Fé- og valdagræði í Kína
Bækur - Nútímasaga, Morgunblaðið, mánudagur 9. maí 2022
Rauð rúlletta ****-
Eftir Desmond Shum. Þýðandi Jón Þ. Þór. Ugla, 2022. Kilja, 360 bls.
Um þessar mundir eru 10 ár frá því að Wen Jiabao (f. 1942), þáverandi forsætisráðherra Kína, heimsótti Ísland í boði Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Þau funduðu í Safnahúsinu við Hverfisgötu auk þess sem kínverski gesturinn ræddi við Ólaf Ragnar Grímsson, foresta Íslands, heimsótti fjárbónda og hitti nemendur Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna enda er hann sjálfur jarðfræðingur að mennt.
Wen Jiabao er kvæntur Zhang Peili gimsteinafræðingi. Þau kynntust við jarðfræðistörf. Hún sást sjaldan eða aldrei með manni sínum á opinberum vettvangi heldur vann hún hörðum höndum að auðsöfnun í skjóli og skugga hans eins og lýst er í bókinni Rauð rúlletta .
Desmond Shum (f. 1968) er höfundur bókarinnar og segir þar frá uppvexti sínum í Shanghai og Hong Kong, námi í Wisconsin-Madison-háskóla í Bandaríkjunum og síðan þátttöku sinni í kínversku fjármála- og atvinnulífi, hann reisti tollvörugeymslu og dreifingarmiðstöð við flugvöllinn í Peking og lagði grunn að Bulgari-hótelinu í hjarta borgarinnar. Hann og kona hans Duan Whitney auðguðust mjög og er hún gjarnan nefnd til sögunnar sem auðugasta kona Kína. Enginn veit um dvalarstað hennar frá því að hún hvarf 5. september 2017. Síðast heyrði Shum í henni í síma í september 2021 þegar hún varaði hann við afleiðingum þess að gefa út bók sína. Þau eru skilin. Búa Shum og sonur þeirra í Bretlandi.
Zhang Peili, í bókinni Zhang frænka, gegndi lykilhlutverki á braut Duan Whitney til auðs og áhrifa. Bókin ber undirtitilinn: Frásögn innanbúðarmanns af auðæfum, völdum, spillingu og hefnd í Kína okkar daga.
Whitney vildi ekki giftast Shum fyrr en hún fengi grænt ljós frá Zhang frænku. Þær voru alls ekki frænkur heldur var Whitney eins konar hirðmey gimsteinadrottningarinnar. Höfðu þær gagnkvæman fjárhagslegan hag af sambandi sínu. Í heimi þessara kvenskörunga var glæsimennið og athafnamaðurinn Shum innanbúðarmaður.
Í Kína þess tíma sem þarna er lýst hikaði enginn auðmaður í viðskiptalífinu við að sýna ríkidæmi sitt. Það var hluti af andlitinu gagnvart öðrum, mesta dýrgrip hvers og eins. Ekki má falla neitt á hann.
Þeir sem störfuðu fyrir flokkinn og stjórnvöld bárust ekki á út á við. Shum og Whitney litu hins vegar á flottræfilshátt sem góðan fyrir viðskiptin. „Fólk sem stefndi hátt í Kína mátti ekki sýna nein veikleikamerki. Hver vildi þá vera með manni? Enginn. Sýndarmennskan var hluti af leiknum.“ (145)
Hún birtist hjá Whitney í bílum, skartgripum og listaverkum. Sagan af bílnúmeri Whitney, „Beijing A 8027“, stöðutákni sem blasti við öllum, opnar sýn á hugar- og valdaheiminn: „„A-ið“ þýddi að við værum í innsta hring í Beijing. Talan 80 sýndi að bíllinn væri í eigu einhvers með stöðu ráðherra, eða jafnvel enn hærra setts. Og 027 var lág tala sem gaf til kynna að við værum á einhvern hátt tengd ríkisráðinu, ríkisstjórn Kína.“
Þá segir: „Á bíl með réttum númerum mátti sigla að vild á viðskiptaakreinum, aka á gangstéttum, taka ólöglega U-beygju, hafa rauð blikkandi ljós og leggja á stað þar sem ekki átti að leggja en var í námunda við uppáhaldsveitingastað.“ (146)
Bílnúmerið gat óbreytt kaupsýslukona eins og Whitney ekki fengið án þess að nudda í lögreglustjóranum í Peking sem samþykkti beiðni hennar að lokum. Þetta er einfalt dæmi um það sem á kínversku er kallað guanxi, þ.e. sambönd á æðri stöðum. Án þeirra var Whitney eins og á eyðiskeri. Þegar Shum hvatti hana til að fylgja sér til sonar þeirra sem var í skóla á Englandi og dveljast þar treysti hún sér ekki til að segja skilið við heim flokksins og valds hans.
Lýsingin á samskiptum einstaklinga á hæstu stigum kínverska viðskipta- og stjórnmálavaldsins ber þess skýr merki að þar er ekki leitað að málamiðlunum heldur er sigur eins annars tap. Baráttan um að „halda andlitinu“ birtist í öllu sem Shum lýsir. Hún varð til þess að grafa undan hjúskap hans við Whitney. „Við Whitney háðum harða innbyrðis keppni þrátt fyrir að við værum hjón og viðskiptafélagar.“ (291)
Andrúmsloftið er að nokkru eitrað í öllum samskiptum fólks. Á æðstu stigum birtist valdabaráttan í gagnkvæmum spillingarrannsóknum. Yfir mat og drykk ráða klíkur ráðum sínum. Sumir snæða þrjá kvöldverði sama daginn til tryggja völd sín. Þeim sem mistekst er bolað frá og ýtt á haug sögunnar eða líflátnir. Þegar Xi Jinping varð allsráðandi innan flokks og í ríkinu var löppunum kippt undan Whitney og Shum. Þau höfðu veðjað á rangan hest. Shum veit ekki hvar Whitney er. Hann tileinkar henni og Hong Kong bókina. Fremst í henni er þessi gamla kínverska ljóðlína: „Betra er að segja hug sinn og deyja en þegja og lifa.“
Jón Þ. Þór sagnfræðingur íslenskar bókina og fellur þýðing hans vel að textanum sem er lipur og læsilegur. Í íslensku útgáfunni er nafnaskránni sleppt.
Shum segir að bókin hefði ekki orðið til án félaga síns og samhöfundar, Johns Pomfrets. Þeim tekst að lýsa flóknum viðskiptum, leynimakki og stjórnmálaátökum á þann hátt að lesandinn fær skýra mynd. Minningar Shums um æsku sína auka gildi bókarinnar eins og lýsingar á mannlegum samskiptum í fjölmennasta ríki heims þar sem menn eru hiklaust dregnir í dilka eftir ætt sinni og uppruna og lagt hagkvæmnismat á öll samskipti.
Hér er á ferðinni bók sem veitir sýn inn í kínverskt samfélag frá sjónarhóli drengs sem leit á sig sem útskúfaðan í æsku en snerti síðan æðsta valdahring þjóðar sinnar. Tilgangur höfundar er að upplýsa en ekki niðurlægja. Fyrir bragðið er bók hans trúverðug þótt ekki allt sé sagt.