Fimm alþjóðastraumar á norðurhveli
Morgunblaðið, föstudagur 18. október 2019.
Fimm þættir móta samtíð okkar á þann veg að ástæða er til að velta fyrir sér áhrifum þeirra umfram aðra. Þeir hafa áhrif á geopólitíska stöðu hér í okkar heimshluta, það er hvernig stjórnmál og landafræði tvinnast saman.
Fyrir íslensk stjórnvöld er ekki nýmæli að standa frammi fyrir slíkum breytingum. Þau hafa hingað til borið gæfu til réttra ákvarðana. Að þau geri það áfram skiptir sköpum.
Hertaka Rússa á Krím
Öll samskipti ríkja í okkar heimshluta hafa þróast á verri veg eftir að ofbeldisstefna Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta birtist í ólögmætum landvinningum hans á Krímskaga árið 2014 og hernaði í austurhluta Úkraínu sem kostað hefur um 15.000 manns lífið.
Áhrifa þessarar framgöngu Pútíns gætir hér á landi. Hann setti innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir. Beitti okkur rangindum í skjóli refsiaðgerða Vesturlanda.
Vegna ótta nágrannaþjóða Rússa við yfirgangsstefnu þeirra hefur NATO gripið til gagnaðgerða. Efnt verður til mikillar heræfingar bandalagsins á næsta ári til að staðfesta þær.
Af endurnýjun á mannafla og herbúnaði Bandaríkjamanna í Evrópu leiðir aukið mikilvægi siglingaleiða yfir Norður-Atlantshaf. Bandaríkjastjórn hefur að nýju virkjað 2. flota sinn, Atlantshafsflotann. Haustið 2018 sigldi bandarískt flugmóðurskip í fyrsta sinn í 30 ár til æfinga á Noregshafi fyrir norðan Ísland.
Belti og braut-stefnan
Xi Jinping, aðalritari kínverska kommúnistaflokksins, forseti Kína og formaður miðlægu hermálanefndarinnar, hefur sölsað undir sig meira vald en nokkur annar fyrir utan Maó formann í 70 ára stjórnartíð kommúnista. Xi hefur alla valdaþræði í hendi sér og kennisetningum hans er haldið að kínverskri alþýðu.
Þessi herta alræðisstjórn innan flokksins er í andstöðu við stefnu Dengs, arftaka Maós, sem breytti Kína í efnahagsveldi í krafti kapítalismans.
Belti og braut-stefnan er heimsvaldastefna kínverskra kommúnista, ekki í krafti kennisetninga heldur fjármagns og framkvæmda. Fast er sótt að íslenskum stjórnvöldum að ánetjast þessari stefnu. Þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, oftúlkaði andstöðu ríkisstjórnar Íslands og varaði við stefnunni umturnaðist Jin Zhijian, kínverski sendiherrann á Íslandi, og sakaði varaforsetann um „meinfýsinn rógburð“.
Óvenjulegt er að kveða svo fast að orði á diplómatískum vettvangi. Meira er í húfi að mati kínverskra stjórnvalda en lagning járnbrauta eða vega, gerð hafna eða símaviðskipti.
Viðbrögð Grænlendinga, Dana og Bandaríkjamanna við ásælni Kínverja á Grænlandi sýna að talið er nauðsynlegt að sporna við fæti. Ekki til þess að hindra framkvæmdir heldur til að setja pólitískum áhrifum eða ítökum skorður.
Brexit
Í rúm þrjú ár hafa nágrannar Breta og samaðilar þeirra að EES-samstarfinu fylgst af áhuga og stundum nokkrum kvíða með framgangi mála undir brexit-gunnfánanum.
Engan grunaði að þessi vegferð yrði svona erfið og svo mjög reyndi á innviði breska stjórnkerfisins eða samheldnina innan Bretlands vegna landamæra milli Norður-Írlands og Írska lýðveldisins.
Úrslitastundin nálgast og breska þingið er boðað til sérstaks fundar á morgun, laugardaginn 19. október.
Þrisvar sinnum varð Theresa May forsætisráðherra að lúta í lægra haldi með viðskilnaðarsamning sinn á breska þinginu áður en hún vék til hliðar og Boris Johnson var kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra. Eindreginn brexit-sinni varð þar með forsætisráðherra og setti ríkisstjórninni það markmið að fara úr ESB 31. október 2019 hvað sem það kostaði.
