2.7.2022

Grunnstefna um öryggi Íslands

Morgunblaðið, laugardagur 2. júlí 2022.

Rík­is­odd­vita­fund­ur NATO í Madrid í vik­unni var hald­inn á stríðstíma í Evr­ópu, Rúss­ar beita herafla til land­vinn­inga í ná­granna­ríki sínu. Á fund­in­um réðst end­an­lega að Finn­ar og Sví­ar hverfa frá stefnu sinni um stöðu utan hernaðarbanda­laga. Þá var samþykkt ný grunn­stefna (e. stra­tegic concept) NATO í stað stefnu sem gilt hef­ur frá 2010.

Á topp­fundi NATO í Brus­sel fyr­ir ári var Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóra NATO, falið að hafa for­ystu um að semja nýja grunn­stefnu NATO. Efnt var til fjölþjóðlegs sam­ráðs inn­an og utan NATO í því skyni að móta stefnu banda­lags­ins til framtíðar. Verk­efnið tók á sig skarp­ari mynd vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu 24. fe­brú­ar 2022.

Í stefn­unni frá 2010 var litið á Rússa sem „strategísk­an sam­starfsaðila“ nú seg­ir að Rúss­ar hafi brotið gegn öllu sem standi að baki stöðug­leika og fyr­ir­sjá­an­leika í evr­ópsk­um ör­ygg­is­mál­um. Ekki sé unnt að úti­loka að Rúss­ar ráðist á full­veldi og landsvæði ein­hvers NATO-rík­is. Bein ógn frá Rúss­um steðji að ör­yggi banda­lagsþjóðanna og friði og stöðug­leika á Evró-Atlants­hafs­svæðinu. Rúss­ar reyni að skapa sér áhrifa­svæði og beina stjórn með nauðung, und­ir­róðri, árás og inn­limun. Þeir beiti hefðbundn­um, net­vædd­um og fjölþátta aðferðum gegn NATO-þjóðunum og sam­starfsþjóðum þeirra. Það sé strategísk áskor­un fyr­ir NATO að tak­ast á við hernaðarleg­an styrk Rússa sem beitt yrði til að hindra liðsflutn­inga banda­lagsþjóða til landsvæða á norður­slóðum (e. High North) og frjáls­ar sigl­ing­ar yfir Norður-Atlants­haf.

Þá seg­ir einnig í grunn­stefn­unni að ör­yggi á höf­un­um sé lyk­ill að friði og far­sæld NATO-ríkj­anna. Boðað er að efld­ur verði her­styrk­ur og ástands­mat til frá­fæl­andi aðgerða og varna gegn ógn­um á höf­um úti, til að tryggja frjáls­ar sigl­ing­ar, skapa ör­yggi á sigl­inga­leiðum og vernda helstu fjar­skipta­leiðir þjóðanna.

Þetta eru ný­mæli í grunn­stefnu NATO og þarna er vísað beint til þess sem snert­ir ör­ygg­is­um­hverfi Íslands. Í orðunum er í raun áréttað hve mik­il skamm­sýni felst í því að halda að inn­rás­in í Úkraínu hafi ekki áhrif hér á Norður-Atlants­hafi eins og hvarvetna ann­ars staðar þegar litið er til ör­ygg­is­mála í Evr­ópu. Hún kall­ar á að ný viðmið séu sett þegar litið er til þjóðarör­ygg­is okk­ar Íslend­inga.

Sam­kvæmt varn­ar­mála­lög­un­um frá ár­inu 2008 ber ut­an­rík­is­ráðherra „ábyrgð á gerð hættumats á sviði varn­ar­mála og mót­un og fram­kvæmd ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu Íslands á alþjóðavett­vangi“. Grunn­stefna NATO sem samþykkt var í Madrid af ís­lensku rík­is­stjórn­inni og staðfest með þátt­töku for­sæt­is­ráðherra og ut­an­rík­is­ráðherra í rík­is­odd­vita­fund­in­um legg­ur þá skyldu á herðar ut­an­rík­is­ráðherra að haga of­an­greindu mati sínu á grund­velli henn­ar og kynna það inn­an lands og utan.

