Einar Kárason, Varðberg og ESB
Morgunblaðið, föstudag 15. nóvember 2019.
Einar Kárason, rithöfundur og varaþingmaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu á alþingi fyrir einum mánuði, 15. október, í umræðum um skýrslur utanríkisráðherra um EES.
Einar rifjaði upp ferð á menningarþing í Kákasuslýðveldinu Kirgistan fyrir fimm eða sex árum. Til þingsins var stofnað svo að ráðamenn landsins gætu minnt á tilvist þess, „þrátt fyrir allt það sem fylgt hefði því að tilheyra Sovétríkjunum hefðu þeir þó verið í tengslum við einhverja meðan á því stóð“. Í Moskvu og Leníngrad og jafnvel í Varsjá og Búkarest hefðu einhverjir haft áhuga á því sem gerðist í Kirgistan. Nú þyrftu þeir nýtt tengslanet og nú væri meira að segja svo komið „að þeir söknuðu jafnframt þess tíma þegar þeir tilheyrðu Tyrkjaveldi nokkrum öldum fyrr því að þá hefðu þeir líka haft þessi lifandi tengsl við einhverja aðra í heiminum sem hefðu áhuga á þeim og tengdust þeim“.
Einangrun Kremlverja
Ótti við einangrun eftir hrun Sovétríkjanna einskorðast ekki við hugarheim ráðamanna í Kirgistan. Hann birtist einnig í sölum Kremlar 5. nóvember 2019 þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti boðaði til fundar í forsetaráðinu til verndar rússneskri tungu. Þá sagði forsetinn meðal annars:
„Við sjáum að það eru ekki aðeins neandersdalsmenn haldnir rússaóvild sem segja rússneskri tungu stríð á hendur. Þetta er opinbert leyndarmál. Stríðið er háð af alls kyns jaðarhópum og einnig af virkum og árásargjörnum þjóðernissinnum.“ Með offorsi og dónaskap væri reynt að þrengja að rússnesku og setja hana til hliðar.
Fundarmenn töldu mikla hættu steðja að þjóðtungu sinni. Eftir hrun Sovétríkjanna hefði rússneska horfið sem ríkismál þjóða undir Moskvuvaldi, sovésku lýðveldanna við Eystrasalt, í Úkraínu, Moldóvu, Kákasus og Mið-Asíu. Eftir 1991 héldu aðeins fimm fyrrverandi sovésk lýðveldi, Hvíta-Rússland, Kasakstan, Kirgistan, Tadsjikistan og Úsbekistan, rússnesku sem ríkismáli samhliða þjóðtungum sínum.
Áhyggjur Kremlverja lúta jafnframt að því að þeim fækki sem hafa rússnesku sem þjóðtungu, þeir eru nú taldir um 250 milljónir, auk þess sé þrengt að Russkíj Mir (Rússnesku veröldinni). Hugtakið vísar til rússnesks menningarsvæðis sem rekja má aftur til keisaratímans og nær til næstum alls Hvíta-Rússlands, hluta Úkraínu og Kasakstans og íbúa í Eystrasaltríkjunum þremur, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Stjórnvöld í Moskvu finna mjög að nýjum lögum um stöðu rússnesku í Eystrasaltsríkjunum.
Sergei Markov, fyrrverandi þingmaður, sagði við vestrænan blaðamann: „Rússaóvild er erfiður pólitískur sjúkdómur á Vesturlöndum en Rússland, með tilvist sinni einni, minnir okkur á að vestrið er ekki almáttugt og því hnignar efnahagslega og siðferðilega.“
Í sömu andrá og Pútín varði móðurmálið réðst hann á net-alfræðiorðabókina Wikipediu og hvatti til þess að menn nýttu sér aðeins rússnesk alfræðirit á netinu.
