Hálf saga um andóf gegn her
Morgunblaðið, fimmtudagur, 9. janúar 2025.
Gengið til friðar ★★★·· Árni Hjartarson ritstýrði. Skrudda, 2024. Innb., myndir, 350 bls.
Það er til marks um hve Sigurður Flosason (f. 1928) reyndist herstöðvaandstæðingum vel sem gjaldkeri samtaka þeirra frá 1995 til 2024 að þeir hafa ráð á að gefa út sögu sína í þessari þungu, myndskreyttu og efnismiklu bók í stóru broti. Sigurður lét af gjaldkerastörfunum 96 ára þegar sá til lands við útgáfu bókarinnar (314).
Glæsileiki bókarinnar fellur að myndinni sem dregin er upp af andófshreyfingunni gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningnum við Bandaríkin. Lýst er þjóðlegri hreyfingu friðar- og listvina, þjóðmenningarlegum félagsskap um hlutleysi. Stjórnmálaátök kalda stríðsins eru víðs fjarri.
Í bókinni er ekki gert upp við þann þráð í starfsemi hreyfingarinnar sem lá til Moskvu og sneri að hag ráðamanna Sovétríkjanna af því að grafið yrði undan aðild Íslands að Nató og tvíhliða varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
Höfundar bókarinnar Gengið til friðar – Saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju, 1946-2006 lutu ritstjórn Árna Hjartarsonar. Fyrir utan formála, inngang og lokaorð skiptist bókin í 13 efniskafla. Þeir eru: (1) Þjóðvörn og pólitískar væringar, 1944-1960, höf. Sverrir Jakobsson; (2) Inngangan í Nató og Austurvallarslagurinn 30. mars 1949, höf. Árni Hjartarson: (3) Samtök hernámsandstæðinga 1960-1970, höf. Einar Páll Tryggvason og Árni Hjartarson; (4) Víetnamstríðið og Víetnamnefndir, höf. Árni Hjartarson; (5) Dagfari, tímarit hernáms-, herstöðva- og hernaðarandstæðinga, höf. Árni Hjartarson; (6) Myndmál hernaðarandstæðinga og friðarsinna, höf. Guðmundur Oddur Magnússon og Árni Hjartarson; (7) Bókmenntalegt andóf gegn her og herstöðvum, höf. Einar Ólafsson; (8) Herstöðvamálið í íslenskum kvikmyndum, höf. Árni Hjartarson; (9) Baráttutónar – af hlutverki tónlistar í íslenskri friðarbaráttu, höf. Unnur María Máney Bergsveinsdóttir; (10) Ísland úr Nató – Herinn burt!, höf. Stefán Pálsson; (11) Kjarnorkuváin og barátta herstöðvaandstæðinga, höf. Ingibjörg Haraldsdóttir; (12) Friðarhreyfingar á Íslandi, höf. Ingibjörg Haraldsdóttir og (13) Herinn fer (tímabilið 1991-2006), höf. Árni Hjartarson.
Ritstjórinn á flestar greinar í bókinni. Lengstu greinarnar eru hins vegar eftir Stefán Pálsson undir kunnu slagorði hreyfingarinnar, 68 bls., og Einar Ólafsson um bókmenntalega andófið, 60 bls.
Myndir í bókinni skipta tugum og hefur verið lögð alúð við að nafngreina þá sem þekkjast á myndunum. Elvar Ástráðsson annaðist myndritstjórn en hönnun og umbrot var í höndum útgefandans, Skruddu. Er bókin vel úr garði gerð af hálfu útgefanda og í henni eru skrár yfir tilvísanir, heimildir og nöfn.
Í formála segir að texti bókarinnar einkennist af því að atburðum sé lýst á „hlutlægan hátt“ og „pólitísk orðræða“ sé greind „af hófstillingu og sanngirni“. Minnir frásögnin víða á þurra, nákvæma fundargerð með nafnarunum og upptalningu dagskrárliða. Öllum göngum og fundum undir merkjum hernáms-, herstöðva- og hernaðarandstæðinga er skilmerkilega lýst.
Í inngangi segir að rannsóknarspurningar verksins séu tvíþættar: (1) Af hvaða rótum andstaða við herstöðvar spratt og hvernig hún þróaðist á sextíu árum. (2) Staða andófshreyfinga gegn hernum sem grasrótarsamtaka. Hvernig styrktu herstöðvaandstæðingar samstöðu sína og hvaða andófi beittu þeir?
