23.10.2021

Fjárfestar vilja fjarskiptakerfi

Morgunblaðið, laugardag 23. október.

Tvö frönsk fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tæki hafa látið að sér kveða á ís­lensk­um markaði und­an­farna daga. Franski fjár­fest­ing­ar­sjóður­inn Vauban In­frastruct­ure Partners keypti meiri­hluta­eign í ís­lenska fé­lag­inu Bor­eal­is Data Center sem rek­ur gagna­ver á Blönduósi og á Fitj­um í Reykja­nes­bæ. Þá hef­ur franska sjóðastýr­ing­ar­fyr­ir­tækið Ardi­an skrifað und­ir sam­komu­lag um einkaviðræður og helstu skil­mála vegna áforma um kaup á Mílu, dótt­ur­fé­lagi Sím­ans.

Í sept­em­ber var greint frá því að Digital 9 In­frastruct­ure, sjóður í stýr­ingu breska sjóðastýr­ing­ar­fé­lags­ins Triple Po­int, hefði keypt Ver­ne Global, sem rek­ur gagna­ver á Ásbrú í Reykja­nes­bæ, fyr­ir rúm­lega 40 millj­arða króna.

Á vefsíðunni Vis­ir.is sagði Hörður Ægis­son, sem ný­lega lét af störf­um sem markaðsrit­stjóri Frétta­blaðsins, að Triple Po­int hefði sýnt áhuga á Mílu. Ardi­an hefði hins veg­ar verið valið til viðræðna og byði 70 til 80 millj­arða króna fyr­ir fyr­ir­tækið.

Áhugi fyr­ir­tækja á að fjár­festa í innviðum hér end­ur­spegl­ar tæki­færi vegna lágra vaxta á alþjóðamörkuðum. Þá laðast fjár­fest­ar einnig að lönd­um þar sem miðlun end­ur­nýj­an­legr­ar orku er ör­ugg og á sam­keppn­is­færu verði. Orku­skort­ur og of­ur­verð set­ur vax­andi svip á efna­hags- og þjóðlíf ná­granna­land­anna, þá eru frétt­ir frá Kína skugga­leg­ar að þessu leyti.

LogoMíla er heild­sölu­fyr­ir­tæki á fjar­skipta­markaði. Kjarn­a­starf­semi þess snýst um að tryggja fjar­skipti á landsvísu með ljós­leiðurum, kop­ar­leiðslum, möstr­um og fjar­skipta­neti. Míla er því dæmi­gert innviðafyr­ir­tæki með „virk­ar“ og „óvirk­ar“ eign­ir til fjar­skipta.

Fjöl­miðla- og fjar­skipta­fé­lagið Sýn seldi fyrr á ár­inu „óvirka“ farsímainnviði sína til er­lendra fjár­festa. Eng­inn tækni­búnaður fylgdi með í söl­unni og þar af leiðandi eng­ir streng­ir eða þræðir. Sal­an á Mílu nær bæði til „virkra“ og „óvirkra“ innviða.

Um 30 ára gam­all átta þráða ljós­leiðara­streng­ur sem NATO lagði á sín­um tíma til að tengja sam­an rat­sjár­stöðvar á fjór­um lands­horn­um mynd­ar stofnn­et ljós­leiðara­kerf­is lands­ins. Árið 2005 seldi ríkið Sím­an­um fimm af þess­um átta strengj­um. Ríkið bauð tvo strengi til leigu árið 2008. Árið 2010 var ann­ar þeirra leigður Sýn við mót­mæli Sím­ans. Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) úr­sk­urðaði árið 2014 að leiga strengs­ins til Sýn­ar fæli ekki í sér rík­isaðstoð.

Í skýrslu starfs­hóps á veg­um ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins vorið 2021 er reifað hvað gera skuli við ljós­leiðara­streng­ina þrjá í um­sjá þess. Af skýrsl­unni má ráða að svig­rúm fyr­ir­tæk­is með aðeins einn streng til umráða sé næsta þröngt. Æskileg­ast sé að ráða að minnsta kosti yfir tveim­ur strengj­um. End­ur­vakið er að leigja megi einkaaðilum tvo strengi og halda ein­um eft­ir vegna rat­sjár­stöðvanna.

