29.1.2022

Enginn þekkir útspil Pútins

Moegunblaðið, 29. janúar 2022

Öll dýr eru jöfn, en sum dýr eru jafn­ari en önn­ur, seg­ir í skáld­sög­unni Dýra­bæ eft­ir Geor­ge Orwell sem kom út árið 1945 þegar það var talið var­legt vegna Sov­ét­manna, banda­manna Breta í síðari heims­styrj­öld­inni. Sag­an er tal­in meðal mátt­ug­ustu sagna 20. ald­ar. Þar lýs­ir Orwell á meist­ara­leg­an hátt rúss­nesku bylt­ing­unni og stjórn­ar­hátt­um Sov­ét­manna.

Setn­ing­in um að sum dýr séu jafn­ari en önn­ur sæk­ir á þegar hugað er að kenn­ingu Vla­dimirs Pút­ins Rúss­lands­for­seta um að öll ríki séu full­valda en sum séu meira full­valda en önn­ur. Rétt­læt­an­legt sé að Rúss­ar hafi ráð ná­grannaþjóða sinna í hendi sér til að tryggja eigið ör­yggi – þær megi til dæm­is ekki ger­ast aðilar að NATO.

Nor­ræn­ar sam­starfsþjóðir okk­ar, Sví­ar og Finn­ar, taka að sjálf­sögðu ekki í mál að una slík­um afar­kost­um. For­ystu­menn þeirra áréttuðu um ára­mót­in að þjóðir þeirra ákvæðu sjálf­ar stefnu sína í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um og þyrftu eng­in ráð frá Pút­in í þeim efn­um.

Að Pút­in hóti þjóðum utan NATO auðveld­ar málsvör­um aðild­ar að banda­lag­inu að afla skoðun sinni stuðning. Póli­tískt snú­ast vopn­in því í hönd­um Pút­ins. Hernaðarlega hót­ar hann í krafti tugþúsunda rúss­neskra her­manna í umsát­ursliði um Úkraínu. Enn veit eng­inn til hvers hót­un­in leiðir.

Putin-1Vladimir Pútin Rússlandsforseti.

NATO og Banda­ríkja­stjórn sendu skrif­legt svar við kröf­um Pút­ins miðviku­dag­inn 26. janú­ar. Öllum kröf­um um áhrifa­svæði og tak­mörk­un á full­veldi þjóða eða skipu­lagi herafla NATO í aust­ur­hluta Evr­ópu er hafnað. Boðið er að annað skuli rætt. Ef til vill opn­ast þar glufa til að mynda viðræðuferli.

Það er til marks um hve Pút­in held­ur spil­un­um nærri sér að eng­inn veit um næsta út­spil hans. Miðviku­dag­inn 26. janú­ar ræddu full­trú­ar fjög­urra ríkja, Frakk­lands, Rúss­lands, Úkraínu og Þýska­lands sam­an í Par­ís. Þetta er svo­nefnd­ur Norm­andie-vett­vang­ur sem myndaður var 2014 til að stuðla að friði milli aðskilnaðarsinna í aust­ur­hluta Úkraínu og ráðamanna í Kiev. Á Par­ís­ar-fund­in­um staðfestu fund­ar­menn „skil­yrðis­lausa virðingu fyr­ir vopna­hléi“ í þess­um hluta Úkraínu og skuld­bundu sig til að hitt­ast að nýju í Berlín eft­ir tvær vik­ur, 9. fe­brú­ar.

Hér var fyr­ir tveim­ur vik­um minnt á Hels­inki-sátt­mál­ann frá 1975 sem gerður var milli aust­urs og vest­urs til að minnka spennu. Hann var af­sprengi margra miss­era viðræðna og skapaði grund­völl fyr­ir sam­vinnu um ör­ygg­is­mál í Evr­ópu sem enn er við lýði. Nú er þörf á að svipað skref sé stigið.

Fyr­ir ligg­ur að hætti viðræður og Pút­in láti vopn­in tala verður bar­ist í Úkraínu og hvers kyns aðgerðum beitt til að lama rúss­neskt efna­hags­líf með þátt­töku stuðnings­ríkja Úkraínu­manna. Um það rík­ir ein­hug­ur inn­an NATO.

