3.9.2022

Gjörbreyting í hánorðri

Morgunblaðið, laugardagur, 3. september 2022.

Orðið „gjör­breyt­ing“ lýs­ir lík­lega best viðbrögðunum sem orðið hafa á hálfu ári á norður­slóðum við inn­rás­inni í Úkraínu. Þegar heims­far­ald­ur­inn varð öll­um ljós snemma árs 2020 notuðu sér­fræðing­ar, stjórn­mála­menn og fjöl­miðlamenn orðið „for­dæma­laust“ í tíma og ótíma til að lýsa at­b­urðarás og ákvörðunum; ferðabanni, sam­komu­banni og inni­lok­un­um. Inn­rás Rússa í Úkraínu er for­dæma­laus og til henn­ar má rekja al­gjör um­skipti í stjórn­mála­legu og hernaðarlegu viðhorfi til þess sem ger­ist í hánorðri.

Í byrj­un þessa árs var litið á norður­slóðir sem lág­spennusvæði. Ekk­ert af norður­skauts­ríkj­un­um átta hefði áhuga á að skapa þar hernaðarlega spennu. Rík­in greindi vissu­lega á um rétt til yf­ir­ráða á land­grunni Norður-Íshafs­ins. Jarðfræðing­ar og haf­réttar­fræðing­ar myndu hins veg­ar greiða úr þeim vanda. Markalín­ur yrðu dregn­ar í sam­ræmi við leik- og laga­regl­ur í haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna frá 1985. Þótt Banda­ríkjaþing hefði ekki full­gilt hann viður­kenndi Banda­ríkja­stjórn hann í reynd.

Rúss­ar tóku við for­mennsku í átta ríkja Norður­skauts­ráðinu af Íslend­ing­um 2021. Í aðdrag­anda for­manns­skipt­anna birt­ust frétt­ir um að Rúss­ar ætluðu hugs­an­lega að nýta árin tvö í for­manns­stóln­um til að styrkja hernaðarlega stöðu sína á svæðinu. Þeir ættu sí­fellt meira efna­hags­lega í húfi vegna nýt­ing­ar á auðlind­um í norðri og vildu verja þá hags­muni á öfl­ug­an hátt. Dmit­ríj Med­vedev, fyrr­ver­andi for­seti og for­sæt­is­ráðherra Rúss­lands, vara­formaður rúss­neska ör­ygg­is­ráðsins, léti sig norðlæg ör­ygg­is­mál meira varða en áður.

Frá með 24. fe­brú­ar 2022 er Norður­skauts­ráðið óstarf­hæft und­ir for­mennsku Rússa. Hvað síðar ger­ist kem­ur í ljós. Norðmenn taka við for­mennsk­unni af Rúss­um, síðan Dan­ir og Sví­ar. Næstu sex ár á eft­ir Rúss­um verður ráðið því und­ir nor­rænni for­ystu. Nú blas­ir einnig við að all­ar þjóðirn­ar, nema Rúss­ar, verða í NATO. Finn­ar og Sví­ar sner­ust til aðild­ar vegna inn­rás­ar­inn­ar.

Stjórn Kan­ada hef­ur skref fyr­ir skref horfið frá stefnu sinni um að halda NATO frá norður­slóðum. Í lok janú­ar 2009 var haldið málþing hér á landi í sam­vinnu ís­lenskra stjórn­valda og NATO um mál­efni norður­slóða. Í frétta­til­kynn­ingu NATO í til­efni af málþing­inu sagði að hugað yrði að breyttu viðhorfi til norður­slóða (e. Arctic) í ljósi auðlinda­nýt­ing­ar og hernaðar­um­svifa. Svæðið hefði var­an­lega strategíska þýðingu fyr­ir NATO og ör­yggi banda­lags­ríkj­anna og þess vegna þyrfti að fylgj­ast náið með fram­vindu mála þar og bregðast við henni af skyn­semi.

