16.10.2021

Fullveldið með dönskum augum

Bækur - Sagnfræði - Morgunblaðið, 16. október 2021.

Fyrsti sendiherra á Íslandi 1919-1924 ***½

Eft­ir Jakob Þór Kristjáns­son. Sög­ur, 2021. Kilja, 186 bls,

Fyrsti fjórðung­ur 20. ald­ar­inn­ar er vin­sælt viðfangs­efni sagn­fræðinga. Litið er um eina öld aft­ur í tím­ann og ræt­ur nú­tíma­legs ís­lensks sam­fé­lags skoðaðar eins vel og kost­ur er. Þegar 100 ára af­mæl­is heima­stjórn­ar­inn­ar var minnst árið 2004 gaf rík­is­stjórn­in út sögu Stjórn­ar­ráðsins. For­sæt­is­nefnd Alþing­is minnt­ist tíma­mót­anna með því að standa að rit­un bók­ar um þing­ræði á Íslandi í 100 ár. Í bók­inni Upp með fán­ann (útg. 2012) skýrði Gunn­ar Þór Bjarna­son sagn­fræðing­ur ör­lög upp­kasts­ins árið 1908. Hann sendi 2018 frá sér bók um sam­bands­laga­samn­ing­inn og full­veldið 1. des­em­ber 1918. Fyrri heims­styrj­öld­in og spænska veik­in eru einnig viðfangs­efni Gunn­ars Þórs í vin­sæl­um bók­um.

Nú birst­ist enn eitt sagn­fræðirit um þetta tíma­bil: Fyrsti sendi­herra á Íslandi 1919-1924 eft­ir Jakob Þór Kristjáns­son alþjóðastjórn­mála­fræðing. Hann sendi árið 2017 frá sér bók­ina Mamma ég er á lífi um ör­lög ís­lenskra pilta sem flutt­ust til Kan­ada og börðust í fyrri heims­styrj­öld­inni. Í nýju bók­inni seg­ir Jakob Þór frá ævi og störf­um stjórn­ar­er­ind­reka af dönsk­um og ís­lensk­um ætt­um sem danska rík­is­stjórn­in sendi hingað árið 1919 til að fylgja eft­ir sam­bands­laga­samn­ingn­um og leiðbeina ís­lensk­um stjórn­völd­um á fyrstu full­veld­is­ár­un­um.

Bók­in er reist á skjöl­um danska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og sendi­ráðsins í Reykja­vík auk einka­skjala og end­ur­minn­inga sendi­herra­hjón­anna. Þau voru Johann­es Er­h­ar­dt Bög­gild (1878-1929) og Helga Paul­ine fædd Niel­sen-Aarestrup (1873-1956).

Bók­in er í litlu kilju­broti og er texti mjög þétt­ur á hverri síðu henn­ar. Hún skipt­ist í þrjá hluta: (1) Kon­ungs­ríkið Ísland verður til; (2) Hið sjálf­sagða full­veldi og (3) Ævi­ágrip heims­borg­ara. Það er galli á efn­is­yf­ir­liti bók­ar­inn­ar að þar er ekki blaðsíðutal. Þá fylg­ir text­an­um ekki nafna­skrá. Skrá yfir til­vís­an­ir er mik­il að vöxt­um, þá fylg­ir góð heim­ilda­skrá. Skrárn­ar bera með sér að höf­und­ur hef­ur lagt alúð við verk sitt.

GL7170DC5Jakob Þór seg­ir mark­mið sitt að rök­styðja að grund­vall­ar­breyt­ing­arn­ar sem urðu á heims­skip­an­inni á 19. öld og fyrstu ára­tug­um 20. ald­ar hafi mótað af­stöðu danskra stjórn­valda til stöðu Íslands inn­an danska rík­is­ins. Viðhorf Dana til Íslands hafi fyrst og síðast ráðist af hags­mun­um danska rík­is­ins.

Viðfangs­efnið er ekki alltaf auðvelt þegar skýrðar eru deil­ur Dana og Þjóðverja um ráð yfir Sles­vík og Holtsetalandi. Kjarn­inn er sá að hug­ur og taug­ar dönsku kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar voru mjög bundn­ar þess­um svæðum þar sem Dan­ir áttu und­ir högg að sækja gagn­vart Þjóðverj­um. Það var þraut­in þyngri fyr­ir kon­ung og valda­menn í Kaup­manna­höfn að berj­ast fyr­ir rétt­ind­um (full­veldi) Dana þar en leggj­ast gegn kröf­um Íslend­inga um sam­bæri­leg­an rétt.

Að höf­und­ur setji sam­skipti Dana og Íslend­inga á þess­um árum í stærra sam­hengi en gert er þegar litið á þau ein­ung­is frá ís­lensk­um sjón­ar­hóli stækk­ar sjón­deild­ar­hring­inn. Tog­streit­an var mik­il hér á heima­velli og oft tor­skil­in þeim sem lít­ur til henn­ar í ljósi stjórn­mála líðandi stund­ar. Í alþjóðasam­skipt­um var ekki síður tek­ist á um grund­vall­arþætti þegar landa­mæri eins og við þekkj­um þau enn þann dag í dag voru að fæðast. Tekst höf­undi að gera þeim hrær­ing­um öll­um skil.

Trúnaður varð milli danska er­ind­rek­ans Bög­gilds og Jóns Magnús­son­ar, for­sæt­is­ráðherra Íslands, sem kem­ur vel frá þess­ari sögu.

Það vek­ur undr­un Bög­gilds að Íslend­ing­ar gleðjist ekki meira yfir ný­fengnu full­veldi og fagni ekki Kristjáni X. kon­ungi sín­um af meiri inni­leika þegar hann kom hingað árið 1921. Íslend­ing­um þótti það sem gerðist 1. des­em­ber 1918 næsta sjálfsagt og eðli­legt. Þeir fengu loks­ins beint og milliliðalaust sam­band við kon­ung sinn. Það er ekki fyrr en síðar að tekið er til við að hampa 1. des­em­ber sem full­veld­is­degi.

Vegna kon­ungs­kom­unn­ar 1921 var hneyksl­ast á veisl­un­um og fjargviðrast yfir að fálka­orðan skyldi stofnuð. Þjóðlífs­mynd­in í bók­inni er önn­ur en nú þegar litið er til ytri aðstæðna, þjóðarsál­in er þó sem bet­ur fer enn söm við sig.

Fyr­ir þá sem hafa áhuga á að fá stórt sjón­ar­horn á þessa um­brota­tíma Íslands­sög­unn­ar er feng­ur að þess­ari bók. Hún er áminn­ing um að í sam­skipt­um þjóða er fátt til­vilj­un­um háð. Þau mót­ast mjög af ytri aðstæðum eins og við blas­ir til dæm­is nú í sam­skipt­um Dana við Fær­ey­inga og Græn­lend­inga um skip­an ör­ygg­is­mála inn­an danska rík­is­ins á Norður-Atlants­hafi.

Kafli Íslands­sög­unn­ar frá 1918 til 1944 er hluti sögu danska kon­ungs­rík­is­ins sem er alls ekki lokið.