Þjóðverj­ar eru stór­kaup­end­ur á rúss­nesku gasi og þess hef­ur lengi verið beðið að ný neðan­sjáv­ar-gas­leiðsla, Nord Stream 2 (NS2), frá Rússlandi til Þýska­lands verði opnuð. Lagn­ingu leiðslunn­ar lauk í sept­em­ber 2021. Starfs­leyfi er nú til meðferðar inn­an þýsku stjórn­sýsl­unn­ar, síðan hef­ur Evr­ópu­sam­bandið allt að fjór­um mánuðum til um­sagn­ar og loks fer málið aft­ur í hend­ur þýska leyf­is­veit­and­ans. Það verður ekki fyrr en síðla þessa árs sem starfs­leyfið kann að verða veitt.

Hags­mun­ir tengd­ir gassölu til Þýska­lands ráða miklu um ákv­arðanir Pút­ins enda eiga rúss­nesk­ir ráðamenn mikið und­ir per­sónu­lega í öll­um slík­um viðskipt­um.

Jafnaðarmaður­inn Olaf Scholz, nýr Þýska­landskansl­ari, hik­ar ekki leng­ur við að tengja NS2-gas­leiðsluna diplóma­tískri tog­streitu við Rússa vegna Úkraínu.

Löng­um hef­ur verið varað við gas­leiðslunni, með henni verði Evr­ópuþjóðir of háðar Rúss­um í orku­mál­um. Nú er ótengd NS2-leiðslan hins veg­ar notuð til að þrýsta á Rússa. Gas­leiðslan er ekki leng­ur einka­mál Þjóðverja, hún er hluti Úkraínu­deil­unn­ar. Anna­lena Baer­bock, ut­an­rík­is­ráðherra Þýska­lands, sagði þing­inu, Bundestag, fimmtu­dag­inn 27. janú­ar að Nord Stream 2 væri und­ir gagn­vart Rúss­um vegna Úkraínu.

Sam­hliða spenn­unni vegna Úkraínu var til­kynnt um rúss­neska flotaæf­ingu und­an strönd Írlands 3. til 8. fe­brú­ar. Hún væri liður í miklu víðtæk­ari æf­ingu Rússa sem næði til 140 skipa og 10.000 manna í her­flot­um þeirra á Atlants­hafi, Kyrra­hafi, Miðjarðar­hafi, Norður­sjó og Ok­hot­skhafi.

Um miðja vik­una bár­ust frétt­ir um sigl­ingu fimm her­skipa frá Kóla­skaga suður með strönd Nor­egs og töldu írsk blöð að þeim væri stefnt á æf­inga­svæðið við Írland. Í flota­deild­inni væri beiti­skipið Mars­hal Ust­in­ov, eitt stærsta stýrif­lauga­skip Rússa.

Írar eru hlut­laus­ir, utan NATO og án varn­ar­samn­ings við önn­ur ríki. Þeir verða ekki sakaðir um að ögra Rúss­um sem NATO-ríki. Írum er mis­boðið vegna þessa ágangs Rússa og sagði írski ut­an­rík­is­ráðherr­ann þá „óvel­komna“ í efna­hagslög­sög­una. Írsk­ir sjó­menn mót­mæla að Rúss­ar æfi á kol­munnamiðum sem skipti af­komu strand­byggða miklu. Raun­ar hafa ís­lensk skip sótt á mið þarna, í um þriggja sól­ar­hringa sigl­ingu frá Reykja­vík.

Í leiðara blaðsins The Irish Times sagði að vopnaglam­ur frá rúss­neskri flotaæf­ingu und­an strönd Írlands væri klass­ískt dæmi um póli­tíska ögr­un með hervaldi (e. gun­boat diplomacy).

Sé í raun til­gang­ur Rússa að vekja ótta í von um að ná ein­hverj­um póli­tísk­um ár­angri hef­ur þeim mistek­ist. Óhug­ur­inn magn­ar sam­stöðu gegn hætt­unni, hann hef­ur sam­einað NATO-rík­in um svarið til Moskvu og sannað ríkj­um utan NATO að ör­ygg­is­trygg­ing aðild­ar hef­ur ótví­rætt gildi.