24.8.2024

Fáfræði leiðir til fordóma

Morgunblaðið, laugardagur 24. ágúst 2024.

Útlend­inga­stofn­un veitti um­sókn­um um fjöl­skyldusam­ein­ingu frá palestínsk­um rík­is­borg­ur­um for­gang frá miðjum októ­ber 2023 til 11. mars 2024. Á þessu tíma­bili samþykkti stofn­un­in 280 dval­ar­leyfi á grund­velli fjöl­skyldusam­ein­ing­ar, þar af 160 til rík­is­borg­ara Palestínu.

Í umræðum á þess­um tíma kom fram að ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um hefði verið næsta ómögu­legt fyr­ir Palestínu­menn að sækja um fjöl­skyldusam­ein­ingu eft­ir að Ham­as-liðar réðust inn í Ísra­el 7. októ­ber 2023. Ísra­els­her svaraði og átök­in sem hóf­ust standa enn á Gasa.

Heild­ar­fjöldi fólks frá Gasa sem fór til allra annarra nor­rænna ríkja en Íslands með vís­an til fjöl­skyldusam­ein­ing­ar er sagður sam­tals svipaður og fjöld­inn sem kom hingað.

Íslenska ríkið hef­ur lagt fé til mannúðaraðstoðar í gegn­um UN­RWA, Palestínuflótta­mannaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna. Á hvern Íslend­ing er fram­lagið jafn­hátt og á hvern íbúa í þeim lönd­um sem leggja mest af mörk­um.

Hér verður ekki farið orðum um hörm­ung­arn­ar á Gasa, eyðilegg­ingu og mann­fall. Allt blas­ir það við þeim sem fylgj­ast með frétt­um og er heims­friður í húfi þar til friðsam­leg lausn finnst.

Mjög hef­ur verið þrýst á ís­lensk stjórn­völd og þau hvött til aðgerða í þágu Palestínu­manna. Fram­lagið héðan að því er varðar þá tvo þætti sem getið er hér að ofan má segja meira en viðun­andi, sé beitt eðli­leg­um sam­an­b­urði við aðrar þjóðir.

Ofurþrýst­ing­ur í þágu Palestínu­manna á lýðræðis­leg stjórn­völd og kjörna full­trúa er ekk­ert ný­mæli, hvorki hér né ann­ars staðar. Þeir sem hon­um beita telja aldrei nóg að gert. Þá eru hörm­ung­ar fyr­ir botni Miðjarðar­hafs oft póli­tískt bit­bein og hita­mál í fjar­læg­um lýðræðis­ríkj­um þótt stjórn­end­ur þeirra hafi eng­in áhrif eða ráði engu um sam­skipti Miðjarðar­hafsþjóðanna.

600px-Blaagaards_Kirke_Copenhagen_frontBlågårds Kirke Í Kaupmannahöfn.

Und­an­farna daga hafa Dan­ir rifjað upp at­b­urði sem gerðust fyr­ir 33 árum og snerta ör­lög Palestínu­manna. Í dönsk­um blöðum er þeim lýst sem „sögu­legu drama“ í Blågårds Kir­ke á Nør­re­bro í Kaup­manna­höfn.

Í sept­em­ber 1991 leituðu tæp­lega 100 rík­is­fangs­laus­ir Palestínu­menn hæl­is í kjall­ara Blågårds Kir­ke. Þeir nutu þar griða í tæpt hálft ár, fram í mars 1992. Þá var látið und­an þrýst­ingi mót­mæl­enda og ein um­deild­ustu lög síðari tíma í Dan­mörku samþykkt, þvert á vilja sitj­andi rík­is­stjórn­ar borg­ara­flokk­anna.

Vinstri væng­ur danska þings­ins úr Jafnaðarmanna­flokkn­um, Radikale ven­stre og Sósíal­íska þjóðarflokkn­um (SF) ákvað með sér­stök­um lög­um að heim­ila 321 Palestínu­manni, mest körl­um, að setj­ast að í Dan­mörku.

Í ára­tugi hafa Palestínu­lög­in verið nefnd sem dæmi um að á þess­um árum hafi Dan­ir verið alltof værukær­ir í út­lend­inga­mál­um. Nýt­ur sú skoðun nú stuðnings bæði til hægri og vinstri.

