10.7.2025

Endurheimt náttúruveraldarinnar

Morgunblaðið, fimmtudagur 10. júlí 2025.

Líf á jörðinni okk­ar ★★★★★ Eft­ir Dav­id Atten­borough. Þýðandi Magnús Þór Haf­steins­son. Ugla, 2025. Kilja, 248 bls.

Bók­in sem hér um ræðir eft­ir Dav­id Atten­borough kom út á frum­mál­inu und­ir heit­inu: A Life on Our Pla­net: My Wit­n­ess Statement and a Visi­on for the Fut­ure árið 2020. Magnús Þór Haf­steins­son ís­lenskaði hana og Ugla gaf hana út vorið 2025 og ber hún titil­inn: Líf á jörðinni okk­ar – Vitn­is­b­urður minn og framtíðar­sýn.

Dav­id Atten­borough (f. 1926) er heims­fræg­ur fyr­ir nátt­úru­lífs- og um­hverf­isþætti sína á breska rík­is­sjón­varp­inu, BBC. Hann hef­ur verið drif­kraft­ur­inn við gerð slíkra sjón­varpsþátta frá ár­inu 1954.

Sem fram­kvæmda­stjóra BBC 2 var hon­um falið að stjórna því þegar send­ing­um var breytt úr svart­hvít­um í lit 1. júlí 1967 og ruddi þannig braut­ina fyr­ir lita­send­ing­um breskra sjón­varps­stöðva. Þess er getið í frá­sögn­um af þess­um um­skipt­um að þakka megi Atten­borough að tenn­is­bolt­ar séu gul­græn­ir. Hann benti á að ann­ars greindu sjón­varps­áhorf­end­ur þá ekki á hvít­um lín­um vall­ar­ins.

Í bók­inni um líf á jörðinni rifjar hann upp heims­sögu­lega at­b­urðinn um jól­in 1968 þegar bein sjón­varps­send­ing var frá áhöfn banda­rísku tungl­ferj­unn­ar Apollo 8 og jörðin sást í fyrsta skipti beint utan úr geimn­um:

„Kannski var þetta mik­il­væg­asta op­in­ber­un okk­ar tíma – að plán­et­an okk­ar er lít­il, ein­angruð og viðkvæm. Þetta er eini staður­inn sem við höf­um, ein­asti staður­inn, að því er við best vit­um, þar sem líf er fyr­ir hendi. Hún er óviðjafn­an­lega dýr­mætt djásn“ (46).

Um­hyggja fyr­ir þess­um stað og líf­inu á hon­um er efni bók­ar­inn­ar og sam­nefndra heim­ild­arþátta sem meðal ann­ars eru sýnd­ir á Net­flix. Meðhöf­und­ur Atten­boroughs er því Jonnie Hug­hes, leik­stjóri og fram­leiðandi sjón­varpsþátt­anna.

Bók­in skipt­ist í þrjá hluta fyr­ir utan inn­gang og niður­stöðu. Hlut­arn­ir eru (1) Vitn­is­b­urður minn; (2) Það sem blas­ir við og (3) Framtíðar­sýn: Hvernig á að gera ver­öld­ina villt­ari á ný.

Í fyrsta hlut­an­um er lýst starfs­ferli Atten­boroughs og hvernig villt nátt­úra hef­ur minnkað, mann­kyni fjölgað og kol­efni auk­ist í and­rúms­loft­inu á þeim ára­tug­um sem nefnd­ir eru til sög­unn­ar. Ann­ar kafl­inn snýst um hlýn­un jarðar og fækk­un teg­unda í flóru og fánu. Fjöl­breyti­leik­inn minnki áfram bæti maður­inn ekki um­gengni sína við „dýr­mæta djásnið“, jörðina. Í þriðja kafl­an­um eru síðan tí­undaðar aðgerðir til úr­bóta.

Til að sporna gegn hnign­un­inni seg­ir Atten­borough að við verðum strax að stöðva og helst draga úr lofts­lags­breyt­ing­um með því að tak­marka hvarvetna los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Við verðum að hætta að nota of mikið af áburði. Við verðum að stöðva og vinna til baka breyt­ing­ar á villtu landi í ak­ur­lendi, plantekr­ur og aðrar fram­kvæmd­ir. Nauðsyn­legt sé að fylgj­ast með notk­un okk­ar á ferskvatni, meng­un af völd­um eit­ur­efna á jörðu og í lofti, súrn­un hafs­ins. Á þenn­an hátt sé unnt að hægja ró­lega á tapi teg­unda­úr­vals­ins og síðan verði viðsnún­ing­ur á þeirri þróun. Not­um við end­ur­heimt nátt­úru­ver­ald­ar­inn­ar sem mæli­stiku séum við sjálf­krafa á réttri leið, „ekki ein­vörðungu nátt­úr­unn­ar vegna held­ur fyr­ir okk­ur sjálf því nátt­úr­an trygg­ir jafn­vægi jarðar­inn­ar“.

