20.1.2024

Grindvíkingar fái verðugt skjól

Morgunblaðið, laugardagur, 20. janúar 2024


Í lok janú­ar 2020 birt­ist frétt um að land hefði risið nokkuð hratt í Svartsengis­kerfi, einu eld­stöðva­kerf­anna á Reykja­nesskag­an­um. Í fjög­ur ár hafa Grind­vík­ing­ar búið við jarðskjálfta og hættu á eld­gos­um. Eng­inn get­ur sett sig í þeirra spor.

Aðfaranótt laug­ar­dags­ins 11. nóv­em­ber 2023 voru gef­in fyr­ir­mæli um rým­ingu Grinda­vík­ur. Í tvo mánuði ríkti síðan óvissa um hvað gerðist þar næst.

Þátta­skil­in urðu skýr og öll­um aug­ljós að morgni sunnu­dags­ins 14. janú­ar 2024 þegar tók að gjósa rétt við bæj­ar­mörk­in og hraun rann inn bæ­inn. Áður var ljóst að jarðhrær­ing­ar höfðu myndað lífs­hættu­leg­ar gjár í íbúðahverf­um. Þær hafa haldið áfram að stækka eft­ir að hraun­rennslið stöðvaðist. Þá hef­ur nýr sigdal­ur mynd­ast í aust­ur­hluta bæj­ar­ins.

1464609Hraunið á leið inn í Grindavík, 14. janúar 2024 (mynd: mbl/Árni Sæberg).

Mikið hef­ur áunn­ist í vik­unni með dugnaði þeirra sem lagt hafa hart að sér við að bjarga því sem bjargað verður.

Nú er talið sannað að varn­argarðar dugi til að ráða straumi hrauns­ins þegar það renn­ur fram í því magni sem kom upp í gos­inu 14. janú­ar. Orð sér­fræðinga benda til að gos af þessu tagi kunni að verða tíð á kom­andi árum. Hvað sem líður gerð varn­argarða get­ur eng­inn sagt með vissu hvort gos verði utan eða inn­an garðanna. Óviss­an styrkt­ist sunnu­dag­inn 14. janú­ar þegar gos hófst inn­an nýs varn­argarðs skammt frá byggð í Grinda­vík.

Þess­ir garðar hefðu aldrei risið nema vegna þess að ríkið ákvað að fjár­magna gerð þeirra og fela verk­efnið einkaaðilum. Þeir sýndu mikið áræði að morgni gos­dags­ins við björg­un stór­virkra tækja sinna í myrkri skammt frá hraunjaðrin­um.

Að fylgj­ast með björg­un­inni í beinni út­send­ingu var meira spenn­andi en að horfa á leikna ham­fara­mynd, þarna vissi eng­inn hver yrði end­ir­inn. Tæk­in eru mörg hundruð millj­óna króna virði. Áhætt­an við björg­un­ina var þó ekki tek­in vegna fjár­mun­anna held­ur til að tæk­in mætti nýta áfram til varn­ar Grinda­vík – eng­ar sam­bæri­leg­ar stór­vél­ar eru í land­inu.

Fé­lag pípu­lagn­inga­meist­ara sendi tæp­lega 50 píp­ara þriðju­dag­inn 16. janú­ar til Grinda­vík­ur til að koma hita á hús þar. Dag­inn eft­ir fóru um 30 píp­ar­ar til bæj­ar­ins. Varúðar var gætt og er ekki farið inn í hús á skil­greindu hættu­svæði.

HS Orka leiddi um­fangs­mikla aðgerð mánu­dag­inn 15. janú­ar sem miðaði að því að koma heitu vatni á nýja stofn­lögn frá Svartsengi að dreifi­kerfi HS Veitna í Grinda­vík. Píp­ar­arn­ir fóru til Grinda­vík­ur eft­ir að heitt vatn var aft­ur komið á hús og skiluðu störf þeirra góðum ár­angri.

