6.4.2024

Fordæmaleysi einkennir feril Katrínar

Morgunblaðið, laugardagur 6. apríl 2024.

Frá því að Katrín Jak­obs­dótt­ir varð for­sæt­is­ráðherra 30. nóv­em­ber 2017 hafa marg­ir for­dæma­laus­ir at­b­urðir gerst í ís­lensk­um stjórn­mál­um.

Stjórn­ar­mynd­un­in sjálf var for­dæma­laus: Vinstri­hreyf­ing­in – grænt fram­boð (VG) og Sjálf­stæðis­flokk­ur tóku hönd­um sam­an og mynduðu meiri­hluta­stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um. Þá var for­dæma­laust að þriggja flokka rík­is­stjórn sæti heilt kjör­tíma­bil og þeim mun frek­ar að flokk­arn­ir héldu áfram sam­starfi sínu eins og varð eft­ir kosn­ing­ar haustið 2021.

Viðfangs­efn­in hafa einnig verið for­dæma­laus. Hér skulu þrjú nefnd: viðbrögð við heims­far­aldr­in­um COVID-19; viðbrögð við inn­rás Rússa í Úkraínu og viðbrögð við jarðeld­um á Reykja­nesi. Í engu þess­ara til­vika brást rík­is­stjórn­in og for­ysta Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur ávann henni traust og virðingu.

Þeir sem hafa stutt rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur til góðra verka þurfa ekki að af­saka sig vegna viðbragða henn­ar í þess­um efn­um. Stjórn efna­hags­mála hef­ur einnig verið traust og lagt grunn að ein­stæðum kjara­samn­ing­um til fjög­urra ára. Brýn­asta verk­efnið er að draga úr þenslu og slá á verðbólgu.

Því miður leiddu út­lend­inga­lög sem nutu stuðnings allra flokka árið 2016 til þess að stjórn­tæki í þeim mála­flokki dugðu ekki. Vegna ágrein­ings á stjórn­ar­heim­il­inu hef­ur dreg­ist um of að laga lög­in og fram­kvæmd þeirra að breytt­um aðstæðum þótt bet­ur horfi nú í því efni en gert hef­ur í átta ár.

Katrín get­ur stolt yf­ir­gefið stól for­sæt­is­ráðherra en sama verður tæp­lega sagt um stöðuna í VG. Flokk­ur­inn hef­ur visnað und­an­farið og þar er upp­drátt­ar­sýki. Í stað þess að flokk­ur­inn ýti und­ir formann sinn og veiti hon­um byr í segl­in er hann eins og haft á Katrínu.

Screenshot-2024-04-06-at-16.56.13Katrín Jakobsdóttir kynnti framboð sitt til forseta á Facebook síðdegis föstudaginn 5. apríl (skjámynd).

Stein­unn Ólína Þor­steins­dótt­ir, þjóðkunn leik­kona, sæk­ir til dæm­is nú að for­sæt­is­ráðherra frá vinstri. Fyr­ir viku sagðist hún bíða eft­ir hvort Katrín ætlaði að bjóða sig fram til embætt­is for­seta Íslands. Henni fynd­ist fram­boð henn­ar „bera vott um of­læti“ og að auki sýndi hún „þingi, þjóð og öðrum fram­bjóðend­um óvirðingu“. Það gæti hún ekki sætt sig við. Hún bauð sig síðan form­lega fram um miðja vik­una þegar hún taldi víst að Katrín yrði í kjöri.

Þessi nei­kvæða, per­sónu­bundna ástæða fyr­ir for­setafram­boði er óvenju­leg, meira að segja í þeirri flóru sem nú birt­ist í rök­stuðningi fyr­ir fram­boðum.

Ásókn­in í for­seta­embættið end­ur­spegl­ar sér­kenni­legt hömlu­leysi. Hvað er það sem kall­ar á þörf svona margra til að koma hér við sögu? Létt­vægi umræðnanna birt­ist í frétt­um um hver þurfi skemmst­an tíma til að fá næg­an fjölda meðmæl­enda þótt all­ir seg­ist sam­mála um að sá þrösk­uld­ur sé alltof lág­ur. Meiru ætti að skipta hvort sá sem um er rætt stenst kröf­ur sem eðli­legt er að gera til þjóðhöfðingja. Um það heyr­ast hins veg­ar eng­ar umræður. Glamrið yf­ir­gnæf­ir þær að minnsta kosti.

