20.8.2021

Endurkoma talibana veldur skelfingu

Morgunblaðið, 20. ágúst 2021.

Í banda­rísku kosn­inga­bar­átt­unni í fyrra boðaði hvor­ug­ur for­setafram­bjóðend­anna áfram stríðsrekst­ur í Af­gan­ist­an. Don­ald Trump samdi við talib­ana í fe­brú­ar 2020. Brott­för banda­ríska herliðsins lá í loft­inu, fram­kvæmd henn­ar var óráðin.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti sagði af­drátt­ar­laust í sjón­varps­ávarpi mánu­dag­inn 16. ág­úst að hann sæi ekki leng­ur nein rök fyr­ir banda­rísk­um stríðsrekstri í Af­gan­ist­an. Banda­ríkja­menn hefðu farið þangað til að kveða niður hryðju­verka­ógn, það hefði tek­ist, Osama bin Laden væri úr sög­unni. Nú mætti halda hryðju­verka­mönn­um í fjar­læg­um lönd­um í skefj­um án þess að hafa þar banda­rísk­an her. Aldrei hefði verið til­gang­ur hernaðar Banda­ríkja­manna að koma á nýrri stjórn­skip­an í Af­gan­ist­an (e. nati­on build­ing) eða bæla niður upp­reisn gegn lög­mætri stjórn lands­ins. Hann ætlaði ekki að af­henda arf­taka sín­um á for­seta­stóli þetta stríð. Það nægði að fjór­ir for­set­ar hefðu glímt við það í 20 ár.

Nú er gagn­rýnt að þetta ör­laga­ríka skref sé stigið ein­hliða og án þess að milda áhrif­in með því að halda áfram úti ör­ygg­is­sveit­um í Af­gan­ist­an. Þær hefðu ef til vill reynst stjórn­ar­her lands­ins gagn­leg­ur bak­hjarl.

Banda­ríkja­stjórn kallaði allt lið sitt á brott. Bret­ar eða aðrir höfðu enga burði til að styðja af­ganska stjórn­ar­her­inn. Banda­menn risa­veld­is­ins urðu að laga sig að ákvörðunum þess. Slag­orðið America first! fædd­ist hvorki né dó í for­setatíð Don­alds Trumps.

 

Tung­umjúk­ir taliban­ar

Taliban­ar héldu fyrsta blaðamanna­fund sinn í Kabúl þriðju­dag­inn 17. ág­úst. Þar sást Za­bihullah Muja­hid , talsmaður þeirra, í fyrsta sinn. Til þessa höfðu blaðamenn aðeins heyrt í hon­um í síma.

At­hygli vakti að kon­ur tóku þátt í fund­in­um og beindu spurn­ing­um til tals­manns­ins og kona túlkaði orð hans á ensku. Reynd af­gönsk blaðakona sagði þetta sögu­leg um­skipti í af­stöðu talib­ana til kvenna. Pró­fess­or sér­fróður um talib­ana sagði þá mild­ari í orðum nú en þegar þeir komust fyrst til valda um miðjan tí­unda ára­tug­inn.

Za­bihullah Muja­hid var ekki ofsa­feng­inn þótt hann héldi fast fram boðskap íslam. Hann sagði að af­gönsk jörð yrði ekki „notuð gegn nein­um“ þegar hann var spurður um hætt­una á að víga­menn al-Kaída eða annarra öfga­sam­taka fengju af­drep í Af­gan­ist­an.

Ákvörðun Bidens er, hvað sem orðum talib­ana líður, vatn á áróðurs­myllu íslamskra öfga­manna og eyk­ur hættu á að þeir telji Af­gan­ist­an að nýju skjól til und­ir­bún­ings ill­virkj­um sín­um eins og í fyrri valdatíð talib­ana, 1996 til 2001.

58939668_606Öngþveiti við Kabúl-flugvöll,.

 

Risa­vax­inn kostnaður

Tutt­ugu ára út­hald banda­ríska hers­ins í Af­gan­ist­an kostaði 1.000 millj­arða doll­ara. Alls féllu um 2.400 banda­rísk­ir her­menn fyr­ir utan þúsund­ir verk­taka þeirra og yfir 20.000 Banda­ríkja­menn særðust. Þetta er risa­vax­inn kostnaður og skilj­an­legt að þeir sem bjóða sig fram fyr­ir banda­ríska kjós­end­ur þurfi sterk rök til að rétt­læta hann til fram­búðar.

Op­in­ber­ar banda­rísk­ar skýrsl­ur sýna að í mars 2021 hafði 88,3 millj­örðum doll­ara verið varið í ör­yggis­tengd af­gönsk verk­efni en 36 millj­örðum til verk­efna tengd­um stjórn­sýslu og þróun.

Nú þegar í ljós kem­ur að um 300.000 manna her af­gönsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar mátti sín einskis gegn 80.000 manna herafla talib­ana er spurt hvað varð um alla pen­ing­ana og hverju þjálf­un og skipu­lagn­ing nýs herafla skilaði. Stjórn­ar­her­inn veitti enga and­stöðu og af­ganska stjórn­sýsl­an hrundi eins og spila­borg. For­seti Af­gan­ist­ans flýði land þegar taliban­ar komu að Kabúl-borg.

