Hæstiréttur í 100 ár
Bækur - Sagnfræði - Morgunblaðið, 09. 03. 22
Hæstiréttur í hundrað ár – saga
Eftir Arnþór Gunnarsson. Innb. 576 bls. myndir og skrár. Hið íslenska bókmenntafélag, 2021.
Saga Hæstaréttar Íslands er önnur tveggja bóka sem gefnar eru út í tilefni 100 ára afmælis réttarins 16. febrúar 2020. Áður en sagan birtist kom út bók með greinum um ákveðin svið lögfræðinnar, einkum á réttarsviðum þar sem hæstiréttur hefur haft áhrif á mótun og þróun réttarreglna svo að vitnað sé í orð Benedikts Bogasonar, forseta hæstaréttar, í formála þeirrar bókar sem hér er til umsagnar.
Vegna ritunar sögunnar skipaði hæstiréttur sjö manna ritnefnd en með henni starfaði fyrrverandi skrifstofustjóri réttarins. Ritnefndin réð Arnþór Gunnarsson sagnfræðing til að rita söguna en að frumkvæði hans voru fengnir þrír þjóðkunnir sagnfræðingar höfundi til ráðgjafar og til að „tryggja sjálfstæði höfundarins og að ritið stæðist sem best faglegar kröfur,“ svo að aftur sé vitnað til dómsforseta sem segir ritið „mikilvægt framlag til sögu Íslands eftir að landið öðlaðist fullveldi árið 1918“.
Bókin er veglegur gripur, prentuð í Slóveníu á þungan pappír til að myndir njóti sín sem best en þær eru bæði svart/hvítar og í lit. Efnið skiptist í inngang og sjö efniskafla: Hæstiréttur og stjórnkerfið; Æðsta dómsvaldið og sjálfstæðisbaráttan; Hæstiréttur tekur til starfa; Baráttan um Hæstarétt (1920-1935); Vaxandi virðing (1936-1972); Kerfi í kreppu (1973-1998) og Til móts við nýja öld (1999-2020). Í níunda kafla er stutt samantekt. Tilvísanir ná yfir 30 bls.; þá eru skrár yfir myndir, myndrit og töflur; heimildir (23 bls.) og mannanöfn (6 bls.).
Hver efniskaflanna sjö skiptist í mismunandi marga undirkafla. Fyrir þann sem hefur áhuga á að kynna sér ákveðið árabil eða atvik sem snertir hæstarétt sérstaklega á þessum 100 árum er auðvelt að finna það og rekja sig áfram.
Höfundurinn Arnþór Gunnarsson (f. 1965) er kynntur sem sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Hann lauk sagnfræðinámi með meistaraprófi frá Háskóla Íslands árið 2010. Meðal bóka hans eru Saga Hafnar í Hornafirði I-II (1997 og 2000), Guðni í Sunnu. Endurminningar og uppgjör (2006) og Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi (2018).
Í þakkarorðum í lok bókar (s. 467) segir höfundur að ritnefnd hafi veitt honum „fræðilegt frelsi“ við að móta og vinna verkið. „Einu fyrirmælin voru þau að ritið ætti að höfða til almennings og stefnt væri að útgáfu á hundrað ára afmæli réttarins.“ Ritið kom út ári síðar enda segir höfundur að skrifin hafi orðið „umfangsmeiri“ en hann gerði sér í hugarlund. Ritnefnd hafi lagt „drjúgan skerf til verksins“ með yfirlestri og athugasemdum. Hann þakkar einnig ráðgjafanefnd sagnfræðinganna: „Án aðkomu þeirra hefði verkið orðið snöggtum rýrara að gæðum.“
Bókin er lipurlega skrifuð. Efnistökin snúa að deilum utan réttarins um tilvist hans og skipun eða framgöngu einstakra dómara. Athygli beinist lítið að því hvernig dómararnir leysa úr ágreiningi með túlkun á lögunum og dómi. Málin sem nefnd eru til sögunnar eru alkunn. Tilvísanir eru einkum í þingtíðindi, dagblöð og vefsíður.