Þarna þótti næsta fast að orði kveðið í ljósi af­stöðu íhalds­stjórn­ar­inn­ar í Kan­ada. Eft­ir að frjáls­lynd­ir náðu þar völd­um und­ir for­ystu Just­ins Trudeaus for­sæt­is­ráðherra breytt­ist afstaðan til hlut­deild­ar NATO í vörn­um norður­slóða. Þeim var greini­lega vel til vina Trudeau og Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóra NATO, þegar hann heim­sótti nyrstu héruð Kan­ada fyr­ir rúmri viku. Stolten­berg áréttaði hvað eft­ir annað að Kan­ada skipti miklu á norður­slóðum og norður­slóðir skiptu miklu fyr­ir NATO.

220825a-033_rdax_775x517sJustin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, við ratsjárkúlur nyrst í Kanada.

Stolten­berg nýt­ur mik­ils trausts sem fram­kvæmda­stjóri NATO enda hag­ar hann orðum sín­um að jafnaði í sam­ræmi við samþykkt­ir for­ystu­manna banda­lags­ríkj­anna á stjórn­mála­vett­vangi. Í Kan­ada studd­ist hann al­farið við nýja grunn­stefnu NATO frá því í sum­ar þar sem í fyrsta sinn er minnst á norður­slóðir í slíku skjali. Í grunn­stefn­unni eru orðin High North notuð í text­an­um en ekki orðið Arctic. Vafa­laust er orðavalið mála­miðlun en um landa­fræðina og póli­tík­ina ef­ast eng­inn, geópóli­tíska staðan á gamla lág­spennusvæðinu hef­ur gjör­breyst.

Sam­hliða því sem Kan­ada­menn láta meira að sér kveða í sam­eig­in­legu varn­ar­átaki eykst áhugi banda­rískra stjórn­valda á norður­slóðum jafnt og þétt. Fyr­ir öld­unga­deild Banda­ríkjaþings ligg­ur frum­varp sem nýt­ur stuðnings þing­manna úr báðum flokk­um. Það ber heitið The Arctic Comm­it­ment Act.

Frum­varpið snýst um banda­rískt þjóðarör­yggi, sigl­ing­ar, rann­sókn­ir og viðskipti. Mark­miðið er meðal ann­ars að hindra „ein­ok­un“ Rússa á sigl­ing­um í Norður-Íshafi og tryggja sam­fellda viðveru banda­rísku strand­gæsl­unn­ar og flot­ans á norðlæg­um slóðum. Þá er hvatt til fjár­veit­inga til rann­sókna og grunn­virkja – inn­an Banda­ríkj­anna og í sam­vinnu við aðrar norður­skautsþjóðir en Rússa. Veitt er heim­ild til þess að gerður sé fríversl­un­ar­samn­ing­ur við Ísland.

Sama dag og Trudeau og Stolten­berg héldu blaðamanna­fund sinn í Norður-Kan­ada til að árétta gildi NATO fyr­ir norður­slóðir var til­kynnt í Washingt­on að Ant­ony Blin­ken ut­an­rík­is­ráðherra ætlaði að fá heim­ild öld­unga­deild­ar­inn­ar til að skipa í fyrsta sinn sér­leg­an sendi­herra norður­slóða sem gætti banda­rískra hags­muna gagn­vart Norður­skauts­ráðinu og aðild­ar­ríkj­um þess.

Skip­un sendi­herr­ans fell­ur að póli­tíska vilj­an­um í norður­slóðafrum­varp­inu. Sam­skipti Banda­ríkja­stjórn­ar og græn­lenskra stjórn­valda hafa vaxið und­an­far­in miss­eri, meðal ann­ars með gagn­kvæm­um heim­sókn­um ráðamanna. Þá er stefnt að því að koma á fót viðskiptaráði Banda­ríkj­anna og Fær­eyja auk þess sem Fær­ey­ing­ar ætla að opna eig­in sendiskrif­stofu í Washingt­on, höfuðborg Banda­ríkj­anna.

Gjör­breyt­ing­in á norður­slóðum leiðir til þess að þjóðirn­ar þar sam­ræma stefnu sína í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um á nýj­an hátt. Kan­ada­stjórn vill nú að það sé gert á vett­vangi NATO. Afstaða eyríkj­anna í Norður-Atlants­hafi ræður miklu um styrk Atlants­haf­stengsl­anna. Þau eiga hik­laust að leggja sitt af mörk­um, fyr­ir eigið ör­yggi og annarra.