Háir styrk­ir voru samþykkt­ir inn­an banda­ríska stjórn­kerf­is­ins að meðmæl­um her­for­ingja eða stjórn­ar­er­ind­reka. Nú er undr­ast hvað bjó að baki orðum þeirra sem sann­færðu þing­menn í Washingt­on. Vildu hátt­sett­ir banda­rísk­ir emb­ætt­is­menn sýna að eig­in störf skiluðu ár­angri hvað sem liði viðvör­un­um lægra settra um að ekki væri allt sem sýnd­ist?

 

Erfitt upp­gjör

Upp­gjör á stríðsrekstri er vanda­samt. Sorg­inni yfir ósigri í Af­gan­ist­an fylg­ir mik­il reiði og hún bein­ist nú gegn Banda­ríkja­stjórn og Joe Biden inn­an Banda­ríkj­anna og utan. Kann þetta að reyn­ast póli­tísk­ur bana­biti hans þótt hann eigi enn tæp fjög­ur ár í embætti.

For­set­inn sæt­ir einkum gagn­rýni fyr­ir hvernig hann fór frá Af­gan­ist­an. Þeir sem kröfðust brott­far­ar saka for­set­ann nú um að gæta ekki ör­ygg­is af­ganskra kvenna og barna í land­inu. Sann­ast þar enn að ekki verður bæði haldið og sleppt.

For­ystu­menn Banda­ríkja­stjórn­ar virt­ust grun­laus­ir um ófar­irn­ar í Af­gan­ist­an. Frétt­ir birt­ast nú um að leyniþjón­ustu­stofn­an­ir hafi varað við að svona færi. Þá segja blöðin að her­for­ingj­ar og stjórn­ar­er­ind­rek­ar hafi ein­dregið lagst gegn skjótri heim­köll­un banda­rískra her­manna, hún græfi und­an ör­yggi Af­g­ana og annarra. Til­mæli þess­ara manna um sí­fellt meira fé til dug­lausu af­gönsku stjórn­ar­inn­ar veikja traust til þeirra.

Fyr­ir fá­ein­um vik­um var sagt að taliban­ar treystu sér ekki inn í borg­ir þar sem þeir ættu lít­inn stuðning. Brátt féllu borg­ir þó hver af ann­arri í þeirra hend­ur. Fimmtu­dag­inn 12. ág­úst var spáð að 30 til 90 dag­ar liðu þar til tali­ban­ir héldu til Kabúl. Dag­arn­ir urðu ekki nema þrír og þeir fengu borg­ina og for­seta­höll­ina and­stöðulaust.

Sunnu­dag­inn 15. ág­úst þegar Kabúl féll sat Ant­ony Blin­ken, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, fyr­ir svör­um á CNN og full­vissaði viðmæl­anda sinn um að brott­för Banda­ríkja­manna frá Kabúl yrði ekki end­ur­tekið efni frá Saigon 1975 þegar Banda­ríkja­menn flýðu frá Suður-Víet­nam í þyrl­um úr sendi­ráði sínu. Síðar lýstu frétta­menn ástand­inu í Kabúl sem „Saigon á ster­um“.

Auðvitað er erfitt að segja fyr­ir um það sem verða vill. Hver spáði því að gá­leysi aust­urþýsks emb­ætt­is­manns yrði til þess að Berlín­ar­múr­inn féll 9. nóv­em­ber 1989? All­ir sáu þó hvert stefndi þegar Sov­ét­stjórn­in sagðist ekki senda lið lepp­um sín­um í Berlín til bjarg­ar. Nokkr­um miss­er­um síðar féllu Sov­ét­rík­in sjálf friðsam­lega og skildi hrunið eft­ir ógróið sár í hjarta KGB-manns­ins Vla­dimírs Pútíns. Ófar­ir í Af­gan­ist­an áttu rík­an þátt í sov­éska hrun­inu.

 

Ný-taliban­ar?

Bor­is John­son sagði í sér­stakri umræðu í neðri deild breska þings­ins miðviku­dag­inn 18. ág­úst að hann hefði rætt stöðuna í Af­gan­ist­an við banda­menn Breta, þar á meðal Frakka og Þjóðverja auk for­ystu­manna Sam­einuðu þjóðanna og NATO. Það væri sam­dóma álit að ekki ætti að viður­kenna stjórn talib­ana nema þeir viður­kenndu mann­rétt­indi í verki. Það yrði að dæma þá af verk­um þeirra en ekki orðum.

Um tutt­ugu ára hernaður Sov­ét­manna í Af­gan­ist­an gat af sér hryðju­verka­hreyf­ingu talib­ana. Sig­ur­inn á Sov­ét­mönn­um 1989 hleypti eld­móði í hryðju­verka­menn. Sannaði að þeir gætu sigrað risa­veldi. Hvað með sig­ur­vímu hryðju­verka­mann­anna núna? Til hvers leiðir hún?

Eru taliban­ar ekki leng­ur aft­ur­halds­sam­ir bók­stafstrú­ar­menn með stífa holl­ustu við boðskap Kór­ans­ins? Hafa þeir breyst á 20 árum? Eru þeir enn aðeins til heima­brúks og banna hreyf­ing­um eins og al-Kaída að heyja heil­agt stríð, ji­had, utan Af­gan­ista ns? For­sag­an lof­ar því miður ekki góðu um fram­haldið.