22.1.2021

Forseti sátta og alþjóðasamstarfs

Morgunblaðið, 22. janúar 2021.

Við embættis­töku sína miðviku­dag­inn 20. janú­ar 2021 tók Joe Biden, 46. for­seti Banda­ríkj­anna, við erfiðum úr­lausn­ar­efn­um: Covid-19-far­aldr­in­um, efna­hag­sóvissu, kynþátta­spennu og eft­ir­leik þing­hús­árás­ar­inn­ar 6. janú­ar 2021 sem breytti at­höfn­inni við embættis­tök­una í mest vígg­irta viðburð jarðar­kringl­unn­ar.

Í ræðu sinni kynnti Biden ásetn­ing sinn um að sam­eina banda­rísku þjóðina til ein­huga átaks gegn mikla vand­an­um sem að henni steðjar. Biden beindi at­hygli að heima­velli og margá­réttaði nauðsyn þjóðarsam­stöðu. Hann sagði:

„Und­an­farn­ar vik­ur og mánuðir hafa kennt okk­ur sára lex­íu. Sumt er satt og sumt eru lyg­ar. Lyg­ar sagðar í þágu valds og gróða. Og á hverju okk­ar hvíl­ir skylda og ábyrgð sem banda­rísk­um rík­is­borg­ur­um og einkum sem for­ystu­mönn­um. For­ystu­mönn­um sem er skylt að virða stjórn­ar­skrá okk­ar og vernda þjóð okk­ar. Til að verja sann­leik­ann og sigr­ast á lyg­inni.“

Þessi orð má túlka sem kalda kveðju til frá­far­andi for­seta, Don­alds Trumps. Gíf­ur­leg ör­ygg­is­gæsl­an í kring­um Capitol og í Washingt­on á miðviku­dag­inn var vitn­is­b­urður um upp­námið á loka­dög­um for­setatíðar Trumps sem sýndi eft­ir­manni sín­um óvirðingu með fjar­veru frá at­höfn­inni.

Don­alds Trumps verður minnst sem friðarspill­is á heima­velli en einnig sem for­set­ans sem stofnaði ekki til hernaðarátaka við neina þjóð. Hon­um tókst að koma hreyf­ingu á staðnað ástand í Mið-Aust­ur­lönd­um. Fyr­ir til­stilli stjórn­ar hans bötnuðu sam­skipti Ísra­ela og ná­grannaþjóða þeirra. Valda­hlut­föll­in breytt­ust í þess­um viðkvæma heims­hluta. Ut­an­rík­is­ráðherra Ar­ab­a­rík­is sem samdi við Ísra­els­stjórn sagði samn­ing­inn sýna að stjórn sín sætti sig ekki leng­ur við að vera eins kon­ar gísl Palestínu­manna án svig­rúms til eig­in ákv­arðana í ut­an­rík­is­mál­um.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son varð ut­an­rík­is­ráðherra 30. nóv­em­ber 2017 þegar Trump-stjórn­in hafði setið í rúma 10 mánuði. Hann sagðist í sam­tali við Morg­un­blaðið 16. janú­ar 2021 hafa ein­sett sér sem ráðherra að efla stjórn­mála­tengsl­in við Banda­ríkja­menn, mik­il­væg­ustu viðskiptaþjóð okk­ar, ábyrgðar­menn ytra ör­ygg­is Íslend­inga á grund­velli varn­ar­samn­ings í 70 ár, fyrstu þjóðina sem viður­kenndi sjálf­stæði Íslend­inga við stofn­un lýðveld­is­ins 1944.

Hann væri „mjög ánægður með hvað það gekk hratt og vel fyr­ir sig að efla og treysta sam­skipt­in vest­ur,“ þau væru reist á göml­um og góðum grunni en „ekki á ein­staka stjórn­mála­mönn­um eða flokk­um“.

 

Tengsl­in styrkt

Í tíð stjórn­ar Trumps sýndu banda­rísk stjórn­völd Íslend­ing­um, mál­efn­um Norður-Atlants­hafs og norður­slóða mik­inn áhuga. Hann birt­ist til dæm­is í tví­hliða sam­skipt­um við ís­lensk stjórn­völd.

Hingað komu Mike Pom­peo ut­an­rík­is­ráðherra, Mike Pence vara­for­seti og hóp­ur öld­unga­deild­arþing­manna á ár­inu 2019. Banda­ríska sendi­ráðið flutti í nýtt hús­næði. Þegar sendi­herra Trumps tók af skarið um loka­skref bygg­ing­ar­fram­kvæmd­anna batt hann enda á ára­langt ferli. Jafn­framt var keypt veg­leg hús­eign í Reykja­vík fyr­ir framtíðarbú­stað sendi­herra Banda­ríkj­anna.

135650328_10158240174924576_8505924150056476475_oJeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna, bauð mér 4. janúar 2021 að skoða nýja sendiráðsbyggingu Bandaríkjanna við Engjateig og þá var þessi mynd tekin af okkur. Sendiherrann hélt héðan 16. janúar og lét af störfum 20. janúar 2021. Hann aðstoðaði mig þegar ég vann að skýrslu um norræn utanríkis- og öryggismál fyrir ári og skipulagði för til Washington.

Við valda­töku Trumps 20. janú­ar 2017 hvarf þáver­andi sendi­herra Banda­ríkj­anna, Robert C. Barber, úr embætti hér á landi. Trump til­nefndi í ág­úst 2018 Jef­frey Ross Gun­ter lækni sem sendi­herra á Íslandi. Öld­unga­deild Banda­ríkjaþings samþykkti ekki til­nefn­ing­una fyrr en í maí 2019 og af­henti Gun­ter for­seta Íslands trúnaðarbréf sitt 2. júlí 2019.

