5.11.2022

Enginn veit um áhrif kosninga

Morgunblaðið, laugardagur 05. 11. 22

Í gær hófst 44. lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins. Þar ber hæst að Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, býður sig form­lega fram gegn Bjarna Bene­dikts­syni, flokks­for­manni, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. Í aðdrag­anda lands­fund­ar­ins var nefnt að fram­boðið bryti gegn óskráðri reglu um að ekki skyldi lagt til at­lögu við flokks­formann sem jafn­framt væri odd­viti flokks­ins í rík­is­stjórn.

Áskor­and­inn seg­ist ekki vilja flokk­inn úr rík­is­stjórn­inni. Sum­ir stuðnings­manna hans segja að fram­bjóðanda sín­um vegið sé talið að for­send­ur stjórn­ar­sam­starfs­ins breyt­ist verði skipt um odd­vita Sjálf­stæðis­flokks­ins í rík­is­stjórn­inni. Ekk­ert er unnt að úti­loka í því efni. Eng­inn veit um áhrif kosn­inga.

Sofie Car­sten Niel­sen, formaður Radikale ven­stre, í Dan­mörku brá fæti fyr­ir rík­is­stjórn og heimtaði þing­kosn­ing­ar. Eft­ir þær sagði Niel­sen af sér. Flokk­ur henn­ar er rjúk­andi rúst með aðeins sjö þing­menn (3,8% atkv.) í stað 16 þing­manna áður. Þing­menn­irn­ir sjö eru ekki áhrifa­laus­ir, þeir geta spillt fyr­ir stjórn­ar­mynd­un Mette Frederik­sen, Jafnaðarmanna­flokkn­um.

Lars Løkke Rasmus­sen taldi ómak­lega að sér vegið í Ven­stre eft­ir að Mette Frederik­sen tók við af hon­um sem for­sæt­is­ráðherra vorið 2019. Þegar Løkke sá hvert stefndi gagn­vart sér í for­ystu mið-hægri­flokks­ins Ven­stre lét hann af for­mennsku í ág­úst 2019. Hann sat síðan af­skipt­ur í þing­flokki Ven­stre þar til hann sagði sig úr hon­um 1. janú­ar 2021 og stofnaði nýj­an flokk, Modera­terna, í júní 2021. Í kosn­ing­un­um 1. nóv­em­ber 2022 fékk flokk­ur­inn 16 þing­menn (9,3% atkv.) og er nú þriðji stærsti þing­flokk­ur­inn í Kristjáns­borg­ar­höll. Løkke náði hins veg­ar ekki odda­stöðunni við stjórn­ar­mynd­un eins og hann vonaði.

Meiri­hluti danska þjóðþings­ins vísaði In­ger Støj­berg á dyr sem óverðugri í des­em­ber 2021, hún hafði verið fund­in sek og dæmd í 60 daga fang­elsi af lands­dómi (d. Rigs­retten). Støj­berg stofnaði flokk, Dan­merk­ur­demó­krat­ana, í júní 2022 und­ir eig­in for­mennsku og fékk nú 14 þing­menn kjörna (8,1% atkv.). Hún var vara­formaður Ven­stre þegar Løkke var hrak­inn þaðan.

Ven­stre gekk þannig þríklof­inn til kosn­ing­anna nú með fyrr­ver­andi formann og vara­formann í for­ystu eig­in flokka. Fylgið hrundi líka af Ven­stre. Hann tapaði 10,1 pró­sentu­stigi og 20 þing­mönn­um, er nú með 23 þing­menn og 13,3% fylgi.

Ven­stre hef­ur ekki hlotið verri kosn­ingu síðan árið 1988. Jafnaðarmanna­flokk­ur­inn hef­ur hins veg­ar ekki staðið bet­ur síðan árið 2001. Nú hlaut flokk­ur­inn 27,5% at­kvæða og 50 þing­menn. Mette Frederik­sen stend­ur bet­ur að kosn­ing­um lokn­um en fyr­ir þær og vinn­ur að stjórn­ar­mynd­un.

1374958Frá setningu 44. landsfundar, Bjarni Benediktsson hylltur: f.v. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Bjarni, Halldór Blöndal, Salóme Þorkelsdóttir og Þóra Margrét Baldvinsdóttir (mynd: mbl.is/ Eggert Jóhannesson).

