15.5.2020

Ferðin frá heimsfaraldri er hafin

Morgunblaðið, föstudag 15. maí 2020.

Aðeins 99 farþegar fóru um Kefla­vík­ur­flug­völl frá skír­degi (9. apríl) og fram á ann­an dag páska (13. apríl) árið 2020. Á ár­inu 2019 fóru 84.000 farþegar um völl­inn þessa sömu daga. Þess­ar töl­ur segja í raun allt sem segja þarf um hvernig farþega­flugi til og frá Íslandi hef­ur verið háttað.

Hér hef­ur landa­mær­um aldrei verið lokað fyr­ir rík­is­borg­ur­um Schengen-ríkja og Bret­lands. Ísland er hins veg­ar lokað fyr­ir borg­ur­um annarra landa. Frá og með 19. mars urðu Íslend­ing­ar að fara í tveggja vikna sótt­kví við komu til lands­ins og aðrir frá 24. apríl.

Rík­is­stjórn­in ákvað 12. maí að eigi síðar en 15. júní 2020 geti þeir sem koma til lands­ins farið í COVID-19-próf á Kefla­vík­ur­flug­velli. Einnig verða ný­leg vott­orð um sýna­töku er­lend­is tek­in til greina meti sótt­varna­lækn­ir þau áreiðan­leg. Þriðji kost­ur­inn er að fara í tveggja vikna sótt­kví.

Marg­ar rík­is­stjórn­ir á Schengen-svæðinu miða einnig við 15. júní þegar rætt er um ferðaf­relsi. Af hálfu ESB hafa verið kynnt­ar regl­ur sem mælt er með að gildi á ferðum í flug­vél­um, lest­um og lang­ferðabíl­um. Kaup á miðum og inn­rit­un sé á net­inu. Hvarvetna sé sótt­hreinsi­vökvi og ekki sé bor­inn fram mat­ur eða drykk­ur um borð. Hæfi­legt bil sé milli farþega sem beri grím­ur. Þá sé litið til heil­brigðisþjón­ustu og sjúkra­rým­is á ferðamanna­stöðum. Starfs­fólk hót­ela og veit­ingastaða sé þjálfað til að fara að sett­um regl­um og átta sig á ein­kenn­um COVID-19.

Í skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðar­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra sem hann flutti alþingi 7. maí 2020 seg­ir að ut­an­rík­isþjón­ust­an hafi vegna far­ald­urs­ins unnið að því sem einn maður „að aðstoða hátt í 12 þúsund Íslend­inga sem stadd­ir voru er­lend­is þegar far­ald­ur­inn braust út“. Í ráðuneyt­inu lágu fyr­ir áætlan­ir um viðbrögð í neyðar­til­vik­um sem höfðu verið unn­ar í sam­vinnu við al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra. Nú reyn­ir á rétt vinnu­brögð á leiðinni úr sótt­varna­höft­un­um.

111Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afhenti embætti ríkislögreglustjóra nýlega svonefndan landamærabíl. Ökutæki sem er búið öllum nauðsynlegum tækjum til að fullnægja gæslu Schengen-landamæra. (Mynd: Lögreglan.)

 

Schengen-árit­an­ir

Á ár­inu 2004 gerðu ís­lensk og kín­versk stjórn­völd sam­komu­lag sín á milli um vega­bréfs­árit­an­ir vegna ferðamanna­hópa. Það var þó ekki fyrr en árið 2007 sem ís­lenska sendi­ráðið í Pek­ing hóf út­gáfu Schengen-árit­ana og sendi dóms­málaráðuneytið sér­stak­an full­trúa til að fylgja verk­efn­inu úr hlaði. Útgáfa Schengen-árit­ana hófst í sendi­ráði Íslands í Moskvu árið 2013.

Níu ríki taka að sér að af­greiða um­sókn­ir um Schengen-vega­bréfs­árit­an­ir til Íslands á svæðum þar sem Ísland er ekki með sendiskrif­stofu. Rík­is­borg­ar­ar meira en hundrað ríkja þurfa að sækja um Schengen-vega­bréfs­árit­un til þess að kom­ast til Íslands.

Sér­stakt sam­komu­lag er við Dani um út­gáfu þess­ara árit­ana og dönsk sendi­ráð af­greiddu 36.700 um­sókn­ir um Schengen-árit­an­ir til Íslands í fyrra eða 87% allra um­sókna sem af­greidd­ar voru af svo­nefnd­um fyr­ir­svars­ríkj­um. Álagið á Dani hef­ur stund­um verið svo mikið að þeir hafa orðið að setja þak á af­greiðslur árit­ana til Íslands.

Þegar Íslend­ing­ar gerðust aðilar að Schengen-sam­starf­inu árið 2001 voru ferðamenn ár­lega á bil­inu 2-300 þúsund. Árið 2018 voru ferðamenn hingað til lands 2,3 millj­ón­ir.

Nú stefn­ir ut­an­rík­is­ráðuneytið að því að sendi­ráðin í Banda­ríkj­un­um, Bretlandi og Indlandi hefji út­gáfu Schengen-árit­ana bæði inn­an dyra hjá sér í höfuðborg­um land­anna og einnig í út­stöðvum víða um þessi lönd. Á þann veg er búið í hag­inn fyr­ir nýja sókn ferðaþjón­ust­unn­ar.