Póst- og fjar­skipta­stofn­un (PFS) seg­ir margt benda til að „virk sam­keppni ríki ekki á stofnn­ets­markaði á landsvísu“, þar sem Míla eigi fimm strengi en Sýn leigi einn. Stofn­un­in tel­ur heppi­legt að aðgengi og sam­keppni á þess­um markaði sé bætt. Boðað er að PFS ljúki markaðsgrein­ingu á þessu sviði fyr­ir lok árs 2021.

Breyt­ing­ar á stofnn­ets- og fjar­skipta­markaði kalla á aukna band­breidd vegna gagna­vera og al­mennr­ar fjar­skipta­notk­un­ar. Þá er 5G-væðing far­neta að hefjast af þunga og fylgja aukn­ar kröf­ur til stofnn­eta henni. All­ar ná­grannaþjóðir okk­ar hafa hafnað viðskipt­um við kín­verska tækn­iris­ann Huawei vegna 5G-væðing­ar­inn­ar. Sím­inn og Míla gera það einnig og eiga viðskipti við sænska fyr­ir­tækið Erics­son.

Sýn og NOVA sem sam­ein­ast um ljós­leiðara­streng hljóta að hætta tækni­legri sam­vinnu við Huawei til að virða þjóðarör­yggis­kröf­ur. Stefna ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins er skýr í þessu efni og get­ur það sem leigu­sali sett skil­yrði um nýt­ingu eign­ar sinn­ar. NOVA er að hluta í eigu Banda­ríkja­manna sem búa við bann á viðskipt­um við Huawei.

Vegna frétta um viðræður full­trúa Sím­ans og Ardi­ans um Mílu varð uppi fót­ur og fit. Þjóðarör­ygg­is­ráð var nefnt til sög­unn­ar og stjórn­ar­andstaðan tók kipp, meira að segja þeir sem vilja evru og aðild að ESB virt­ust fá kvíðak­ast.

Í vor sendi for­sæt­is­ráðuneytið frá sér skýrslu þar sem sagði að ís­lensk lög um fjár­fest­ingarýni (e. in­vest­ment screen­ing) stæðust ekki nú­tíma­kröf­ur. Hér væri eng­in heild­stæð lög­gjöf um slíka rýni í þágu þjóðarör­ygg­is.

Mál­um er enn háttað á þenn­an veg. Hér eru ekki lög sem tak­marka aðkomu út­lend­inga að fjar­skipt­a­starf­semi.

Eign­ar­hald á Mílu ræður ekki hvort fyr­ir­tæk­inu beri að virða ís­lensk sam­keppn­is­lög eða önn­ur fyr­ir­mæli ís­lenskra stjórn­valda, til dæm­is um þjóðarör­yggi. Íslensk­ar regl­ur gilda um fjar­skipta­búnað (virk­an og óvirk­an) og rekst­ur hans. Stjórn­völd móta þess­ar regl­ur og ber inn­lend­um eða er­lend­um eig­anda Mílu að virða þær. Viðræður full­trúa Sím­ans og þjóðarör­ygg­is­ráðs snú­ast um þetta. Net- og fjar­skipta­ör­yggi verður sí­fellt mik­il­væg­ara. Íþyngj­andi reglu­verk kann að hafa áhrif á vilja til viðskipta eða á verðmat.

Hluta­fé­lagið Orku­fjar­skipti var stofnað í des­em­ber 2011. Fé­lagið er í jafnri eigu Landsnets og Lands­virkj­un­ar. Það rek­ur öfl­ugt kerfi með ljós­leiðurum og öðrum búnaði í sam­ræmi við kröf­ur raf­orku­kerf­is­ins um áreiðan­legt og traust fjar­skipta­net. Öryggis­kröf­ur fyr­ir­tæk­is­ins eru vafa­laust meiri en tíðkast á al­menn­um markaði.

Til að jafna sam­keppn­is­stöðu á al­menna markaðnum ætti ríkið að selja streng­ina þrjá í NATO-stofnn­et­inu sem það á enn og flytja rat­sjár­teng­ing­arn­ar og annað sem krefst mik­ils ör­ygg­is inn á net Orku­fjar­skipta.