Endurkoma talibana veldur skelfingu
Morgunblaðið, 20. ágúst 2021.
Í bandarísku kosningabaráttunni í fyrra boðaði hvorugur forsetaframbjóðendanna áfram stríðsrekstur í Afganistan. Donald Trump samdi við talibana í febrúar 2020. Brottför bandaríska herliðsins lá í loftinu, framkvæmd hennar var óráðin.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði afdráttarlaust í sjónvarpsávarpi mánudaginn 16. ágúst að hann sæi ekki lengur nein rök fyrir bandarískum stríðsrekstri í Afganistan. Bandaríkjamenn hefðu farið þangað til að kveða niður hryðjuverkaógn, það hefði tekist, Osama bin Laden væri úr sögunni. Nú mætti halda hryðjuverkamönnum í fjarlægum löndum í skefjum án þess að hafa þar bandarískan her. Aldrei hefði verið tilgangur hernaðar Bandaríkjamanna að koma á nýrri stjórnskipan í Afganistan (e. nation building) eða bæla niður uppreisn gegn lögmætri stjórn landsins. Hann ætlaði ekki að afhenda arftaka sínum á forsetastóli þetta stríð. Það nægði að fjórir forsetar hefðu glímt við það í 20 ár.
Nú er gagnrýnt að þetta örlagaríka skref sé stigið einhliða og án þess að milda áhrifin með því að halda áfram úti öryggissveitum í Afganistan. Þær hefðu ef til vill reynst stjórnarher landsins gagnlegur bakhjarl.
Bandaríkjastjórn kallaði allt lið sitt á brott. Bretar eða aðrir höfðu enga burði til að styðja afganska stjórnarherinn. Bandamenn risaveldisins urðu að laga sig að ákvörðunum þess. Slagorðið America first! fæddist hvorki né dó í forsetatíð Donalds Trumps.
Tungumjúkir talibanar
Talibanar héldu fyrsta blaðamannafund sinn í Kabúl þriðjudaginn 17. ágúst. Þar sást Zabihullah Mujahid , talsmaður þeirra, í fyrsta sinn. Til þessa höfðu blaðamenn aðeins heyrt í honum í síma.
Athygli vakti að konur tóku þátt í fundinum og beindu spurningum til talsmannsins og kona túlkaði orð hans á ensku. Reynd afgönsk blaðakona sagði þetta söguleg umskipti í afstöðu talibana til kvenna. Prófessor sérfróður um talibana sagði þá mildari í orðum nú en þegar þeir komust fyrst til valda um miðjan tíunda áratuginn.
Zabihullah Mujahid var ekki ofsafenginn þótt hann héldi fast fram boðskap íslam. Hann sagði að afgönsk jörð yrði ekki „notuð gegn neinum“ þegar hann var spurður um hættuna á að vígamenn al-Kaída eða annarra öfgasamtaka fengju afdrep í Afganistan.
Ákvörðun Bidens er, hvað sem orðum talibana líður, vatn á áróðursmyllu íslamskra öfgamanna og eykur hættu á að þeir telji Afganistan að nýju skjól til undirbúnings illvirkjum sínum eins og í fyrri valdatíð talibana, 1996 til 2001.
Öngþveiti við Kabúl-flugvöll,.
Risavaxinn kostnaður
Tuttugu ára úthald bandaríska hersins í Afganistan kostaði 1.000 milljarða dollara. Alls féllu um 2.400 bandarískir hermenn fyrir utan þúsundir verktaka þeirra og yfir 20.000 Bandaríkjamenn særðust. Þetta er risavaxinn kostnaður og skiljanlegt að þeir sem bjóða sig fram fyrir bandaríska kjósendur þurfi sterk rök til að réttlæta hann til frambúðar.
Opinberar bandarískar skýrslur sýna að í mars 2021 hafði 88,3 milljörðum dollara verið varið í öryggistengd afgönsk verkefni en 36 milljörðum til verkefna tengdum stjórnsýslu og þróun.
Nú þegar í ljós kemur að um 300.000 manna her afgönsku ríkisstjórnarinnar mátti sín einskis gegn 80.000 manna herafla talibana er spurt hvað varð um alla peningana og hverju þjálfun og skipulagning nýs herafla skilaði. Stjórnarherinn veitti enga andstöðu og afganska stjórnsýslan hrundi eins og spilaborg. Forseti Afganistans flýði land þegar talibanar komu að Kabúl-borg.
