7.1.2023

Fjölmiðlaumhverfi í uppnámi

Morgunblaðið, laugardagur, 7. janúar 2023

Rétt 20 ár verða 2. maí 2023 liðin frá að upp­lýst var að 12. júlí 2002 hefði Frétta­blaðinu verið bjargað frá gjaldþroti af fé­lag­inu Frétt ehf. sem var meðal ann­ars í eigu Gunn­ars Smára Eg­ils­son­ar, rit­stjóra Frétta­blaðsins, og Bón­us-feðganna Jó­hann­es­ar Jóns­son­ar og Jóns Ásgeirs, for­stjóra Baugs.

Frétt­in um þetta birt­ist átta dög­um fyr­ir kjör­dag. Í tæpt ár ríkti leynd um eig­end­ur blaðsins. Í kosn­inga­bar­átt­unni árið 2003 var blaðinu beitt hart gegn Davíð Odds­syni, for­sæt­is­ráðherra og for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins, og í þágu Baugs.

Banda­lag var milli eig­enda blaðsins og for­sæt­is­ráðherra­efn­is Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Ingi­bjarg­ar Sól­rún­ar Gísla­dótt­ur. Þing­kosn­ing­arn­ar fóru þannig að hún náði ekki kjöri. Sjálf­stæðis­menn og fram­sókn­ar­menn stjórnuðu land­inu áfram eins og þeir höfðu gert frá ár­inu 1995.

Þegar frétt­in um eig­end­urna birt­ist sagði Frétta­blaðið að það væri prentað í 92.000 ein­tök­um. Eig­andi blaðsins ræki dreifi­kerfi með hátt í 600 blaðber­um sem bæru út blöð í meira en 80.000 heim­ili, sex daga vik­unn­ar, á höfuðborg­ar­svæðinu, Suður­nesj­um og Ak­ur­eyri.

Þarna var lagður grunn­ur að fjöl­miðlaveldi Baugs­manna. Í sam­starfi við Gunn­ar Smára stóðu þeir að fríblaðaút­gáfu í Kaup­manna­höfn og Bost­on sem endaði með ósköp­um. Þá ráku þeir einnig sjón­varp og hljóðvarp. Var talið lang­tíma­mark­mið Baugs­manna að kné­setja Morg­un­blaðið.

Eign­ar­haldi Jóns Ásgeirs á ís­lensk­um fjöl­miðlum lauk haustið 2019 þegar fjár­fest­ir­inn Helgi Magnús­son og tengd­ir aðilar eignuðust Frétta­blaðið að fullu. Nú um ára­mót­in var end­an­lega hætt að bera Frétta­blaðið í heim­ili. Útgáfu þess er þó haldið áfram fimm daga í viku og má nálg­ast blaðið í stór­versl­un­um, sund­laug­um og víðar. Seg­ir rit­stjóri blaðsins að til að byrja með tryggi þessi dreif­ing­araðferð blaðsins „snerti­flöt við 85 pró­sent lands­manna“.

Í til­efni um­skipt­anna velti Gunn­ar Smári fyr­ir sér hvort veita mætti út­gef­anda Frétta­blaðsins bjart­sýn­is­verðlaun­in fyr­ir að telja „sér trú um að halda megi óbreytt­um lestri með því að hætta að bera út blaðið“. Lík­legt er að áfram halli und­an fæti hjá blaðinu.

Fyrr­ver­andi gjald­keri Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Vil­hjálm­ur Þor­steins­son, sat ekki á sér og spurði í at­huga­semd á Face­book við færslu Gunn­ars Smára: „Er þetta mikla áfall fyr­ir Póst­dreif­ingu jafn­framt nagli í lík­kistu Morg­un­blaðsins?“ Enn lif­ir von­in um að Frétta­blaðið drepi Morg­un­blaðið. Útgef­end­ur blaðanna hafa átt fyr­ir­tækið Póst­dreif­ingu sam­an ásamt Reyni Árna­syni.

Istock-000002099188large-resized-16032Um ára­mót­in urðu meiri breyt­ing­ar í fjöl­miðlaheim­in­um. Til­kynnt var að vinst­ri­sinnuðu vef­miðlarn­ir Kjarn­inn og Stund­in rynnu sam­an. Hvor­ug­ur miðill­inn gat leng­ur staðið einn og óstudd­ur.