Lengsti kaflinn, Baráttan um Hæstarétt (1920-1935), er rúmar 100 bls. og hryggjarstykkið snýr að Jónasi Jónssyni frá Hriflu og stríði hans við dómara. Þar eru langar upprifjanir á umræðum á alþingi og deiluatriðum eða viðhorfum einstakra þingmanna sem skipta í raun engu fyrir hæstarétt þótt um hann hafi verið rætt og rifist.
Rakinn er gamalgróinn ágreiningur um hvernig staðið skuli að skipun dómara. Ekki er lagt sjálfstætt mat á hvort í raun hafi verið valdir óhæfir menn til setu í hæstarétti þótt hart hafi verið deilt um skipun þeirra.
Vissulega getur verið forvitnilegt að líta á pólitísk ágreiningsmál frá sjónarhóli hæstaréttar. Frásögn höfundar bætir hvergi neinu nýju við sem máli skiptir. Hann er á bandi þeirra sem telja ákvarðanir stjórnmálamanna ófaglegar þegar dómarar eru skipaðir.
Viðhorfið er að stjórnmálamenn vilji sjá til þess að í hæstarétti sitji menn sem virði skoðun þess sem skipar en ekki það sem lögin segja. Hampað er orðum Svans Kristjánssonar prófessors að í ljósi þess „að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi valið flesta sitjandi dómara við Hæstarétt kunni forysta flokksins að hafa litið svo á að því fleiri dómarar sem skipuðu dóm, því meiri líkur væru til að dómurinn yrði forystunni að skapi“. (384) Þess vegna hefðu forystumenn flokksins gagnrýnt „að einungis fimm dómarar réttarins hefðu skipað dóm í öryrkjamálinu“. (383)
Getgátur af þessu tagi eru fyrst og síðast vantraust og lítilsvirðing í garð dómaranna sem skipaðir hafa verið til að dæma eftir lögum og lögskýringargögnum. Stjórnmálamenn eru réttmætur skotspónn í lýðræðisríki en aðför að réttarríkinu með aðdróttunum í garð dómurum sem skipaðir eru á lögmætan hátt og væna þá um vanhæfni af því að menn eiga í útistöðum við veitingarvaldshafann er ósæmileg.
Hátimbruð umgjörð til leiðbeiningar höfundi verksins hindrar ekki að hann vitni í nafnlausa heimildarmenn og útprentun á einkatölvubréfum þegar hann ræðir um vinnuskjal sem aldrei fór formlega út úr dómsmálaráðuneytinu og segir síðan að Halldór Ásgrímsson, nýorðinn forsætisráðherra, hafi stöðvað eitthvað sem ekkert var. Hefði verið hægur vandi að kanna þetta mál til hlítar og aftra því að svo meinleg villa færi þarna á prent. (397)
Höfundur ræðir ekki aðeins pólitíska umgjörð hæstaréttar heldur einnig ytri búnað og húsakost hans. Hugmyndinni um að hann fengi inni í Safnahúsinu við Hverfisgötu var hafnað. Harðar deilur urðu svo um staðarvalið milli Safnahússins og Arnarhvols þar sem réttinum var búin glæsileg umgjörð á tíunda áratugnum. Nú er ekki fundið að því að húsnæðismál réttarins voru leyst á þennan farsæla hátt frekar en menn geri almennt veður út af atvikum sem valdið hafa deilum vegna hæstaréttar undanfarin 100 ár.
Saga hæstaréttar sýnir hve léttvægar deilur um einstök ytri atvik sem snerta réttinn eru í raun þótt mörgum hlaupi kapp í kinn í hita leiksins. Mestu skiptir að Hæstiréttur Íslands sé hafinn yfir gagnrýni vegna verka sinna og þar sé innan dyra haldið á málum á þann veg að ekki valdi tortryggni.