febrúar 2023
Landsréttur sagði Eflingu stéttarfélagi ekki skylt að afhenda ríkissáttasemjara kjörskrá svo að leggja mætti miðlunartillögu hans undir atkvæði. Við lögskýringu vitnaði rétturinn til umræðna á alþingi um mánaðamótin apríl-maí 1978.
Sjálfstæðismaðurinn Gunnar Thoroddsen, þáverandi iðnaðar- og félagsmálaráðherra, mælti 19. apríl 1978 fyrir frumvarpi um sáttastörf í vinnudeilum. Í framsöguræðu sagði hann að árið 1925 hefðu verið sett lög um sáttatilraunir í vinnudeilum. Lögin hefðu árið 1938 verið felld inn í lög um stéttarfélög og vinnudeilur þegar þau voru sett. Árið 1926 hefði sáttasemjari ríkisins fyrst verið skipaður.* Það var dr. Björn Þórðarson, síðar forsætisráðherra, og hann gegndi því starfi frá 1926-1942. Jónatan Hallvarðsson, síðar hæstaréttardómari, gegndi starfinu frá 1942-1945 og Torfi Hjartarson tollstjóri frá 1945.
Gunnar sagði Torfa hafa gegnt starfinu í meira en þrjá áratugi „með sérstökum sóma og við allra traust“. Torfi lét af starfinu árið 1979 rúmlega 70 ára. Sáttasemjarastarfið var jafnan aukastarf. Taldi ráðherrann árið 1978 vissulega orðið „tímabært að gera starf ríkissáttasemjara að fullu starfi“ og í þeim tilgangi flutti hann frumvarpið. Sáttasemjari yrði sjálfstæður og óháður embættismaður og hefði aðstöðu til að haga störfum sínum svo, að hann nyti fulls trúnaðar hjá báðum aðilum vinnumarkaðsins.
Ráðherrann lauk framsöguræðunni með þeim orðum að bæði fulltrúar verkalýðssamtakanna og fulltrúar atvinnurekenda hefðu árum saman lýst áhuga á að til embættis sáttasemjara ríkisins yrði stofnað og sagðist hann vænta þess að frumvarpið fengi góðar undirtektir þingmanna og það mætti afgreiða „með fullu samkomulagi, enda um það fullt samstarf við aðila vinnumarkaðarins“.
Á þessum árum skiptist alþingi í tvær deildir og fór málið því fyrir félagsmálanefnd bæði í efri og neðri deild. Sjálfstæðismaðurinn Þorvaldur Garðar Kristjánsson var formaður félagsmálanefndar efri deildar. Þegar hann kynnti álit nefndarinnar 27. apríl 1978 sagði hann að hún legði til þá breytingu á frumvarpinu að skylda til að „afhenda sáttasemjara kjörskrá“ vegna kosninga í „verkalýðsfélögunum varðandi vinnudeilur“ yrði felld á brott.
Þetta væri gert að ósk Alþýðusambands Íslands og með vísan til þess vilja félagsmálaráðherra að málið „næði ekki fram að ganga nema væri full samstaða um það og ekki ágreiningur við aðila vinnumarkaðarins“.
Vinnuveitendasamband Íslands teldi þetta að vísu „ekki vera til bóta, nema síður sé“, en gerði ekki ágreining um að málið næði fram að ganga í þeirri mynd sem nefndin vildi.
Verkalýðshreyfingin heldur úti minningarsjóði sem er kenndur við Eðvarð Sigurðsson og eru árlega veittir styrkir úr honum.
Alþýðubandalagsmaðurinn Eðvarð Sigurðsson, formaður verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar frá 1961 til 1982, var framsögumaður félagsmálanefndar neðri deildar alþingis og flutti ræðu sína 2. maí 1978.
Eðvarð vék að því að það væri „ákaflega viðkvæmt mál“ að breyta vinnulöggjöfinni, hún hefði þá, árið 1978, gilt í 40 ár og þrátt fyrir ýmsar tilraunir hefðu „svo til engar breytingar verið á henni gerðar“. Að þessu sinni hefði þó tekist samkomulag aðila vinnumarkaðarins um að þörf væri á sáttasemjara í fullu starfi. „Ég held að allir séu sammála um að það út af fyrir sig sé breyting til batnaðar,“ sagði Eðvarð en áréttaði að um engar aðrar breytingar á vinnulöggjöfinni hefði tekist samkomulag.
Formaður Dagsbrúnar – félagið varð síðar að Eflingu með samruna við önnur verkalýðsfélög – vék að heimild sáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu og sagði að í frumvarpi ráðherra hefði verið gert ráð fyrir skyldu félags til að afhenda sáttasemjara kjörskrá fyrir atkvæðagreiðslu um tillöguna og að félagsdómur ætti úrskurðarvald í deilum um kjörskrá, enn fremur að sáttasemjara eða fulltrúum hans yrði heimilt að vera viðstaddir kjörfundi. Þá sagði Eðvarð Sigurðsson orðrétt:
„Þetta voru nýmæli frá lögunum eins og þau hafa verið og að tillögu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, sem fóru yfir þetta frumvarp, var þetta fellt niður. Þótti ekki ástæða til að taka þessi ákvæði upp í þessi lög, þar sem ekki væri vitað til að neinn ágreiningur hefði yfirleitt verið um framkvæmd atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara af því tagi sem hér er fjallað um. Ef sáttasemjari eða fulltrúar hans hafa áhuga á því að koma á kjörstaði þegar atkvæðagreiðslur fara fram, þá mundi sjálfsagt enginn verða til þess að meina honum það. Virðist því ástæðulaust að taka þetta inn í lögin. Og á þetta var fallist.“
Þessi hófsömu orð sýna að Eðvarði Sigurðssyni kom ekki einu sinni til hugar að til ágreinings kynni að koma við sáttasemjara um afhendingu kjörskrár í því skyni að hindra atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu hans. Hann vissi ekki til þess að á 40 árum hefði orðið nokkur ágreiningur „um framkvæmd atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara“.
Í ljósi orða Eðvarðs vaknar spurning um hvort það hafi hreinlega verið mistök hjá Aðalsteini Leifssyni ríkissáttasemjara að óska í góðri trú eftir kjörskrá vegna miðlunartillögunnar. Hann hefði einfaldlega átt að boða til kjörfundar og tryggja með eftirliti að virtar væru viðurkenndar grunnreglur við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.
Að arftakar Eðvarðs Sigurðssonar í verkalýðshreyfingunni sýni miðlunartillögu ríkissáttasemjara þá forakt sem þeir gera nú stangast á við andann sem ríkti á alþingi fyrir 45 árum þegar embætti ríkissáttasemjara var stofnað í góðri sátt á fáeinum dögum skömmu fyrir þingslit og þingkosningar.
* Eftir að greinin birtist í Morgunblaðinu var mér bent á að Georg Ólafsson bankastjóri hefði verið fyrsti sáttasemjarinn, frá september 1925 til ágúst 1926 þegar Björn Þórðarson tók við starfinu.