Í fjöl­menn­um fram­bjóðenda­hópn­um eru vissu­lega ein­stak­ling­ar sem myndu sóma sér vel á Bessa­stöðum og bera hag og virðingu lands og þjóðar fyr­ir brjósti. Í hópn­um er á hinn bóg­inn einnig fólk sem á ekk­ert er­indi í embættið. Ef til vill líta ein­hverj­ir á þetta sem tæki­færi til að flagga sjálf­um sér eða hugðarefn­um sín­um.

Nú í dag, 6. apríl, eru rétt átta ár frá því að Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, þáv. formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði af sér sem for­sæt­is­ráðherra í stjórn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks. Af­sögn­in olli póli­tísk­um óróa og Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son hikaði við að hætta sem for­seti en gerði það samt þegar hann sá fram­bjóðend­ur sem hann taldi verðuga á Bessastaði.

Af­sögn Sig­mund­ar Davíðs dró þann dilk á eft­ir sér að hann klauf Fram­sókn­ar­flokk­inn og stofnaði eig­in flokk 15. októ­ber 2017, Miðflokk­inn, sem nú er með tvo þing­menn.

Viðreisn var stofnuð 24. maí 2016 af sjálf­stæðismönn­um sem voru óánægðir með að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stefndi ekki á aðild að Evr­ópu­sam­band­inu (ESB). Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir hef­ur verið formaður Viðreisn­ar frá mars 2018. Flokk­ur­inn er nú með sex þing­menn.

Sam­tals hafa þess­ir tveir klofn­ings­flokk­ar átta þing­menn, jafn­marga og sitja í þing­flokki VG.

Miðflokk­ur­inn og Viðreisn eru dæmi­gerðir for­manns­flokk­ar. Störf þeirra ein­kenn­ast mjög af því að for­menn þeirra eru meira vörumerki flokk­anna en stefn­an sem þeir fylgja. Það hef­ur dregið mjög úr ESB-áhuga Viðreisn­ar enda sér formaður­inn þá stefnu ekki laða kjós­end­ur að flokkn­um. Sig­mund­ur Davíð er nask­ur á að viðra mál sem hann tel­ur vekja áhuga kjós­enda eins og mál­flutn­ing­ur hans í út­lend­inga­mál­um sýn­ir.

Stjórn­mála­flokk­ar sem eru þessu marki brennd­ir lifa al­mennt ekki lengi og hafa því jafn­an lít­il mark­tæk áhrif. Þeir lenda gjarn­an í erfiðleik­um með að finna fólk á fram­boðslista og get­ur hald­ist illa á þeim sem ná kjöri, ein­kenn­ir þetta til dæm­is Fólk fólks­ins og Miðflokk­inn.

Við brott­för Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur þarf að mynda nýja rík­is­stjórn eins og gert var árið 2016. Það er ekki sjálf­gefið að sömu þrír flokk­ar sitji áfram. Viðreisn og Miðflokk­ur­inn standa nær stjórn­ar­flokk­un­um en VG ger­ir enda er ann­ar af­sprengi Sjálf­stæðis­flokks­ins og hinn Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Auðvelt er að færa fyr­ir því rök að nú sé gullið tæki­færi fyr­ir for­menn þess­ara tveggja flokka til að kom­ast til nýrra áhrifa í rík­is­stjórn fram að þing­kosn­ing­um 2025. Lík­legt er að þetta sé eina ráðherra­tæki­færi flokks­formann­anna, það ligg­ur að minnsta kosti ekki á borðinu eft­ir kosn­ing­ar – núna eða haustið 2025.

For­dæma­laust for­setafram­boð sitj­andi for­sæt­is­ráðherra opn­ar spenn­andi póli­tísk tæki­færi.