Raun­ar hafa dansk­ir jafnaðar­menn síðan tekið upp svo harða út­lend­inga­stefnu að Danski þjóðarflokk­ur­inn, sem sótti stuðning sinn til and­stæðinga værukæru út­lend­inga­stefn­unn­ar, er næst­um horf­inn af þingi.

Að þessi 33 ára gömlu lög til lausn­ar á krísu í út­lend­inga­mál­um vegna þrýst­ings í þágu Palestínu­manna beri hátt núna í Dan­mörku má rekja til þess að 13. ág­úst svaraði út­lend­inga- og inn­gild­ing­ar­ráðuneytið fyr­ir­spurn sem Peter Ska­ar­up, þingmaður Dan­merk­ur-demó­krata, lagði fram í út­lend­inga- og inn­gild­ing­ar­nefnd þings­ins.

Þingmaður­inn spurði hvernig gengið hefði að inn­gilda þá palestínsku flótta­menn sem sest hefðu að í Blågårds Kir­ke árið 1991 og síðan fengið hæli í Dan­mörku með sér­stök­um lög­um. Spurði hann hvernig fólk­inu hefði vegnað með vís­an til af­brota og at­vinnu.

Í svari ráðuneyt­is­ins seg­ir að 1. janú­ar 2024 hafi 266 af þeim 321 sem fengu dval­ar­leyfi í Dan­mörku sam­kvæmt lög­um nr. 144 frá 3. mars 1992 enn verið bú­sett­ir í Dan­mörku, þar af séu 230 á aldr­in­um 32 til 66 ára, það er enn gjald­geng­ir á vinnu­markaði.

Árið 2023 hafi 170 af þess­um 230 verið á op­in­beru fram­færi.

Þá seg­ir í svari ráðuneyt­is­ins að 39 af þeim sem fengu dval­ar­leyfi sam­kvæmt lög­um 144/​1992 hafi hlotið óskil­orðsbundna fang­els­is­dóma. Flest­ir þeirra búi enn í Dan­mörku. Auk þess hafi 33 ein­stak­ling­ar hlotið skil­orðsbundna fang­els­is­dóma. Fyr­ir utan þetta hafi 140 ein­stak­ling­ar verið dæmd­ir til að greiða sekt­ir eða annað. Um 85% þeirra séu enn skráðir til heim­il­is í Dan­mörku. Töl­urn­ar sýna að í heild hafi 212 ein­stak­ling­ar (af 321) kom­ist í kast við lög­in og þar af bjuggu 184 í Dan­mörku 1. janú­ar 2024.

Í danska blaðinu Berl­ingske er rifjað upp að þar hafi árið 2020 birst grein um af­drif af­kom­enda þeirra sem fengu bú­setu­leyfi með Palestínu­lög­un­um. Af 999 börn­um þeirra höfðu 337 hlotið dóma, 132 af þeim skil­orðs- eða óskil­orðsbundna fang­els­is­dóma. Töldu sér­fræðing­ar að þetta gæti stafað af „óbeinni áfall­a­streiturösk­un“, áfall­a­streita vegna stríðs kynni að erf­ast.

Þingmaður­inn Peter Ska­ar­up seg­ir að töl­urn­ar sýni að af­leiðing­ar laga­setn­ing­ar­inn­ar 1992 hafi orðið verri en and­stæðing­ar lag­anna óttuðust á sín­um tíma. Ekk­ert af­saki að af­brota­fer­ill sé fylgi­fisk­ur þess að fá að búa í Dan­mörku.

Grein sem Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, birti hér í blaðinu 20. ág­úst sýn­ir að ræða verður um út­lend­inga­mál hér á öðrum grunni en í Dan­mörku vegna skorts á op­in­ber­um upp­lýs­ing­um. Íslensk yf­ir­völd halda ekki sam­bæri­lega töl­fræði um þessi mál og dönsk. Ábend­ing Diljár Mist­ar er rétt þegar hún seg­ir: „Við get­um ekki áfram stungið höfðinu í sand­inn þegar kem­ur að mál­efn­um út­lend­inga á Íslandi.“

Fá­fræði leiðir til for­dóma. Þeir eru sér­stak­lega hættu­leg­ir vegna viðkvæmra mála eins og hér um ræðir.