Gun­ter sendi­herra lét af störf­um nú við for­seta­skipt­in. Óvíst er hve fljótt Joe Biden skip­ar eft­ir­mann hans en Michelle Yerk­in, staðgeng­ill sendi­herra, veit­ir sendi­ráðinu nú for­stöðu.

Í fyrr­greindu viðtali við Morg­un­blaðið seg­ir Guðlaug­ur Þór Þórðar­son að hann hafi „eng­ar áhyggj­ur af því að það verði ein­hver veru­leg breyt­ing á þess­um sam­skipt­um okk­ar [við Banda­ríkja­menn], þó að nýr for­seti og rík­is­stjórn taki þar við völd­um“.

Und­ir þessi orð skal tekið. Áhersl­ur breyt­ast að sjálf­sögðu í ut­an­rík­is­stefnu Banda­ríkj­anna með nýrri stjórn en grund­vall­ar­hags­mun­ir eru áfram sömu og áður.

 

Norður­slóðir

Eitt af því fyrsta sem Biden ákvað var að ját­ast að nýju und­ir Par­ís­ar­sam­komu­lagið um lofts­lags­mál. Þrátt fyr­ir and­stöðu Trumps við sam­komu­lagið mótaði stjórn hans norður­slóðastefnu þar sem rann­sókn­ir á áhrif­um hlýn­un­ar jarðar á ís í Norður-Íshafi skipta miklu. Lagt var á ráðin um að banda­ríska strand­gæsl­an og flot­inn stór­efldu viðveru sína í norðri meðal ann­ars með sex nýj­um ís­brjót­um í stað þess gamla og eina sjó­færa sem Banda­ríkja­menn eiga nú. Varla legg­ur Biden-stjórn­in þessi áform til hliðar?

Árið 2018, í tíð Trumps, var ann­ar floti Banda­ríkj­anna, Atlants­hafs­flot­inn, end­ur­vak­inn, hann var af­skrifaður árið 2011. Stig af stigi efl­ist flot­inn og fyr­ir skömmu var kynnt norður­slóðastefna þar sem eitt af hlut­verk­um flot­ans er að tryggja sigl­inga­frelsi á norður­leiðinni, það er milli Atlants­hafs og Kyrra­hafs fyr­ir norðan Rúss­land, og úti­loka að þar verði hrundið í fram­kvæmd yf­ir­ráðastefnu í anda Kín­verja á Suður-Kína­hafi.

NATO lít­ur nú meira til norðurs en áður. Hvarvetna á Norður­lönd­un­um, inn­an ESB og í Bretlandi ræða menn norður­slóðastefnu af aukn­um þunga. Full­trú­ar allra flokka á Alþingi sitja í nefnd ut­an­rík­is­ráðherra und­ir for­mennsku Bryn­dís­ar Har­alds­dótt­ur, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, og „upp­færa“ 10 ára gamla norður­slóðastefnu Íslands.

Þetta er mik­il­vægt verk­efni til að tryggja að ís­lensk stjórn­völd séu á sömu bylgju­lengd og nor­rænu ná­grannaþjóðirn­ar, Bret­ar, Banda­ríkja­menn og Kan­ada­menn. Í þessu til­liti er nauðsyn­legt að fylgj­ast náið með öll­um ákvörðunum Biden-stjórn­ar­inn­ar.

Í Morg­un­blaðsviðtal­inu seg­ir ut­an­rík­is­ráðherra að auðvitað komi nýj­ar áhersl­ur með nýj­um mönn­um við stjórn­völ­inn í Banda­ríkj­un­um. Á vett­vangi nor­rænna ut­an­rík­is­ráðherra hafi verið rætt að nálg­ast ný stjórn­völd í Washingt­on sam­eig­in­lega.

 

Alþjóðastofn­an­ir

Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO, hef­ur nú for­ystu um und­ir­bún­ing rík­is­odd­vita­fund­ar NATO í Brus­sel síðar á þessu ári, 2021. Þar vill hann að tekn­ar séu ákv­arðanir með vís­an til framtíðar­skýrsl­unn­ar NATO2030 sem birt var und­ir lok 2020.

Aðdrag­andi þessa fund­ar verður með allt öðrum blæ en sam­bæri­leg­ir fund­ir í stjórn­artíð Don­alds Trumps þegar at­hygli beind­ist helst að því sem hann hafði nei­kvætt að segja um NATO eða ein­stak­ar banda­lagsþjóðir og stjórn­end­ur þeirra. Við blasti að Trump gaf minna fyr­ir NATO-sam­starfið og þátt­töku í því en for­ver­ar hans höfðu gert.

Trump sýndi öðrum alþjóðastofn­un­um sem urðu til að frum­kvæði Banda­ríkja­manna eft­ir síðari heims­styrj­öld­ina enn minni áhuga en NATO. Skapaðist þannig tóma­rúm inn­an mik­il­vægra stofn­ana sem Kín­verj­um þótti ljúft að fylla.

Ofan af þess­ari þróun verður ekki undið nema lýðræðis­ríki taki hönd­um sam­an og haldi eig­in gild­um á loft og vinni þeim fylgi.

Í ræðunni á Capitol sagði Joe Biden:

„Þetta vil ég svo segja við þá sem búa utan landa­mæra okk­ar. Banda­rík­in hafa gengið í gegn­um prófraun, eft­ir hana erum við sterk­ari en áður. Við mun­um koma lagi á banda­lög okk­ar og verða enn á ný virk með um­heim­in­um. Ekki til að tak­ast á við áskor­an­ir fortíðar held­ur samtíðar og framtíðar. Og for­ysta okk­ar verður ekki aðeins reist á for­dæmi mátt­ar okk­ar held­ur mætti for­dæm­is okk­ar.“