16.10.2021

Grænland í brennidepli

Morgunblaðið, 16. október 2021

Að nýju koma hundruð manna nú sam­an hér á landi í lok þess­ar­ar viku und­ir merkj­um Arctic Circle þar sem Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son er enn í for­ystu eins og hann var sem for­seti Íslands þegar hann beitti sér fyr­ir að ráðstefn­an var fyrst hald­in árið 2013.

Í fyrra varð að fresta fund­un­um hér vegna heims­far­ald­urs­ins. Á setn­ing­ar­fund­in­um á fimmtu­dag mátti heyra að mörg­um ræðumann­in­um væri létt að fá að tala til fólks á staðnum en ekki um netið.

Ólaf­ur Ragn­ar sagði við þétt­set­inn sal Silf­ur­bergs í Hörpu að þetta væri fyrsta fjöl­menna alþjóðlega ráðstefn­an í Evr­ópu eft­ir heims­far­ald­ur­inn. Nefndi hann margt annað sem væri sögu­legt og fyrst tengt hring­borði norðurs­ins að þessu sinni. Í mörg­um fyr­ir­lestra­heit­um kem­ur orðið nýtt fyr­ir. Á setn­ing­ar­fund­in­um var kynnt ný norður­slóðastefna ESB, nýir stjórn­end­ur norður­skauts­mála í stjórn­kerfi Banda­ríkj­anna létu ljós sitt skína í pall­borðsum­ræðum und­ir stjórn Ólafs Ragn­ars. Græn­lensk­ur ráðherra kynnti stefnu nýrr­ar stjórn­ar Græn­lands.

IMG_4157Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ræðu á setningarfundi Arctic Circle.

Í vik­unni boðaði rík­is­stjórn Rúss­lands að norður­leiðin svo­nefnda, sigl­inga­leiðin milli Atlants­hafs og Kyrra­hafs, yrði opin til skipa­ferða all­an árs­ins hring frá og með ár­inu 2022 eða 2023. Þá halda Rúss­ar fast við þau áform sín að auka flutn­inga­magn á norður­leiðinni í 80 millj­ón­ir tonna á ári en magnið var 33 millj­ón­ir tonna í fyrra.

Áður en Rúss­ar tóku við for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu í maí 2021 var vak­in at­hygli á yf­ir­lýs­ing­um þeirra á heima­velli um að styrkja yrði rúss­neska her­inn og flot­ann í norðri til að gæta gíf­ur­legra rúss­neskra auðlinda þar og mann­virkj­anna miklu sem hafa verið reist til að nýta þau. Gera yrði ráðstaf­an­ir til að tryggja yf­ir­ráðin og halda öðrum þjóðum í hæfi­legri fjar­lægð.

Norður­skauts­ráðið fjall­ar ekki um hernaðarleg mál­efni. Op­in­ber­lega fylgja öll ríki ráðsins lág­spennu­stefnu þar í sam­skipt­um sín­um. Fyr­ir Rússa er erfitt að sam­eina mark­miðin um stór­aukna sjó­flutn­inga eft­ir Norður­leiðinni og stór­karla­leg­ar yf­ir­lýs­ing­ar þeirra um hernaðarmátt sinn á þess­um slóðum. Viðskipti og vopnaglam­ur fara ekki sam­an.

Til að árétta sigl­inga­frelsið hafa Banda­ríkja­menn og Bret­ar sent her­skip aust­ur í Bar­ents­haf. Franski flot­inn sendi nýtt stuðnings­skip sitt, Rhô­ne, eft­ir Norður­leiðinni frá Tromsø í Nor­egi til Dutch Har­bor í Alaska dag­ana 1. til 17. sept­em­ber 2019. Óljóst er hvort Frakk­ar höfðu sam­ráð við Rússa áður en ferðin hófst. Rúss­ar segja skipið hafa birst „fyr­ir­vara­laust“. Því var siglt án ís­brjóts og leiðsagn­ar. Eft­ir för skips­ins hertu Rúss­ar eft­ir­lits­regl­ur sín­ar.

