Forseti sátta og alþjóðasamstarfs
Morgunblaðið, 22. janúar 2021.
Við embættistöku sína miðvikudaginn 20. janúar 2021 tók Joe Biden, 46. forseti Bandaríkjanna, við erfiðum úrlausnarefnum: Covid-19-faraldrinum, efnahagsóvissu, kynþáttaspennu og eftirleik þinghúsárásarinnar 6. janúar 2021 sem breytti athöfninni við embættistökuna í mest víggirta viðburð jarðarkringlunnar.
Í ræðu sinni kynnti Biden ásetning sinn um að sameina bandarísku þjóðina til einhuga átaks gegn mikla vandanum sem að henni steðjar. Biden beindi athygli að heimavelli og margáréttaði nauðsyn þjóðarsamstöðu. Hann sagði:
„Undanfarnar vikur og mánuðir hafa kennt okkur sára lexíu. Sumt er satt og sumt eru lygar. Lygar sagðar í þágu valds og gróða. Og á hverju okkar hvílir skylda og ábyrgð sem bandarískum ríkisborgurum og einkum sem forystumönnum. Forystumönnum sem er skylt að virða stjórnarskrá okkar og vernda þjóð okkar. Til að verja sannleikann og sigrast á lyginni.“
Þessi orð má túlka sem kalda kveðju til fráfarandi forseta, Donalds Trumps. Gífurleg öryggisgæslan í kringum Capitol og í Washington á miðvikudaginn var vitnisburður um uppnámið á lokadögum forsetatíðar Trumps sem sýndi eftirmanni sínum óvirðingu með fjarveru frá athöfninni.
Donalds Trumps verður minnst sem friðarspillis á heimavelli en einnig sem forsetans sem stofnaði ekki til hernaðarátaka við neina þjóð. Honum tókst að koma hreyfingu á staðnað ástand í Mið-Austurlöndum. Fyrir tilstilli stjórnar hans bötnuðu samskipti Ísraela og nágrannaþjóða þeirra. Valdahlutföllin breyttust í þessum viðkvæma heimshluta. Utanríkisráðherra Arabaríkis sem samdi við Ísraelsstjórn sagði samninginn sýna að stjórn sín sætti sig ekki lengur við að vera eins konar gísl Palestínumanna án svigrúms til eigin ákvarðana í utanríkismálum.
Guðlaugur Þór Þórðarson varð utanríkisráðherra 30. nóvember 2017 þegar Trump-stjórnin hafði setið í rúma 10 mánuði. Hann sagðist í samtali við Morgunblaðið 16. janúar 2021 hafa einsett sér sem ráðherra að efla stjórnmálatengslin við Bandaríkjamenn, mikilvægustu viðskiptaþjóð okkar, ábyrgðarmenn ytra öryggis Íslendinga á grundvelli varnarsamnings í 70 ár, fyrstu þjóðina sem viðurkenndi sjálfstæði Íslendinga við stofnun lýðveldisins 1944.
Hann væri „mjög ánægður með hvað það gekk hratt og vel fyrir sig að efla og treysta samskiptin vestur,“ þau væru reist á gömlum og góðum grunni en „ekki á einstaka stjórnmálamönnum eða flokkum“.
Tengslin styrkt
Í tíð stjórnar Trumps sýndu bandarísk stjórnvöld Íslendingum, málefnum Norður-Atlantshafs og norðurslóða mikinn áhuga. Hann birtist til dæmis í tvíhliða samskiptum við íslensk stjórnvöld.
Hingað komu Mike Pompeo utanríkisráðherra, Mike Pence varaforseti og hópur öldungadeildarþingmanna á árinu 2019. Bandaríska sendiráðið flutti í nýtt húsnæði. Þegar sendiherra Trumps tók af skarið um lokaskref byggingarframkvæmdanna batt hann enda á áralangt ferli. Jafnframt var keypt vegleg húseign í Reykjavík fyrir framtíðarbústað sendiherra Bandaríkjanna.
Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna, bauð mér 4. janúar 2021 að skoða nýja sendiráðsbyggingu Bandaríkjanna við Engjateig og þá var þessi mynd tekin af okkur. Sendiherrann hélt héðan 16. janúar og lét af störfum 20. janúar 2021. Hann aðstoðaði mig þegar ég vann að skýrslu um norræn utanríkis- og öryggismál fyrir ári og skipulagði för til Washington.
Við valdatöku Trumps 20. janúar 2017 hvarf þáverandi sendiherra Bandaríkjanna, Robert C. Barber, úr embætti hér á landi. Trump tilnefndi í ágúst 2018 Jeffrey Ross Gunter lækni sem sendiherra á Íslandi. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti ekki tilnefninguna fyrr en í maí 2019 og afhenti Gunter forseta Íslands trúnaðarbréf sitt 2. júlí 2019.