Óhjákvæmilegt er að boðað verði til þingkosninga í Bretlandi fyrr en síðar. Brexit snýst að verulegu leyti um völd og áhrif á heimavelli.
Angela Merkel Þýskalandskanslari veitti þó sýn á annars konar valdabaráttu þegar hún sagði þriðjudaginn 15. október að ekki mætti gleyma að eftir brexit yrðu Bretar „nýir keppinautar við dyr Evrópu“. ESB-þjóðirnar yrðu að efla samkeppnishæfni sína og axla geopólitíska ábyrgð.
Þessi staðreynd snýr ekki síður að okkur Íslendingum en öðrum EES-þjóðum. Þegar hart er tekist á í Evrópu höfum við jafnan hallað okkur að Bretum. Þetta hefur líklega ekki breyst við þorskastríð eða beitingu hryðjuverkalaga gegn okkur.
Stjórnarhættir Trumps
Fyrir tæpum hálfum mánuði tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter að hann ætlaði að kalla bandarískan liðsafla á brott frá Norður-Sýrlandi. Hann opnaði með því leið fyrir tyrkneskan innrásarher og rak rýting í bak Kúrda, samherja Bandaríkjamanna.
Ákvörðun forsetans er líkt við uppgjöf í stað skipulegs undanhalds. Bent er á að í krafti stöðu sinnar í Sýrlandi hafi enginn getað hunsað Bandaríkjastjórn við lausn deilumála á þessum slóðum eða í Mið-Austurlöndum. Nú hafi Trump gefið þetta allt frá sér og Rússar fylli tómarúmið, Vladimir Pútin hafi verið gefið trompspil.
Þegar Trump sætti gagnrýni hótaði hann að leggja efnahag Tyrklands í rúst. Hann sagði að gerðu Tyrkir eitthvað sem hann teldi „af mikilli og óviðjafnanlegri visku“ sinni úr hófi mundi hann „að fullu eyðileggja og afmá efnahag Tyrkja“. Í byrjun vikunnar hóf hann refsiaðgerðir gegn valdamönnum í Tyrklandi og sendi Mike Pence varaforseta svo á vettvang.
Þetta gerði Trump eftir að demókratar og repúblíkanar í báðum deildum Bandaríkjaþings boðuðu sameiginlegar aðgerðir til að draga úr tjóninu sem forsetinn hafði valdið.
Öll framvindan er vatn á myllu þeirra sem vilja að fulltrúadeild þingsins ákæri forsetann og öldungadeildin felli yfir honum dóm. Enn er fjarlægt að það gerist, þó ekki óhugsandi sjái Trump ekki að sér.
Hneykslunar- og reiðibylgja vegna ákvarðana Trumps varð vatn á myllu ESB-aðildarflokkanna Viðreisnar og Samfylkingar. Þeir töldu meira að segja varasamt að treysta á tvíhliða varnasamning við Bandaríkjamenn.
Loftslagsmálin
Vegna hlýnunar jarðar hefur áhugi á norðurslóðum aukist. Við blasir að allir helstu gerendur og áhrifavaldar í alþjóðastjórnmálum og hermálum láta eða ætla að láta að sér kveða á okkar slóðum. Undan því verður ekki vikist og Íslendingar fá í raun engu um það ráðið.
Viðfangsefni íslenskra stjórnvalda er að setja sér markmið og vinna að þeim. Í raun er um að ræða tvíþætt markmið annars vegar í loftslagsmálum og hins vegar vegna þróunar þeirra mála.
Stjórnvöld á Íslandi og í Noregi ætla að standa að sameiginlegu markmiði með ESB-ríkjunum gagnvart Parísarsamkomulaginu frá 2015 sem fullgilt var af alþingi 19. september 2016. Nú er rætt hvernig innleiða skuli reglugerðir um sameiginlegu markmiðin inn í EES-samninginn.
Viðbrögðin vegna hlýnunar jarðar mótast af þáttunum fjórum sem nefndir eru hér á undan. Geopólitískir hagsmunir tengjast með nýjum hætti á norðurhveli vegna loftslagsbreytinganna. Það er óhugsandi að af þeim sökum yfirgefi Íslendingar núverandi bandamenn sína, þvert á móti kann samstarfið að dýpka.