9.1.2025

Hálf saga um andóf gegn her

Morgunblaðið, fimmtudagur, 9. janúar 2025.

Gengið til friðar ★★★·· Árni Hjart­ar­son rit­stýrði. Skrudda, 2024. Innb., mynd­ir, 350 bls.

Það er til marks um hve Sig­urður Flosa­son (f. 1928) reynd­ist her­stöðva­and­stæðing­um vel sem gjald­keri sam­taka þeirra frá 1995 til 2024 að þeir hafa ráð á að gefa út sögu sína í þess­ari þungu, myndskreyttu og efn­is­miklu bók í stóru broti. Sig­urður lét af gjald­kera­störf­un­um 96 ára þegar sá til lands við út­gáfu bók­ar­inn­ar (314).

Glæsi­leiki bók­ar­inn­ar fell­ur að mynd­inni sem dreg­in er upp af and­ófs­hreyf­ing­unni gegn aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO) og varn­ar­samn­ingn­um við Banda­rík­in. Lýst er þjóðlegri hreyf­ingu friðar- og list­vina, þjóðmenn­ing­ar­leg­um fé­lags­skap um hlut­leysi. Stjórn­mála­átök kalda stríðsins eru víðs fjarri.

Í bók­inni er ekki gert upp við þann þráð í starf­semi hreyf­ing­ar­inn­ar sem lá til Moskvu og sneri að hag ráðamanna Sov­ét­ríkj­anna af því að grafið yrði und­an aðild Íslands að Nató og tví­hliða varn­ar­sam­starf­inu við Banda­rík­in.

7fdb7d52-114f-4b85-b41e-ba9cd8ca606b

Höf­und­ar bók­ar­inn­ar Gengið til friðar – Saga and­ófs gegn her­stöðvum og víg­búnaðar­hyggju, 1946-2006 lutu rit­stjórn Árna Hjart­ar­son­ar. Fyr­ir utan for­mála, inn­gang og loka­orð skipt­ist bók­in í 13 efniskafla. Þeir eru: (1) Þjóðvörn og póli­tísk­ar vær­ing­ar, 1944-1960, höf. Sverr­ir Jak­obs­son; (2) Inn­gang­an í Nató og Aust­ur­vall­arslag­ur­inn 30. mars 1949, höf. Árni Hjart­ar­son: (3) Sam­tök her­námsand­stæðinga 1960-1970, höf. Ein­ar Páll Tryggva­son og Árni Hjart­ar­son; (4) Víet­nam­stríðið og Víet­nam­nefnd­ir, höf. Árni Hjart­ar­son; (5) Dag­fari, tíma­rit her­náms-, her­stöðva- og hernaðarand­stæðinga, höf. Árni Hjart­ar­son; (6) Mynd­mál hernaðarand­stæðinga og friðarsinna, höf. Guðmund­ur Odd­ur Magnús­son og Árni Hjart­ar­son; (7) Bók­mennta­legt and­óf gegn her og her­stöðvum, höf. Ein­ar Ólafs­son; (8) Her­stöðva­málið í ís­lensk­um kvik­mynd­um, höf. Árni Hjart­ar­son; (9) Bar­áttu­tón­ar – af hlut­verki tón­list­ar í ís­lenskri friðarbar­áttu, höf. Unn­ur María Máney Berg­sveins­dótt­ir; (10) Ísland úr Nató – Her­inn burt!, höf. Stefán Páls­son; (11) Kjarn­orku­vá­in og bar­átta her­stöðva­and­stæðinga, höf. Ingi­björg Har­alds­dótt­ir; (12) Friðar­hreyf­ing­ar á Íslandi, höf. Ingi­björg Har­alds­dótt­ir og (13) Her­inn fer (tíma­bilið 1991-2006), höf. Árni Hjart­ar­son.

Rit­stjór­inn á flest­ar grein­ar í bók­inni. Lengstu grein­arn­ar eru hins veg­ar eft­ir Stefán Páls­son und­ir kunnu slag­orði hreyf­ing­ar­inn­ar, 68 bls., og Ein­ar Ólafs­son um bók­mennta­lega and­ófið, 60 bls.

Mynd­ir í bók­inni skipta tug­um og hef­ur verið lögð alúð við að nafn­greina þá sem þekkj­ast á mynd­un­um. Elv­ar Ástráðsson annaðist mynd­rit­stjórn en hönn­un og um­brot var í hönd­um út­gef­and­ans, Skruddu. Er bók­in vel úr garði gerð af hálfu út­gef­anda og í henni eru skrár yfir til­vís­an­ir, heim­ild­ir og nöfn.

Í for­mála seg­ir að texti bók­ar­inn­ar ein­kenn­ist af því að at­b­urðum sé lýst á „hlut­læg­an hátt“ og „póli­tísk orðræða“ sé greind „af hófstill­ingu og sann­girni“. Minn­ir frá­sögn­in víða á þurra, ná­kvæma fund­ar­gerð með nafnar­un­um og upp­taln­ingu dag­skrárliða. Öllum göng­um og fund­um und­ir merkj­um her­náms-, her­stöðva- og hernaðarand­stæðinga er skil­merki­lega lýst.

