3.12.2022

Fimm ár undir forsæti Katrínar

Morgunblaðið, laugardagur 3. desember 2022

Þess var minnst miðviku­dag­inn 30. nóv­em­ber að fimm ár voru liðin frá því að fyrsta ráðuneyti Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur var myndað. Marg­ir spáðu því að þriggja flokka rík­is­stjórn yrði ekki lang­líf. Lík­ur á að svo yrði þóttu minni en ella vegna þess að í stjórn­ina sett­ust jafnólík­ir flokk­ar og Vinstri­hreyf­ing­in grænt fram­boð (VG) og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn ásamt miðju­flokkn­um, Fram­sókn­ar­flokkn­um.

Rík­is­stjórn­in lifði kjör­tíma­bilið 2017-2021 og fékk nægi­leg­an stuðning til að ganga í end­ur­nýj­un lífdaga 28. nóv­em­ber 2021 þegar Katrín myndaði annað ráðuneyti sitt með sömu flokk­um.

Í sam­tali við Frétta­blaðið vegna fimm ára af­mæl­is­ins sagði for­sæt­is­ráðherra:

„Mín regla er að nálg­ast svona sam­starf á þann hátt að jafn­vægið finn­ist til lengri tíma. Stund­um verður einn flokk­ur fúll og finnst hann vera að tapa í sam­starf­inu en þá get­ur verið rétt að bíða aðeins. Fólk verður að átta sig á að ég er ekki mann­eskja sem geng­ur fram með risa­stór­ar yf­ir­lýs­ing­ar þótt mér falli ekki eitt­hvað. Ég vinn á bak við tjöld­in, með því á ég við að ég tala ekki við fólk í gegn­um fjöl­miðla, ég hef unnið með fólki sem ger­ir það og mér lík­ar það ekki. Ég held að það sé ekki far­sælt til ár­ang­urs.“

Jafn­væg­islist Katrín­ar Jak­obs­dótt­ir hef­ur áunnið henni traust langt út fyr­ir raðir VG. Þótt flokk­ur henn­ar minnki nýt­ur hún mik­il trausts. Hún er stjórn­mála­maður sem slepp­ir ekki hend­inni af því sem hún tel­ur brýnt að nái fram að ganga og kemst þótt stund­um fari hægt. Mis­tök voru þó gerð með skyndi­legu upp­broti á skipu­lagi stjórn­ar­ráðsins. Það var úr takti við annað í tíð ráðuneyta Katrín­ar.

DSC02735_edmskjd.width-900Annað ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur frá 28. nóvember 2021.

Miðað við yf­ir­lýs­ing­arn­ar um ör­ygg­is- og varn­ar­mál sem Katrín Jak­obs­dótt­ir hef­ur staðið að sem for­sæt­is­ráðherra á vett­vangi NATO og í sam­starfi við nor­ræna og breska for­sæt­is­ráðherra og heil­steypta af­stöðu henn­ar til manna og mál­efna hlýt­ur hún að beita sér fyr­ir stefnu­breyt­ingu flokks síns í af­stöðunni til NATO-aðild­ar og varn­ar­sam­starfs­ins við Banda­rík­in. Á sín­um tíma var Alþýðubanda­lagið and­vígt aðild Íslands að evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) en VG sner­ist til stuðnings við aðild­ina fyr­ir þing­kosn­ing­ar vorið 2007.

Til stuðnings NATO-stefn­unni er póli­tísk sann­fær­ing Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur ut­an­rík­is­ráðherra mun meiri en Katrín­ar svo að ekki sé minnst á Sönnu Mar­in, for­sæt­is­ráðherra Finna, sem var hér á dög­un­um í boði Katrín­ar og hvatti óhikað til þess að Pútín yrði bar­inn niður í eitt skipti fyr­ir öll.

Frum­skylda rík­is­valds­ins er að tryggja ör­yggi borg­ar­anna í bráð og lengd. Það verður ekki gert nema staðið sé vel að rekstri þjóðarbús­ins. Þar hef­ur Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, staðið vakt­ina sem fjár­málaráðherra nær sam­fellt í tæp tíu ár.

