26.3.2022

Heimilin koma vel frá faraldrinum

Morgunblaðið, laugardagur 26. mars 2022

 

Sé litið tvö ár til baka og til ótt­ans sem sótti að mörg­um vegna frétta af heims­far­aldr­in­um og óvissu um framtíðina vegna heil­brigðismála, af­komu þjóðarbús­ins og heim­il­anna ætti brún­in að létt­ast við frétt­ir sem ber­ast núna.

Það er til marks um þátta­skil að föstu­dag­inn 1. apríl ætla ís­lensk stjórn­völd að hætta að niður­greiða hraðpróf vegna Covid-19. Und­an­farna mánuði hafa þessi próf lokað eða opnað okk­ur dyr að eðli­leg­um sam­skipt­um. Heild­ar­kostnaður rík­is­ins af sýna­töku vegna heims­far­ald­urs­ins frá því hann hófst nem­ur sam­tals 11,4 millj­örðum króna. Þetta er aðeins ein af háum út­gjalda­töl­um rík­is­sjóðs þegar litið er til far­ald­urs­ins.

Enn á ný skal ít­rekuð til­laga um að sam­in verði rann­sókn­ar­skýrsla um hvernig við var brugðist af hálfu op­in­berra aðila vegna far­ald­urs­ins.

Hér er um slíkt áfall fyr­ir sam­fé­lag okk­ar að ræða að um það gild­ir sama og banka­hrunið, þótt ólíku sé sam­an að jafna, að málið verður að gera upp á óhlut­dræg­an hátt svo að af því megi læra.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, kynnti rík­is­stjórn­inni föstu­dag­inn 18. mars niður­stöður lífs­kjara­rann­sókn­ar Hag­stof­unn­ar fyr­ir árin 2019-2021 sem sýna að heim­il­in telja gæði eig­in lífs­kjara í, eða ná­lægt, sögu­legu há­marki. Hlut­fall heim­ila sem eiga erfitt með að láta enda ná sam­an hef­ur aldrei verið lægra og aldrei hafa færri talið byrði hús­næðis­kostnaðar þung­an. Hlut­fall heim­ila sem segj­ast búa við efn­is­leg­an skort er ná­lægt sögu­legu lág­marki og aldrei hafa færri heim­ili sagst eiga í erfiðleik­um með að mæta óvænt­um út­gjöld­um. Hlut­fall heim­ila í van­skil­um hef­ur held­ur aldrei verið lægra en árið 2021 þegar van­skila­hlut­fall þeirra var 0,9% í lok árs­ins.

Um 22% heim­ila bjuggu í leigu­hús­næði árið 2021 og hef­ur hlut­fallið ekki verið lægra síðan 2009. Fjár­hags­leg byrði heim­ila á leigu­markaði er erfiðari en þeirra sem búa í eig­in hús­næði. Þannig telja 19% heim­ila á leigu­markaði byrði hús­næðis­kostnaðar þunga. Hlut­fallið hef­ur verið stöðugt und­an­far­in ár. Sam­bæri­legt hlut­fall fyr­ir heim­ili í eig­in hús­næði er 10% og hef­ur þeim fækkað stöðugt frá því mæl­ing­ar hóf­ust.

2884893c3e8f0ef3421ea793ed06bb08Kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna hélt áfram að aukast á síðasta ári þrátt fyr­ir vax­andi verðbólgu en hann jókst um 1,1% á mann árið 2021 – en vöxt­ur­inn var 2,2% árið 2020. Kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna á mann hef­ur hækkað um þriðjung frá ár­inu 2013.

Hag­stof­an áætl­ar að ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­il­anna hafi auk­ist um 7,5% árið 2021. Ráðstöf­un­ar­tekj­ur á mann juk­ust um 5,6%. Kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna á mann jókst um um 1,1%.

Fáir hefðu lík­lega trúað því fyr­ir tveim­ur árum að töl­ur af þessu tagi birt­ust um hag heim­ila og ein­stak­linga í lok heims­far­ald­urs­ins hér á landi.