Hvað sem hernaðarlegri hlið þró­un­ar­inn­ar á norður­slóðum líður telja full­trú­ar Banda­ríkja­stjórn­ar að inn­an vé­banda Norður­skauts­ráðsins sé ein­stak­ur vett­vang­ur fyr­ir sig til sam­starfs við Rússa um álita­mál sem snerta svæðið og fleiri mál eins og sannaðist þegar ut­an­rík­is­ráðherr­ar land­anna hitt­ust á fundi í Hörpu í maí og lögðu grunn að fundi for­set­anna Joes Bidens og Vla­dimirs Pút­ins í Genf um miðjan júní 2021.

Virg­inijus Sin­kevicius, sem fer með um­hverf­is-, út­hafs- og fisk­veiðimál í fram­kvæmda­stjórn ESB, kynnti nýja norður­slóðastefnu Evr­ópu­sam­bands­ins.

ESB-þingið ályktaði um efni henn­ar miðviku­dag­inn 6. októ­ber og lagði sér­staka áherslu á nauðsyn þess að norður­slóðarík­in og alþjóðasam­fé­lagið í heild gætti áfram að því að friður og lág­spenna ríktu í norðri sam­hliða raun­hæfri sam­vinnu. ESB hef­ur sótt um áheyrn­araðild að Norður­skauts­ráðinu en ekki fengið. Sin­kevičius gaf þó til kynna að af­greiðsla um­sókn­ar­inn­ar væri kom­in á beinu braut­ina.

Nicola Stur­geon, fyrsti ráðherra Skot­lands, sagðist fyrst hafa sótt Arctic Circle árið 2016. Síðan hefðu norður­slóðarann­sókn­ir marg­fald­ast við skoska há­skóla og áhugi á að líta til norðurs stór­auk­ist. Ólaf­ur Ragn­ar met­ur mik­ils að Stur­geon taki þátt í fund­un­um. Að lok­inni ræðu henn­ar lét hann bregða upp korti þar sem rauð lína var dreg­in frá Skotlandi um Ísland og Græn­land að Maine-ríki á aust­ur­strönd Banda­ríkj­anna.

Sagðist hann vilja kynna fyr­ir skoska ráðherr­an­um það sem hann kallaði North Atlantic-Arctic Corridor. Það er hlið Norður-Atlan­hafs inn í Norður-Íshaf sem tengdi sam­an um 600 millj­ón­ir manna.

Áhersl­an er mik­il á Græn­land að þessu sinni á fund­un­um. Græn­lend­ing­ar kynna þar meðal ann­ars vinnu sína við nýja stjórn­ar­skrá en gerð henn­ar er liður í leið þeirra til sjálf­stæðis. Eft­ir að Na­aja Nathanielen, græn­lenski hús­næðis-, mann­virkja-, jarðefna- og jafn­rétt­is­málaráðherr­ann, hafði lýst þeirri stefnu stjórn­ar­inn­ar að banna olíu- og gas­leit við Græn­land, við lófa­tak margra í saln­um, var hún spurð hvernig ætti að fjár­magna græn­lenskt þjóðfé­lag. Hún sagði ekki skyn­sam­legt að veðja á olíu og gas, námu­vinnsla myndi skila Græn­lend­ing­um mun meiru í aðra hönd.

Það er sam­hljóm­ur í olíu- og gas­stefnu Græn­lend­inga og ESB. Sin­kevicius hvet­ur til þess að norður­slóðaríki láti hafs­botn­inn geyma olíu og gas. Hann seg­ir einnig að ESB ætli að opna sendiskrif­stofu í Nuuk eins og Íslend­ing­ar og Banda­ríkja­menn hafa gert. Græn­lend­ing­ar ætla hins veg­ar að opna sendiskrif­stofu í Pek­ing, þeir reka þegar Brus­s­elskrif­stofu.

Haf­rétt­ar­sátt­mál­inn gild­ir á Norður-Íshafi. Virði ríki hann leysa lög­fræðing­ar úr ágrein­ingi þar. Póli­tík­in ræður hins veg­ar ferðinni á Græn­landi og verður flókn­ari með stór­velda­keppni.