Fordæmaleysi einkennir feril Katrínar
Morgunblaðið, laugardagur 6. apríl 2024.
Frá því að Katrín Jakobsdóttir varð forsætisráðherra 30. nóvember 2017 hafa margir fordæmalausir atburðir gerst í íslenskum stjórnmálum.
Stjórnarmyndunin sjálf var fordæmalaus: Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG) og Sjálfstæðisflokkur tóku höndum saman og mynduðu meirihlutastjórn með Framsóknarflokknum. Þá var fordæmalaust að þriggja flokka ríkisstjórn sæti heilt kjörtímabil og þeim mun frekar að flokkarnir héldu áfram samstarfi sínu eins og varð eftir kosningar haustið 2021.
Viðfangsefnin hafa einnig verið fordæmalaus. Hér skulu þrjú nefnd: viðbrögð við heimsfaraldrinum COVID-19; viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu og viðbrögð við jarðeldum á Reykjanesi. Í engu þessara tilvika brást ríkisstjórnin og forysta Katrínar Jakobsdóttur ávann henni traust og virðingu.
Þeir sem hafa stutt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til góðra verka þurfa ekki að afsaka sig vegna viðbragða hennar í þessum efnum. Stjórn efnahagsmála hefur einnig verið traust og lagt grunn að einstæðum kjarasamningum til fjögurra ára. Brýnasta verkefnið er að draga úr þenslu og slá á verðbólgu.
Því miður leiddu útlendingalög sem nutu stuðnings allra flokka árið 2016 til þess að stjórntæki í þeim málaflokki dugðu ekki. Vegna ágreinings á stjórnarheimilinu hefur dregist um of að laga lögin og framkvæmd þeirra að breyttum aðstæðum þótt betur horfi nú í því efni en gert hefur í átta ár.
Katrín getur stolt yfirgefið stól forsætisráðherra en sama verður tæplega sagt um stöðuna í VG. Flokkurinn hefur visnað undanfarið og þar er uppdráttarsýki. Í stað þess að flokkurinn ýti undir formann sinn og veiti honum byr í seglin er hann eins og haft á Katrínu.
Katrín Jakobsdóttir kynnti framboð sitt til forseta á Facebook síðdegis föstudaginn 5. apríl (skjámynd).
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, þjóðkunn leikkona, sækir til dæmis nú að forsætisráðherra frá vinstri. Fyrir viku sagðist hún bíða eftir hvort Katrín ætlaði að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Henni fyndist framboð hennar „bera vott um oflæti“ og að auki sýndi hún „þingi, þjóð og öðrum frambjóðendum óvirðingu“. Það gæti hún ekki sætt sig við. Hún bauð sig síðan formlega fram um miðja vikuna þegar hún taldi víst að Katrín yrði í kjöri.
Þessi neikvæða, persónubundna ástæða fyrir forsetaframboði er óvenjuleg, meira að segja í þeirri flóru sem nú birtist í rökstuðningi fyrir framboðum.
Ásóknin í forsetaembættið endurspeglar sérkennilegt hömluleysi. Hvað er það sem kallar á þörf svona margra til að koma hér við sögu? Léttvægi umræðnanna birtist í fréttum um hver þurfi skemmstan tíma til að fá nægan fjölda meðmælenda þótt allir segist sammála um að sá þröskuldur sé alltof lágur. Meiru ætti að skipta hvort sá sem um er rætt stenst kröfur sem eðlilegt er að gera til þjóðhöfðingja. Um það heyrast hins vegar engar umræður. Glamrið yfirgnæfir þær að minnsta kosti.
Í fjölmennum frambjóðendahópnum eru vissulega einstaklingar sem myndu sóma sér vel á Bessastöðum og bera hag og virðingu lands og þjóðar fyrir brjósti. Í hópnum er á hinn bóginn einnig fólk sem á ekkert erindi í embættið. Ef til vill líta einhverjir á þetta sem tækifæri til að flagga sjálfum sér eða hugðarefnum sínum.
Nú í dag, 6. apríl, eru rétt átta ár frá því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáv. formaður Framsóknarflokksins, sagði af sér sem forsætisráðherra í stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Afsögnin olli pólitískum óróa og Ólafur Ragnar Grímsson hikaði við að hætta sem forseti en gerði það samt þegar hann sá frambjóðendur sem hann taldi verðuga á Bessastaði.
Afsögn Sigmundar Davíðs dró þann dilk á eftir sér að hann klauf Framsóknarflokkinn og stofnaði eigin flokk 15. október 2017, Miðflokkinn, sem nú er með tvo þingmenn.
Viðreisn var stofnuð 24. maí 2016 af sjálfstæðismönnum sem voru óánægðir með að Sjálfstæðisflokkurinn stefndi ekki á aðild að Evrópusambandinu (ESB). Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur verið formaður Viðreisnar frá mars 2018. Flokkurinn er nú með sex þingmenn.
Samtals hafa þessir tveir klofningsflokkar átta þingmenn, jafnmarga og sitja í þingflokki VG.
Miðflokkurinn og Viðreisn eru dæmigerðir formannsflokkar. Störf þeirra einkennast mjög af því að formenn þeirra eru meira vörumerki flokkanna en stefnan sem þeir fylgja. Það hefur dregið mjög úr ESB-áhuga Viðreisnar enda sér formaðurinn þá stefnu ekki laða kjósendur að flokknum. Sigmundur Davíð er naskur á að viðra mál sem hann telur vekja áhuga kjósenda eins og málflutningur hans í útlendingamálum sýnir.
Stjórnmálaflokkar sem eru þessu marki brenndir lifa almennt ekki lengi og hafa því jafnan lítil marktæk áhrif. Þeir lenda gjarnan í erfiðleikum með að finna fólk á framboðslista og getur haldist illa á þeim sem ná kjöri, einkennir þetta til dæmis Fólk fólksins og Miðflokkinn.
Við brottför Katrínar Jakobsdóttur þarf að mynda nýja ríkisstjórn eins og gert var árið 2016. Það er ekki sjálfgefið að sömu þrír flokkar sitji áfram. Viðreisn og Miðflokkurinn standa nær stjórnarflokkunum en VG gerir enda er annar afsprengi Sjálfstæðisflokksins og hinn Framsóknarflokksins.
Auðvelt er að færa fyrir því rök að nú sé gullið tækifæri fyrir formenn þessara tveggja flokka til að komast til nýrra áhrifa í ríkisstjórn fram að þingkosningum 2025. Líklegt er að þetta sé eina ráðherratækifæri flokksformannanna, það liggur að minnsta kosti ekki á borðinu eftir kosningar – núna eða haustið 2025.
Fordæmalaust forsetaframboð sitjandi forsætisráðherra opnar spennandi pólitísk tækifæri.