6.10.2017

ESB „pakkar í vörn“ vegna Katalóníu

tburðirnir í Katalóníu sunnudaginn 1. október þegar spænska ríkisstjórnin beitti lögregluvaldi í von um að geta hindrað þjóðaratkvæðagreiðslu íbúa héraðsins um sjálfstæði frá Spáni sýna óbilgirnina sem myndast þegar tekist er á um mál sem eðlilegt er að leysa með samningum innan sama ríkisins. Röð atburða hefur leitt til að ráðamenn Katalóníu vilja binda enda á meira en 500 ára „aðild“ að Spáni og stofna eigið lýðveldi. Miklu ræður að þeir telja sig ekki hafa nægan rétt til að ráðstafa skatttekjum sem aflað er í héraðinu. Stjórn Baskahéraðs hafi til dæmis meiri ráðstöfunarrétt yfir skatttekjum hjá sér.

Eftir að tæplega 90% þeirra sem greiddu atkvæði sunnudaginn 1. október vildu sjálfstæði sagði Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, að leiðin til sjálfstæðis hefði verið opnuð. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, ætlar að beita öllum ráðum til að loka þessari leið. Hann nýtur til þess ákvæða í spænsku stjórnarskránni,  stuðnings Evrópusambandsins og forystumanna helstu ríkja þar.

Víða sjálfstæðishreyfingar

Þegar hugað er að stöðu mála í mörgum Evrópuríkjum þarf engan að undra þótt ráðamönnum þeirra sé ekkert gefið um að viðurkenna rétt einstakra héraða til einhliða sjálfstæðisyfirlýsinga.

Má nefna Korsíku, Bretagne-skaga og Alsace-héraðið í Frakklandi, Suður-Týról, Sardiníu, Sikiley og Trieste á Ítalíu, Flæmingjaland og Wallóníu í Belgíu, Bæjarland og Slesvík-Holstein í Þýskalandi, Færeyjar og Grænland í Danmörku og Álandseyjar í Finnlandi. Þá má einnig minnast ungversku minnihlutanna í Slóvakíu og Rúmeníu. 

Allt eru þetta sjálfstjórnarsvæði eða héruð í ríkjum innan Evrópusambandsins. Sum þeirra hafa þó sérstöðu gagnvart sambandinu eins og Álandseyjar, Færeyjar og Grænland. Annars staðar hafa menn gjarnan litið á aðild að ESB sem leið til aukinnar sjálfstjórnar og vísa til þess sem boðað var í árdaga samstarfsins sem orðið hefur að Evrópusambandinu.

Evrópa héraða


Árum saman var ágæti samvinnunnar á milli ólíkra Evrópuþjóða kynnt á þeim grunni að hún stuðlaði að sjálfstæði héraða samhliða því sem gildi þjóðríkisins minnkaði. Þessari kenningu var einkum hampað af þeim sem boðuðu sambandsríki Evrópu í stað ríkjasambands. 

Þar var Svisslendingurinn Denis de Rougemont (d. 1985) framarlega í flokki. Hann þekkti jafnvægið sem tekist hafði að skapa milli ólíkra kantóna og kirkjudeilda í sambandsríkinu Sviss þar sem fjögur opinber tungumál eru viðurkennd og forsetaembættið er til skiptis í höndum ráðherra ólíkra flokka sem mynda að jafnaði frekar valdalitla sambandsstjórn. Auðvelt er að skjóta málum til þjóðarinnar sem greiðir um þau atkvæði, stór og smá.

Þýskaland er einnig sambandsríki og áhrifamiklir þýskir stjórnmálamenn á borð við Wolfgang Schäuble, fráfarandi fjármálaráðherra og verðandi þingforseta, hafa verið talsmenn sambandsríkis Evrópu. Hugmyndin hefur átt minna fylgi í Frakklandi þar sem Charles de Gaulle, hershöfðingi, stofnandi V. franska lýðveldisins árið 1958 og fyrsti forseti þess, fylgdi stefnu um Evrópu þjóðríkjanna.

Samanburður við Skota


Í Bretlandi hefur verið tekist á um sjálfstæði Skota. Þar var samþykkt af réttum yfirvöldum að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þremur árum um hvort Skotland yrði áfram innan Sameinaða konungdæmisins eða ekki. 

