Fyrirboðar umskipta í vörnum
Morgunblaðið, 15. febrúar 2025.
Þetta er vikan sem öryggismálaráðstefnan er haldin í München. Þar hafa vestrænir ráðamenn í stjórnmálum og hermálum komið saman árlega síðan 1963 til að ræða stöðu utanríkis- og varnarmála. Eftir að Sovétríkin hrundu sóttu stjórnendur Rússlands einnig ráðstefnuna.
Árið 2007 flutti Vladimir Pútín Rússlandsforseti ræðu í München sem síðan er talin upphaf að átakastefnu hans við vestrið. Meginboðskapurinn var að ríki heims ættu ekki að sætta sig við „einpóla“ heimsmynd, það er óskoraða forystu Bandaríkjanna, heldur ættu fleiri ríki að sýna mátt sinn og megin.
Ári síðar lagði Pútín undir sig tvö héruð í nágrannaríkinu Georgíu. Rússar færðu sig svo stig af stigi upp á skaftið fram að innrásinni í Úkraínu fyrir nær réttum þremur árum.
Með stríðinu einangraðist Pútín með öðrum harðstjórum. Nú fylgir hann sömu stefnu og sovésku leiðtogarnir á sínum tíma. Þeir vildu semja um málefni annarra ríkja í krafti ofurvalds en ekki að hróflað yrði við neinu sem þá sjálfa varðaði.
Þetta sannaðist í vikunni þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti skýrði allt í einu frá því miðvikudaginn 12. febrúar að hann hefði átt 90 mínútna símtal við Pútín án þess að láta Volodimír Selenskí Úkraínuforseta vita um það fyrr en eftir að símtalinu lauk.
Trump sem talar gjarnan niður til bandamanna sinna og í hótunartóni gefur vinsamlega mynd af samtali sínu við Pútín á eigin félagsmiðli, Truth Social. Hann hrósar meira að segja Pútín fyrir að tala við sig!
Trump segir að þeir hafi ákveðið að skiptast á heimsóknum og hefja tafarlaust viðræður um lyktir stríðsins í Úkraínu. Bent er á að í færslu sinni nefni hann sig og Pútín ekki sjaldnar en 12 sinnum í fyrstu persónu fleirtölu. „Við erum sammála um að vinna saman, mjög náið,“ segir Trump. „Við viljum binda enda á mannfall milljóna í stríðinu Rússland/Úkraína.“
Selenskí sagði afdráttarlaust fimmtudaginn 13. febrúar að Úkraínustjórn myndi ekki ganga að neinu samkomulagi um frið í landi sínu, yrði það gert án aðildar hennar. Mestu skipti að ekki yrði farið að ósk Pútíns sem vildi umfram allt gera tvíhliða samkomulag á milli sín og Trumps.
Þar birtist draumurinn um að Rússland og Bandaríkin séu jafnsett risaveldi. Margpólakenningin frá München 2007.
Í Rússlandi sögðu fjölmiðlar þriggja ára einangrun Rússa á alþjóðavettvangi lokið. Í Evrópuríkjum hörmuðu ráðamenn að ekkert samráð hefði verið haft við þá, ekki væri unnt að semja um frið í Úkraínu án evrópskrar aðildar. Fráleitt væri að skapa Pútín diplómatíska stöðu á þann veg sem Trump hefði gert í símanum og telja sér trú um að það dygði til að ná einhverju fram í samningum.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hélt í fyrstu embættisferð sína til Evrópu í vikunni. Boðskapur hans var öðrum þræði að sannfæra áheyrendur sína um einstæða hæfileika Trumps til að ná góðum samningum.
Varnarmálaráðherrann sagði í Brussel miðvikudaginn 12. febrúar að Evrópuríkin yrðu að bera „yfirgnæfandi byrði“ af hernaðaraðstoð við Úkraínustjórn í framtíðinni. Þá taldi hann óraunhæft að landamæri Úkraínu yrðu að nýju eins og þau voru fyrir 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og tóku að ráðast inn í austurhluta Úkraínu. Hann lagðist gegn því að Úkraína gengi í NATO. Í stað NATO-aðildar yrði að tryggja friðinn með herjum frá Evrópu og ríkjum utan Evrópu, þó ekki frá Bandaríkjunum.
Ráðherrann sagði að fyrir Bandaríkjastjórn vekti að breyta forgangsröð í varnarmálum, hún myndi líta til varna Bandaríkjanna sjálfra og gera ráðstafanir til að halda Kínverjum í skefjum með fælingarmætti sínum. Hvatti Hegseth evrópsk NATO-ríki til að verja allt að 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála og til að verja Evrópu.
Sama miðvikudag og þetta gerðist í Brussel fóru fram opnar umræður í nefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings um viðskipti, vísindi og samgöngur undir fyrirsögninni: Nuuk and Cranny: Looking at the Arctic and Greenland´s Geostrategic Importance to U.S. Interests. Nuuk and Cranny er orðaleikur en enska orðasambandið nook and cranny lýsir mjög litlum og földum stað.
Fjórir sérfræðingar sátu í rúma tvo klukkutíma og ræddu við þingmenn um Grænland og norðurslóðir. Enginn var herskár en áhuginn á að efla sambandið við Grænland var augljós. Nokkrir þingmannanna létu þess getið að þeir hefðu átt fundi með sendiherra Dana í Washington og fulltrúum grænlenskra stjórnvalda. Hér væri um viðkvæmt mál milli bandamanna að ræða. Vilji þingmannanna stóð greinilega til að leysa það með bandaríska hagsmuni að leiðarljósi en í því fælist engin ögrun við Dani, góða og vinveitta bandalagsþjóð.
Þegar einn sérfræðinganna var spurður hvort ekki ætti að huga að bandarískum hagsmunum á Íslandi og í Færeyjum á svipaðan hátt og á Grænlandi var svarið að ekki gilti sama um þær Norður-Atlantshafseyjar og Grænland, þær væru ekki í Vesturheimi og féllu ekki undir Monroe-kenninguna.
Sé það stefna Bandaríkjastjórnar að draga sig í hlé hernaðarlega á meginlandi Evrópu til að styrkja heimavarnir sínar og auka fælingarmátt gagnvart Kínverjum fá norðurslóðir og Norður-Atlantshaf enn meira vægi við gæslu bandarískra öryggishagsmuna.
Sögulegri öryggismálaviku er ekki lokið þegar þetta er skráð. Um helgina dregur vafalaust til frekari tíðinda á ráðstefnunni í München.
Íslenskir ráðamenn verða að leggja mat á þessa framvindu alla og halda þjóðinni upplýstri um áform sín. Markverð umskipti liggja í loftinu.