Hluti nýju stofn­lagn­ar­inn­ar ligg­ur nú und­ir hrauni. Var ótt­ast að vatn syði í lögn­inni und­ir hraun­inu. Allt gekk þó að ósk­um og streym­ir vatn nú um lögn­ina. Fram­kvæmd­ir við þessa nýju heita­vatns­lögn til Grinda­vík­ur voru á loka­metr­un­um þegar tók að gjósa 14. janú­ar en gamla lögn­in laskaðist í jarðhrær­ing­um árið 2022. Ekki tókst að hylja nýju lögn­ina áður en gosið hófst og stóð hún því óvar­in gegn hraun­inu.

Raf­streng­ur til Grinda­vík­ur var tek­inn út aðfaranótt sunnu­dags­ins 14. janú­ar vegna jarðhrær­inga en hraun rann síðar yfir hluta þess svæðis þar sem hann ligg­ur í jörðu. Síðdeg­is 15. janú­ar tókst sér­fræðing­um HS Orku ásamt HS Veit­um að setja spennu á há­spennu­streng sem ligg­ur frá Svartsengi til Grinda­vík­ur.

Með út­sjón­ar­semi allra sem komu að þess­um víðtæku björg­un­araðgerðum var heitt vatn og raf­magn komið í bæ­inn rúm­lega sól­ar­hring eft­ir að gos hófst. Þar með tókst að forða mann­virkj­um frá miklu tjóni vegna frost­skemmda.

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, sem nýt­ur víðtæks trausts vegna var­kárni sinn­ar seg­ir lík­legt að svipað ástand verði áfram í Grinda­vík og var um gos­helg­ina. Full­kom­in óvissa ríki um hvar gos hefj­ist, sem geri stöðuna erfiða fyr­ir Grind­vík­inga. Hann sagði á fjöl­menn­um fundi með þeim þriðju­dag­inn 16. janú­ar að við nú­ver­andi aðstæður væri mjög erfitt að sjá að það yrði „skyn­sam­legt að búa í Grinda­vík“. Taldi hann bæj­ar­búa, stjórn­völd og alla verða að búa sig und­ir að finna ásætt­an­leg­ar lausn­ir til langs tíma og þar ætti hann ekki við mánuði.

Þetta er staðan þegar alþingi kem­ur sam­an eft­ir jóla­hlé en boðað hef­ur verið að rík­is­stjórn­in ætli að taka á mál­inu með laga­setn­ingu. Tveir þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, Vil­hjálm­ur Árna­son og Óli Björn Kára­son, hafa hreyft þeirri hug­mynd að ríkið kaupi allt íbúðar­hús­næði í Grinda­vík sem Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing komi ekki til með að bæta og veiti íbú­un­um for­kaups­rétt að þeim.

Við brott­för banda­ríska varn­ar­liðsins árið 2006 skildi það eft­ir mann­virki sem höfðu þjónað allt að 5.000 manna sam­fé­lagi, íbúðar­hús, iðnaðar- og þjón­ustu­hús­næði, sjúkra­hús, skóla, fé­lags­miðstöð. Eng­inn vissi hvað yrði um þess­ar eign­ir. Sum­ir vildu fara með jarðýtu og jafna allt við jörðu. Þá var þró­un­ar­fé­lagið Kadeco stofnað til að hafa um­sjón með og selja eign­irnar. Ríkið hef­ur nú fengið tugi millj­arða króna að nú­v­irði fyr­ir þær.

Nú er kjarna­verk­efni Kadeco að leiða sam­starf um að auka virði svæðis­ins í ná­grenni Kefla­vík­ur­flug­vall­ar. Fé­lagið hef­ur átt náið sam­starf við sveit­ar­fé­lög á Suður­nesj­um. Þegar rík­is­valdið ákveður að taka að sér verk­efni á borð við það sem nú blas­ir við í Grinda­vík á að nýta þau tæki sem til eru og þar sem fyr­ir er reynsla af um­sjón fjöl­breyttra fast­eigna og sölu þeirra.

Nú eru góð ráð dýr. Reynsl­an af sam­vinnu op­in­berra og einkaaðila við úr­lausn brýnna verk­efna í Grinda­vík nú í vik­unni sýn­ir að rík­is­vald­inu ber að halda sig við stefnu­mörk­un en treysta einkaaðilum fyr­ir fram­kvæmd­inni.