19.3.2022

Fækka verður freistingum Pútins

Morgunblaðið, laugardagur 19. mars 2021

Í byrj­un vik­unn­ar hófst mesta NATO-heræf­ing­in í Norður-Nor­egi frá því á ní­unda ára­tugn­um. Sænsk­ir og finnsk­ir her­menn æfa þar við hlið liðsmanna NATO-landa. Rúss­ar sendu að minnsta kosti tvö stór her­skip út á Nor­egs­haf, milli Íslands og Nor­egs, til að minna á sig með skotæf­ing­um.

Frétt­irn­ar minna á tæp­lega 40 ára gaml­ar frá­sagn­ir sem birt­ust þegar Kefla­vík­ur­stöðin með allt að 5.000 Banda­ríkja­mönn­um gekk í end­ur­nýj­un lífdaga. Þar var full­komn­asti há­tækni­búnaður til eft­ir­lits í und­ir­djúp­un­um og í lofti. Ráðist var í mikla mann­virkja­gerð, meðal ann­ars smíði flug­stöðvar Leifs Ei­ríks­son­ar sem var form­lega opnuð fyrri hluta árs 1987.

And­stæðing­ar NATO og varn­ar­sam­starfs­ins höfðu allt á horn­um sér vegna fram­kvæmd­anna við flug­stöðina. Til að friða þá á póli­tísk­um vett­vangi var ákveðið að flug­stöðvar­bygg­ing­in, sem Banda­ríkja­stjórn fjár­magnaði að hluta, yrði minni en upp­haf­lega var ráðgert.

Eft­ir að hætt var að deila um sjálfa veru varn­ar­liðsins hér beittu and­stæðing­ar þess sér gegn ein­stök­um fram­kvæmd­um og eim­ir enn eft­ir af þeirri und­ar­legu af­stöðu.

Þótt minn­ing­ar af þessu tagi vakni nú þegar litið er til NATO-æf­ing­ar­inn­ar Cold Respon­se í N-Nor­egi er póli­tíska og hernaðarlega staðan allt önn­ur en hún var þá. Þrátt fyr­ir spennu milli aust­urs og vest­urs og stefnu Sov­ét­manna að heims­yf­ir­ráðum í krafti her­væddr­ar hug­mynda­fræði sinn­ar giltu ákveðnar leik­regl­ur: virðing fyr­ir full­veldi, friðhelgi landa­mæra og alþjóðalög­um.

Military-porsangermoen-frank-soldiersFrá NATO-heræfingunni Cold Response 2022 í Norður-Noregi. (Mynd: Barents Observer.)

Stöðug­leiki reist­ur á viður­kennd­um grund­vall­ar­regl­um er nú úr sög­unni. Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seti svipti sjálf­an sig end­an­lega öllu trausti annarra þegar hann skil­greindi Úkraínu sem ekki-ríki án þjóðar og þar með án landa­mæra; hann yrði að senda rúss­neska her­inn til „sér­stakra aðgerða“ svo að afmá mætti óvær­una. Á tveim­ur dög­um ætlaði hann að af­vopna Úkraínu­menn og af­höfða stjórn­end­ur lands­ins. Nú er hann fast­ur í eig­in stór­yrðum, her hans ræðst á sjúkra­hús og griðastaði al­mennra borg­ara. Árás var gerð á leik­hús í hafn­ar­borg­inni Mariupol miðviku­dag­inn 16. apríl þrátt fyr­ir viðvar­an­ir um að þar dveld­ust börn. Aug­ljós stríðsglæp­ur, segja sér­fræðing­ar.

Heim­skauta­svæðin í Síberíu og vest­ur að landa­mær­um Nor­egs og Finn­lands hafa sér­stakt aðdrátt­ar­afl í aug­um Pút­ins. Má vitna í fjöl­marg­ar ræður hans og ákv­arðanir því til stuðnings. Áhug­inn á svæðinu vex með auk­inni hlýn­un jarðar, opn­un sigl­inga­leiða og fleiri tæki­fær­um til að nýta auðlind­ir. Þar veg­ur jarðefna­eldsneyti, olía og gas, þyngst. Fjár­fest­ing­in í þágu vinnsl­unn­ar er gíf­ur­leg. Land­brot til vinnslu, hafn­ar­gerð, lagn­ing flug­valla, vega, lest­arteina og leiðslna – að öllu þessu hef­ur verið unnið fyr­ir gíf­ur­lega háar fjár­hæðir. Tekj­urn­ar eru einnig mikl­ar. Í umræðum um orku­sölu Rússa til Evr­ópu eft­ir að Úkraínu­stríðið hófst seg­ir að Evr­ópu­rík­in greiði Rúss­um orku­reikn­ing sem nemi millj­arði evra á dag.

