Fimm ár undir forsæti Katrínar
Morgunblaðið, laugardagur 3. desember 2022
Þess var minnst miðvikudaginn 30. nóvember að fimm ár voru liðin
frá því að fyrsta ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur var myndað.
Margir spáðu því að þriggja flokka ríkisstjórn yrði ekki langlíf.
Líkur á að svo yrði þóttu minni en ella vegna þess að í stjórnina
settust jafnólíkir flokkar og Vinstrihreyfingin grænt framboð
(VG) og Sjálfstæðisflokkurinn ásamt miðjuflokknum,
Framsóknarflokknum.
Ríkisstjórnin lifði kjörtímabilið 2017-2021 og fékk nægilegan stuðning til að ganga í endurnýjun lífdaga 28. nóvember 2021 þegar Katrín myndaði annað ráðuneyti sitt með sömu flokkum.
Í samtali við Fréttablaðið vegna fimm ára afmælisins sagði forsætisráðherra:
„Mín regla er að nálgast svona samstarf á þann hátt að jafnvægið finnist til lengri tíma. Stundum verður einn flokkur fúll og finnst hann vera að tapa í samstarfinu en þá getur verið rétt að bíða aðeins. Fólk verður að átta sig á að ég er ekki manneskja sem gengur fram með risastórar yfirlýsingar þótt mér falli ekki eitthvað. Ég vinn á bak við tjöldin, með því á ég við að ég tala ekki við fólk í gegnum fjölmiðla, ég hef unnið með fólki sem gerir það og mér líkar það ekki. Ég held að það sé ekki farsælt til árangurs.“
Jafnvægislist Katrínar Jakobsdóttir hefur áunnið henni traust
langt út fyrir raðir VG. Þótt flokkur hennar minnki nýtur hún
mikil trausts. Hún er stjórnmálamaður sem sleppir ekki hendinni af
því sem hún telur brýnt að nái fram að ganga og kemst þótt stundum
fari hægt. Mistök voru þó gerð með skyndilegu uppbroti á skipulagi
stjórnarráðsins. Það var úr takti við annað í tíð ráðuneyta Katrínar.
Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur frá 28. nóvember 2021.
Miðað við yfirlýsingarnar um öryggis- og varnarmál sem Katrín Jakobsdóttir hefur staðið að sem forsætisráðherra á vettvangi NATO og í samstarfi við norræna og breska forsætisráðherra og heilsteypta afstöðu hennar til manna og málefna hlýtur hún að beita sér fyrir stefnubreytingu flokks síns í afstöðunni til NATO-aðildar og varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Á sínum tíma var Alþýðubandalagið andvígt aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu (EES) en VG snerist til stuðnings við aðildina fyrir þingkosningar vorið 2007.
Til stuðnings NATO-stefnunni er pólitísk sannfæring Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra mun meiri en Katrínar svo að ekki sé minnst á Sönnu Marin, forsætisráðherra Finna, sem var hér á dögunum í boði Katrínar og hvatti óhikað til þess að Pútín yrði barinn niður í eitt skipti fyrir öll.
Frumskylda ríkisvaldsins er að tryggja öryggi borgaranna í bráð og lengd. Það verður ekki gert nema staðið sé vel að rekstri þjóðarbúsins. Þar hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, staðið vaktina sem fjármálaráðherra nær samfellt í tæp tíu ár.
Á fyrri helmingi tímans sneri verkefnið að því að rétta afkomu ríkissjóðs og urðu þáttaskil árið 2015 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, og Bjarni knúðu fram samning við erlenda kröfuhafa um stöðugleikaframlag sem þá nam allt að 500 milljörðum króna.
Ríkissjóður stóð vel að vígi þegar heimsfaraldurinn hófst snemma árs 2020 og allt sem ríkisstjórnin gerði þá til að styrkja efnahag þjóðarinnar og standa vörð um atvinnulífið stuðlaði að því að hjólin tóku fljótt að snúast þegar faraldurshömlum var aflétt.
Hagstofan birti 30. nóvember 2022 bráðabirgðatölur um hagvöxt á 3. ársfjórðungi og var hann 7,7%, talsvert meiri en í samanburðarríkjum landsins. Helstu drifkraftar hans voru mikill vöxtur í útflutningi og kröftug einkaneysla.
Verg landsframleiðsla (VLF) á föstu verðlagi hefur ekki mælst meiri síðan faraldurinn reið yfir en nú á þriðja ársfjórðungi, þegar hún var um 3,8% hærri en á sama tíma árið 2019.
Áætlað er að VLF hafi aukist á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 um 7,4% að raunvirði borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2021 en svo hár vöxtur fyrstu níu mánuði árs hefur ekki mælst síðan árið 2007.
Spár ríkisstjórnarinnar um að uppsveiflan yrði snögg í atvinnulífinu að loknum faraldri reyndust réttar. Fylgikvillar gera hins vegar vart við sig og eru erfiðari viðfangs en sjá mátti fyrir um áramótin vegna stríðsins sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hóf í Úkraínu fyrir rúmum níu mánuðum.
Nú gerir Pútín út á vetrarkulda í Úkraínu með árásum á grunnvirki landsins. Áður hefur hann beitt orkuvopninu til að stuðla að skorti og sem hæstu orkuverði. Þótt verðið haldist hátt hefur orkuskorti verið afstýrt á meginlandi Evrópu, sé gætt hagsýni. Pútín beitir einnig fæðuvopni, sveltir þjóðir. Ófyrirleitni hans stuðlar að verðbólgu hér og annars staðar og þar með hækkun vaxta.
Atvinnuleysi var 2,8% hér í október 2022, var 4,9% í október 2021 og fór hæst í 11,6% í janúar 2021. Undanfarna tólf mánuði hafa nafnlaun hækkað um 8,1% miðað við launavísitölu hagstofunnar. Raunlaun hafa einnig hækkað mikið á sama tímabili þótt verðbólga hafi undanfarið hægt töluvert á hækkun þeirra.
Ekkert af þessu bendir til að illa sé haldið á fjármála- og hagstjórninni.
Aðilar vinnumarkaðarins ræða kjarasamninga til skamms tíma. Katrín Jakobsdóttir sagði þá leið ekki óeðlilega í ljósi óvissu í heimsbúskapnum. Ríkisstjórnin kynni að eiga þar einhverja aðkomu sem gæti skipt verulegu máli að lokum.
Undanfarin fimm ár hefur landinu verið vel stjórnað miðað við alla almenna mælikvarða. Það eitt er einstakt að halda þriggja flokka stjórn saman svo lengi.