Heimilin koma vel frá faraldrinum
Morgunblaðið, laugardagur 26. mars 2022
Sé litið tvö ár til baka og til óttans sem sótti að mörgum vegna frétta af heimsfaraldrinum og óvissu um framtíðina vegna heilbrigðismála, afkomu þjóðarbúsins og heimilanna ætti brúnin að léttast við fréttir sem berast núna.
Það er til marks um þáttaskil að föstudaginn 1. apríl ætla íslensk stjórnvöld að hætta að niðurgreiða hraðpróf vegna Covid-19. Undanfarna mánuði hafa þessi próf lokað eða opnað okkur dyr að eðlilegum samskiptum. Heildarkostnaður ríkisins af sýnatöku vegna heimsfaraldursins frá því hann hófst nemur samtals 11,4 milljörðum króna. Þetta er aðeins ein af háum útgjaldatölum ríkissjóðs þegar litið er til faraldursins.
Enn á ný skal ítrekuð tillaga um að samin verði rannsóknarskýrsla um hvernig við var brugðist af hálfu opinberra aðila vegna faraldursins.
Hér er um slíkt áfall fyrir samfélag okkar að ræða að um það gildir sama og bankahrunið, þótt ólíku sé saman að jafna, að málið verður að gera upp á óhlutdrægan hátt svo að af því megi læra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti ríkisstjórninni föstudaginn 18. mars niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2019-2021 sem sýna að heimilin telja gæði eigin lífskjara í, eða nálægt, sögulegu hámarki. Hlutfall heimila sem eiga erfitt með að láta enda ná saman hefur aldrei verið lægra og aldrei hafa færri talið byrði húsnæðiskostnaðar þungan. Hlutfall heimila sem segjast búa við efnislegan skort er nálægt sögulegu lágmarki og aldrei hafa færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum. Hlutfall heimila í vanskilum hefur heldur aldrei verið lægra en árið 2021 þegar vanskilahlutfall þeirra var 0,9% í lok ársins.
Um 22% heimila bjuggu í leiguhúsnæði árið 2021 og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan 2009. Fjárhagsleg byrði heimila á leigumarkaði er erfiðari en þeirra sem búa í eigin húsnæði. Þannig telja 19% heimila á leigumarkaði byrði húsnæðiskostnaðar þunga. Hlutfallið hefur verið stöðugt undanfarin ár. Sambærilegt hlutfall fyrir heimili í eigin húsnæði er 10% og hefur þeim fækkað stöðugt frá því mælingar hófust.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hélt áfram að aukast á síðasta ári þrátt fyrir vaxandi verðbólgu en hann jókst um 1,1% á mann árið 2021 – en vöxturinn var 2,2% árið 2020. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur hækkað um þriðjung frá árinu 2013.
Hagstofan áætlar að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist um 7,5% árið 2021. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 5,6%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um um 1,1%.
Fáir hefðu líklega trúað því fyrir tveimur árum að tölur af þessu tagi birtust um hag heimila og einstaklinga í lok heimsfaraldursins hér á landi.
Á tveggja ára fresti tekur norræna rannsóknarstofnunin Nordregio púlsinn á efnahagsmálum, vinnumarkaðnum og íbúaþróun í öllum norrænum sveitarfélögum og landshlutum. Í ár er í skýrslu Nordregio, „State of the Nordic Region“, fjallað um heimsfaraldurinn, „áhrif hans kortlögð og settir fram ýmsir mælikvarðar sem sýna hversu þrautseigt norræna samfélagslíkanið er þegar á reynir,“ segir á vefsíðu norrænu ráðherranefndarinnar miðvikudaginn 23. mars, degi Norðurlandaráðs.
Þar kemur fram að vegna styrkleika fjármálakerfa Norðurlanda við upphaf faraldursins hafi verið hægt að verja fé í bætur vegna vinnutaps, skattaívilnanir og stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki. Meðaltekjur heimila lækkuðu ekki, þökk sé fjárfestingum í vinnumarkaðsúrræðum. Þessar ráðstafanir hafi mildað félagsleg áhrif heimsfaraldursins.
Á heildina litið var efnahagsleg niðursveifla á Norðurlöndum í samræmi við meðaltalið á alþjóðavísu en mun minni en í Evrópusambandinu. Verg landsframleiðsla dróst saman um 3% á Norðurlöndum miðað við 5,9% í ESB. Sökum þess hve Íslendingar eru háðir ferðaþjónustu voru áhrifin mest hér árið 2020, þar sem verg landsframleiðsla dróst saman um 7,1%. Sambærileg tala í Danmörku var 2,1% en 0,7% í Noregi.
Samanlagt virði allra efnahagslegra stuðningsráðstafana í Danmörku nam 32,7% af vergri landsframleiðslu (VLF). Þar á eftir kom Svíþjóð með 16,1% af VLF. Finnar, Íslendingar og Norðmenn fjárfestu sem nemur 12-14% af VLF.
Nú bendir allt til þess að ferðaþjónustan nái sér á flug hér að nýju. Samtök atvinnulífsins (SA) birtu í vikunni úttekt sem sýnir nauðsyn þess að hér sé enn gert stórátak til að bregðast við þörfinni fyrir erlent starfsfólk til að tryggja hagvöxt.
Samtökin telja að á næstu fjórum árum, árin 2022-2025, fjölgi innlendu fólki á vinnualdri um 3.000 en störfum fjölgi að minnsta kosti um 15.000. Þörf fyrir innflutning erlends starfsfólks verði mikil, það er minnst 12.000. Langflestir þeirra þurfi að hafa háskólamenntun eða aðra sérmenntun sem styrki atvinnulífið. SA telja að 80% þeirra hefji störf í einkageiranum og 20% hjá opinbera geiranum. Rúmur helmingur verði háskólamenntaður, þriðjungur með framhaldsskólamenntun og einn af hverjum átta með grunnskólamenntun eingöngu.
Um þessar mundir er mikill viðbúnaður hér vegna komu flóttafólks frá Úkraínu. Þar reynir á seiglu þjóðfélagsins og hæfni til úrlausnar vegna miskunnarleysis tilefnislauss stríðs. Allir eru boðnir og búnir til að rétta hjálparhönd á hættustund. Hitt er síðan að líta til lengri tíma og ná betri sátt en nú ríkir um skipan útlendingamála þar sem ekki vaknar grunur um að skipulega sé reynt að misnota félagslega kerfið.