18.10.2019

Fimm alþjóðastraumar á norðurhveli

Morgunblaðið, föstudagur 18. október 2019.

Fimm þætt­ir móta samtíð okk­ar á þann veg að ástæða er til að velta fyr­ir sér áhrif­um þeirra um­fram aðra. Þeir hafa áhrif á geopóli­tíska stöðu hér í okk­ar heims­hluta, það er hvernig stjórn­mál og landa­fræði tvinn­ast sam­an.

Fyr­ir ís­lensk stjórn­völd er ekki ný­mæli að standa frammi fyr­ir slík­um breyt­ing­um. Þau hafa hingað til borið gæfu til réttra ákv­arðana. Að þau geri það áfram skipt­ir sköp­um.

Her­taka Rússa á Krím

Öll sam­skipti ríkja í okk­ar heims­hluta hafa þró­ast á verri veg eft­ir að of­beld­is­stefna Vla­dimirs Pútíns Rúss­lands­for­seta birt­ist í ólög­mæt­um land­vinn­ing­um hans á Krímskaga árið 2014 og hernaði í aust­ur­hluta Úkraínu sem kostað hef­ur um 15.000 manns lífið.

Áhrifa þess­ar­ar fram­göngu Pútíns gæt­ir hér á landi. Hann setti inn­flutn­ings­bann á ís­lensk­ar sjáv­ar­af­urðir. Beitti okk­ur rang­ind­um í skjóli refsiaðgerða Vest­ur­landa.

Vegna ótta ná­grannaþjóða Rússa við yf­ir­gangs­stefnu þeirra hef­ur NATO gripið til gagnaðgerða. Efnt verður til mik­ill­ar heræf­ing­ar banda­lags­ins á næsta ári til að staðfesta þær.

Af end­ur­nýj­un á mannafla og her­búnaði Banda­ríkja­manna í Evr­ópu leiðir aukið mik­il­vægi sigl­inga­leiða yfir Norður-Atlants­haf. Banda­ríkja­stjórn hef­ur að nýju virkjað 2. flota sinn, Atlants­hafs­flot­ann. Haustið 2018 sigldi banda­rískt flug­móður­skip í fyrsta sinn í 30 ár til æf­inga á Nor­egs­hafi fyr­ir norðan Ísland.

NorBelti og braut-stefn­an

Xi Jin­ping, aðal­rit­ari kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins, for­seti Kína og formaður miðlægu her­mála­nefnd­ar­inn­ar, hef­ur sölsað und­ir sig meira vald en nokk­ur ann­ar fyr­ir utan Maó formann í 70 ára stjórn­artíð komm­ún­ista. Xi hef­ur alla valdaþræði í hendi sér og kenni­setn­ing­um hans er haldið að kín­verskri alþýðu.

Þessi herta alræðis­stjórn inn­an flokks­ins er í and­stöðu við stefnu Dengs, arf­taka Maós, sem breytti Kína í efna­hags­veldi í krafti kapí­tal­ism­ans.

Belti og braut-stefn­an er heimsvalda­stefna kín­verskra komm­ún­ista, ekki í krafti kenni­setn­inga held­ur fjár­magns og fram­kvæmda. Fast er sótt að ís­lensk­um stjórn­völd­um að ánetj­ast þess­ari stefnu. Þegar Mike Pence, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, oftúlkaði and­stöðu rík­is­stjórn­ar Íslands og varaði við stefn­unni um­turnaðist Jin Zhiji­an, kín­verski sendi­herr­ann á Íslandi, og sakaði vara­for­set­ann um „mein­fýs­inn róg­b­urð“.

Óvenju­legt er að kveða svo fast að orði á diplóma­tísk­um vett­vangi. Meira er í húfi að mati kín­verskra stjórn­valda en lagn­ing járn­brauta eða vega, gerð hafna eða símaviðskipti.

Viðbrögð Græn­lend­inga, Dana og Banda­ríkja­manna við ásælni Kín­verja á Græn­landi sýna að talið er nauðsyn­legt að sporna við fæti. Ekki til þess að hindra fram­kvæmd­ir held­ur til að setja póli­tísk­um áhrif­um eða ítök­um skorður.

Brex­it

Í rúm þrjú ár hafa ná­grann­ar Breta og samaðilar þeirra að EES-sam­starf­inu fylgst af áhuga og stund­um nokkr­um kvíða með fram­gangi mála und­ir brex­it-gunn­fán­an­um.

Eng­an grunaði að þessi veg­ferð yrði svona erfið og svo mjög reyndi á innviði breska stjórn­kerf­is­ins eða sam­heldn­ina inn­an Bret­lands vegna landa­mæra milli Norður-Írlands og Írska lýðveld­is­ins.

Úrslita­stund­in nálg­ast og breska þingið er boðað til sér­staks fund­ar á morg­un, laug­ar­dag­inn 19. októ­ber.

Þris­var sinn­um varð Th­eresa May for­sæt­is­ráðherra að lúta í lægra haldi með viðskilnaðarsamn­ing sinn á breska þing­inu áður en hún vék til hliðar og Bor­is John­son var kjör­inn leiðtogi Íhalds­flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra. Ein­dreg­inn brex­it-sinni varð þar með for­sæt­is­ráðherra og setti rík­is­stjórn­inni það mark­mið að fara úr ESB 31. októ­ber 2019 hvað sem það kostaði.