Í inn­gangi seg­ir að rann­sókn­ar­spurn­ing­ar verks­ins séu tvíþætt­ar: (1) Af hvaða rót­um andstaða við her­stöðvar spratt og hvernig hún þróaðist á sex­tíu árum. (2) Staða and­ófs­hreyf­inga gegn hern­um sem grasrót­ar­sam­taka. Hvernig styrktu her­stöðva­and­stæðing­ar sam­stöðu sína og hvaða and­ófi beittu þeir?

Það leiðir af þögn­inni um kalda stríðið að engu er lík­ara en að ákvörðunin um að Ísland gerðist aðili að Nató og hyrfi frá hlut­leys­is­stefn­unni ger­ist í tóma­rúmi. Ann­ars veg­ar voru þó þeir sem stóðu með öðrum lýðfrjáls­um þjóðum og hins veg­ar þeir sem hölluðu sér að Sov­ét­ríkj­un­um.

Árið 1960 ákváðu Sam­tök her­námsand­stæðinga að efna til und­ir­skrifta­söfn­un­ar gegn hern­um til að þrýsta á rík­is­stjórn­ina og sýna að meiri­hluti þjóðar­inn­ar væri and­víg­ur banda­rískri her­setu. Af ótta við að þeir sem settu nafn sitt und­ir yf­ir­lýs­ing­una yrðu of­sótt­ir ætluðu sam­tök­in að líta á hverja und­ir­skrift sem trúnaðar­mál en að staðfesta heild­ar­töl­ur op­in­ber­lega á þann hátt að ekki yrði hægt að ve­fengja niður­stöðuna.

Í stuttu máli fór þessi söfn­un und­ir­skrifta út um þúfur enda var þungt und­ir fæti í þétt­býli lands­ins. Þá töldu for­víg­is­menn sam­tak­anna að komm­ún­ista­grýl­an hefði verið mögnuð upp gegn þeim, einkum í Morg­un­blaðinu. Í bók­inni seg­ir: „Morg­un­blaðið bendlaði her­námsand­stæðinga við komm­ún­isma og kallaði und­ir­skrifta­söfn­un­ina „Moskvu­víx­il­inn“. Því var haldið fram að komm­ún­ist­ar væru að reyna að fá lands­menn til þess að skrifa und­ir svo óvin­ir ættu auðveld­ara með að taka landið yfir. Því var jafn­framt haldið fram að með þess­ari und­ir­skrifta­söfn­un væru „komm­ún­ist­ar“ að fremja ein­hvers kon­ar liðskönn­un á Íslandi sem þeir myndu not­færa sér síðar“ (47-49).

Þetta er næst því sem lýst er hve hat­ramm­ar deil­ur voru hér um þessi mál.

Ástæðulaust er að ef­ast um að marg­ir sem sagt er frá í bók­inni hafi í ein­lægni trúað því að her- og hlut­leysi væri ís­lensku þjóðinni fyr­ir bestu en að skrifa sögu þess­ara sam­taka á þann veg að þar hafi þjóðleg menn­ing­ar­hyggja og ein­læg friðar­hug­sjón ein ráðið ferð seg­ir ein­fald­lega ekki alla sög­una.

Inn­an lands þóttu ekki all­ir verðugir til þátt­töku í friðarbar­átt­unni. Fyr­ir rúm­um 40 árum voru Friðarpásk­ar, al­hliða menn­ing­ar- og friðar­hátíð, haldn­ir í Nor­ræna hús­inu. Varðberg, fé­lag stuðnings­manna Nató, sótti um aðild að hátíðinni. Her­stöðva­and­stæðing­ar töldu Varðberg ætla að spilla fyr­ir dag­skránni. Friðar­nefnd kirkj­unn­ar sagðist draga sig í hlé væru ein­hverj­ir fyr­ir fram úti­lokaðir frá þátt­töku. Var gerð mis­heppnuð til­raun til að hrekja Varðbergsliða á braut með póli­tískri fléttu.

Í Neista, mál­gagni Fylk­ing­ar­inn­ar (yst til vinstri), sakaði Már Guðmunds­son, síðar seðlabanka­stjóri, for­ystu­fólk her­stöðva­and­stæðinga um að „hörfa und­an íhald­inu“. Und­an­haldið hefði meðal ann­ars birst í því að sum­arið 1983 hefði verið reynt að fela her­stöðva­and­stöðuna og bar­átt­una gegn Nató í Kefla­vík­ur­göngu og á Þor­láks­messu 1983 hefði verið far­in þögul blys­för í nafni friðar. Í stað „hlut­tækr­ar bar­áttu gegn her­set­unni“ væri nú „sett al­mennt friðar­hjal“ (228-229).

Varn­ar­liðið hvarf héðan 30. sept­em­ber 2006 og lokaði öllu sínu nema fjar­skipta­stöð við Grinda­vík.

And­ófs­menn gegn Nató og hern­um áttu eng­an hlut að brott­för hans. Hana mátti rekja til hruns Sov­ét­ríkj­anna og hug­mynda um sam­starf við Rússa í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Í Washingt­on var ekki hlustað á þá sem töldu óvar­legt að Nató hefði ekki áfram neina hernaðarlega fót­festu hér. Allt er það nú breytt eins og kunn­ugt er.

Ráði menn eig­in minn­ing­ar­grein skrifa þeir hana eins og þeir vilja að sín sé minnst. Það kem­ur í sjálfu sér ekki á óvart að her­stöðva­and­stæðing­ar segi aðeins hálfa sög­una.