Fjölþátta stríð á Eystrasalti
Morgunblaðið, laugardagur 1. október 2022.
Gasleiðslurnar Nord Stream 1 og Nord Stream 2 voru lagðar á botn Eystrasalts til að flytja gas frá Rússlandi til Vestur-Evrópu. Hvor leiðsla er tvö rör, samtals fjögur rör í báðum leiðslum. Vitað er að nú leka þrjú rör.
Annað rörið í Nord Stream 2 gasleiðslunni fyrir suðaustan Borgundarhólm var eyðilagt með sprengju (1,9 stig) klukkan 02.03 aðfaranótt mánudags 26. september 2022. Klukkan 19.04 sama mánudag urðu tvær sprengingar (2,3 stig) og eyðilögðust bæði rör Nord Stream 1 fyrir norðaustan Borgundarhólm.
Frá þessu var sagt þriðjudaginn 27. september en fimmtudaginn 29. september skýrðu sænsk yfirvöld frá fjórða lekanum, hann væri einnig á Nord Stream 1. Það er því heilt rör á Nord Stream 2. Enginn veit hvenær verður unnt að stöðva lekann eða hvort gert verður við rörin.
Rörin eru á 70 til 90 m dýpi, um 12 cm þykk, úr stáli og steypu. Göt á þeim geta ekki myndast fyrir slysni, til dæmis vegna þess að skipsakkeri lendi á þeim. Sérfræðingar benda á ýmsar leiðir til að sprengja þau. Til dæmis megi nota flutningaskip sem sendi frá sér lítinn kafbát að rörunum með sprengju.
Báðar leiðslurnar voru fullar af gasi. Hvorug þeirra var opin.
Myndin er tekin 27. september og sýnir flekkinn sem myndaðist á yfirborði sjávar vegna gaslekans.
Sama dag og fréttir af lekanum bárust var hátíðleg athöfn í Stettin í Póllandi með þátttöku ráðherra frá Noregi, Danmörku og Póllandi til að fagna gasflutningi með leiðslunni Baltic Pipe frá Noregi um Danmörku til Póllands: Pólverjar eru ekki lengur háðir rússnesku gasi.
Frá upphafi stríðsaðgerða Vladimírs Pútins í Úkraínu var ljóst að hann mundi beita orkuvopninu utan Úkraínu til að knýja evrópska ráðamenn til að halda aftur af stuðningi við stjórnina í Kíev og her hennar. Áhrifamesti þrýstingurinn í lýðræðisríkjum kæmi frá heimafólki sem sætti sig ekki við ofurverð og orkuskort í vetrarkuldum.
Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa undanfarin ár samræmt viðbrögð sín við fjölþátta (e. hybrid) atvikum. Samstaða þeirra birtist glöggt strax og fréttir skýrðust og fyrir lá hvað gerst hafði við Svíþjóð og Danmörku.
Hvorki Magdalena Andersson, fráfarandi forsætisráðherra Svía, né Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, drógu í efa að unnið hefði verið skemmdarverk í efnahagslögsögu landa þeirra. Undir það var tekið í höfuðborgum annars staðar á Norðurlöndunum.
Að kvöldi miðvikudags 28. september efndu fjórir finnskir ráðherrar til blaðamannafundar undir forystu Sönnu Marin forsætisráðherra sem sagði lekana valda „gífurlegum áhyggjum“. Þar væri um ásetningsverk að ræða sem kynni að vera þáttur í „stærri fyrirætlunum um að grafa undan evrópsku öryggi“. Finnski varnarmálaráðherrann tók af skarið um að þetta væri skemmdarverk sem yrði rætt á vettvangi NATO.
Að morgni fimmtudags 29. september sendu fastafulltrúar NATO-ríkjanna í Brussel frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er miklum áhyggjum vegna tjónsins á gasleiðslunum tveimur á alþjóðlegu hafsvæði í Eystrasalti. Allt bendi til að um sé að ræða „markvisst, ófyrirleitið og ábyrgðarlaust skemmdarverk“. Hætta steðji að siglingum og umtalsvert umhverfistjón hafi orðið. Lýst er stuðningi við rannsóknir til að upplýsa málið. Þá segir:
„Við höfum sem bandamenn skuldbundist til að vera við því búnir að setja skorður við og verjast, sé beitt þvingunarráðum í krafti orku eða með öðrum fjölþátta aðferðum af hálfu ríkja eða annarra gerenda. Sérhverri markvissri árás á mikilvæga innviði bandalagsríkis verður svarað einhuga og ákveðið.“
Þennan sama fimmtudagsmorgun sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á alþingi að skemmdarverkið á gasleiðslunum færði „ógnina mjög nærri okkur“. Ríkisstjórnin mundi „bregðast við í samræmi við þau gögn“ sem hún fengi frá nágrannaríkjum okkar. Þá drægju „atburðirnir á Eystrasalti“ fram mikilvægi norræns samstarfs og varnar- og öryggismálayfirlýsingarinnar sem norrænu forsætisráðherrarnir sendu frá sér 15. ágúst 2022. Undanfarið hefðu íslensk stjórnvöld aukið þátttöku sína „í sameiginlegum aðgerðum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins“. Öll þátttaka okkar væri hins vegar á borgaralegum forsendum.
Í Noregi beinir skemmdarverkið athygli að því að undanfarið ár hefur ýmislegt dularfullt gerst undan ströndum landsins, liður í fjölþátta stríði, átökum á gráu svæði milli stríðs og ekki-stríðs, eins og það er stundum orðað, þegar um er að ræða blöndu af hefðbundnum hernaðaraðgerðum og öðrum aðgerðum, netárásum og skemmdarverkum.
NRK, norska ríkisútvarpið, nefndi þessi dæmi:
Í fyrra hvarf neðansjávarstrengur fyrir utan Bø í Vesterålen. Í janúar 2022 rofnaði neðansjávarnetstrengur milli Svalbarða og Norður-Noregs. Nú í september hefur sést til ókunnra dróna í nágrenni við norska olíuborpalla á Norðursjó.
Enginn veit með vissu hver stendur að baki því sem hér er lýst. Það er hins vegar talinn „kosturinn“ við fjölþátta hernað að gerandinn getur farið leynt.
Nú reynir á hæfnina við að upplýsa fjölþátta skemmdarverk þegar reynt er að sanna hver eyðilagði Nord Stream rörin þrjú. Hafi eitt rör verið skilið eftir gefur það til kynna að skemmdarvargurinn vilji, þrátt fyrir allt, geta flutt gas frá Rússlandi til Þýskalands.
Hafi Rússar sjálfir staðið að eyðileggingunni á Nord Stream leiðslunum, eins og flesta grunar, sýnir það að Pútin er til alls vís úti í horni. Orkuvaldið og stríðsöxin eru eitt í hans augum.
Það er rétt mat hjá forsætisráðherra: Ógnin færist nær. Fjölþátta stríð kallar á árvekni stjórnvalda og rétt mat á aðstæðum.