14.6.2019

Græn umskipti þýskra stjórnmála

Morgunblaðið 14. júní 2019

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, og kona Elke Büdenbender fara af landi brott í dag eftir tveggja daga opinbera heimsókn. Á vefsíðu þýska forsetaembættisins var lögð áhersla á að auk samtala forsetans við íslenskan starfsbróður sinn og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra færi hann í vinnustofu Ólafs Elíassonar í Marshall-húsinu. Tilkynning um þetta í Þýskalandi skiptir máli, Ólafur hefur aðstöðu í Berlín og er kunnur listamaður í Þýskalandi eins og víðar um heim allan.

Þá er þess getið að forsetinn minnist þess að 70 ár séu frá því að 500 þýskar konur komu til starfa við íslenskan landbúnað með skipinu Esju. Hann opni ljósmyndasýningu og hitti nokkrar þessara kvenna.

Þessi menningarlegi þáttur heimsóknarinnar skiptir máli fyrir forsetann á heimavelli.

Steinmeier á að baki um 20 ára feril í valdastofnunum Þýskalands. Hann hófst til æðstu metorða innan Jafnaðarmannaflokksins (SPD) á kanslaratíma Gerhards Schröders, 1998 til 2005.

Sem leiðtogi jafnaðarmanna átti hann síðan náið samstarf við Angelu Merkel kanslara kristilegra (CDU) sem utanríkisráðherra í „stórri samsteypustjórn“ 2005 til 2009 og aftur 2013. Skiptust þau Merkel á að sitja í efsta sæti sem vinsælustu stjórnmálamennirnir Hún gerði hann 12. febrúar 2017 að forseta Þýskalands eftir að henni mistókst að fá græningja til að setjast í embættið.

Erfið stjórnarmyndun


Við stjórnarmyndun Merkel að loknum kosningunum 24. september 2017 reyndi verulega á stjórnmálamanninn Frank-Walter Steinmeier sem forseta. Sumir telja að í sögu þýska sambandslýðveldisins hafi forseti þess aldrei glímt við sambærilegan vanda við stjórnarmyndun. Forsetinn átti tveggja kosta völ: að tilnefna kanslara til að leiða minnihlutastjórn eða rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.

Steinmeier valdi hvorugan kostinn heldur sannfærði Merkel-andstæðinginn Martin Schulz, leiðtoga SPD, um að hverfa frá andstöðu sinni við kanslarann og halda áfram samstarfi við Merkel í stórri samsteypustjórn. Schulz fór að óskum forsetans og lauk viðræðum við Merkel með stjórnarmyndun 7. febrúar 2018 á grundvelli 170 bls. stjórnarsáttmála.

Síðan tilkynnti Schulz án nægilegs samráðs innan eigin flokks að hann ætlaði taka við af Sigmar Gabriel, fyrrv. formanni SPD, sem utanríkisráðherra. Þetta þótti forkastanleg fljótfærni sem leiddi til harðra deilna innan SPD. Sagði Schulz af sér sem flokksleiðtogi 13. febrúar 2018 og lagði til að Andrea Nahles yrði eftirmaður sinn. Skömmu síðar gaf hann einnig embætti utanríkisráðherrans frá sér.

Merkel og Nahles tókst síðan mynda stjórn 14. mars 2018. Hún situr enn, Nahles er hins vegar horfin úr forystu SPD og Olaf Scholz, vara-kanslari og fjármálaráðherra, segir að bið verði á nýrri stórri samsteypustjórn eftir þessa. Enginn veit hvað stjórnin lifir lengi. Ný skoðanakönnun sýnir þó að meirihluti Þjóðverja vill að hún sitji út kjörtímabilið.

Ap-merkel-harvard-1559239580Angela Merkel heiðursdoktor í Harvard-háskóla  30.  maí 2019.

Grænar áherslur

Seinni dag Íslandsheimsóknar sinnar lögðu þýsku forsetahjónin áherslu á endurnýjanlega orkugjafa, umhverfismál og loftslagsmál. Græni dagurinn í heimsókninni fellur vel að höfuðáherslum í þýskum stjórnmálum.

Í ESB-þingkosningunum 26. maí 2019 bar útlendingamál ekki hæst í Þýskalandi eins og margir ætluðu heldur græn mál. Urðu græningjar næst stærsti flokkur Þýskalands á eftir kristilegum, jafnaðarmenn féllu í þriðja sæti.