Gunter sendiherra lét af störfum nú við forsetaskiptin. Óvíst er hve fljótt Joe Biden skipar eftirmann hans en Michelle Yerkin, staðgengill sendiherra, veitir sendiráðinu nú forstöðu.
Í fyrrgreindu viðtali við Morgunblaðið segir Guðlaugur Þór Þórðarson að hann hafi „engar áhyggjur af því að það verði einhver veruleg breyting á þessum samskiptum okkar [við Bandaríkjamenn], þó að nýr forseti og ríkisstjórn taki þar við völdum“.
Undir þessi orð skal tekið. Áherslur breytast að sjálfsögðu í utanríkisstefnu Bandaríkjanna með nýrri stjórn en grundvallarhagsmunir eru áfram sömu og áður.
Norðurslóðir
Eitt af því fyrsta sem Biden ákvað var að játast að nýju undir Parísarsamkomulagið um loftslagsmál. Þrátt fyrir andstöðu Trumps við samkomulagið mótaði stjórn hans norðurslóðastefnu þar sem rannsóknir á áhrifum hlýnunar jarðar á ís í Norður-Íshafi skipta miklu. Lagt var á ráðin um að bandaríska strandgæslan og flotinn stórefldu viðveru sína í norðri meðal annars með sex nýjum ísbrjótum í stað þess gamla og eina sjófæra sem Bandaríkjamenn eiga nú. Varla leggur Biden-stjórnin þessi áform til hliðar?
Árið 2018, í tíð Trumps, var annar floti Bandaríkjanna, Atlantshafsflotinn, endurvakinn, hann var afskrifaður árið 2011. Stig af stigi eflist flotinn og fyrir skömmu var kynnt norðurslóðastefna þar sem eitt af hlutverkum flotans er að tryggja siglingafrelsi á norðurleiðinni, það er milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland, og útiloka að þar verði hrundið í framkvæmd yfirráðastefnu í anda Kínverja á Suður-Kínahafi.
NATO lítur nú meira til norðurs en áður. Hvarvetna á Norðurlöndunum, innan ESB og í Bretlandi ræða menn norðurslóðastefnu af auknum þunga. Fulltrúar allra flokka á Alþingi sitja í nefnd utanríkisráðherra undir formennsku Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og „uppfæra“ 10 ára gamla norðurslóðastefnu Íslands.
Þetta er mikilvægt verkefni til að tryggja að íslensk stjórnvöld séu á sömu bylgjulengd og norrænu nágrannaþjóðirnar, Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Í þessu tilliti er nauðsynlegt að fylgjast náið með öllum ákvörðunum Biden-stjórnarinnar.
Í Morgunblaðsviðtalinu segir utanríkisráðherra að auðvitað komi nýjar áherslur með nýjum mönnum við stjórnvölinn í Bandaríkjunum. Á vettvangi norrænna utanríkisráðherra hafi verið rætt að nálgast ný stjórnvöld í Washington sameiginlega.
Alþjóðastofnanir
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur nú forystu um undirbúning ríkisoddvitafundar NATO í Brussel síðar á þessu ári, 2021. Þar vill hann að teknar séu ákvarðanir með vísan til framtíðarskýrslunnar NATO2030 sem birt var undir lok 2020.
Aðdragandi þessa fundar verður með allt öðrum blæ en sambærilegir fundir í stjórnartíð Donalds Trumps þegar athygli beindist helst að því sem hann hafði neikvætt að segja um NATO eða einstakar bandalagsþjóðir og stjórnendur þeirra. Við blasti að Trump gaf minna fyrir NATO-samstarfið og þátttöku í því en forverar hans höfðu gert.
Trump sýndi öðrum alþjóðastofnunum sem urðu til að frumkvæði Bandaríkjamanna eftir síðari heimsstyrjöldina enn minni áhuga en NATO. Skapaðist þannig tómarúm innan mikilvægra stofnana sem Kínverjum þótti ljúft að fylla.
Ofan af þessari þróun verður ekki undið nema lýðræðisríki taki höndum saman og haldi eigin gildum á loft og vinni þeim fylgi.
Í ræðunni á Capitol sagði Joe Biden:
„Þetta vil ég svo segja við þá sem búa utan landamæra okkar. Bandaríkin hafa gengið í gegnum prófraun, eftir hana erum við sterkari en áður. Við munum koma lagi á bandalög okkar og verða enn á ný virk með umheiminum. Ekki til að takast á við áskoranir fortíðar heldur samtíðar og framtíðar. Og forysta okkar verður ekki aðeins reist á fordæmi máttar okkar heldur mætti fordæmis okkar.“