Óhjá­kvæmi­legt er að boðað verði til þing­kosn­inga í Bretlandi fyrr en síðar. Brex­it snýst að veru­legu leyti um völd og áhrif á heima­velli.

Ang­ela Merkel Þýska­landskansl­ari veitti þó sýn á ann­ars kon­ar valda­bar­áttu þegar hún sagði þriðju­dag­inn 15. októ­ber að ekki mætti gleyma að eft­ir brex­it yrðu Bret­ar „nýir keppi­naut­ar við dyr Evr­ópu“. ESB-þjóðirn­ar yrðu að efla sam­keppn­is­hæfni sína og axla geopóli­tíska ábyrgð.

Þessi staðreynd snýr ekki síður að okk­ur Íslend­ing­um en öðrum EES-þjóðum. Þegar hart er tek­ist á í Evr­ópu höf­um við jafn­an hallað okk­ur að Bret­um. Þetta hef­ur lík­lega ekki breyst við þorska­stríð eða beit­ingu hryðju­verka­laga gegn okk­ur.

Stjórn­ar­hætt­ir Trumps

Fyr­ir tæp­um hálf­um mánuði til­kynnti Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti á Twitter að hann ætlaði að kalla banda­rísk­an liðsafla á brott frá Norður-Sýr­landi. Hann opnaði með því leið fyr­ir tyrk­nesk­an inn­rás­ar­her og rak rýt­ing í bak Kúrda, sam­herja Banda­ríkja­manna.

Ákvörðun for­set­ans er líkt við upp­gjöf í stað skipu­legs und­an­halds. Bent er á að í krafti stöðu sinn­ar í Sýr­landi hafi eng­inn getað hunsað Banda­ríkja­stjórn við lausn deilu­mála á þess­um slóðum eða í Mið-Aust­ur­lönd­um. Nú hafi Trump gefið þetta allt frá sér og Rúss­ar fylli tóma­rúmið, Vla­dimir Pút­in hafi verið gefið tromp­spil.

Þegar Trump sætti gagn­rýni hótaði hann að leggja efna­hag Tyrk­lands í rúst. Hann sagði að gerðu Tyrk­ir eitt­hvað sem hann teldi „af mik­illi og óviðjafn­an­legri visku“ sinni úr hófi mundi hann „að fullu eyðileggja og afmá efna­hag Tyrkja“. Í byrj­un vik­unn­ar hóf hann refsiaðgerðir gegn valda­mönn­um í Tyrklandi og sendi Mike Pence vara­for­seta svo á vett­vang.

Þetta gerði Trump eft­ir að demó­krat­ar og re­públíkan­ar í báðum deild­um Banda­ríkjaþings boðuðu sam­eig­in­leg­ar aðgerðir til að draga úr tjón­inu sem for­set­inn hafði valdið.

Öll fram­vind­an er vatn á myllu þeirra sem vilja að full­trúa­deild þings­ins ákæri for­set­ann og öld­unga­deild­in felli yfir hon­um dóm. Enn er fjar­lægt að það ger­ist, þó ekki óhugs­andi sjái Trump ekki að sér.

Hneyksl­un­ar- og reiðibylgja vegna ákv­arðana Trumps varð vatn á myllu ESB-aðild­ar­flokk­anna Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar. Þeir töldu meira að segja vara­samt að treysta á tví­hliða varna­samn­ing við Banda­ríkja­menn.

Lofts­lags­mál­in

Vegna hlýn­un­ar jarðar hef­ur áhugi á norður­slóðum auk­ist. Við blas­ir að all­ir helstu gerend­ur og áhrifa­vald­ar í alþjóðastjórn­mál­um og her­mál­um láta eða ætla að láta að sér kveða á okk­ar slóðum. Und­an því verður ekki vikist og Íslend­ing­ar fá í raun engu um það ráðið.

Viðfangs­efni ís­lenskra stjórn­valda er að setja sér mark­mið og vinna að þeim. Í raun er um að ræða tvíþætt mark­mið ann­ars veg­ar í lofts­lags­mál­um og hins veg­ar vegna þró­un­ar þeirra mála.

Stjórn­völd á Íslandi og í Nor­egi ætla að standa að sam­eig­in­legu mark­miði með ESB-ríkj­un­um gagn­vart Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu frá 2015 sem full­gilt var af alþingi 19. sept­em­ber 2016. Nú er rætt hvernig inn­leiða skuli reglu­gerðir um sam­eig­in­legu mark­miðin inn í EES-samn­ing­inn.

Viðbrögðin vegna hlýn­un­ar jarðar mót­ast af þátt­un­um fjór­um sem nefnd­ir eru hér á und­an. Geopóli­tísk­ir hags­mun­ir tengj­ast með nýj­um hætti á norður­hveli vegna lofts­lags­breyt­ing­anna. Það er óhugs­andi að af þeim sök­um yf­ir­gefi Íslend­ing­ar nú­ver­andi banda­menn sína, þvert á móti kann sam­starfið að dýpka.