Endurheimt náttúruveraldarinnar
Morgunblaðið, fimmtudagur 10. júlí 2025.
Líf á jörðinni okkar ★★★★★ Eftir David Attenborough. Þýðandi Magnús Þór Hafsteinsson. Ugla, 2025. Kilja, 248 bls.
Bókin sem hér um ræðir eftir David Attenborough kom út á frummálinu undir heitinu: A Life on Our Planet: My Witness Statement and a Vision for the Future árið 2020. Magnús Þór Hafsteinsson íslenskaði hana og Ugla gaf hana út vorið 2025 og ber hún titilinn: Líf á jörðinni okkar – Vitnisburður minn og framtíðarsýn.
David Attenborough (f. 1926) er heimsfrægur fyrir náttúrulífs- og umhverfisþætti sína á breska ríkissjónvarpinu, BBC. Hann hefur verið drifkrafturinn við gerð slíkra sjónvarpsþátta frá árinu 1954.
Sem framkvæmdastjóra BBC 2 var honum falið að stjórna því þegar sendingum var breytt úr svarthvítum í lit 1. júlí 1967 og ruddi þannig brautina fyrir litasendingum breskra sjónvarpsstöðva. Þess er getið í frásögnum af þessum umskiptum að þakka megi Attenborough að tennisboltar séu gulgrænir. Hann benti á að annars greindu sjónvarpsáhorfendur þá ekki á hvítum línum vallarins.
Í bókinni um líf á jörðinni rifjar hann upp heimssögulega atburðinn um jólin 1968 þegar bein sjónvarpssending var frá áhöfn bandarísku tunglferjunnar Apollo 8 og jörðin sást í fyrsta skipti beint utan úr geimnum:
„Kannski var þetta mikilvægasta opinberun okkar tíma – að plánetan okkar er lítil, einangruð og viðkvæm. Þetta er eini staðurinn sem við höfum, einasti staðurinn, að því er við best vitum, þar sem líf er fyrir hendi. Hún er óviðjafnanlega dýrmætt djásn“ (46).
Umhyggja fyrir þessum stað og lífinu á honum er efni bókarinnar og samnefndra heimildarþátta sem meðal annars eru sýndir á Netflix. Meðhöfundur Attenboroughs er því Jonnie Hughes, leikstjóri og framleiðandi sjónvarpsþáttanna.
Bókin skiptist í þrjá hluta fyrir utan inngang og niðurstöðu. Hlutarnir eru (1) Vitnisburður minn; (2) Það sem blasir við og (3) Framtíðarsýn: Hvernig á að gera veröldina villtari á ný.
Í fyrsta hlutanum er lýst starfsferli Attenboroughs og hvernig villt náttúra hefur minnkað, mannkyni fjölgað og kolefni aukist í andrúmsloftinu á þeim áratugum sem nefndir eru til sögunnar. Annar kaflinn snýst um hlýnun jarðar og fækkun tegunda í flóru og fánu. Fjölbreytileikinn minnki áfram bæti maðurinn ekki umgengni sína við „dýrmæta djásnið“, jörðina. Í þriðja kaflanum eru síðan tíundaðar aðgerðir til úrbóta.
Til að sporna gegn hnignuninni segir Attenborough að við verðum strax að stöðva og helst draga úr loftslagsbreytingum með því að takmarka hvarvetna losun gróðurhúsalofttegunda. Við verðum að hætta að nota of mikið af áburði. Við verðum að stöðva og vinna til baka breytingar á villtu landi í akurlendi, plantekrur og aðrar framkvæmdir. Nauðsynlegt sé að fylgjast með notkun okkar á ferskvatni, mengun af völdum eiturefna á jörðu og í lofti, súrnun hafsins. Á þennan hátt sé unnt að hægja rólega á tapi tegundaúrvalsins og síðan verði viðsnúningur á þeirri þróun. Notum við endurheimt náttúruveraldarinnar sem mælistiku séum við sjálfkrafa á réttri leið, „ekki einvörðungu náttúrunnar vegna heldur fyrir okkur sjálf því náttúran tryggir jafnvægi jarðarinnar“.
