Fjölmiðlaumhverfi í uppnámi
Morgunblaðið, laugardagur, 7. janúar 2023
Rétt 20 ár verða 2. maí 2023 liðin frá að upplýst var að 12. júlí 2002 hefði Fréttablaðinu verið bjargað frá gjaldþroti af félaginu Frétt ehf. sem var meðal annars í eigu Gunnars Smára Egilssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, og Bónus-feðganna Jóhannesar Jónssonar og Jóns Ásgeirs, forstjóra Baugs.
Fréttin um þetta birtist átta dögum fyrir kjördag. Í tæpt ár ríkti leynd um eigendur blaðsins. Í kosningabaráttunni árið 2003 var blaðinu beitt hart gegn Davíð Oddssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, og í þágu Baugs.
Bandalag var milli eigenda blaðsins og forsætisráðherraefnis Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þingkosningarnar fóru þannig að hún náði ekki kjöri. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn stjórnuðu landinu áfram eins og þeir höfðu gert frá árinu 1995.
Þegar fréttin um eigendurna birtist sagði Fréttablaðið að það væri prentað í 92.000 eintökum. Eigandi blaðsins ræki dreifikerfi með hátt í 600 blaðberum sem bæru út blöð í meira en 80.000 heimili, sex daga vikunnar, á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri.
Þarna var lagður grunnur að fjölmiðlaveldi Baugsmanna. Í samstarfi við Gunnar Smára stóðu þeir að fríblaðaútgáfu í Kaupmannahöfn og Boston sem endaði með ósköpum. Þá ráku þeir einnig sjónvarp og hljóðvarp. Var talið langtímamarkmið Baugsmanna að knésetja Morgunblaðið.
Eignarhaldi Jóns Ásgeirs á íslenskum fjölmiðlum lauk haustið 2019 þegar fjárfestirinn Helgi Magnússon og tengdir aðilar eignuðust Fréttablaðið að fullu. Nú um áramótin var endanlega hætt að bera Fréttablaðið í heimili. Útgáfu þess er þó haldið áfram fimm daga í viku og má nálgast blaðið í stórverslunum, sundlaugum og víðar. Segir ritstjóri blaðsins að til að byrja með tryggi þessi dreifingaraðferð blaðsins „snertiflöt við 85 prósent landsmanna“.
Í tilefni umskiptanna velti Gunnar Smári fyrir sér hvort veita mætti útgefanda Fréttablaðsins bjartsýnisverðlaunin fyrir að telja „sér trú um að halda megi óbreyttum lestri með því að hætta að bera út blaðið“. Líklegt er að áfram halli undan fæti hjá blaðinu.
Fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, Vilhjálmur
Þorsteinsson, sat ekki á sér og spurði í athugasemd á Facebook við
færslu Gunnars Smára: „Er þetta mikla áfall fyrir Póstdreifingu
jafnframt nagli í líkkistu Morgunblaðsins?“ Enn lifir vonin um að
Fréttablaðið drepi Morgunblaðið. Útgefendur blaðanna hafa átt
fyrirtækið Póstdreifingu saman ásamt Reyni Árnasyni.
Um áramótin urðu meiri breytingar í fjölmiðlaheiminum.
Tilkynnt var að vinstrisinnuðu vefmiðlarnir Kjarninn og Stundin
rynnu saman. Hvorugur miðillinn gat lengur staðið einn og
óstuddur.
Vegna nýrrar tækni og nýs starfsumhverfis verða íslenskir fjölmiðlar eins og fjölmiðlar hvarvetna í opnum, frjálsum samfélögum að laga sig að breyttum aðstæðum. Hér er þetta þó erfiðara en annars staðar vegna þess hve mjög ríkisvaldið mismunar í þágu RÚV.
Stjórnvöld standa ráðalaus andspænis því að skapa lífvænlega umgjörð um fjölmiðlastoð lýðræðisins. Það er skrýtið að sverja lýðræðislegum háttum hollustu út á við en vega að þeim á heimavelli.
Á gamlársdag birti reynslumikill fjölmiðlamaður, Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Vodafone og Stöð 2, grein undir fyrirsögninni: Fjölmiðlar í gíslingu stjórnmála á vefsíðunni visir.is. Þar sagði:
„Alþingismenn hafa í mörg ár rökrætt sér til skemmtunar hvernig rekstrarumhverfi fjölmiðla verði best fyrir komið. Þetta hefur verið rætt í áratugi í ansi mörgum rándýrum nefndum sem skila allskyns álitum sem enginn tekur mark á.
Lilja Alfreðsdóttir er sá ráðherra sem fer með málaflokkinn. Hún hefur ítrekað (a.m.k. sex sinnum) sagt að hún vilji RÚV af auglýsingamarkaði en ekkert gerist.“
Um þetta leyti í fyrra sagðist Lilja ætla að beita sér fyrir brottför RÚV af auglýsingamarkaði. Árið leið án þess að nokkuð gerðist annað en að ríkisframlagið til RÚV jókst um milljarð frá árinu 2021 að sögn Þórhalls og hlutur erlendra streymisveitna og samfélagsmiðla á íslenskum markaði stækkaði án skatta eða skyldna sem hvíla á innlendum fjölmiðlum.
Þórhallur Gunnarsson telur auðvelt að skapa „fyrirsjáanlegt fjölmiðlaumhverfi“ hér enda verði „kenjum stjórnmálamanna“ ýtt til hliðar. „Kenjarnar“ stafa vafalaust af því að ekki er unnt að gera öllum til hæfis með þeim ákvörðunum sem nauðsynlegt er að taka. Hagsmunir einstakra fyrirtækja eru ólíkir og ætli stjórnvöld að eltast við þau hvert og eitt leiðir það til aðgerðaleysis.
Skylda alþingismanna er að móta löggjöf sem skapar lífvænlegan heildarramma fyrir fjölmiðlun auk þáttagerðar í sjónvarpi. Hún á nú mun meiri samleið með kvikmyndagerð en áður vegna streymisveitna. Þar verður íslensk rödd að heyrast og dafna.
Þórhallur nefnir að ákveða megi að RÚV fái sanngjarnt framlag sem samið verði um til fimm ára í senn auk þess sem setja megi 500 milljón króna þak á auglýsingatekjur RÚV (t.d. 10% af nefskatti).
Það skiptir miklu fyrir lýðræðislegt frelsi fjölmiðla að menn sjái hvert stefnir. Berlingske Media boðar að breyta elsta blaði á Norðurlöndum, Berlingske Tidende, sem fyrst kom út 1749, í stafræna útgáfu á árinu.
Á þennan hátt er þessum norræna öldungi tryggt sjálfbært framhaldslíf. Duttlungafullt pólitískt styrkjakerfi fjölmiðla hér er andhverfa þessa.