3.5.2019

Frá Notre-Dame til Víkurkirkjugarðs

Morgunblaðið, föstudagur, 3. maí 2019

Að sjá elda loga í þaki Notre-Dame (Maríu­kirkj­unn­ar) í Par­ís und­ir kvöld mánu­dag­inn 15. apríl líður seint úr minni. Þegar turn­spír­an féll og ekki var enn neina slökkviliðsmenn að sjá í beinu sjón­varps­út­send­ing­unni vaknaði ótti um að eld­ur­inn væri í raun óviðráðan­leg­ur og þessi mikli dýr­grip­ur yrði hon­um all­ur að bráð.

Elds­voðinn vakti sterk­ar til­finn­ing­ar. Mynd­ir af fólki á bæn og syngj­andi sálma í ná­grenni kirkj­unn­ar voru tákn­ræn­ar fyr­ir ótta margra um heim all­an.

Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seti fór tvisvar á vett­vang til að kynn­ast aðstæðum af eig­in raun. Síðan tók hann af skarið og lýsti vilja sín­um til að „end­ur­reisa“ dóm­kirkj­una og gera hana „enn fal­legri“ á aðeins fimm árum, fyr­ir ólymp­íu­leik­ana í Par­ís 2024.

Til að ná þessu mark­miði samþykkti rík­is­stjórn­in frum­varp til laga sem heim­il­ar sniðgöngu við lög um op­in­ber útboð og minja­vernd­ar­lög við end­ur­reisn­ina.

Eins kon­ar fjár­fram­laga­keppni auðug­ustu fjöl­skyldna Frakk­lands í end­ur­reisn­ar­sjóðinn voru eins og olía á þjóðfé­lag­seld­ana sem loga í land­inu og birt­ast í bar­áttu gul­vestunga gegn Macron. Kirkju­brun­inn eyddi ekki þeim vanda for­set­ans.

Ákvörðun Macrons um að ráðast í viðgerðir á Notre-Dame án þess að virða all­ar sett­ar regl­ur vakti að sögn franska blaðsins Le Fig­aro stórfurðu og gíf­ur­leg­ar áhyggj­ur meðal sér­fræðinga í minja­vernd og -vörslu um heim all­an. Mánu­dag­inn 29. apríl birti blaðið opið bréf til Frakk­lands­for­seta sem 1.170 minja­verðir, arki­tekt­ar og pró­fess­or­ar hvaðanæva úr heim­in­um rita und­ir og hvetja til að gengið sé fram af aðgát og ábyrgð við viðgerðirn­ar á kirkj­unni.

Notre-dame-cathedral-before-afterNotre-Dame í París brennur mánudaginn 15. apríl 2019.

Seg­ir Le Fig­aro bréfið ein­stakt í sinni röð því að þeir sem und­ir það skrifa komi úr hópi sér­fræðinga sem jafn­an kjósi að vinna mik­il­væg störf í kyrrþey. Nú bendi þeir á að end­ur­reisn Notre-Dame snerti okk­ur öll. Það má til sanns veg­ar færa. Árleg­ur gesta­fjöldi í kirkj­una er um 13 millj­ón­ir manna og í hópn­um eru allra þjóða kon­ur og karl­ar, börn og full­orðnir.

Áhrif Victors Hugos

Í bréf­inu er for­set­inn minnt­ur á að Frakk­ar hafi rutt braut­ina við setn­ingu laga um vernd sögu­legra minn­is­merkja. Það megi að hluta rekja til áhrifa frá skáld­sög­unni sem Victor Hugo skrifaði til varn­ar Notre-Dame.

Á frönsku heit­ir bók­in Notre-Dame de Par­is og kom hún út 1831. Til­gang­ur Hugos var að vekja at­hygli samtíðarmanna sinna á gildi got­neskr­ar bygg­ing­ar­list­ar. Að kirkj­unni var vegið á ýms­an veg, til dæm­is með því að setja venju­legt gler í glugga henn­ar í stað litaða glers­ins frá miðöld­um. Var þetta gert til að auka birtu inni í kirkju­skip­inu.

Björg­úlf­ur Ólafs­son (d. 1973) lækn­ir þýddi bók Hugos á ís­lensku og kom hún út árið 1948 und­ir heit­inu Maríu­kirkj­an í Par­ís (518 bls.). Síðar, lík­lega vegna áhrifa frá kvik­mynd­um, breytt­ist tit­ill­inn á ís­lensku þýðing­unni í Hringj­ar­ann frá Notre Dame.

Árið 1956 var gerð ein af mörg­um kvik­mynd­um eft­ir bók­inni með Ant­hony Quinn í hlut­verki kropp­in­baks­ins, hringj­ar­ans Quasimodos, en Gina Lollobrigida lék Es­mer­öldu, svart­hærðu stúlk­una fögru sem sýndi hringj­ar­an­um vináttu. Þetta er eft­ir­minni­leg mynd fyr­ir fólk af minni kyn­slóð. Disney-fyr­ir­tækið gerði teikni­mynd um hringj­ar­ann 40 árum síðar, árið 1996.

