Fáfræði leiðir til fordóma
Morgunblaðið, laugardagur 24. ágúst 2024.
Útlendingastofnun veitti umsóknum um fjölskyldusameiningu frá palestínskum ríkisborgurum forgang frá miðjum október 2023 til 11. mars 2024. Á þessu tímabili samþykkti stofnunin 280 dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, þar af 160 til ríkisborgara Palestínu.
Í umræðum á þessum tíma kom fram að annars staðar á Norðurlöndunum hefði verið næsta ómögulegt fyrir Palestínumenn að sækja um fjölskyldusameiningu eftir að Hamas-liðar réðust inn í Ísrael 7. október 2023. Ísraelsher svaraði og átökin sem hófust standa enn á Gasa.
Heildarfjöldi fólks frá Gasa sem fór til allra annarra norrænna ríkja en Íslands með vísan til fjölskyldusameiningar er sagður samtals svipaður og fjöldinn sem kom hingað.
Íslenska ríkið hefur lagt fé til mannúðaraðstoðar í gegnum UNRWA, Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Á hvern Íslending er framlagið jafnhátt og á hvern íbúa í þeim löndum sem leggja mest af mörkum.
Hér verður ekki farið orðum um hörmungarnar á Gasa, eyðileggingu og mannfall. Allt blasir það við þeim sem fylgjast með fréttum og er heimsfriður í húfi þar til friðsamleg lausn finnst.
Mjög hefur verið þrýst á íslensk stjórnvöld og þau hvött til aðgerða í þágu Palestínumanna. Framlagið héðan að því er varðar þá tvo þætti sem getið er hér að ofan má segja meira en viðunandi, sé beitt eðlilegum samanburði við aðrar þjóðir.
Ofurþrýstingur í þágu Palestínumanna á lýðræðisleg stjórnvöld og kjörna fulltrúa er ekkert nýmæli, hvorki hér né annars staðar. Þeir sem honum beita telja aldrei nóg að gert. Þá eru hörmungar fyrir botni Miðjarðarhafs oft pólitískt bitbein og hitamál í fjarlægum lýðræðisríkjum þótt stjórnendur þeirra hafi engin áhrif eða ráði engu um samskipti Miðjarðarhafsþjóðanna.
Blågårds Kirke Í Kaupmannahöfn.
Undanfarna daga hafa Danir rifjað upp atburði sem gerðust fyrir 33 árum og snerta örlög Palestínumanna. Í dönskum blöðum er þeim lýst sem „sögulegu drama“ í Blågårds Kirke á Nørrebro í Kaupmannahöfn.
Í september 1991 leituðu tæplega 100 ríkisfangslausir Palestínumenn hælis í kjallara Blågårds Kirke. Þeir nutu þar griða í tæpt hálft ár, fram í mars 1992. Þá var látið undan þrýstingi mótmælenda og ein umdeildustu lög síðari tíma í Danmörku samþykkt, þvert á vilja sitjandi ríkisstjórnar borgaraflokkanna.
Vinstri vængur danska þingsins úr Jafnaðarmannaflokknum, Radikale venstre og Sósíalíska þjóðarflokknum (SF) ákvað með sérstökum lögum að heimila 321 Palestínumanni, mest körlum, að setjast að í Danmörku.
Í áratugi hafa Palestínulögin verið nefnd sem dæmi um að á þessum árum hafi Danir verið alltof værukærir í útlendingamálum. Nýtur sú skoðun nú stuðnings bæði til hægri og vinstri.
Raunar hafa danskir jafnaðarmenn síðan tekið upp svo harða útlendingastefnu að Danski þjóðarflokkurinn, sem sótti stuðning sinn til andstæðinga værukæru útlendingastefnunnar, er næstum horfinn af þingi.
Að þessi 33 ára gömlu lög til lausnar á krísu í útlendingamálum vegna þrýstings í þágu Palestínumanna beri hátt núna í Danmörku má rekja til þess að 13. ágúst svaraði útlendinga- og inngildingarráðuneytið fyrirspurn sem Peter Skaarup, þingmaður Danmerkur-demókrata, lagði fram í útlendinga- og inngildingarnefnd þingsins.
Þingmaðurinn spurði hvernig gengið hefði að inngilda þá palestínsku flóttamenn sem sest hefðu að í Blågårds Kirke árið 1991 og síðan fengið hæli í Danmörku með sérstökum lögum. Spurði hann hvernig fólkinu hefði vegnað með vísan til afbrota og atvinnu.
Í svari ráðuneytisins segir að 1. janúar 2024 hafi 266 af þeim 321 sem fengu dvalarleyfi í Danmörku samkvæmt lögum nr. 144 frá 3. mars 1992 enn verið búsettir í Danmörku, þar af séu 230 á aldrinum 32 til 66 ára, það er enn gjaldgengir á vinnumarkaði.
Árið 2023 hafi 170 af þessum 230 verið á opinberu framfæri.
Þá segir í svari ráðuneytisins að 39 af þeim sem fengu dvalarleyfi samkvæmt lögum 144/1992 hafi hlotið óskilorðsbundna fangelsisdóma. Flestir þeirra búi enn í Danmörku. Auk þess hafi 33 einstaklingar hlotið skilorðsbundna fangelsisdóma. Fyrir utan þetta hafi 140 einstaklingar verið dæmdir til að greiða sektir eða annað. Um 85% þeirra séu enn skráðir til heimilis í Danmörku. Tölurnar sýna að í heild hafi 212 einstaklingar (af 321) komist í kast við lögin og þar af bjuggu 184 í Danmörku 1. janúar 2024.
Í danska blaðinu Berlingske er rifjað upp að þar hafi árið 2020 birst grein um afdrif afkomenda þeirra sem fengu búsetuleyfi með Palestínulögunum. Af 999 börnum þeirra höfðu 337 hlotið dóma, 132 af þeim skilorðs- eða óskilorðsbundna fangelsisdóma. Töldu sérfræðingar að þetta gæti stafað af „óbeinni áfallastreituröskun“, áfallastreita vegna stríðs kynni að erfast.
Þingmaðurinn Peter Skaarup segir að tölurnar sýni að afleiðingar lagasetningarinnar 1992 hafi orðið verri en andstæðingar laganna óttuðust á sínum tíma. Ekkert afsaki að afbrotaferill sé fylgifiskur þess að fá að búa í Danmörku.
Grein sem Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti hér í blaðinu 20. ágúst sýnir að ræða verður um útlendingamál hér á öðrum grunni en í Danmörku vegna skorts á opinberum upplýsingum. Íslensk yfirvöld halda ekki sambærilega tölfræði um þessi mál og dönsk. Ábending Diljár Mistar er rétt þegar hún segir: „Við getum ekki áfram stungið höfðinu í sandinn þegar kemur að málefnum útlendinga á Íslandi.“
Fáfræði leiðir til fordóma. Þeir eru sérstaklega hættulegir vegna viðkvæmra mála eins og hér um ræðir.