Eldskírn nýs forseta
Morgunblaðið, laugardagur 19. október 2024.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands hefur fengist við stórverkefni nú í október. Þar ber hæst heimsókn hennar til dönsku konungshjónanna í Kaupmannahöfn og stjórnarslitin hér.
Bæði verkefnin eru viðkvæm og framkvæmd undir smásjá fjölmiðla. Nýkjörinn forseti hefur tekist á við þau af öryggi. Þar má sérstaklega nefna ræðuna sem Halla Tómasdóttir flutti á Bessastöðum síðdegis þriðjudaginn 15. október eftir fund hennar með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra þar sem hann baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.
Að morgni mánudagsins 14. október gekk forsætisráðherra á fund forseta með tillögu um þingrof og alþingiskosningar. Forseti gaf sér tíma til að „gaumgæfa stöðuna“ eins og hún orðaði það.
Hún ræddi við formann VG, Svandísi Svavarsdóttur, og formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, oddvita samstarfsflokka sjálfstæðismanna í ríkisstjórninni. Þá ræddi hún við formenn annarra þingflokka og forseta alþingis. Að loknum þeim samtölum mat forseti stöðuna svo að „heillavænlegast“ væri fyrir þing og þjóð að gengið yrði til kosninga.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands les tilkynningu um þingrof og starfsstjórn á Bessastöðum 15. október 2024 (mynd: forseti.is).
Forseti féllst því á tillögu forsætisráðherra um að rjúfa þing. Þingrof var síðan tilkynnt á þingfundi fimmtudaginn 17. október og fara kosningar til nýs þings fram 30. nóvember.
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sagði réttilega hér í blaðinu mánudaginn 14. október að í íslensku stjórnarskránni væru ýmis verkefni falin forsetanum sem væru í reynd í höndum ráðherranna. Þingrof væri eitt af þessum verkefnum.
Þingrofsvaldið er í höndum forsætisráðherra. Stundum hefur verið samið um það við stjórnarmyndanir að ráðherrann beiti ekki valdinu nema að höfðu samráði við samstarfsflokk eða flokka í ríkisstjórn. Í því samstarfi sem nú er lokið hafði ekki verið samið um slíkt.
Í byrjun apríl 2016 deildu Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um hvort ráðherrann hefði lagt fram tillögu um þingrof fyrir forseta. Ráðherrann sagði að hann hefði ekki gert það en forsetinn sagði að ráðherrann hefði ótvírætt gert það, benti hann á að embættismenn hefðu fylgt ráðherranum til Bessastaða og ráðherrann hefði auk þess verið með „ríkisráðstöskuna“.
Þegar á reyndi töldu hvorki þingflokkur forsætisráðherrans sjálfs né sjálfstæðismenn í stjórnarsamstarfi við Sigmund Davíð tímabært að rjúfa þing.
Í umræðum um stöðuna núna sá Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, tilefni til að bera hana saman við það sem gerðist í apríl 2016. Aðstæður nú eru allt aðrar en þá og forseti Íslands í allt annarri stöðu.
Samanburðinn við atburðina í apríl 2016 notaði Össur til að rökstyðja að ekki ætti að fela starfsstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar að fara með stjórn landsins fram yfir kosningar og þangað til ný ríkisstjórn yrði mynduð. Valdi hann Svandísi Svavarsdóttur, formann VG, sem handbendi sitt til að koma þessari hugmynd í framkvæmd.
Í stuttu máli nægir að segja að þessar ráðagerðir hafi farið í handaskolum. Réð þar miklu að Svandís virtist ekki frekar en Össur og jafnvel reyndir fréttamenn ríkisútvarpsins vita hvað stæði að baki hugtakinu starfsstjórn. Þetta er eitt ópólitískasta hugtakið á tímum sem þessum, helsta einkenni starfsstjórna er að það ber að halda þeim frá flokkapólitískum átökum.
Uppgjöf Svandísar í umræðunum um þetta deilumál birtist í þeim orðum hennar í samtali við mbl.is síðdegis 14. október að það skipti kannski ekki öllu máli hvort hún væri að tala um „starfsstjórn eða bráðabirgðastjórn eða einhvers konar brú yfir í nýja ríkisstjórn eftir kosningar. Minnihlutastjórn eða hvað það væri.“
Hún væri að tala um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Með fullri virðingu fyrir Sigurði Inga var þetta með öllu óraunhæf tillaga Össurar Skarphéðinssonar í anda Ólafs Ragnars Grímssonar. Össur gerði tilraun til að draga forseta Íslands inn í deilur um stjórnarmyndun og sagði forseta stjórnskipulega skylt að fara að orðum sínum. Þetta stóðst ekki.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands svaraði þessu skýrt þegar hún sagðist í ræðu sinni 15. október hafa fallist á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar og síðan: „Í samræmi við stjórnskipunarvenju bað ég fráfarandi ríkisstjórn að sitja áfram sem starfsstjórn uns tekist hefur að mynda nýja ríkisstjórn.“
Áréttaði hún niðurstöðu sína með því að segja að frumskylda hennar sem forseta væri „að tryggja að í landinu [væri] starfhæf stjórn“. Starfsstjórn gegndi þeim störfum sem nauðsynleg væru við daglega stjórn landsins.
Þetta verkefni vildu þrír ráðherrar VG ekki taka að sér og brutu þar með blað í sögunni því að aldrei áður hafa ráðherrar neitað að fara að ósk forseta um að tryggja daglega stjórn landsins með setu í starfsstjórn.
Vegferð VG eftir að Svandís Svavarsdóttir tók þar við stjórnartaumum bendir til að hún telji happadrýgst að skipa flokknum sess sem jaðarflokki, lengst til vinstri og með yfirbragði stjórnleysis. Virðing fyrir lögbundinni stjórnsýslu og viðteknum stjórnlagareglum, hugtökum og venjum er andstæða við stjórnleysi.
Virðing fyrir góðum stjórnarháttum smitar út frá sér. Fumlaus framganga Höllu Tómasdóttur forseta Íslands í viku djúpstæðra pólitískra átaka og umskipta hefur styrkt stöðu hennar í forystusveit íslenskra stjórnmála og er henni gott veganesti þegar að því kemur að mynda stjórn að loknum kosningum.