Í fjar­ræðu í þýska þing­inu fimmtu­dag­inn 17. mars sakaði Volody­myr Zelenskíj Úkraínu­for­seti Þjóðverja um að taka eig­in efna­hag fram yfir ör­yggi Úkraínu í aðdrag­anda inn­rás­ar Rússa. Ekk­ert til­lit hefði verið tekið til gagn­rýni Úkraínu­manna á Nord Stream 2 gas­leiðsluna þótt hún ógnaði bæði ör­yggi Evr­ópu og Úkraínu. Meira en helm­ing­ur af jarðgasi í Þýskalandi kem­ur frá Rússlandi.

Nú í mars ákvað fram­kvæmda­stjórn ESB að nokkru fyr­ir 2030 verði ekk­ert jarðefna­eldsneyti flutt inn frá Rússlandi. Í ár bein­ist at­hygl­in að jarðgasi og á að skera inn­flutn­ing þess niður um þriðjung úr 155 millj­örðum rúm­metra í 100 millj­arða á ári. Bilið á að brúa með jarðgas-tank­skip­um frá Banda­ríkj­un­um og Qat­ar.

Sam­hliða vax­andi efna­hags­legu mik­il­vægi norður­slóða og sigl­inga­leiðanna í norðri hafa Rúss­ar her­væðst við Norður-Íshaf. Á rúm­lega 24.000 km langri strand­lengju þeirra eru nú her­stöðvar og flug­vell­ir auk hafna á Kóla­skaga fyr­ir rúss­neska Norður­flot­ann og kjarn­orkukaf­báta með lang­dræga kjarna­odda-flug­ar, þunga­miðju rúss­neska fæl­ing­ar­mátt­ar­ins. Pút­in setti þenn­an herafla í viðbragðsstöðu vegna Úkraínu­stríðsins, ein­mitt þegar hvatt var til minni orku­viðskipta við hann.

Á sín­um tíma kallaði Mik­haíl Gor­bat­sjov Sov­ét­leiðtogi norður­slóðir „svæði friðar“ og fræðimenn skil­greindu þær sem „und­an­tekn­ingu“, ónæm­ar fyr­ir átök­um. Fram að inn­rás­inni í Úkraínu lýstu nor­ræn­ir stjórn­mála­menn og fræðimenn norður­slóðum jafn­an sem „lág­spennusvæði“. Stenst sú lýs­ing leng­ur?

Rúss­ar líta á sig sem „leiðandi norður­slóðaþjóð“. Þeir eru í for­mennsku Norður­skauts­ráðsins, að nafn­inu til fram í maí 2023. Að nafn­inu til vegna þess að hinar norður­skautsþjóðirn­ar sjö, nor­rænu þjóðirn­ar, Banda­ríkja­menn og Kan­ada­menn, gerðu „hlé“ á starf­semi ráðsins 3. mars 2022. Þær vilja ekki sitja þar við sama borð og Rúss­ar. Norður­skauts­ráðið er ekki leng­ur nein und­an­tekn­ing. Rúss­ar eru þar á bann­lista eins og ann­ars staðar. Erfitt er að túlka þá þróun alla í anda lág­spennu.

Í Úkraínu sannaðist að sjái Pút­in tæki­færi og tóma­rúm vegna lít­illa varna vík­ur skyn­sem­in til hliðar. Í Úkraínu dreym­ir Pút­in um end­ur­reisn keis­ara­dæm­is­ins. Í norðri lokka nátt­úru­auðæfin.

Ákveðið hef­ur verið að NATO auki herviðbúnað sinn á landi, sjó, í lofti, net­heim­um og geimn­um. Hug­mynd­in er að til­lög­ur um þetta verði samþykkt­ar í júní í sum­ar. Óhjá­kvæmi­legt er að minnka freist­ing­ar til vald­beit­inga á norður­slóðum og huga að ör­yggi gas­flutn­inga­skipa yfir N-Atlants­haf telji Pút­in þau ögra fjár­hag sín­um.