Sú skoðun höfðar til mín – að lífið á jörðinni ráðist af því hvernig við nýt­um hana. Vona ég að hún birt­ist þeim sem lesa text­ana að baki land­búnaðar­stefnu Íslands sem alþingi samþykkti 1. júní 2023.

Bók Atten­boroughs hefst á heim­sókn til drauga­borg­ar­inn­ar Pripjat í Úkraínu sem sov­ét­stjórn­in tæmdi eft­ir 26. apríl 1986 þegar kjarna­kljúf­ur sprakk í Tsjerno­byl. Í bókarlok seg­ir að borg­in ásamt ónýta kjarna­kljúf­in­um sé nú orðin griðland fyr­ir sjald­séð dýr. Þetta sanni að nátt­úr­an sé fær um að lag­færa allt á ný, fái hún bara tæki­færi til þess. Það kunni að vera til of mik­ils mælst að vænta þess að menn­irn­ir geri slíkt hið sama, vissu­lega hafi þeir vit en það krefj­ist visku vilji þeir lifa áfram (206).

Í bók­inni skipt­ast á skin og skúr­ir, bjart­sýni vegna þess mikla sem manns­hug­ur­inn fær áorkað og svart­sýni vegna þess að maður­inn taki ekki nógu mikið mark á nei­kvæðum vís­bend­ing­um um líf á jörðinni okk­ar.

Meg­in­text­an­um fylg­ir orðalisti auk ým­issa skráa, þar á meðal nafna­skrár.

Mynd­ir eru í bók­inni og er allt skipu­lag henn­ar þaul­hugsað til að auðvelda les­and­an­um að læra sem mest af henni. Er ekki að efa að skiln­ing­ur á efni bók­ar­inn­ar dýpk­ar við horfa á sjón­varpsþætt­ina sem tengj­ast henni.

Bók­in kom út 2020 og á þeim fimm árum sem síðan eru liðin hef­ur margt gerst sem ætti að auðvelda mann­in­um að skilja og greina um­hverfi sitt. Þar skipt­ir út­breiðsla vit­vél­anna mestu. Mun maður­inn taka meira mark á þeim en vís­bend­ing­um nátt­úr­unn­ar sjálfr­ar?

Screenshot-2025-07-10-at-09.06.12

Magnús Þór Haf­steins­son vann enn eitt þrek­virkið með þýðingu þess­ar­ar bók­ar. Hún er lík­lega síðasta bók­in í þýðingu hans sem ég fæ til um­sagn­ar. Magnús Þór drukknaði 30. júní 2025 þegar strand­veiðibát­ur hans, Orm­ur­inn langi AK-64, sökk und­ir Blakkn­um við mynni Pat­reks­fjarðar.

Ég hitti hann síðast 4. júní þegar sam­koma var á veg­um bóka­klúbbs Spurs­mála um bók­ina Kúbu­deil­una eft­ir Max Hastings. Magnús Þór ís­lenskaði hana eins og tvær aðrar bæk­ur Hastings: Vít­isloga um aðra heims­styrj­öld­ina og Kór­eu­stríðið. Það kom í minn hlut að skrifa um þær all­ar hér í blaðið og fengu þær all­ar bestu ein­kunn.

Það eitt var aðdá­un­ar­vert að hafa þrek til að ráðast í þýðingu á þess­um langa og hnit­miðaða texta Hastings og skila verk­inu af sér á skömm­um tíma. Hitt lá einnig fyr­ir þýðand­an­um að ís­lenska efni um hernað og stríðsrekst­ur fyr­ir þjóð sem stær­ir sig af því að vera herlaus og skort­ir því orð og fast­mótuð hug­tök til að lýsa skip­an herafla eða orr­ust­um, svo að ekki sé minnst á þann óhugnað og and­rúms­loft sem fylg­ir því fyr­ir þjóðir að vera leik­sopp­ar í stríði eða fórn­ar­lömb.

Magnús Þór fann leiðir með ís­lensk­una að vopni til að opna heim Hastings fyr­ir les­and­an­um og átt­um við aðdá­end­ur dugnaðar hans og áræðis von á að hann ís­lenskaði fleiri af þess­um stríðsbók­um og hvött­um hann til þess.

Eng­inn get­ur flúið ör­lög sín og nú er komið að þátta­skil­um og kveðju­stund. Ég heiðra minn­ingu Magnús­ar Þórs og fram­lag hans sem þýðanda með fimm stjörn­um. Hann var nátt­úru­barn í anda Dav­ids Atten­borough og sannaði það með því að róa til fiskj­ar, einn á báti sín­um. Þegar ég kvaddi hann og óskaði hon­um góðrar vertíðar vor­um við grun­laus­ir um ör­lagaþræðina. Blessuð sé minn­ing Magnús­ar Þórs Haf­steins­son­ar.