List­inn yfir allt sem gert hef­ur verið á grunni þess­ar­ar bók­ar Victors Hugos er lang­ur. Nú á dög­um líta fáir á verkið sem varn­ar­rit fyr­ir Notre-Dame svo sjálfsagt finnst öll­um að kirkj­an sé óaðskilj­an­leg­ur hluti Par­ís­ar og fast­ur punkt­ur í borg­ar­mynd­inni.

Ein­stætt af­reks­verk

Í opna bréf­inu til Frakk­lands­for­seta rifja höf­und­ar þess upp að í ár­anna rás hafi Frakk­ar áunnið sér alþjóðlega viður­kenn­ingu og virðingu fyr­ir for­ystu á sviði minja­vernd­ar og við varðveislu þjóðminja. Sýni­leg dæmi þess séu mörg, meðal ann­ars skrán­ing ár­bakka Signu með Notre-Dame sem eitt af höfuðdjásn­un­um á heims­minja­skrá UNESCO árið 1991. Kirkj­una og allt sem við hana sé gert verði að skoða í því ljósi og með vís­an til alþjóðlegra skuld­bind­inga sem Frakk­ar hafi samþykkt á þessu sviði.

Í bréf­inu seg­ir að ein­stæð virðing Frakka fyr­ir menn­ing­ar­verðmæt­um hafi birst í vask­legri fram­göngu slökkviliðsmanna í bar­átt­unni við eld­inn í Notre-Dame. Þeim hafi tek­ist að bjarga kirkj­unni og mik­il­væg­ustu lista­verk­un­um sem flytja mátti úr henni. Vegna þessa af­reks­verks varðveit­ist áfram 850 ára saga bygg­ing­ar­inn­ar.

Að flýta sér hægt

Meg­in­til­gang­ur­inn með bréf­inu til for­set­ans er ekki kynna til­lög­ur um hvernig staðið skuli að fram­kvæmd­um við end­ur­reisn­ina held­ur hvetja hann til að fara sér hægt. Ekki megi hrapa að neinu held­ur verði að átta sig á öll­um aðstæðum, greina stöðuna og finna bestu leiðir að settu marki.

Bréf­rit­ar­ar segj­ast vita að stjórn­mála­menn búi við kröfu um skjót­ar ákv­arðanir og einnig sé þeim ljóst að skuggi hvíli á ímynd Frakk­lands á meðan Notre-Dame sé í sár­um. Þrátt fyr­ir þetta verði menn að gefa sér tíma til að búa kirkj­una sem best und­ir framtíðina og dóm henn­ar. Of snemmt sé að benda á ein­hverj­ar lausn­ir. Rann­saka verði tækni­leg­ar for­send­ur bet­ur og ekki megi gleyma sögu Maríu­kirkj­unn­ar í Par­ís. Ekki sé allt sýni- eða efn­is­legt sem hafa beri í huga.

Ekki megi hunsa hve þetta sé flók­in fram­kvæmd með því einu að skjóta sér á bak við skil­virkni. Óhjá­kvæmi­legt sé að leita ráða hjá bestu sér­fræðing­um á öll­um sviðum og kynna sér rann­sókn­ir tengd­ar Notre-Dame sem gerðar hafi verið um heim all­an.

Sér­fræðing­arn­ir segja að allt sem gert verði í Notre-Dame veki at­hygli um alla heims­byggðina. Þetta sé ekki ein ákvörðun arki­tekts held­ur millj­ón­ir hand­taka iðnaðarmanna og sér­fræðinga. Í húfi sé að treysta dóm­kirkju okk­ar allra sess í sög­unni og framtíðinni.

Þótt marg­ir áhrifa­mikl­ir kunn­áttu­menn skrifi und­ir þetta bréf eru aðrir annarr­ar skoðunar. Opið bréf af þessu tagi verði aðeins til að hægja á ákvörðunum í kerf­inu og allt fari síðan stefnu­laust í hringi. Auðvitað þurfi að velta hlut­um vel fyr­ir sér en sam­tím­is sé unnt að stíga póli­tísk skref. Greina megi á milli lína í bréf­inu ótta við að stjórn­völd vilji færa út­lit Notre-Dame meira til nú­tím­ans.

Eiga þess­ar vanga­velt­ur er­indi hingað? Þær snerta áhuga­menn um Notre-Dame en einnig úr­lausn verk­efna er lúta að menn­ing­ar­arf­in­um hvar sem er.

Í hjarta Reykja­vík­ur ræðst skipu­lag nú af póli­tískri þrákelkni í stað íhug­un­ar. Mál eru rædd metnaðarlaust. Skort­ur á menn­ing­ar­legri og siðferðilegri virðingu borg­ar­yf­ir­valda birt­ist best í um­róti Vík­ur­kirkju­g­arðs. Þeir eru varla virt­ir viðlits sem vilja sporna við fæti – sýn­ir Frakk­lands­for­seti bréf­rit­ur­un­um 1.170 sam­bæri­legt tóm­læti?