Handritin, Snorri og Jónas
Morgunblaðið, laugardagur, 16. nóvember 2024
Í byrjun vikunnar var Konungsbók eddukvæða flutt úr Árnagarði í Eddu, aðsetur stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands við Arngrímsgötu í Reykjavík.
Þar hefur mikilvægasta menningararfi Íslendinga, handritunum, nú verið búin framtíðargeymsla. Í dag, 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, degi íslenskrar tungu, verður sýningin Heimur í orðum opnuð í Eddu. Þar er meðal annars unnt að skoða Konungsbók.
Í fyrsta sinn frá því að handritin komu frá Danmörku árið 1971 eru þau nú til sýnis í sérhönnuðu rými. Var vissulega orðið tímabært að búa þjóðardýrgripunum viðeigandi umgjörð.
Daginn eftir flutninginn í Eddu var því formlega fagnað að handritið Konungsbók væri nú aðgengilegt í nýrri röð rafrænna textaútgáfna, Editiones Arnamagnæanæ Electronicæ.
Þar er hægt að skoða ljósmyndir af sérhverri síðu handritsins og nákvæma uppskrift textans. Rafræna útgáfan er fullkomið verkfæri við frekari rannsóknir á texta kvæðanna í handritinu.
Úr Konungsbók eddukvæða
Án tilvistar Konungsbókar frá um 1270 væru aðeins fá eddukvæði varðveitt. Kvæðin tryggðu norrænni goðafræði varanlegan sess í heimsmenningunni. Goðafræðin hefur um aldir verið uppspretta fleiri verka en þekkt eru.
Þýsk-franska sjónvarpsstöðin Arte.tv setti nýlega á vef sinn 10 þátta röð þar sem norræna goðafræðin er kynnt á einstaklega lifandi hátt og af hollustu við frásögn eddukvæðanna. Í kynningu Arte á röðinni segir að svo virðist sem aldrei fyrr hafi verið gerð nein slík röð teiknimynda þar sem stuðst sé við frumheimildina sjálfa. Á hinn bóginn hafi þessi norræni menningararfur orðið kveikjan að verkum sem njóti alþýðuhylli um heim allan og nefnir Arte þar til sögunnar Hringadróttinssögu Tolkiens, hetjuna Þór í Marvel-kvikmyndunum og Game of Thrones eftir George R.R. Martin.
Á vegum Snorrastofu í Reykholti hefur verið stofnað til rannsókna á áhrifum höfundarverks Snorra Sturlusonar. Þræðir þess liggja mun víðar en menn skynja í fljótu bragði. Viðfangsefni á mörkum heima goða og manna hafa víðtæka skírskotun í samtímanum og auðveldara er nú en nokkru sinni fyrr að kynna öllum almenningi það sem gerist á þessum mörkum. Í þáttunum á Arte.tv er þetta gert af alúð.
Nú, um 750 árum eftir að Konungsbók varð til, er farið með hana sem dýrgrip og handritið er ekki flutt á milli húsa án lögreglufylgdar. Aðeins lítið brotabrot af þeim tekjum sem kvæðin í handritinu hafa gefið af sér sem innblástur til síðari tíma höfunda myndi duga til að skapa hæfilega umgjörð til kynningar á höfundarverki Snorra. Þessi umgjörð á heima í Reykholti í Borgarfirði og hefði hún mikið alþjóðlegt aðdráttarafl ekki síður en staðir þar sem áhrifavaldar taka af sér sjálfur.
Á degi íslenskrar tungu 2024 er vert að vekja athygli á því að það eru ekki aðeins aldagömul handrit sem lifa með okkur í nýjum samtímabúningi. Þetta á einnig við um yngri verk og höfunda þeirra. Þannig má kynnast lífi Jónasar Hallgrímssonar og samtímamanna hans í að minnsta kosti tveimur bókum sem sjá dagsins ljós nú fyrir jólin; þar er annars vegar um að ræða heimildabók Óttars Guðmundssonar geðlæknis um rímnaskáldið Sigurð Breiðfjörð og samtíð hans og hins vegar Ferðalok, skáldsögu Arnaldar Indriðasonar rithöfundar.
Jónas er viðfangsefni beggja höfunda. Óttar segir frá því hve Jónas sótti hart að Sigurði og hafði litlar mætur á rímunum. Arnaldur minnist hvergi á Sigurð Breiðfjörð en leiðarstef hans er fagurt kvæði Jónasar, Ferðalok, á dánarbeði listaskáldsins góða.
Í deilum Sigurðar Breiðfjörðs og Jónasar á 19. öld birtist hve Íslendingum verður heitt í hamsi í umræðum um kveðskap og íslenskt mál. Óttar færir fyrir því rök að rímurnar og glíman við að semja þær hafi átt ríkan þátt í að varðveita íslenska tungu á tímum þegar þjóðlífið opnaðist fyrir síauknum erlendum áhrifum.
Jónas birti ljóð sín í tímaritinu Fjölni og það var einnig helsti vettvangur árásanna á Sigurð, þótt ekki væru allir Fjölnismenn einhuga um réttmæti þeirra. Um áhrif nánasta vinar Jónasar í hópi Fjölnismanna, Konráðs Gíslasonar, sagði Sigurður Nordal: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“
Fjölnir var tímarit menntamanna en rímurnar eign almennings. Í ljósi þess að menntamönnum 19. aldar var kært að leggja rækt við þjóðlegan arf í rómantískum anda er undarlegt hve Jónasi og félögum þótti lítið koma til rímnanna í þeim arfi.
Ljóð Jónasar og nýyrði hans eru enn þann dag í dag hluti af daglegri rækt við tunguna og menningararfinn en litið er á rímurnar sem hluta fortíðar sem varðveita beri með skinnhandritunum í stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tími rímnanna kann þó að koma aftur.
Þegar stofnað var til dags íslenskrar tungu fyrir 28 árum var það ekki gert í því skyni að líta til baka heldur til þess að skapa fótfestu fyrir viðspyrnu í sókn í þágu íslenskunnar.
Um það sama leyti var einnig lagður grunnur að safni stafrænna íslenskra málfanga og markaðri íslenskri málheild (MÍM) með tugum milljóna orða af fjölbreyttum textum sem eru geymdir í stöðluðu sniði í rafrænu formi. Allt þetta nýtist nú í nýjum tungumálaheimi gervigreindar. Þar hefur íslenska tryggt sér sess.
Nú er brýnt að mynda breiða samstöðu um bestu leiðina til að innleiða íslenskuna á nógu markvissan hátt meðal þeirra sem hingað koma til búsetu. Örlar nokkuð á slíku fyrirheiti í kosningaloforðum?