Háir styrkir voru samþykktir innan bandaríska stjórnkerfisins að meðmælum herforingja eða stjórnarerindreka. Nú er undrast hvað bjó að baki orðum þeirra sem sannfærðu þingmenn í Washington. Vildu háttsettir bandarískir embættismenn sýna að eigin störf skiluðu árangri hvað sem liði viðvörunum lægra settra um að ekki væri allt sem sýndist?
Erfitt uppgjör
Uppgjör á stríðsrekstri er vandasamt. Sorginni yfir ósigri í Afganistan fylgir mikil reiði og hún beinist nú gegn Bandaríkjastjórn og Joe Biden innan Bandaríkjanna og utan. Kann þetta að reynast pólitískur banabiti hans þótt hann eigi enn tæp fjögur ár í embætti.
Forsetinn sætir einkum gagnrýni fyrir hvernig hann fór frá Afganistan. Þeir sem kröfðust brottfarar saka forsetann nú um að gæta ekki öryggis afganskra kvenna og barna í landinu. Sannast þar enn að ekki verður bæði haldið og sleppt.
Forystumenn Bandaríkjastjórnar virtust grunlausir um ófarirnar í Afganistan. Fréttir birtast nú um að leyniþjónustustofnanir hafi varað við að svona færi. Þá segja blöðin að herforingjar og stjórnarerindrekar hafi eindregið lagst gegn skjótri heimköllun bandarískra hermanna, hún græfi undan öryggi Afgana og annarra. Tilmæli þessara manna um sífellt meira fé til duglausu afgönsku stjórnarinnar veikja traust til þeirra.
Fyrir fáeinum vikum var sagt að talibanar treystu sér ekki inn í borgir þar sem þeir ættu lítinn stuðning. Brátt féllu borgir þó hver af annarri í þeirra hendur. Fimmtudaginn 12. ágúst var spáð að 30 til 90 dagar liðu þar til talibanir héldu til Kabúl. Dagarnir urðu ekki nema þrír og þeir fengu borgina og forsetahöllina andstöðulaust.
Sunnudaginn 15. ágúst þegar Kabúl féll sat Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrir svörum á CNN og fullvissaði viðmælanda sinn um að brottför Bandaríkjamanna frá Kabúl yrði ekki endurtekið efni frá Saigon 1975 þegar Bandaríkjamenn flýðu frá Suður-Víetnam í þyrlum úr sendiráði sínu. Síðar lýstu fréttamenn ástandinu í Kabúl sem „Saigon á sterum“.
Auðvitað er erfitt að segja fyrir um það sem verða vill. Hver spáði því að gáleysi austurþýsks embættismanns yrði til þess að Berlínarmúrinn féll 9. nóvember 1989? Allir sáu þó hvert stefndi þegar Sovétstjórnin sagðist ekki senda lið leppum sínum í Berlín til bjargar. Nokkrum misserum síðar féllu Sovétríkin sjálf friðsamlega og skildi hrunið eftir ógróið sár í hjarta KGB-mannsins Vladimírs Pútíns. Ófarir í Afganistan áttu ríkan þátt í sovéska hruninu.
Ný-talibanar?
Boris Johnson sagði í sérstakri umræðu í neðri deild breska þingsins miðvikudaginn 18. ágúst að hann hefði rætt stöðuna í Afganistan við bandamenn Breta, þar á meðal Frakka og Þjóðverja auk forystumanna Sameinuðu þjóðanna og NATO. Það væri samdóma álit að ekki ætti að viðurkenna stjórn talibana nema þeir viðurkenndu mannréttindi í verki. Það yrði að dæma þá af verkum þeirra en ekki orðum.
Um tuttugu ára hernaður Sovétmanna í Afganistan gat af sér hryðjuverkahreyfingu talibana. Sigurinn á Sovétmönnum 1989 hleypti eldmóði í hryðjuverkamenn. Sannaði að þeir gætu sigrað risaveldi. Hvað með sigurvímu hryðjuverkamannanna núna? Til hvers leiðir hún?
Eru talibanar ekki lengur afturhaldssamir bókstafstrúarmenn með stífa hollustu við boðskap Kóransins? Hafa þeir breyst á 20 árum? Eru þeir enn aðeins til heimabrúks og banna hreyfingum eins og al-Kaída að heyja heilagt stríð, jihad, utan Afganista ns? Forsagan lofar því miður ekki góðu um framhaldið.