Í Die Welt var rifjað upp að við tilnefningu Angelu Merkel sem heiðursdoktors við Harvard-háskóla 30. maí hefði verið borið lof á grænt yfirbragð þýskra stjórnmála, opin landamæri bæru vinsemd í garð innflytjenda vitni, markvisst væri sóst eftir endurnýjanlegum orkugjöfum, umhverfisvernd skipaði háan sess, kjarnorkuverum væri lokað og hjónabönd samkynhneigðra leyfð.

Segir blaðið að þarna sé hampað stefnumálum græningja. Þau móti í raun þýsk stjórnmál um þessar mundir. Í skoðanakönnun á vegum Die Welt og sjónvarpsstöðvarinnar ARD í liðinni viku skipaði flokkur græningja efsta sæti fyrir ofan kristilega og jafnaðarmenn. Þá sýnir könnun á vegum vikublaðsins Die Zeit að forystumaður græningja, Robert Habeck, er talinn mikilvægasti þýski stjórnmálamaðurinn, aðeins ofar en Angela Merkel.

Die Welt veltir fyrir sér hvor Habeck verði næsti kanslari og græningjar séu nýr „þjóðarflokkur“ Þýskalands. Loftslagsmál séu það sem skipti mestu fyrir þjóðina. Græningjar nái sér á strik á sama tíma og jafnaðamenn njóti svipaðs fylgis og AfD, þjóðernissinnaður flokkur gegn innflytjendum. Kjósendur treysti ekki Annegret Kramp-Karrenbauer, arftaka Merkel á formannsstóli kristilegra, fyrir kanslaraembættinu.

Merkel í Harvard-háskóla


Í úttekt Der Spiegel á ferli Angelu Merkel segir að síðla árs 2016 hafi hún ekki ætlað að gefa kost á sér sem kanslaraefni í fjórða sinn.

Donald Trump sigraði í bandarísku forsetakosningunum 8. nóvember 2016. Átta dögum síðar heimsótti Barack Obama, fráfarandi Bandaríkjaforseti, Berlín og þau Merkel ræddu saman í þrjár klukkustundir yfir kvöldverði á Hótel Adlon. Ben Rhodes, ræðuritari Obama, segir í endurminningum sínum að forsetinn hafi aldrei á embættisferli sínum rætt svo lengi við neinn þjóðarleiðtoga.

Fjórum dögum eftir Obama-samtalið tilkynnti Merkel að hún gæfi að nýju kost á sér sem kanslari. Því embætti hefur hún nú gegnt í 13,5 ár og sitji hún út kjörtímabilið til 2021 nær hún að jafna tímann sem forveri hennar, Helmut Kohl, sat. Hann var kallaður „eilífðar-kanslarinn“.

Trump hefur sem forseti frekar haft horn í síðu Merkel og Þjóðverja. Hann skynjar að hún væri ekki kanslari hefði Hillary Clinton sigrað árið 2016.

Í heiðurdoktorsræðunni í Harvard-háskóla hvatti Merkel til sameiginlegs átaks allra þjóða í loftslagsmálum og í þágu frjálsra alþjóðaviðskipta. Ræðan er ákall gegn þröngsýni sem mætti Merkel sem námsmanni í Austur-Berlín á tíma Berlínarmúrsins.

Í ræðunni segir hún að með hruni múrsins hafi það orðið að veruleika sem margir, þar á meðal hún sjálf, taldi að mundi aldrei verða. Dyr hefðu allt í einu opnast þar sem áður var svartur múr. Hún gat gengið um þessar dyr, hún þurfti ekki lengur að snúa baki við frelsinu eins og áður þegar hún nálgaðist múrinn. Nú gat hún farið yfir þessi landamæri og reynt fyrir sér í veröldinni allri. Hvetur hún unga áheyrendur sína til að láta ekki hugfallast þótt leiðir sýnist lokaðar – hið óvænta gerist.

Merkel áréttaði að samstarf þjóðanna við Atlantshaf, reist á gildum lýðræðis og mannréttinda hefði getið af sér frið og farsæld í meira en 70 ár.

Þessa njótum við Íslendingar ekki síður en Þjóðverjar og þess vegna var forseti Þýskalands aufúsugestur hér ekki síður en Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sem áréttaði sömu gildi og Merkel í samtali við Morgunblaðið nú í vikunni, þegar hann sagði: „... frelsi er betra en helsi, lýðræði er betra en einræði og ástin mun alltaf sigra hatrið“.