21.5.2020

Fyrsta styrkúthlutun vegna RÍM-verkefnisins

Athöfn í Snorrastofu – Reykholti – 21. maí 2020

 

Á uppstigningardag 21, maí 2020 var athöfn kl. 16.30 í Snorrastofu í Reykholti þar sem fyrstu RÍM-styrkirnir voru afhentir. Við upphaf athafnarinnar flutti ég þetta ávarp þar sem lýst er aðdraganda hennar.

Við Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og ég sem stjórnarformaður Snorrastofu rituðum 22. ágúst 2019 hér á þessum stað undir samstarfsyfirlýsingu um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda, RÍM-verkefnið. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hafði áður ritað undir yfirlýsinguna.

File-11_1529875486875_1590142483495Þessi mynd var tekin á rannsóknarsvæðinu á Þingeyrum 24. júní 2018. Frá vinstri: Steinunn Kristjánsdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Bergur Þorgeirsson og Guðrún Nordal.

Ríkisstjórn Íslands stofnaði til RÍM í tilefni af því að liðin voru 75 ár frá stofnun lýðveldis á Íslandi. Fólst í því fyrirheit um að frá og með árinu 2020 mundi ríkissjóður leggja 35 m. kr. á ári í fimm ár til rannsókna á ritmenningu íslenskra miðalda.

Framkvæmd þessa fyrirheits er staðfest nú þegar mennta- og menningarmálaráðherra afhendir fyrstu RÍM-styrkina. Færi ég öllum þakkir sem vel og skipulega hafa staðið að umgjörð styrkveitinganna. Án þess værum við ekki hér í dag.

Guðrún Nordal er formaður fagráðs RÍM en Snorrastofa undir forystu Bergs Þorgeirssonar sér um daglega umsýslu. Aðrir í fagráðinu eru Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra og formaður Oddafélagsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ritaði 8. febrúar 2020 hér í Reykholti undir viðbótarsamning ríkisins og Snorrastofu. Markaði það formlegt upphaf RÍM-verkefnisns. Með samningnum var Snorrastofu falin dagleg umsýsla þessa ágæta framtaks næstu 5 árin. Þakka ég viðurkenninguna á starfinu hér sem í því felst.

Auglýsing og úthlutunrarreglur voru birtar 12. febrúar 2020. Fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis auglýsti Snorrastofa eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2020. Styrktar yrðu rannsóknir á sviði ritmenningar íslenskra miðalda, m.a. með því að efla rannsóknir á heimildum um ritunarstaði miðaldahandrita á Íslandi og þá sérstaklega á þeim lærdómsmiðstöðvum og klaustrum þar sem ritmenning blómstraði. Verkefnið skiptist í tvo verkþætti: Annars vegar að rannsaka menningarminjar og umhverfi tengt þessum stöðum og hins vegar handrita- og bókmenningu þeirra. Umsóknir yrðu metnar með tilliti til vísindalegs og menningarsögulegs gildis en frestur til að skila þeim var til 24. mars.

Til að meta umsóknirnar skipaði mennta- og menningarmálaráðherra sérstaka úthlutunarnefnd. Í henni sátu Agnes Stefánsdóttir formaður, tilnefnd af Minjastofnun Íslands, Hrefna Róbertsdóttir, tilnefnd af Þjóðskjalasafni Íslands og Jan Alexander van Nahl, tilnefndur af Háskóla Íslands..

Eru þeim þökkuð góð störf sem lauk 4. maí. Vegna allra aðstæðna er það fyrst nú sem við höfum tök á að koma saman við úthlutun styrkjanna og er fagnaðarefni að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skuli afhenda þá.

Dagskrá athafnarinnar er þessi:

Nú að máli mínu loknu flytur ráðherra ávarp.

Við svo búið kalla ég hvern styrkþega fyrir sig hingað upp til að taka við skjali úr hendi ráðherra og blómum frá Snorrastofu. Tekin verður mynd af hverjum og einum og hópmynd að loknu ávarpi Bergs Þorgeirssonar þar sem hann lýsir hlutverki Snorrastofu í framhaldinu.

Að lokinni athöfninni hér og töku hópmyndarinnar býður Snorrastofa gestum að þiggja veitingar í Finnsstofu.

Úthlutun

Alls bárust 10 umsóknir um styrki, sótt var um samtals rúmar 66,8 milljónir króna.

Úthlutunarefndin veitti sex styrki. Nefndin bendir öllum styrkþegum á að þeir geti sótt sérstaklega um framhaldsstyrki á næstu árum.

Kalla ég nú upp fulltrúa þeirra sem styrk hlutu.

Elín Ósk Heiðarsdóttir fyrir hönd Fornleifastofnunar Íslands ses 7 milljónir króna vegna verkefnisins:

Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun.

 

Steinunn Kristjánsdóttir fyrir hönd Háskóla Ísland, 7 milljónir króna vegna verkefnisins:

Þingeyraklaustur: Hjarta ritmenningar í fjórar aldir.

Helgi Þorláksson fyrir hönd Oddafélagsins, 7 milljónir króna vegna verkefnisins:

Oddarannsóknin.

Viðar Hreinsson fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands, 3,3 milljónir króna vegna verkefnisins:

Náttúrur og fornar frásagnir. Um náttúru- og umhverfissýn íslenskra miðaldasagna.

 

Beeke Stegman fyrir hönd Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2,7 milljónir króna vegna verkefnisins:

Bókagerð í Helgafellsklaustiri á fjórtandu öld.

Axel Kristinsson 3 milljónir króna vegna verkefnisins:

Sögur og fylgdarmenn.