6.8.2022

Greining á rússnesku hruni

Morgunblaðið, laugardagur 6. ágúst 2022.

Fyr­ir þjóðarbú­skap Rússa veg­ur út­flutn­ing­ur á olíu miklu þyngra en á gasi. Á ár­inu 2021 námu út­flutn­ings­tekj­ur af olíu um 45% af tekj­um rúss­neska rík­is­sjóðsins. Ol­íu­tekj­urn­ar voru um þre­falt hærri en af gasút­flutn­ingi. Inn­an við 10% af olíu­vinnslu Rússa er í hönd­um sjálf­stæðra aðila. Hlut­ur rík­is­ins og rík­is­fyr­ir­tækja hef­ur auk­ist jafnt og þétt, einkum eft­ir að at­hygli beind­ist í meira mæli að olíu- og gas­vinnslu á Jamalskaga í Síberíu og á norður­slóðum (e. Arctic).

Í ný­legri skýrslu fimm rann­sak­enda við Yale-há­skóla í Banda­ríkj­un­um um hrika­leg­ar af­leiðing­ar vest­rænna refsiaðgerða á efna­hag Rúss­lands seg­ir að Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seti fylg­ist náið með verðþróun á ol­íu­mörkuðum enda sé það olía og gas sem geri Rússa gild­andi í heims­bú­skapn­um, þeir séu þriðji stærsti olíu­fram­leiðandi heims en vegi aðeins 3% þegar litið sé til hlut­deild­ar þeirra í vergri heims­fram­leiðslu.

Á fyrsta ára­tug ald­ar­inn­ar þegar Pút­in festi sig í sessi sem stjórn­andi Rúss­lands naut hann góðs af hækk­un hrávöru á heims­markaðnum. Olíu­verðshækk­an­ir auðvelduðu hon­um að herða valda­tök sín og afla sér virðing­ar. Rifjað er upp að olíu­verð hækkaði úr 30 doll­ur­um tunn­an árið 2003 í 147,30 doll­ara í júlí 2008. Rúss­um tókst að auka út­flutn­ings­verðmæti olíu sinn­ar átt­falt frá 2000 til 2012. Sam­hliða auk­inni fram­leiðslu hækkaði olíu­verðið og út­flutn­ings­magnið. Pen­ing­um var dælt í sjóði rík­is­ins og hundruð millj­arða voru fest í gjald­eyr­is­vara­sjóðum.

Yale-menn segja að nú glími Rúss­ar við mun meiri vanda við út­flutn­ing á hrávöru en al­mennt sé rætt um í frétt­um. Heild­ar­tekj­ur þeirra af olíu og gasi hafi lækkað um meira en helm­ing í maí miðað við apríl 2022 sé tekið mið af op­in­ber­um rúss­nesk­um töl­um. Rúss­ar hafi í raun sveigt veru­lega frá því framtíðarmark­miði sínu um að ná lyk­il­stöðu á hrávörumarkaðnum.

Þrátt fyr­ir upp­hróp­an­ir Moskvu­manna um „efna­hags­lega seiglu Rúss­lands“ eða áróður Pút­ins um hvernig olíu- og gas­fyr­ir­tækj­un­um hafi tek­ist að sigr­ast á þving­un­um Vest­ur­landa sé kaldi veru­leik­inn sá að til­vist Rússa á ol­íu­mörkuðum þeirra sé ógnað vegna brott­hlaups er­lendra kaup­enda. Útil­ok­un­in frá vest­ræn­um ol­íu­mörkuðum kippi stoðunum und­an sterkri samn­ings­stöðu gagn­vart Kín­verj­um og Ind­verj­um sem séu fræg­ir að endem­um sem til­ætl­un­ar­sam­ir kaup­end­ur þegar kem­ur að kaup­verði þeirra. Hvor­ug þjóðin hafi í öðrum til­vik­um hikað við að nýta sér til fulls vand­ræði annarra úhraks­ríkja sem sæti refsiaðgerðum. Kín­verj­ar séu al­ræmd­ir fyr­ir að gera reglu­lega samn­inga um stór ol­íu­kaup á niður­setti verði við selj­end­ur í Íran og Venesúela.

