Frelsi í trúmálum og kjaramálum
Morgunblaðið, laugardagur, 29. október 2022
Fyrsta hluta 64. kirkjuþings þjóðkirkjunnar lauk í vikunni. Þar var meðal annars samþykkt tillaga frá sr. Gísla Gunnarssyni, vígslubiskupi á Hólum, um að starfshópur hugaði að bestu leiðum til að halda utan um skráningu sóknarbarna í þjóðkirkjuna.
Í greinargerð tillögu vígslubiskupsins segir að árið 2005 hafi 84,4% íslensku þjóðarinnar verið skráð í þjóðkirkjuna, í ársbyrjun 2015 voru það 73,6% og nú láti nærri að þetta hlutfall sé um 60%.
Skráningin er í höndum þjóðskrár og birtir hún reglulega tölur
um fjölda skráðra í þjóðkirkjuna. Eru þær gjarnan túlkaðar á þann
hátt að lækkun hlutfallsins sé til marks um aukið trúleysi meðal
þjóðarinnar.
Frá kirjuþingi 2022 (mynd:kirkjan.is)
Í umræðum á kirkjuþingi kom fram að skýringarinnar sé þó ekki endilega að leita í þessu heldur til dæmis í breytingum sem rekja megi til þess að um 60.000 erlendir ríkisborgarar séu skráðir með búsetu hér á landi.
Þá ræður hér einnig kerfisbreyting við skráningu. Áður gilti sú regla að barn var sjálfkrafa skráð í þjóðkirkjuna við skírn, væri móðir þess skráð í hana. Nú er þess krafist að báðir foreldrar séu í þjóðkirkjunni til að um slíka skráningu sé að ræða.
Í ræðum á kirkjuþingi kom fram að mörgum foreldrum barna væri ókunnugt um þessa skráningarreglu. Þau vildu þó að barn sitt yrði í þjóðkirkjunni en til þess þyrfti nú að senda sérstakt erindi með samþykki móður og föður til þjóðskrár og þar væri treyst á tölvubréf að lokinni skírn.
Óháði söfnuðurinn er trúfélag utan þjóðkirkjunnar. Hann varð til árið 1950 vegna klofnings innan Fríkirkjunnar í Reykjavík. Þegar sr. Pétur Þorsteinsson varð safnaðarprestur árið 1995 voru um 1.000 manns í söfnuðinum. Setti prestur sér það mark að hafa tvöfaldað fjöldann árið 2000 sem tókst og 1. maí 2022 var 3.171 skráður í söfnuðinn.
Á kirkjuþingi nú var meðal annars bent á að sr. Pétri hefði tekist að fá þjóðskrá til að fallast á að taka á móti pappírs-skráningu í óháða söfnuðinn.
Vafalaust yrðu betri heimtur við skráningu við skírn í þjóðkirkjuna yrði gengið frá skjalfestri undirritun foreldra við skírnarathöfnina sjálfa.
Þess skal getið að 1. maí 2022 bar þjóðkirkjan enn og aftur höfuð og herðar yfir öll 59 skráð trú- og lífsskoðunarfélög þjóðarinnar. Í þjóðkirkjuna voru 228.466 skráðir, kaþólska kirkjan er næst með 14.726. Í lífsskoðunarfélagið Siðmennt voru þá 4.820 skráðir.
Það er síður en svo nýmæli að rætt sé á kirkjuþingi um leiðir til að styrkja þjóðkirkjuna með skráningu sem flestra í hana. Hafa sérfróðir unnið að athugun leiða í þessu skyni. Fyrir kirkjuþingi 2015 lá skýrsla undir heitinu: Nýliðun innan þjóðkirkjunnar.
Þar var meðal annars hvatt til aukinnar fræðslu og fjölmiðlunar ásamt því að æskulýðsstarf yrði aukið. Var í skýrslunni gert ráð fyrir að árlega í fimm ár yrði 30 milljónum króna varið í þessu skyni.
Eftir að þinginu lauk var blásið upp í fjölmiðlum að þjóðkirkjan ætlaði að verja 150 milljónum króna til áróðurs fyrir sjálfa sig. Spurt var með þjósti hvort þessum fjármunum mætti virkilega ekki verja til annarra hluta. Áætluninni var aldrei hrundið í framkvæmd.
Neikvæðni og andróður setur því miður of mikinn svip á umræður um þjóðkirkjuna og stundum virðist hún næsta umkomulaus sem stofnun.
Nú, við upphaf 64. kirkjuþings var Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur kjörin fyrsti varaforseti þingsins. Í tilefni af framboði sínu flutti hún kröftuga ræðu til varnar þjóðkirkjunni sem hún taldi á stjórnlausu undanhaldi. Hún sagðist vilja nota sína rödd og krafta „til þess að berjast gegn þessu undanhaldi“.
Herhvötin varð leiðarahöfundi Fréttablaðsins, Garðari Erni Úlfarssyni, tilefni ádrepu í garð Kristrúnar. Leiðarahöfundinum virtist brugðið við að kröftuglega væri varist fyrir þjóðkirkjuna. Hann gekk svo langt í ófrægingu sinni að gefa til kynna að Kristrún bryti gegn níunda boðorðinu og bæri ljúgvitni gegn náunga sínum.
Þetta er dæmigerð tilraun til að kæfa umræður á ómaklegan hátt. Sjálfstæði þjóðkirkjunnar frá ríkisvaldinu kallar á að forystumenn hennar hugi skipulega að stöðu hennar í samfélaginu.
Félagafrelsi ríkir í trúmálum og þrátt fyrir að lífsskoðunarfélög séu fámenn hafa þau náð ótrúlegum árangri við að reka fleyg á milli kirkju og skóla, þessara aldagömlu tvíeinu stoða þjóðmenningarinnar. Sannar það mátt frelsisins.
Í nafni mannréttinda vill enginn að trúfrelsi verði afnumið. Það er líka í andstöðu við stjórnarskrána að skylda alla til að skrá sig í trúfélög. Mælt er fyrir um félagafrelsi stjórnarskránni.
Sé minnt á stjórnarskrárvarið frelsið til að standa utan verkalýðsfélaga hrópa talsmenn óbreytts ástands að vegið sé að meginstoð samfélagsins.
Í Sviss býr ein auðugasta þjóð heims. Þar eru um 20% launamanna í verkalýðsfélögum, eitt lægsta hlutfall í Evrópu. Frá því í kreppunni miklu í upphafi fjórða áratugarins, skömmu áður en núgildandi lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett hér (1938), hafa svissnesk verkalýðsfélög mælt gegn verkföllum og launadeilur eru almennt leystar með gerðardómi.
Í nýlegri ályktun verkalýðsfélags vegna frumvarps þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði var talið forkastanlegt að stéttarfélög ættu að stunda „félagsmannaveiðar“. Forystumenn félaganna þyrftu með öðrum orðum að leggja á sig að fá fólk til að ganga í viðkomandi félag.
Vert er að íhuga muninn á þessari kröfuhörku og málefnalegri virðingu fyrir grunnreglum samfélagsins á kirkjuþingi.