Það leiðir af þögninni um kalda stríðið að engu er líkara en að ákvörðunin um að Ísland gerðist aðili að Nató og hyrfi frá hlutleysisstefnunni gerist í tómarúmi. Annars vegar voru þó þeir sem stóðu með öðrum lýðfrjálsum þjóðum og hins vegar þeir sem hölluðu sér að Sovétríkjunum.
Árið 1960 ákváðu Samtök hernámsandstæðinga að efna til undirskriftasöfnunar gegn hernum til að þrýsta á ríkisstjórnina og sýna að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur bandarískri hersetu. Af ótta við að þeir sem settu nafn sitt undir yfirlýsinguna yrðu ofsóttir ætluðu samtökin að líta á hverja undirskrift sem trúnaðarmál en að staðfesta heildartölur opinberlega á þann hátt að ekki yrði hægt að vefengja niðurstöðuna.
Í stuttu máli fór þessi söfnun undirskrifta út um þúfur enda var þungt undir fæti í þéttbýli landsins. Þá töldu forvígismenn samtakanna að kommúnistagrýlan hefði verið mögnuð upp gegn þeim, einkum í Morgunblaðinu. Í bókinni segir: „Morgunblaðið bendlaði hernámsandstæðinga við kommúnisma og kallaði undirskriftasöfnunina „Moskvuvíxilinn“. Því var haldið fram að kommúnistar væru að reyna að fá landsmenn til þess að skrifa undir svo óvinir ættu auðveldara með að taka landið yfir. Því var jafnframt haldið fram að með þessari undirskriftasöfnun væru „kommúnistar“ að fremja einhvers konar liðskönnun á Íslandi sem þeir myndu notfæra sér síðar“ (47-49).
Þetta er næst því sem lýst er hve hatrammar deilur voru hér um þessi mál.
Ástæðulaust er að efast um að margir sem sagt er frá í bókinni hafi í einlægni trúað því að her- og hlutleysi væri íslensku þjóðinni fyrir bestu en að skrifa sögu þessara samtaka á þann veg að þar hafi þjóðleg menningarhyggja og einlæg friðarhugsjón ein ráðið ferð segir einfaldlega ekki alla söguna.
Innan lands þóttu ekki allir verðugir til þátttöku í friðarbaráttunni. Fyrir rúmum 40 árum voru Friðarpáskar, alhliða menningar- og friðarhátíð, haldnir í Norræna húsinu. Varðberg, félag stuðningsmanna Nató, sótti um aðild að hátíðinni. Herstöðvaandstæðingar töldu Varðberg ætla að spilla fyrir dagskránni. Friðarnefnd kirkjunnar sagðist draga sig í hlé væru einhverjir fyrir fram útilokaðir frá þátttöku. Var gerð misheppnuð tilraun til að hrekja Varðbergsliða á braut með pólitískri fléttu.
Í Neista, málgagni Fylkingarinnar (yst til vinstri), sakaði Már Guðmundsson, síðar seðlabankastjóri, forystufólk herstöðvaandstæðinga um að „hörfa undan íhaldinu“. Undanhaldið hefði meðal annars birst í því að sumarið 1983 hefði verið reynt að fela herstöðvaandstöðuna og baráttuna gegn Nató í Keflavíkurgöngu og á Þorláksmessu 1983 hefði verið farin þögul blysför í nafni friðar. Í stað „hluttækrar baráttu gegn hersetunni“ væri nú „sett almennt friðarhjal“ (228-229).
Varnarliðið hvarf héðan 30. september 2006 og lokaði öllu sínu nema fjarskiptastöð við Grindavík.
Andófsmenn gegn Nató og hernum áttu engan hlut að brottför hans. Hana mátti rekja til hruns Sovétríkjanna og hugmynda um samstarf við Rússa í öryggis- og varnarmálum. Í Washington var ekki hlustað á þá sem töldu óvarlegt að Nató hefði ekki áfram neina hernaðarlega fótfestu hér. Allt er það nú breytt eins og kunnugt er.
Ráði menn eigin minningargrein skrifa þeir hana eins og þeir vilja að sín sé minnst. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að herstöðvaandstæðingar segi aðeins hálfa söguna.