Sú skoðun höfðar til mín – að lífið á jörðinni ráðist af því hvernig við nýtum hana. Vona ég að hún birtist þeim sem lesa textana að baki landbúnaðarstefnu Íslands sem alþingi samþykkti 1. júní 2023.
Bók Attenboroughs hefst á heimsókn til draugaborgarinnar Pripjat í Úkraínu sem sovétstjórnin tæmdi eftir 26. apríl 1986 þegar kjarnakljúfur sprakk í Tsjernobyl. Í bókarlok segir að borgin ásamt ónýta kjarnakljúfinum sé nú orðin griðland fyrir sjaldséð dýr. Þetta sanni að náttúran sé fær um að lagfæra allt á ný, fái hún bara tækifæri til þess. Það kunni að vera til of mikils mælst að vænta þess að mennirnir geri slíkt hið sama, vissulega hafi þeir vit en það krefjist visku vilji þeir lifa áfram (206).
Í bókinni skiptast á skin og skúrir, bjartsýni vegna þess mikla sem mannshugurinn fær áorkað og svartsýni vegna þess að maðurinn taki ekki nógu mikið mark á neikvæðum vísbendingum um líf á jörðinni okkar.
Megintextanum fylgir orðalisti auk ýmissa skráa, þar á meðal nafnaskrár.
Myndir eru í bókinni og er allt skipulag hennar þaulhugsað til að auðvelda lesandanum að læra sem mest af henni. Er ekki að efa að skilningur á efni bókarinnar dýpkar við horfa á sjónvarpsþættina sem tengjast henni.
Bókin kom út 2020 og á þeim fimm árum sem síðan eru liðin hefur margt gerst sem ætti að auðvelda manninum að skilja og greina umhverfi sitt. Þar skiptir útbreiðsla vitvélanna mestu. Mun maðurinn taka meira mark á þeim en vísbendingum náttúrunnar sjálfrar?
Magnús Þór Hafsteinsson vann enn eitt þrekvirkið með þýðingu þessarar bókar. Hún er líklega síðasta bókin í þýðingu hans sem ég fæ til umsagnar. Magnús Þór drukknaði 30. júní 2025 þegar strandveiðibátur hans, Ormurinn langi AK-64, sökk undir Blakknum við mynni Patreksfjarðar.
Ég hitti hann síðast 4. júní þegar samkoma var á vegum bókaklúbbs Spursmála um bókina Kúbudeiluna eftir Max Hastings. Magnús Þór íslenskaði hana eins og tvær aðrar bækur Hastings: Vítisloga um aðra heimsstyrjöldina og Kóreustríðið. Það kom í minn hlut að skrifa um þær allar hér í blaðið og fengu þær allar bestu einkunn.
Það eitt var aðdáunarvert að hafa þrek til að ráðast í þýðingu á þessum langa og hnitmiðaða texta Hastings og skila verkinu af sér á skömmum tíma. Hitt lá einnig fyrir þýðandanum að íslenska efni um hernað og stríðsrekstur fyrir þjóð sem stærir sig af því að vera herlaus og skortir því orð og fastmótuð hugtök til að lýsa skipan herafla eða orrustum, svo að ekki sé minnst á þann óhugnað og andrúmsloft sem fylgir því fyrir þjóðir að vera leiksoppar í stríði eða fórnarlömb.
Magnús Þór fann leiðir með íslenskuna að vopni til að opna heim Hastings fyrir lesandanum og áttum við aðdáendur dugnaðar hans og áræðis von á að hann íslenskaði fleiri af þessum stríðsbókum og hvöttum hann til þess.
Enginn getur flúið örlög sín og nú er komið að þáttaskilum og kveðjustund. Ég heiðra minningu Magnúsar Þórs og framlag hans sem þýðanda með fimm stjörnum. Hann var náttúrubarn í anda Davids Attenborough og sannaði það með því að róa til fiskjar, einn á báti sínum. Þegar ég kvaddi hann og óskaði honum góðrar vertíðar vorum við grunlausir um örlagaþræðina. Blessuð sé minning Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.