15.2.2025

Fyrirboðar umskipta í vörnum

Morgunblaðið, 15. febrúar 2025.

Þetta er vik­an sem ör­ygg­is­málaráðstefn­an er hald­in í München. Þar hafa vest­ræn­ir ráðamenn í stjórn­mál­um og her­mál­um komið sam­an ár­lega síðan 1963 til að ræða stöðu ut­an­rík­is- og varn­ar­mála. Eft­ir að Sov­ét­rík­in hrundu sóttu stjórn­end­ur Rúss­lands einnig ráðstefn­una.

Árið 2007 flutti Vla­dimir Pútín Rúss­lands­for­seti ræðu í München sem síðan er tal­in upp­haf að átaka­stefnu hans við vestrið. Meg­in­boðskap­ur­inn var að ríki heims ættu ekki að sætta sig við „ein­póla“ heims­mynd, það er óskoraða for­ystu Banda­ríkj­anna, held­ur ættu fleiri ríki að sýna mátt sinn og meg­in.

Ári síðar lagði Pútín und­ir sig tvö héruð í ná­granna­rík­inu Georgíu. Rúss­ar færðu sig svo stig af stigi upp á skaftið fram að inn­rás­inni í Úkraínu fyr­ir nær rétt­um þrem­ur árum.

Með stríðinu ein­angraðist Pútín með öðrum harðstjór­um. Nú fylg­ir hann sömu stefnu og sov­ésku leiðtog­arn­ir á sín­um tíma. Þeir vildu semja um mál­efni annarra ríkja í krafti of­ur­valds en ekki að hróflað yrði við neinu sem þá sjálfa varðaði.

Þetta sannaðist í vik­unni þegar Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti skýrði allt í einu frá því miðviku­dag­inn 12. fe­brú­ar að hann hefði átt 90 mín­útna sím­tal við Pútín án þess að láta Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta vita um það fyrr en eft­ir að sím­tal­inu lauk.

Trump sem tal­ar gjarn­an niður til banda­manna sinna og í hót­un­ar­tóni gef­ur vin­sam­lega mynd af sam­tali sínu við Pútín á eig­in fé­lags­miðli, Truth Social. Hann hrós­ar meira að segja Pútín fyr­ir að tala við sig!

Trump seg­ir að þeir hafi ákveðið að skipt­ast á heim­sókn­um og hefja taf­ar­laust viðræður um lykt­ir stríðsins í Úkraínu. Bent er á að í færslu sinni nefni hann sig og Pútín ekki sjaldn­ar en 12 sinn­um í fyrstu per­sónu fleir­tölu. „Við erum sam­mála um að vinna sam­an, mjög náið,“ seg­ir Trump. „Við vilj­um binda enda á mann­fall millj­óna í stríðinu Rúss­land/Ú​kraína.“

Selenskí sagði af­drátt­ar­laust fimmtu­dag­inn 13. fe­brú­ar að Úkraín­u­stjórn myndi ekki ganga að neinu sam­komu­lagi um frið í landi sínu, yrði það gert án aðild­ar henn­ar. Mestu skipti að ekki yrði farið að ósk Pútíns sem vildi um­fram allt gera tví­hliða sam­komu­lag á milli sín og Trumps.

Þar birt­ist draum­ur­inn um að Rúss­land og Banda­rík­in séu jafn­sett risa­veldi. Marg­póla­kenn­ing­in frá München 2007.

Í Rússlandi sögðu fjöl­miðlar þriggja ára ein­angr­un Rússa á alþjóðavett­vangi lokið. Í Evr­ópu­ríkj­um hörmuðu ráðamenn að ekk­ert sam­ráð hefði verið haft við þá, ekki væri unnt að semja um frið í Úkraínu án evr­ópskr­ar aðild­ar. Frá­leitt væri að skapa Pútín diplóma­tíska stöðu á þann veg sem Trump hefði gert í sím­an­um og telja sér trú um að það dygði til að ná ein­hverju fram í samn­ing­um.

