Enginn þekkir útspil Pútins
Moegunblaðið, 29. janúar 2022
Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafnari en önnur, segir í skáldsögunni Dýrabæ eftir George Orwell sem kom út árið 1945 þegar það var talið varlegt vegna Sovétmanna, bandamanna Breta í síðari heimsstyrjöldinni. Sagan er talin meðal máttugustu sagna 20. aldar. Þar lýsir Orwell á meistaralegan hátt rússnesku byltingunni og stjórnarháttum Sovétmanna.
Setningin um að sum dýr séu jafnari en önnur sækir á þegar hugað er að kenningu Vladimirs Pútins Rússlandsforseta um að öll ríki séu fullvalda en sum séu meira fullvalda en önnur. Réttlætanlegt sé að Rússar hafi ráð nágrannaþjóða sinna í hendi sér til að tryggja eigið öryggi – þær megi til dæmis ekki gerast aðilar að NATO.
Norrænar samstarfsþjóðir okkar, Svíar og Finnar, taka að sjálfsögðu ekki í mál að una slíkum afarkostum. Forystumenn þeirra áréttuðu um áramótin að þjóðir þeirra ákvæðu sjálfar stefnu sína í öryggis- og varnarmálum og þyrftu engin ráð frá Pútin í þeim efnum.
Að Pútin hóti þjóðum utan NATO auðveldar málsvörum aðildar að bandalaginu að afla skoðun sinni stuðning. Pólitískt snúast vopnin því í höndum Pútins. Hernaðarlega hótar hann í krafti tugþúsunda rússneskra hermanna í umsátursliði um Úkraínu. Enn veit enginn til hvers hótunin leiðir.
Vladimir Pútin Rússlandsforseti.
NATO og Bandaríkjastjórn sendu skriflegt svar við kröfum Pútins miðvikudaginn 26. janúar. Öllum kröfum um áhrifasvæði og takmörkun á fullveldi þjóða eða skipulagi herafla NATO í austurhluta Evrópu er hafnað. Boðið er að annað skuli rætt. Ef til vill opnast þar glufa til að mynda viðræðuferli.
Það er til marks um hve Pútin heldur spilunum nærri sér að enginn veit um næsta útspil hans. Miðvikudaginn 26. janúar ræddu fulltrúar fjögurra ríkja, Frakklands, Rússlands, Úkraínu og Þýskalands saman í París. Þetta er svonefndur Normandie-vettvangur sem myndaður var 2014 til að stuðla að friði milli aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu og ráðamanna í Kiev. Á Parísar-fundinum staðfestu fundarmenn „skilyrðislausa virðingu fyrir vopnahléi“ í þessum hluta Úkraínu og skuldbundu sig til að hittast að nýju í Berlín eftir tvær vikur, 9. febrúar.
Hér var fyrir tveimur vikum minnt á Helsinki-sáttmálann frá 1975 sem gerður var milli austurs og vesturs til að minnka spennu. Hann var afsprengi margra missera viðræðna og skapaði grundvöll fyrir samvinnu um öryggismál í Evrópu sem enn er við lýði. Nú er þörf á að svipað skref sé stigið.
Fyrir liggur að hætti viðræður og Pútin láti vopnin tala verður barist í Úkraínu og hvers kyns aðgerðum beitt til að lama rússneskt efnahagslíf með þátttöku stuðningsríkja Úkraínumanna. Um það ríkir einhugur innan NATO.
Þjóðverjar eru stórkaupendur á rússnesku gasi og þess hefur lengi verið beðið að ný neðansjávar-gasleiðsla, Nord Stream 2 (NS2), frá Rússlandi til Þýskalands verði opnuð. Lagningu leiðslunnar lauk í september 2021. Starfsleyfi er nú til meðferðar innan þýsku stjórnsýslunnar, síðan hefur Evrópusambandið allt að fjórum mánuðum til umsagnar og loks fer málið aftur í hendur þýska leyfisveitandans. Það verður ekki fyrr en síðla þessa árs sem starfsleyfið kann að verða veitt.
Hagsmunir tengdir gassölu til Þýskalands ráða miklu um ákvarðanir Pútins enda eiga rússneskir ráðamenn mikið undir persónulega í öllum slíkum viðskiptum.
Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, nýr Þýskalandskanslari, hikar ekki lengur við að tengja NS2-gasleiðsluna diplómatískri togstreitu við Rússa vegna Úkraínu.
Löngum hefur verið varað við gasleiðslunni, með henni verði Evrópuþjóðir of háðar Rússum í orkumálum. Nú er ótengd NS2-leiðslan hins vegar notuð til að þrýsta á Rússa. Gasleiðslan er ekki lengur einkamál Þjóðverja, hún er hluti Úkraínudeilunnar. Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði þinginu, Bundestag, fimmtudaginn 27. janúar að Nord Stream 2 væri undir gagnvart Rússum vegna Úkraínu.
Samhliða spennunni vegna Úkraínu var tilkynnt um rússneska flotaæfingu undan strönd Írlands 3. til 8. febrúar. Hún væri liður í miklu víðtækari æfingu Rússa sem næði til 140 skipa og 10.000 manna í herflotum þeirra á Atlantshafi, Kyrrahafi, Miðjarðarhafi, Norðursjó og Okhotskhafi.
Um miðja vikuna bárust fréttir um siglingu fimm herskipa frá Kólaskaga suður með strönd Noregs og töldu írsk blöð að þeim væri stefnt á æfingasvæðið við Írland. Í flotadeildinni væri beitiskipið Marshal Ustinov, eitt stærsta stýriflaugaskip Rússa.
Írar eru hlutlausir, utan NATO og án varnarsamnings við önnur ríki. Þeir verða ekki sakaðir um að ögra Rússum sem NATO-ríki. Írum er misboðið vegna þessa ágangs Rússa og sagði írski utanríkisráðherrann þá „óvelkomna“ í efnahagslögsöguna. Írskir sjómenn mótmæla að Rússar æfi á kolmunnamiðum sem skipti afkomu strandbyggða miklu. Raunar hafa íslensk skip sótt á mið þarna, í um þriggja sólarhringa siglingu frá Reykjavík.
Í leiðara blaðsins The Irish Times sagði að vopnaglamur frá rússneskri flotaæfingu undan strönd Írlands væri klassískt dæmi um pólitíska ögrun með hervaldi (e. gunboat diplomacy).
Sé í raun tilgangur Rússa að vekja ótta í von um að ná einhverjum pólitískum árangri hefur þeim mistekist. Óhugurinn magnar samstöðu gegn hættunni, hann hefur sameinað NATO-ríkin um svarið til Moskvu og sannað ríkjum utan NATO að öryggistrygging aðildar hefur ótvírætt gildi.