Vegna nýrr­ar tækni og nýs starfs­um­hverf­is verða ís­lensk­ir fjöl­miðlar eins og fjöl­miðlar hvarvetna í opn­um, frjáls­um sam­fé­lög­um að laga sig að breytt­um aðstæðum. Hér er þetta þó erfiðara en ann­ars staðar vegna þess hve mjög rík­is­valdið mis­mun­ar í þágu RÚV.

Stjórn­völd standa ráðalaus and­spæn­is því að skapa líf­væn­lega um­gjörð um fjöl­miðlastoð lýðræðis­ins. Það er skrýtið að sverja lýðræðis­leg­um hátt­um holl­ustu út á við en vega að þeim á heima­velli.

Á gaml­árs­dag birti reynslu­mik­ill fjöl­miðlamaður, Þór­hall­ur Gunn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri miðla hjá Voda­fo­ne og Stöð 2, grein und­ir fyr­ir­sögn­inni: Fjöl­miðlar í gísl­ingu stjórn­mála á vefsíðunni vis­ir.is. Þar sagði:

„Alþing­is­menn hafa í mörg ár rök­rætt sér til skemmt­un­ar hvernig rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla verði best fyr­ir komið. Þetta hef­ur verið rætt í ára­tugi í ansi mörg­um rán­dýr­um nefnd­um sem skila allskyns álit­um sem eng­inn tek­ur mark á.

Lilja Al­freðsdótt­ir er sá ráðherra sem fer með mála­flokk­inn. Hún hef­ur ít­rekað (a.m.k. sex sinn­um) sagt að hún vilji RÚV af aug­lýs­inga­markaði en ekk­ert ger­ist.“

Um þetta leyti í fyrra sagðist Lilja ætla að beita sér fyr­ir brott­för RÚV af aug­lýs­inga­markaði. Árið leið án þess að nokkuð gerðist annað en að rík­is­fram­lagið til RÚV jókst um millj­arð frá ár­inu 2021 að sögn Þór­halls og hlut­ur er­lendra streym­isveitna og sam­fé­lags­miðla á ís­lensk­um markaði stækkaði án skatta eða skyldna sem hvíla á inn­lend­um fjöl­miðlum.

Þór­hall­ur Gunn­ars­son tel­ur auðvelt að skapa „fyr­ir­sjá­an­legt fjöl­miðlaum­hverfi“ hér enda verði „kenj­um stjórn­mála­manna“ ýtt til hliðar. „Kenjarn­ar“ stafa vafa­laust af því að ekki er unnt að gera öll­um til hæf­is með þeim ákvörðunum sem nauðsyn­legt er að taka. Hags­mun­ir ein­stakra fyr­ir­tækja eru ólík­ir og ætli stjórn­völd að elt­ast við þau hvert og eitt leiðir það til aðgerðal­eys­is.

Skylda alþing­is­manna er að móta lög­gjöf sem skap­ar líf­væn­leg­an heildarramma fyr­ir fjöl­miðlun auk þátta­gerðar í sjón­varpi. Hún á nú mun meiri sam­leið með kvik­mynda­gerð en áður vegna streym­isveitna. Þar verður ís­lensk rödd að heyr­ast og dafna.

Þór­hall­ur nefn­ir að ákveða megi að RÚV fái sann­gjarnt fram­lag sem samið verði um til fimm ára í senn auk þess sem setja megi 500 millj­ón króna þak á aug­lýs­inga­tekj­ur RÚV (t.d. 10% af nefskatti).

Það skipt­ir miklu fyr­ir lýðræðis­legt frelsi fjöl­miðla að menn sjái hvert stefn­ir. Berl­ingske Media boðar að breyta elsta blaði á Norður­lönd­um, Berl­ingske Tidende, sem fyrst kom út 1749, í sta­f­ræna út­gáfu á ár­inu.

Á þenn­an hátt er þess­um nor­ræna öld­ungi tryggt sjálf­bært fram­halds­líf. Duttl­unga­fullt póli­tískt styrkja­kerfi fjöl­miðla hér er and­hverfa þessa.