Greining á rússnesku hruni
Morgunblaðið, laugardagur 6. ágúst 2022.
Fyrir þjóðarbúskap Rússa vegur útflutningur á olíu miklu þyngra
en á gasi. Á árinu 2021 námu útflutningstekjur af olíu um 45% af
tekjum rússneska ríkissjóðsins. Olíutekjurnar voru um þrefalt
hærri en af gasútflutningi. Innan við 10% af olíuvinnslu Rússa er í
höndum sjálfstæðra aðila. Hlutur ríkisins og ríkisfyrirtækja
hefur aukist jafnt og þétt, einkum eftir að athygli beindist í
meira mæli að olíu- og gasvinnslu á Jamalskaga í Síberíu og á
norðurslóðum (e. Arctic).
Í nýlegri skýrslu fimm rannsakenda við Yale-háskóla í Bandaríkjunum um hrikalegar afleiðingar vestrænna refsiaðgerða á efnahag Rússlands segir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti fylgist náið með verðþróun á olíumörkuðum enda sé það olía og gas sem geri Rússa gildandi í heimsbúskapnum, þeir séu þriðji stærsti olíuframleiðandi heims en vegi aðeins 3% þegar litið sé til hlutdeildar þeirra í vergri heimsframleiðslu.
Á fyrsta áratug aldarinnar þegar Pútin festi sig í sessi sem stjórnandi Rússlands naut hann góðs af hækkun hrávöru á heimsmarkaðnum. Olíuverðshækkanir auðvelduðu honum að herða valdatök sín og afla sér virðingar. Rifjað er upp að olíuverð hækkaði úr 30 dollurum tunnan árið 2003 í 147,30 dollara í júlí 2008. Rússum tókst að auka útflutningsverðmæti olíu sinnar áttfalt frá 2000 til 2012. Samhliða aukinni framleiðslu hækkaði olíuverðið og útflutningsmagnið. Peningum var dælt í sjóði ríkisins og hundruð milljarða voru fest í gjaldeyrisvarasjóðum.
Yale-menn segja að nú glími Rússar við mun meiri vanda við útflutning á hrávöru en almennt sé rætt um í fréttum. Heildartekjur þeirra af olíu og gasi hafi lækkað um meira en helming í maí miðað við apríl 2022 sé tekið mið af opinberum rússneskum tölum. Rússar hafi í raun sveigt verulega frá því framtíðarmarkmiði sínu um að ná lykilstöðu á hrávörumarkaðnum.
Þrátt fyrir upphrópanir Moskvumanna um „efnahagslega seiglu Rússlands“ eða áróður Pútins um hvernig olíu- og gasfyrirtækjunum hafi tekist að sigrast á þvingunum Vesturlanda sé kaldi veruleikinn sá að tilvist Rússa á olíumörkuðum þeirra sé ógnað vegna brotthlaups erlendra kaupenda. Útilokunin frá vestrænum olíumörkuðum kippi stoðunum undan sterkri samningsstöðu gagnvart Kínverjum og Indverjum sem séu frægir að endemum sem tilætlunarsamir kaupendur þegar kemur að kaupverði þeirra. Hvorug þjóðin hafi í öðrum tilvikum hikað við að nýta sér til fulls vandræði annarra úhraksríkja sem sæti refsiaðgerðum. Kínverjar séu alræmdir fyrir að gera reglulega samninga um stór olíukaup á niðursetti verði við seljendur í Íran og Venesúela.
Þó skipti ef til vill enn meira máli að til þess að snúa viðskiptum
sínum í austur verði Pútin að ráða yfir tækni til gera olíu og gas
hæft til flutnings í leiðslum frá norðurslóðum til kaupenda. Eftir
að erlendir samstarfsaðilar sögðu skilið við rússnesku fyrirtækin
Rosneft og Gazprom hafi þessir orkurisar sjálfir enga burði til að
geta nýtt sér til gagns gífurlegar olíu- og gaslindir, einkum í
Síberíu og á norðurslóðum, og því síður að koma eldsneytinu á markað.
Til skamms tíma þýði þetta að rússenska ríkið fari á mis við
lífsnauðsynlegar skatttekjur fyrir utan að tapa stöðu sinni og
trúverðugleika á heimsmarkaði og sem félagi í OPEC+
félagsskapnum. Nú verði þeir hins vegar að skríða á hnjánum til
Kínverja og Indverja í von um að þeir kaupi eitthvað af þeim á miklu
afsláttarverði.
Sé litið til lengri tíma verði tæknileg vandamál Rússa og getuleysi til að komast inn á alþjóðlega markaði næstum örugglega til að minnka olíuframleiðslu þeirra á dramatískan hátt enda haldi erlendir fjárfestar sig víðsfjarri ásamt tækni og þekkingu. Vegna hruns rússnesku olíuvinnslunnar, helstu tekjulindar rússneska ríkissjóðsins, verði þjóðarbúskapur Rússa aðeins svipur hjá sjón.
Þarna er dregin upp allt önnur mynd en þeir birta sem vilja gera sem minnst úr áhrifum vestrænna efnahagsþvingana sem eiga að knýja Rússa til að láta af stríðsaðgerðum sínum í Úkraínu. Ofangreind lýsing á stöðu rússneskrar olíu- og gasvinnslu er trúverðugri en að allt gangi þeim fjárhagslega í haginn þar sem verð á olíu og gasi hafi hækkað úr öllu hófi vegna stríðsins.
Skýrslan (118 bls.) var birt 19. júlí en síðan hefur hún verið uppfærð á netinu þar sem auðvelt er að nálgast hana.
„Þrátt fyrir hugaróra Pútins um sjálfsþurftarbúskap og heima-varning í stað innflutts hefur heima-framleiðslan algjörlega stöðvast og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta sem horfin eru, hvorki með vörur né mannafla; eftir útþurrkun á nýsköpun og framleiðslu á heimavelli hefur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neytenda,“ segir Yale-hópurinn.
Skýrsluhöfundarnir fimm benda á að niðurstöður þeirra stangist á við ítrekaðar fullyrðingar um að refsiaðgerðirnar skaði þjóðirnar í vestri meira en Rússa. Þeir segja:
„Þegar fimmti mánuður innrásarstríðs Rússa hefst hefur sú almenna skoðun birst að einhugur þjóða heims um andstöðu gegn Rússum hafi einhvern veginn þróast í „efnahagslegt þreytustríð sem sé Vestrinu dýrkeypt“ vegna svonefndrar „seiglu“ og jafnvel „hagsældar“ í rússneskum þjóðarbúskap“.
„Þetta eru einfaldlega ósannindi,“ segir í skýrslunni.
Hagsmunir Pútins felast í blekkingum út á við um efnahag Rússa. Inn á við bannar forsetinn að hernaður hans sé kallaður stríð. Þeir sem gera það eru fangelsaðir. Notum frelsið til að greina og lýsa hlutunum eins og þeir eru.