Flókið borgríki
Borgríkið – Reykjavík sem framtíð þjóðar **½- þriðjudag 17. nóvember 2020
Bækur - Stjórnmál
Borgríkið – Reykjavík sem framtíð þjóðar **½--
Eftir Magnús Skjöld. Útgefandi: Háskólinn á Bifröst, 2020. Kilja, 176 bls.
Ekki er auðvelt að átta sig til fulls á hvað fyrir höfundi Borgríkisins , Magnúsi Skjöld, dósent við Háskólann á Bifröst, vakir. Ætlar hann að fræða lesandann um Reykjavík eða er Reykjavík samtímans framtíðin sem blasir við íslenska þjóðríkinu? Undir bókarlok segir höfundur: „Í þessari bók hefur verið farið býsna vítt yfir sviðið en sjaldnast mjög djúpt.“ (s.152.) Undir þetta skal tekið. Textinn hefði vel þolað öflugri ritstjórn.
Í inngangi segir Magnús sérstakan tilgang sinn að líta til þess hvernig Reykjavík hafi breyst með aukinni fjölmenningu og „aðflutningi fólks erlendis frá“. Hann mælir með þróun í þá átt og telur að borgaryfirvöld ættu að taka betur á móti útlendingum.
Fjallað er um gildi háskóla fyrir borgir og þróun þeirra og sagt: „Eitt af því sem ætti að vera þokkalega innan seilingar til eflingar Reykjavíkur sem háskólaborgar væri að Háskóli Íslands tæki upp á því að stórauka framboð sitt á námi á ensku, en eins og staðan er nú hefur hann staðið sig afleitlega í því og hefur alþjóðlegum námsmönnum (skiptinemar meðtaldir) aðeins fjölgað um 64% það sem af er 21. öldinni...“. (s. 37.)
Í huga höfundar er Reykjavík „allt borgarsvæði Reykjavíkur, eða í það minnsta öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu“. Magnús bendir á að árið 1990 bjuggu 92% Íslendinga í þéttbýli og segir hann það eitt hæsta hlutfall í heiminum. Þar af hafi um 70% íbúanna búið á höfuðborgarsvæðinu eða innan við 100 km frá miðbæ Reykjavíkur. (s. 26.)
Þessi skilgreining á höfuðborgarsvæðinu kemur á óvart. Almennt er litið þannig á að það nái til sjö sveitarfélaga sem eru 1.007 ferkílómetrar, aðeins um 1% af flatarmáli landsins. Íbúar á þessu litla svæði eru um 220.000 eða um 64% þjóðarinnar.
Magnús lítur hins vegar á höfuðborgarsvæði sem nær rétt austur fyrir Hvolsvöll, yfir Reykjanes, næstum að Snæfellsjökli og Stykkishólmi, norður fyrir Bifröst og austur fyrir Geysi.
Annars staðar segir: „Íslenska þjóðin hefur hins vegar þá sérstöðu miðað við flestar aðrar, sem hafa yfir að ráða jafn víðfeðmu landi, að vera nánast öll búsett í þéttbýli, eða um 94% Íslendinga, langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta setur Íslendinga yfir þær þjóðir þar sem hvað hæst hlutfall íbúanna býr í borg.“ (s.32.)
Því miður eru engin kort birt í bókinni til að auðvelda lesandanum að átta sig í sjónhendingu á svæðinu sem er í raun til umræðu.
Vilji lesandinn kynnast greiningu á grunnþáttum í stjórnkerfi eða fjármálum Reykjavíkurborgar verður hann að leita annað en í þessa bók. Í henni er skautað hratt yfir og staldrað við mál á yfirborðinu í anda þess meirihluta sem stjórnar borginni um þessar mundir. Reykjavík verður tákn fyrir nýjan lífsstíl – til dæmis bíllausan. Að vilja flugvöll í Vatnsmýrinni er sagt gamaldags. Má kenna viðhorf höfundar við 101 til einföldunar.
Mikilvægt er fyrir okkur sem þjóð að hér sé öflugt þéttbýli og borg sem býður kosti borgarlífs og heldur aftur af þeim sem annars mundu finna kröftum sínum viðnám erlendis. Mestu skiptir að sköpuð séu starfsskilyrði til að borgarlífið styrki samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Þar þarf meira til en bíllausa miðborg eða borgarlínu, menningarnótt eða Gay Pride. Höfundi finnst mestu skipta að með almenningssamgöngum sé sigrast á duttlungum veðurfarsins til „að draga úr notkun einkabílsins sem kalla má dýrustu úlpu í heimi“. Þetta sé „eitt lykilviðfangsefni sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu á sviði skipulagsmála og vegferðar til aukinnar sjálfbærni“. (s. 150.)
Höfundur segir að nú ríki klofningur um „Ísland sem fyrirbæri“ það tengist „vissulega vexti Reykjavíkur og borgarvæðingunni“. Þennan klofning megi einnig sjá í Evrópu og Ameríku þar sem átök séu milli „frjálslyndra“ alþjóðasinnaðra borgaralegra sjónarmiða sem hér tengist fjölmenningu, ESB-aðild og að einhverju leyti vinstri pólitík og þjóðernissinnaðra, íhaldssamra sjónarmiða gegn Evrópusamruna. Hér birtist þessi „menningarátök“ í umræðu um byggðamál, innflytjendamál, jafnréttismál, umhverfismál, hvalveiðar, Evrópumál, samgöngumál og atvinnumál.
Hefði verið fróðlegt að sjá höfund greina ástæður fyrir ólíkum viðhorfum til ofangreindra mála hjá meirihlutanum í Reykjavík annars vegar og hjá stjórnendum annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hins vegar hvort sem svæðið er skilgreint á víðtækan hátt höfundar eða á hefðbundinn hátt og litið til 1.007 ferkílómetra svæðisins.
Reykvíkingar sitja uppi með vanda vegna óvildar meirihlutans í ráðhúsinu í garð fjölskyldubílsins, vegna umferðarbanns í mannauðri miðborg, vegna glannaskapar í fjármálum og sýndarhyggju í stjórnmálum. Hugmynd höfundar um að Reykjavík undir vinstri stjórn vísi veginn um framtíð þjóðar er ekki uppörvandi.