NnnnPete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Pete Heg­seth varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna hélt í fyrstu embætt­is­ferð sína til Evr­ópu í vik­unni. Boðskap­ur hans var öðrum þræði að sann­færa áheyr­end­ur sína um ein­stæða hæfi­leika Trumps til að ná góðum samn­ing­um.

Varn­ar­málaráðherr­ann sagði í Brus­sel miðviku­dag­inn 12. fe­brú­ar að Evr­ópu­rík­in yrðu að bera „yf­ir­gnæf­andi byrði“ af hernaðaraðstoð við Úkraín­u­stjórn í framtíðinni. Þá taldi hann óraun­hæft að landa­mæri Úkraínu yrðu að nýju eins og þau voru fyr­ir 2014 þegar Rúss­ar inn­limuðu Krímskaga og tóku að ráðast inn í aust­ur­hluta Úkraínu. Hann lagðist gegn því að Úkraína gengi í NATO. Í stað NATO-aðild­ar yrði að tryggja friðinn með herj­um frá Evr­ópu og ríkj­um utan Evr­ópu, þó ekki frá Banda­ríkj­un­um.

Ráðherr­ann sagði að fyr­ir Banda­ríkja­stjórn vekti að breyta for­gangs­röð í varn­ar­mál­um, hún myndi líta til varna Banda­ríkj­anna sjálfra og gera ráðstaf­an­ir til að halda Kín­verj­um í skefj­um með fæl­ing­ar­mætti sín­um. Hvatti Heg­seth evr­ópsk NATO-ríki til að verja allt að 5% af vergri lands­fram­leiðslu til varn­ar­mála og til að verja Evr­ópu.

Sama miðviku­dag og þetta gerðist í Brus­sel fóru fram opn­ar umræður í nefnd öld­unga­deild­ar Banda­ríkjaþings um viðskipti, vís­indi og sam­göng­ur und­ir fyr­ir­sögn­inni: Nuuk and Cr­anny: Look­ing at the Arctic and Green­land´s Geostra­tegic Import­ance to U.S. In­t­erests. Nuuk and Cr­anny er orðal­eik­ur en enska orðasam­bandið nook and cr­anny lýs­ir mjög litl­um og föld­um stað.

Fjór­ir sér­fræðing­ar sátu í rúma tvo klukku­tíma og ræddu við þing­menn um Græn­land og norður­slóðir. Eng­inn var her­skár en áhug­inn á að efla sam­bandið við Græn­land var aug­ljós. Nokkr­ir þing­mann­anna létu þess getið að þeir hefðu átt fundi með sendi­herra Dana í Washingt­on og full­trú­um græn­lenskra stjórn­valda. Hér væri um viðkvæmt mál milli banda­manna að ræða. Vilji þing­mann­anna stóð greini­lega til að leysa það með banda­ríska hags­muni að leiðarljósi en í því fæl­ist eng­in ögr­un við Dani, góða og vin­veitta banda­lagsþjóð.

Þegar einn sér­fræðing­anna var spurður hvort ekki ætti að huga að banda­rísk­um hags­mun­um á Íslandi og í Fær­eyj­um á svipaðan hátt og á Græn­landi var svarið að ekki gilti sama um þær Norður-Atlants­hafs­eyj­ar og Græn­land, þær væru ekki í Vest­ur­heimi og féllu ekki und­ir Mon­roe-kenn­ing­una.

Sé það stefna Banda­ríkja­stjórn­ar að draga sig í hlé hernaðarlega á meg­in­landi Evr­ópu til að styrkja heima­varn­ir sín­ar og auka fæl­ing­ar­mátt gagn­vart Kín­verj­um fá norður­slóðir og Norður-Atlants­haf enn meira vægi við gæslu banda­rískra ör­ygg­is­hags­muna.

Sögu­legri ör­ygg­is­mála­viku er ekki lokið þegar þetta er skráð. Um helg­ina dreg­ur vafa­laust til frek­ari tíðinda á ráðstefn­unni í München.

Íslensk­ir ráðamenn verða að leggja mat á þessa fram­vindu alla og halda þjóðinni upp­lýstri um áform sín. Markverð um­skipti liggja í loft­inu.