Á tveggja ára fresti tek­ur nor­ræna rann­sókn­ar­stofn­un­in Nor­dreg­io púls­inn á efna­hags­mál­um, vinnu­markaðnum og íbúaþróun í öll­um nor­ræn­um sveit­ar­fé­lög­um og lands­hlut­um. Í ár er í skýrslu Nor­dreg­io, „State of the Nordic Reg­i­on“, fjallað um heims­far­ald­ur­inn, „áhrif hans kort­lögð og sett­ir fram ýms­ir mæli­kv­arðar sem sýna hversu þraut­seigt nor­ræna sam­fé­lags­líkanið er þegar á reyn­ir,“ seg­ir á vefsíðu nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar miðviku­dag­inn 23. mars, degi Norður­landaráðs.

Þar kem­ur fram að vegna styrk­leika fjár­mála­kerfa Norður­landa við upp­haf far­ald­urs­ins hafi verið hægt að verja fé í bæt­ur vegna vinnu­taps, skattaí­viln­an­ir og stuðning við lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki. Meðal­tekj­ur heim­ila lækkuðu ekki, þökk sé fjár­fest­ing­um í vinnu­markaðsúr­ræðum. Þess­ar ráðstaf­an­ir hafi mildað fé­lags­leg áhrif heims­far­ald­urs­ins.

Á heild­ina litið var efna­hags­leg niður­sveifla á Norður­lönd­um í sam­ræmi við meðaltalið á alþjóðavísu en mun minni en í Evr­ópu­sam­band­inu. Verg lands­fram­leiðsla dróst sam­an um 3% á Norður­lönd­um miðað við 5,9% í ESB. Sök­um þess hve Íslend­ing­ar eru háðir ferðaþjón­ustu voru áhrif­in mest hér árið 2020, þar sem verg lands­fram­leiðsla dróst sam­an um 7,1%. Sam­bæri­leg tala í Dan­mörku var 2,1% en 0,7% í Nor­egi.

Sam­an­lagt virði allra efna­hags­legra stuðnings­ráðstaf­ana í Dan­mörku nam 32,7% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF). Þar á eft­ir kom Svíþjóð með 16,1% af VLF. Finn­ar, Íslend­ing­ar og Norðmenn fjár­festu sem nem­ur 12-14% af VLF.

Nú bend­ir allt til þess að ferðaþjón­ust­an nái sér á flug hér að nýju. Sam­tök at­vinnu­lífs­ins (SA) birtu í vik­unni út­tekt sem sýn­ir nauðsyn þess að hér sé enn gert stór­átak til að bregðast við þörf­inni fyr­ir er­lent starfs­fólk til að tryggja hag­vöxt.

Sam­tök­in telja að á næstu fjór­um árum, árin 2022-2025, fjölgi inn­lendu fólki á vinnualdri um 3.000 en störf­um fjölgi að minnsta kosti um 15.000. Þörf fyr­ir inn­flutn­ing er­lends starfs­fólks verði mik­il, það er minnst 12.000. Lang­flest­ir þeirra þurfi að hafa há­skóla­mennt­un eða aðra sér­mennt­un sem styrki at­vinnu­lífið. SA telja að 80% þeirra hefji störf í einka­geir­an­um og 20% hjá op­in­bera geir­an­um. Rúm­ur helm­ing­ur verði há­skóla­menntaður, þriðjung­ur með fram­halds­skóla­mennt­un og einn af hverj­um átta með grunn­skóla­mennt­un ein­göngu.

Um þess­ar mund­ir er mik­ill viðbúnaður hér vegna komu flótta­fólks frá Úkraínu. Þar reyn­ir á seiglu þjóðfé­lags­ins og hæfni til úr­lausn­ar vegna mis­kunn­ar­leys­is til­efn­is­lauss stríðs. All­ir eru boðnir og bún­ir til að rétta hjálp­ar­hönd á hættu­stund. Hitt er síðan að líta til lengri tíma og ná betri sátt en nú rík­ir um skip­an út­lend­inga­mála þar sem ekki vakn­ar grun­ur um að skipu­lega sé reynt að mis­nota fé­lags­lega kerfið.