For­manns­fram­boð Guðlaugs Þórs ræðst af miklu óþoli eft­ir að auka fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins í kosn­ing­um. Með því til dæm­is að dusta rykið af gamla slag­orðinu Stétt með stétt und­ir hans for­ystu megi snúa vörn í sókn.

Sé málið svona ein­falt er óþarfi að skipta um formann til að grípa gunn­fána með þessu kjör­orði úr búri flokks­ins og storma fram. Aldrei hef­ur verið tek­in form­leg eða bind­andi ákvörðun á vett­vangi flokks­ins, og alls ekki á lands­fundi, um að ýta þess­um mik­il­væga lið í sjálf­stæðis­stefn­unni til hliðar. Að tal­in sé að nýju þörf á að flagga slag­orðinu má ef til vill rekja til þess að Sósí­al­ista­flokk­ur­inn var end­ur­reist­ur og þar með stétta­bar­átt­an und­ir for­ystu Sól­veig­ar Önnu Jóns­dótt­ur og Gunn­ars Smára Eg­ils­son­ar.

Sé nauðsyn­legt að skipta um formann vegna yf­ir­vof­andi kosn­inga er rétt að minn­ast þess að kjör­tíma­bil alþing­is er til 2025 og sveit­ar­stjórna til 2026. Að öllu óbreyttu verður 45. lands­fund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins hald­inn 2024 eða snemma árs 2025, það er fyr­ir þing­kosn­ing­ar.

Með því að skipta um formann á 45. lands­fund­in­um er hvorki vegið að odd­vita flokks­ins í rík­is­stjórn á þann veg sem gert er nú né gengið til kosn­inga án nýs for­ingja. Tíma­setn­ing­una á for­manns­fram­boðinu og ákefðina á að auka sem fyrst fylgi flokks­ins er til­tölu­lega auðvelt að setja í það ljós að áhugi sé á að raska stjórn­ar­sam­starf­inu í von um að gengið verði sem fyrst til þing­kosn­inga und­ir nýrri flokks­for­ystu.

Þegar fundið var að fram­göngu þríeyk­is­ins sem ætlaði að leggja und­ir sig Alþýðusam­band Íslands með leift­ur­sókn fyr­ir tæp­um mánuði var for­setafram­bjóðandi þess fljót­ur að sjá að tíma­setn­ing stór­orr­ust­unn­ar var al­röng við upp­haf kjaraviðræðna.

Hefðu menn viðkvæma stöðu þeirra viðræðna í huga á lands­fund­in­um nú um helg­ina mundu þeir hugsa sig tvisvar um að stofna þar til stór­átaka sem kynnu að rjúfa ríkj­andi stöðug­leika í lands­stjórn­inni. Þar skipt­ir styrk stjórn sjálf­stæðismanna á fjár- og efna­hags­mál­um rík­is­ins höfuðmáli.

Sé Sjálf­stæðis­flokkn­um til bjarg­ar að flagga að nýju Stétt með stétt er hon­um lífs­nauðsyn­legt á þess­ari stundu að ýta ekki und­ir óvissu í kjara­mál­um. Stöðug­leiki og festa eru aðals­merki flokks­ins.

Á þessu tvennu er brýn þörf um þess­ar mund­ir sé litið til þjóðarbú­skap­ar­ins og óviss­unn­ar í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um.

Til­efn­is­laus inn­rás Vla­dimirs Pút­ins Rúss­lands­for­seta í Úkraínu hef­ur gjör­breytt stöðu ör­ygg­is­mála í Evr­ópu. And­rúms­loftið er kald­ara en það varð í kalda stríðinu sagði Finn­lands­for­seti á þingi Norður­landaráðs á þriðju­dag­inn. Dag­inn áður til­kynnti norski for­sæt­is­ráðherr­ann að viðbúnaðarstig norska hers­ins hefði verið hækkað. Megin­áhersla yrði lögð á gæslu hafsvæðanna við Nor­eg og þar með í ná­grenni Íslands.

Annað er sjálf­stæðismönn­um brýnna nú en koll­varpa for­ystu eig­in flokks.