Þetta er skýr­asta op­in­bera end­ur­matið á stöðu Íslands í ör­ygg­is­mál­um sem rík­is­stjórn­in og NATO-rík­in hafa samþykkt og birt frá því að varn­ar­liðið hvarf úr landi árið 2006 og gert var áhættumat af ís­lensk­um stjórn­völd­um árið 2009.

Gildi rúss­neska Norður­flot­ans sem sæk­ir út á Atlants­haf frá Kóla­skag­an­um fyr­ir aust­an Nor­eg eykst eft­ir því sem styrk­ur land­hers Rússa minnk­ar. Sýn­ir Pút­in vald sitt með þess­um flota? Eng­inn get­ur svarað þeirri spurn­ingu.

220630b-008_rdax_775x517sJens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, mundar hamarinn í upphafi fundanna í Madrid.

Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, sagði oft í aðdrag­anda Madrid-fund­ar­ins að þar yrðu þátta­skil, „grund­vall­ar­breyt­ing á af­stöðu“ til þess hvernig standa ætti að hlut­verki NATO sem varn­ar­banda­lags. Banda­lagið legg­ur nú að nýju höfuðáherslu á fæl­ing­ar­mátt og varn­ir (e. deter­rence – defence). Á sjö­unda ára­tugn­um þegar ut­an­rík­is­ráðherr­ar NATO-ríkj­anna komu sam­an til fund­ar hér á landi í fyrsta sinn árið 1968 var ákveðið að leggja deter­rence – defence – détente, það er fæl­ing­ar­mátt, varn­ir og slök­un á spennu, til grund­vall­ar í af­stöðu NATO-þjóðanna til Sov­ét­manna.

Þá eins og nú vilja banda­lagsþjóðirn­ar leysa mál friðsam­leg­a. Von­in um að unnt sé að eiga sam­skipti á þeim grund­velli við Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seta brást og óvissa set­ur svip sinn á ör­ygg­is­mál í stað stöðug­leika.

Ein­mitt þess vegna sóttu Finn­ar og Sví­ar um aðild að NATO. Allt það ferli tók ótrú­lega skamm­an tíma. Það liðu ekki held­ur nema fá­ein­ir dag­ar frá því að Pút­in réðst inn í Úkraínu þar til Olaf Scholz Þýska­landskansl­ari kynnti vatna­skil í þýsk­um ör­ygg­is­mál­um með stór­aukn­um fjár­veit­ing­um til varn­ar­mála sem samþykkt­ar voru með stjórn­ar­skrár­breyt­ingu. Þá hef­ur ESB með hraði samþykkt Úkraínu og Moldovu sem um­sókn­ar­ríki.

Sögu­leg um­skipti hafa orðið á skömm­um tíma. Póli­tíska umboðið sem Madrid-grunn­stefn­an veit­ir her­stjórn­um NATO er mun rót­tæk­ara en við blasti í árs­byrj­un. Við það bæt­ist síðan ákvörðunin um að fjölga mönn­um í herafla NATO í viðbragðsstöðu úr 40.000 í 300.000. Auk þess ætl­ar Banda­ríkja­stjórn að senda til Evr­ópu fleiri her­menn, fleiri orr­ustuþotur og fjölga tund­ur­spill­um úr fjór­um í sex. Fram­varðarsveit­ir verða efld­ar nærri landa­mær­um Rúss­lands og Pól­verj­ar fá banda­ríska her­stjórn í landi sínu eins og þeir hafa lengi viljað.

Hér á landi skort­ir aðila, fræðileg­an og inn­an stjórn­kerf­is­ins, sem afl­ar upp­lýs­inga og legg­ur mat á breyt­ing­ar sem snerta ytra ör­yggi rík­is­ins og ger­ir til­lög­ur til stjórn­valda um aðgerðir vegna þeirra. Ein­mitt þess vegna eru álykt­an­ir NATO-funda og grunn­stefna banda­lags­ins mik­il­væg­ari leiðar­vís­ir en ella fyr­ir ís­lensk stjórn­völd. Þar fer ekki á milli mála hvaða skuld­bind­ing­ar NATO-rík­is­stjórn­irn­ar hafa axlað til að tryggja eig­in borg­ur­um ör­yggi.