Þó skipti ef til vill enn meira máli að til þess að snúa viðskipt­um sín­um í aust­ur verði Pút­in að ráða yfir tækni til gera olíu og gas hæft til flutn­ings í leiðslum frá norður­slóðum til kaup­enda. Eft­ir að er­lend­ir sam­starfsaðilar sögðu skilið við rúss­nesku fyr­ir­tæk­in Ros­neft og Gazprom hafi þess­ir ork­uris­ar sjálf­ir enga burði til að geta nýtt sér til gagns gíf­ur­leg­ar olíu- og gas­lind­ir, einkum í Síberíu og á norður­slóðum, og því síður að koma eldsneyt­inu á markað. Til skamms tíma þýði þetta að rús­senska ríkið fari á mis við lífs­nauðsyn­leg­ar skatt­tekj­ur fyr­ir utan að tapa stöðu sinni og trú­verðug­leika á heims­markaði og sem fé­lagi í OPEC+ fé­lags­skapn­um. Nú verði þeir hins veg­ar að skríða á hnján­um til Kín­verja og Ind­verja í von um að þeir kaupi eitt­hvað af þeim á miklu af­slátt­ar­verði.

Oil_Putinjpg_JVOaLN6.width-800

Sé litið til lengri tíma verði tækni­leg vanda­mál Rússa og getu­leysi til að kom­ast inn á alþjóðlega markaði næst­um ör­ugg­lega til að minnka olíu­fram­leiðslu þeirra á drama­tísk­an hátt enda haldi er­lend­ir fjár­fest­ar sig víðsfjarri ásamt tækni og þekk­ingu. Vegna hruns rúss­nesku olíu­vinnsl­unn­ar, helstu tekju­lind­ar rúss­neska rík­is­sjóðsins, verði þjóðarbú­skapur Rússa aðeins svip­ur hjá sjón.

Þarna er dreg­in upp allt önn­ur mynd en þeir birta sem vilja gera sem minnst úr áhrif­um vest­rænna efna­hagsþving­ana sem eiga að knýja Rússa til að láta af stríðsaðgerðum sín­um í Úkraínu. Of­an­greind lýs­ing á stöðu rúss­neskr­ar olíu- og gas­vinnslu er trú­verðugri en að allt gangi þeim fjár­hags­lega í hag­inn þar sem verð á olíu og gasi hafi hækkað úr öllu hófi vegna stríðsins.

Skýrsl­an (118 bls.) var birt 19. júlí en síðan hef­ur hún verið upp­færð á net­inu þar sem auðvelt er að nálg­ast hana.

„Þrátt fyr­ir hugaróra Pút­ins um sjálfsþurft­ar­bú­skap og heima-varn­ing í stað inn­flutts hef­ur heima-fram­leiðslan al­gjör­lega stöðvast og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta sem horf­in eru, hvorki með vör­ur né mannafla; eft­ir útþurrk­un á ný­sköp­un og fram­leiðslu á heima­velli hef­ur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neyt­enda,“ seg­ir Yale-hóp­ur­inn.

Skýrslu­höf­und­arn­ir fimm benda á að niður­stöður þeirra stang­ist á við ít­rekaðar full­yrðing­ar um að refsiaðgerðirn­ar skaði þjóðirn­ar í vestri meira en Rússa. Þeir segja:

„Þegar fimmti mánuður inn­rás­ar­stríðs Rússa hefst hef­ur sú al­menna skoðun birst að ein­hug­ur þjóða heims um and­stöðu gegn Rúss­um hafi ein­hvern veg­inn þró­ast í „efna­hags­legt þreytu­stríð sem sé Vestr­inu dýr­keypt“ vegna svo­nefndr­ar „seiglu“ og jafn­vel „hag­sæld­ar“ í rúss­nesk­um þjóðarbú­skap“.

„Þetta eru ein­fald­lega ósann­indi,“ seg­ir í skýrsl­unni.

Hags­mun­ir Pút­ins fel­ast í blekk­ing­um út á við um efna­hag Rússa. Inn á við bann­ar for­set­inn að hernaður hans sé kallaður stríð. Þeir sem gera það eru fang­elsaðir. Not­um frelsið til að greina og lýsa hlut­un­um eins og þeir eru.