Á fyrri helm­ingi tím­ans sneri verk­efnið að því að rétta af­komu rík­is­sjóðs og urðu þátta­skil árið 2015 þegar Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, og Bjarni knúðu fram samn­ing við er­lenda kröfu­hafa um stöðug­leikafram­lag sem þá nam allt að 500 millj­örðum króna.

Rík­is­sjóður stóð vel að vígi þegar heims­far­ald­ur­inn hófst snemma árs 2020 og allt sem rík­is­stjórn­in gerði þá til að styrkja efna­hag þjóðar­inn­ar og standa vörð um at­vinnu­lífið stuðlaði að því að hjól­in tóku fljótt að snú­ast þegar far­ald­urs­höml­um var aflétt.

Hag­stof­an birti 30. nóv­em­ber 2022 bráðabirgðatöl­ur um hag­vöxt á 3. árs­fjórðungi og var hann 7,7%, tals­vert meiri en í sam­an­b­urðarríkj­um lands­ins. Helstu drif­kraft­ar hans voru mik­ill vöxt­ur í út­flutn­ingi og kröft­ug einka­neysla.

Verg lands­fram­leiðsla (VLF) á föstu verðlagi hef­ur ekki mælst meiri síðan far­ald­ur­inn reið yfir en nú á þriðja árs­fjórðungi, þegar hún var um 3,8% hærri en á sama tíma árið 2019.

Áætlað er að VLF hafi auk­ist á fyrstu níu mánuðum árs­ins 2022 um 7,4% að raun­v­irði borið sam­an við fyrstu níu mánuði árs­ins 2021 en svo hár vöxt­ur fyrstu níu mánuði árs hef­ur ekki mælst síðan árið 2007.

Spár rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að upp­sveifl­an yrði snögg í at­vinnu­líf­inu að lokn­um far­aldri reynd­ust rétt­ar. Fylgi­kvill­ar gera hins veg­ar vart við sig og eru erfiðari viðfangs en sjá mátti fyr­ir um ára­mót­in vegna stríðsins sem Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti hóf í Úkraínu fyr­ir rúm­um níu mánuðum.

Nú ger­ir Pútín út á vetr­arkulda í Úkraínu með árás­um á grunn­virki lands­ins. Áður hef­ur hann beitt orku­vopn­inu til að stuðla að skorti og sem hæstu orku­verði. Þótt verðið hald­ist hátt hef­ur orku­skorti verið af­stýrt á meg­in­landi Evr­ópu, sé gætt hag­sýni. Pútín beit­ir einnig fæðuvopni, svelt­ir þjóðir. Ófyr­ir­leitni hans stuðlar að verðbólgu hér og ann­ars staðar og þar með hækk­un vaxta.

At­vinnu­leysi var 2,8% hér í októ­ber 2022, var 4,9% í októ­ber 2021 og fór hæst í 11,6% í janú­ar 2021. Und­an­farna tólf mánuði hafa nafn­laun hækkað um 8,1% miðað við launa­vísi­tölu hag­stof­unn­ar. Raun­laun hafa einnig hækkað mikið á sama tíma­bili þótt verðbólga hafi und­an­farið hægt tölu­vert á hækk­un þeirra.

Ekk­ert af þessu bend­ir til að illa sé haldið á fjár­mála- og hag­stjórn­inni.

Aðilar vinnu­markaðar­ins ræða kjara­samn­inga til skamms tíma. Katrín Jak­obs­dótt­ir sagði þá leið ekki óeðli­lega í ljósi óvissu í heims­bú­skapn­um. Rík­is­stjórn­in kynni að eiga þar ein­hverja aðkomu sem gæti skipt veru­legu máli að lok­um.

Und­an­far­in fimm ár hef­ur land­inu verið vel stjórnað miðað við alla al­menna mæli­kv­arða. Það eitt er ein­stakt að halda þriggja flokka stjórn sam­an svo lengi.