Eftir að tillaga um sjálfstæði var felld sagði þáverandi leiðtogi Skoska þjóðarflokksins að ekki yrði að nýju gengið til atkvæða um málið í fyrirsjáanlegri framtíð. Núverandi leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, Nicola Sturgeon, boðaði hins vegar nýja stefnu eftir að Bretar ákváðu að segja sig úr ESB í atkvæðagreiðslunni 23. júní 2016. Skotar hafa þó almennt lítinn áhuga á að ganga að nýju til atkvæða um sjálfstæði þótt þeir séu hlynntari aðild að ESB en aðrir í Bretlandi.

Þegar rætt var um sjálfstæði Skota voru ráðamenn innan ESB meira á máli stjórnvalda í London en í Edinborg. Þeir tóku ekki undir sjónarmið skoskra þjóðernissinna um að þeir þyrftu ekki annað en tilkynna áframhaldandi aðild að ESB til að fá hana. Af  hálfu ESB var áréttað að sjálfstætt Skotland yrði eins og hvert annað umsóknarland gagnvart ESB, yrði að fara í röðina og gangast undir sömu skyldur og önnur umsóknarlönd.

Afstaða Brusselmanna til Skotlands mótaðist meðal annars af tilliti til stjórnvalda á Spáni sem hafa lengi gert allt í þeirra valdi til að leggja stein í götu sjálfstæðissinna í Katalóníu. Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, sagði mánudaginn 2. október að framkvæmdastjórnin teldi atkvæðagreiðsluna í Katalóníu ólöglega. Öðlaðist Katalónía sjálfstæði í löglegri atkvæðagreiðslu yrði ríkið að hverfa úr ESB.

„Hvað sem líður lagalegri hlið málsins telur framkvæmdastjórnin að á líðandi stundu beri að leggja áherslu á einhug og stöðugleika, ekki sundrung og uppbrot,“ sagði Schinas. Ofbeldi skilaði aldrei árangri í stjórnmálum.

 

Áhugi Rússa


Í spænska blaðinu El País mátti vegna atkvæðagreiðslunnar lesa úttekt blaðamanns á afstöðu Rússa til atburðanna í Katalóníu. Viðhorf þeirra yrði að skoða með það í huga að ráðamenn í Rússlandi vildu ýta undir sem mest vandræði innan ESB. Þetta gerðu þeir ekki vegna hugsjóna heldur í von um að grafa undan samstöðu innan sambandsins og auka þannig líkur á að fallið yrði frá refsiaðgerðunum sem ESB greip til árið 2014 eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga og ýttu undir baráttu aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

„Pútín veit að með því að styðja hreyfingar lengst til hægri, þjóðernissinna og aðskilnaðarsinna eins og til dæmis í Katalóníu grefur hann undan og eyðileggur samstöðu í Evrópu sem stendur að baki refsiaðgerðum gegn Rússum,“ sagði Alexei Venediktov, forstjóri útvarpsstöðvarinnar Echo í Moskvu. Blaðamaður við dagblaðið Izvestiu talaði um „úkraníseríngu ESB“ og spáði að sett yrðu „herlög“.

Pólitískur stórviðburður


Ályktanir sem draga má af atburðunum í Katalóníu sýna hve mikinn pólitískan stórviðburð í Evrópu er að ræða. Líkur á að „Evrópa héraðanna“ sé á næsta leiti eru engar. Þvert á móti verður svar þjóðríkjanna í Evrópu að þétta enn frekar raðirnar. Emmanuel Macron Frakklandsforseti varpaði fram hugmyndum í þá veru fyrir skömmu. Við myndun nýrrar ríkisstjórnar í Þýskalandi leitast Angela Merkel við að koma til móts við sjónarmið hans um að samræmda ESB-stefnu í málefnum hælisleitenda, varnar- og efnahagsmálum. 

Vandi Merkel og Macrons er þó sá að aukin miðstýring í höndum Brusselmanna breikkar gjána milli stjórnenda og almennings í ESB-ríkjunum. Valdið færist ekki til héraðanna heldur í hendur teknókrata. 

Brexit er afleiðing þessarar þróunar. Bretar hafna auknu miðstýringarvaldi og vilja ráða sér sjálfir. Valdakerfi ESB gerir breskum stjórnvöldum lífið leitt.  Fæla verður aðra frá að fara sömu leið og Bretar.  

Allt fellur þetta í þann farveg að innan ESB sé enn einu sinni „pakkað í vörn“ þegar ákvörðun er skotið til almennings.