Fyr­ir utan að opna leiðir fyr­ir viðskipti með samn­ing­um eru starfs­menn ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar nú í bein­um sam­skipt­um við þúsund­ir manna um heim all­an, Íslend­inga og ferðamenn til lands­ins. Heims­far­ald­ur­inn sann­ar ræki­lega nauðsyn þess að full­trú­ar ís­lenska rík­is­ins leggi rækt við víðtækt alþjóðlegt tengslanet. Það ger­ist ekki án öfl­ugr­ar ut­an­rík­isþjón­ustu.

 

Netör­yggi

Í skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra var nú í annað sinn sér­stak­ur kafli um netör­yggi und­ir fyr­ir­sögn­inni varn­ar- og ör­ygg­is­mál. Kafl­inn end­ur­spegl­ar að þar er um að ræða sam­eig­in­legt verk­efni þeirra sem fara með gæslu borg­ara­legs ör­ygg­is og hernaðarlegs.

Þjóðarör­ygg­is­ráð setti af stað verk­efni til varn­ar gegn „upp­lýs­inga­óreiðu“. Þar er fjallað um einn lið fjölþátta ógna (e. hybrid threats). Dreif­ing á alls kyns sam­særis­kenn­ing­um og lyg­um hef­ur magn­ast vegna COVID-19-far­ald­urs­ins.

Hér er danskt dæmi um boðskap á Face­book vegna far­ald­urs­ins. Það er tekið af síðunni jf­k21 – skamm­stöf­un­in er fyr­ir Jor­d­en Fri­hed Kundskab:

„Allt þetta kór­ónu-pland­emi er al­gjört hneyksli.

Sjúkra­hús í Banda­ríkj­un­um fá 13.000 doll­ara ef þau segja kór­ónu bana­mein og ef þau nota önd­un­ar­vél­ar fá þau 39.000 doll­ara. Á Ítal­íu má í raun aðeins rekja 12% dauðsfalla til kór­ónu.

Ef þú vilt stöðva Big Pharma-spill­ing­una og nauðung­ar­bólu­setn­ingu dönsku þjóðar­inn­ar sam­hliða því sem þeir nota tæki­færið í skjóli kór­ónu til að setja upp 5G-möst­ur á skóla og íþrótta­hús og víðar er AÐEINS um að ræða Jor­d­en Fri­hed Kund­skap.“

Orðið „pland­emi“ er notað af and­stæðing­um bólu­setn­inga. Þeir ótt­ast auðvitað mest að sam­særissmiðum kór­ónu­veirunn­ar tak­ist að finna bólu­efni gegn henni.

Í skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra er minnt á að vegna far­ald­urs­ins hafi hvers kyns fjar­vinna auk­ist í krafti tækni­lausna og öfl­ugra fjar­skipta­kerfa. „Nýrri tækni fylgja nýj­ar ógn­ir og nauðsyn­legt er fyr­ir sam­fé­lög að tryggja ör­yggi með því að efla viðnámsþol við áföll­um og verja mik­il­væga innviði fyr­ir árás­um,“ seg­ir þar.

Minnt er á umræður um ör­yggi 5G-fjar­skipta­kerf­is­ins og sagt að ís­lensk stjórn­völd hafi meðal ann­ars skoðað málið „út frá skuld­bind­ing­um sem Ísland hef­ur geng­ist und­ir, til dæm­is á vett­vangi NATO sem hef­ur sett 5G-fjar­skipta­kerf­in á lista yfir mik­il­væga innviði banda­lags­ríkja“.

Varn­ir heima fyr­ir eru í hönd­um ein­stakra NATO-ríkja en banda­lagið ann­ast sjálft varn­ir eig­in kerfa. Þarna geta hlut­ir skar­ast og séu kerfi rík­is tal­in skapa hættu fyr­ir kerfi NATO mynd­ast vandi sem skaðar þjóðarör­yggi sé ekki farið að rétt­um kröf­um. Þetta kem­ur óhjá­kvæmi­lega til álita við inn­leiðingu 5G-kerfa hér á landi.

Umræður inn­an aðild­ar­ríkja NATO og ann­ars staðar hníga til þeirr­ar átt­ar að áhætta sé tek­in með því að eiga viðskipti við kín­verska Huawei-fyr­ir­tækið. Örygg­is­mat vegna 5G frá Huawei verður að stand­ast NATO-kröf­ur þótt höf­und­ar sam­særis­kenn­inga líti til annarra þátta.

 

Ný viðfangs­efni

Viðfangs­efn­in tvö sem hér eru nefnd vegna skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra árið 2020, Schengen-árit­an­irn­ar og netör­yggið, eru til marks um ný viðmið sem líta ber til við mat á hlut­verki ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar. Borg­araþjón­usta verður auk þess sí­fellt viðameiri og mik­il­væg­ari þátt­ur í starfi henn­ar.

Í aðdrag­anda þess að Ísland „opn­ast“ að nýju 15. júní 2020 reyn­ir á skoðana- og upp­lýs­inga­skipti við fjöl­mörg ríki á leið frá heims­far­aldr­in­um. Þar er farið um ókannað svæði. Eng­inn veit á þessu stigi hve leiðin er löng og eng­inn fer hana einn.