Flokkarnir leita að fótfestu
Morgunblaðið, laugardagur 17. ágúst 2024.
Hvort sem gengið verður til kosninga um vorið eða haustið 2025 búa stjórnmálaflokkarnir sig nú undir síðasta þingvetur kjörtímabilsins.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar segist hafa unnið að því að móta nýja stefnu flokksins í öllum helstu málaflokkum. Segist hún búa yfir stefnu í efnahags- og atvinnumálum sem taki tvö kjörtímabil, ef ekki tíu ár, að hrinda í framkvæmd.
Viðreisn var stofnuð vorið 2016 um eitt mál, aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB). Nú telur flokkurinn að með áherslu á upptöku evru í stað krónunnar nái hann frekar til kjósenda en með kynningu á kostum aðildar að ESB. Sá galli er á þessum málatilbúnaði að talsmenn ESB segja Íslendinga ekki fá evru án aðildar að sambandinu.
Ekki verður rætt við ESB um aðild nema þjóðin samþykki það fyrst í atkvæðagreiðslu. Þá er aðild útilokuð án breytingar á stjórnarskránni. Á þinginu sem nú situr er ekki meirihluti fyrir slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki bólar heldur á neinum tillögum um breytingu á stjórnarskrá sem heimili aðild.
Hvort tekist verður á um ESB-málið í aðdraganda þingkosninganna kemur í ljós. Líklegt er að Viðreisn hverfi sem stjórnmálaflokkur áður en þetta mál flokksins kemst á dagskrá.
Auk Samfylkingar og Viðreisnar eru þrír flokkar í andstöðu við ríkisstjórnina á alþingi. Vegna lausungar í skipulagi þessara þriggja flokka er erfitt að átta sig á hvert þeir stefna. Tveir eru foringjaflokkar: Miðflokkurinn og Flokkur fólksins. Þar ráða duttlungar foringjans. Í Pírötum er ósamstæður hópur fólks sem fylkir sér af hagkvæmnisástæðum undir flokksmerkinu.
Ríkisráðsfundur við skipun annars ráðuneytis Bjarna Benediktssonar, 9. apríl 2024.
Mat Hildar Sverrisdóttur, formanns þingflokks sjálfstæðismanna, hér í blaðinu fyrir viku er rétt þegar hún telur „útilokað“ að núverandi stjórnarsamstarf haldi áfram eftir næstu kosningar.
Hún bendir einnig réttilega á að ábyrg ríkisfjármál séu og verði áherslumál Sjálfstæðisflokksins. Við upphaf stjórnarsamstarfsins hafi erindið verið „að efla innviði í heilbrigðis- og félagslega kerfinu fyrir utan auðvitað covid-tímann með öllum þeim margvíslega kostnaði“. Núna verði erindið að vera annað. Ríkið eigi að minnka umsvif sín, einfalda leikreglurnar og leyfa „fólki með hugmyndir og atorku að blómstra öllu samfélaginu til góðs“.
Um leið og undir þetta er tekið er óhjákvæmilegt að minna á að um markmið í þágu atorkusamra einstaklinga ræða sjálfstæðismenn aðeins af alvöru í eigin hópi. Engir forystumenn annarra stjórnmálaflokka eiga frumkvæði að samstarfi við sjálfstæðismenn til að auka svigrúm frumkvöðla og fyrirtækja.
Hildur Sverrisdóttir minnti jafnframt á að með Sjálfstæðisflokkinn utan ríkisstjórnar „væri samfélagið á verri stað“, að öðrum ólöstuðum hefði flokkurinn átt „langmestan þátt í að skapa“ gott íslenskt samfélag.
Með þetta í huga er einkennilegt að þeir sem líta á sig sem einlæga talsmenn frelsis og lítilla ríkisumsvifa gagnrýni forystumenn Sjálfstæðisflokksins í stað þess að benda á forsjárstefnu annarra flokka. Þeir sem segjast vera málsvarar einkarekstrar og lítils opinbers regluverks en draga með málflutningi sínum úr trausti til Sjálfstæðisflokksins fæla kjósendur frá honum og opna andstæðingum eigin skoðana leið til valda.
Sameiginleg málefni ríkisstjórnarflokkanna vega ekki eins þungt og áður. Þá beinist athyglin að ólíkum viðhorfum flokkanna þriggja. Allt ýtir þetta jafnframt undir gagnrýni á málamiðlanir innan stjórnarinnar.
Innan Sjálfstæðisflokksins heyrast raddir um að ekki sé haldið rétt á ríkisfjármálum. Því er til dæmis haldið fram að samsetning ríkisútgjalda sé umhugsunarefni, fjárfestingar hafi minnkað en launakostnaður og tilfærslur vegi æ þyngra. Þetta er „ískyggileg þróun“ sagði í leiðara Morgunblaðsins 13. ágúst.
Allir stjórnmálaflokkar hafa viljað auka rétt fólks til ellilífeyris og örorkubóta. Að kalla þetta „ískyggilega þróun“ er langsótt og sama á við um aðrar samfélagslegar tilfærslur. Röng útlendingastefna hefur þó sett strik í reikninginn.
Fjárfestingar ráðast af framkvæmdagetu. Bygging hjúkrunarheimila hefur vissulega dregist. Nú er þó stefnt að markvissari framkvæmdum í samvinnu við einkaaðila. Framkvæmdir við meðferðarkjarna Landspítalans taka lengri tíma en ætlað var. Reykjavíkurborg tefur samgöngubætur vegna andstöðu við einkabílinn.
Opinberar launagreiðslur taka sífellt meira mið af því sem gerist á almennum launamarkaði. Launahækkanir umfram ákveðið mark valda verðbólgu.
Leiðari Morgunblaðsins var skrifaður af því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði við mbl.is 9. ágúst að umræðan um þátt ríkisfjármálanna í verðbólguþróuninni væri á miklum villigötum. Það sýndi til dæmis nýjasti ríkisreikningur, fyrir árið 2023. Afkoman væri þriðja árið í röð hundrað milljörðum betri en stóð í fjárlögum. Afkomubati í ríkisfjármálunum væri gríðarlegur og líklega nálægt því að vera met.
Þetta sýnir að fjölmiðlaumræður gagnrýnenda ríkisfjármálanna eru ekki á grundvelli rauntalna, reisi þeir málflutning sinn á tölum fjárlaga. Hagstæð niðurstaða í ríkisrekstrinum fellur ekki að aðfinnslunum. Það er síðan sjálfstætt rannsóknarefni hvers vegna ráðherrar og alþingismenn hafa ekki aðgang að haldbetri hagtölum og áætlunum við gerð fjárlaga.
Sá málflutningur stenst ekki gagnrýni að illa hafi verið haldið á fjármálum íslenska ríkisins frá árinu 2013. Sveiflur og dýfur hafa verið miklar en festa hefur verið við stjórnvölinn. Engin rök standa til annars.