Varðstaða um gildi
Rússneskuþingið í Kreml var af sama meiði og menningarþingið sem Einar Kárason sótti í Kirgistan. Það snerist um viðurkenningu á þjóðlegum gildum. Í ræðu sinni á alþingi vék Einar einmitt að gildum sem hann vildi verja og sagði:
„Þegar ég hugsa um þetta mál [EES] koma upp í hugann frasar sem fóru mikið í taugarnar á mér þegar ég var um tvítugt, þá erum við að tala um vestrænar lýðræðisþjóðir. Ég hef ekki alltaf verið hrifinn af miklu samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða. Ég gekk um hér á árum áður undir fánum og skiltum og hrópaði: Ísland úr NATO og herinn burt. Mér var svarað af mönnum sem voru í samtökum eins og Varðbergi sem eru samtök um vestræna samvinnu sem sögðu: Þetta eru vestrænar lýðræðisþjóðir, þetta eru þær frændþjóðir sem tilheyra okkur og við tengjumst mest og að sjálfsögðu eigum við að vera í samstarfi við þær.
Ég er fyrir löngu búinn að sjá að það er alveg rétt sem þessir menn sögðu. Við eigum að vera í sem nánustum tengslum og samstarfi við þær lýðræðisþjóðir í okkar heimshluta sem standa okkur næst og eru okkur skyldastar. Mér finnst það því dálítið merkilegt að nú þegar ég er kominn á þá skoðun, og læt hvarfla að mér að ganga í þetta félag, Varðberg, samtök um vestræna samvinnu, þá eru menn þar mjög þversum þegar kemur að því samstarfi vestrænna lýðræðisþjóða sem kannski hefur lukkast best á síðustu áratugum, þ.e. Evrópusambandinu. Mér finnst það dálítið merkilegt vegna þess að NATO og Evrópusambandið hafa höfuðstöðvar í sömu borginni, Brussel, að þegar menn sem aðhyllast samstarf vestrænna lýðræðisþjóða koma í höfuðstöðvar NATO hitta þeir fyrir vini og þá sem okkur eru hlynntir og bræðraþjóðir, mæta mikilli elskusemi. Ef þeir fara síðan yfir götuna í höfuðstöðvar Evrópusambandsins og hitta fulltrúa nákvæmlega sömu þjóða þar, það geta verið Danir, Hollendingar og Þjóðverjar eða Bretar, þá eru það orðin nýlenduveldi sem ásælast frelsi okkar og auðlindir. Svona fer nú fyrir manni að maður verður á endanum kaþólskari en páfinn og er ekki vært í félögum um vestræna samvinnu vegna þess að maður er allt of hlynntur henni.“
Einar Kárason á alþingi. (Mynd: Frettablaðið)
NATO og ESB
Innan Varðbergs eru menn ekki spurðir um afstöðu þeirra til ESB. Félagsmenn vinna saman í þeim anda að gildin sem þeir verja séu hvorki bundin við einstakar þjóðir né samtök. Varðstaðan í öryggismálum nær til allra sem búa í lýðræðisríkjunum beggja vegna Atlantshafs. Við brottför Breta úr ESB verður 80% varnarmáttar Evrópu hjá ríkjum utan ESB eins og Sir Stuart Peach, formaður hermálanefndar NATO, sagði á Varðbergsfundi í Norræna húsinu 11. nóvember 2019.
Af þessum sökum brást Angela Merkel Þýskalandskanslari hart við og mótmælti þegar Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði NATO glíma við „heiladauða“ vegna sveiflukenndrar afstöðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til bandalagsins.
Samheldni og samlögun þjóða snýst um gildi. Í inngangi Atlantshafssáttmálans, stofnskrá NATO frá 4. júlí 1949, segir: „Þeir [aðilar sáttmálans] eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinna, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu, er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti. Þeir leitast við að efla jafnvægi og velmegun á Norður-Atlantshafssvæðinu.“
Íslendingar voru í hópi tólf þjóða sem stofnuðu NATO og hafa alla tíð síðan lagt sinn skerf af mörkum, eina herlausa þjóð bandalagsins. Fyrir Íslendinga getur varnarsamstarf innan vébanda ESB aldrei komið í stað NATO. Öflugu lýðræðisríkin við Norður-Atlantshaf, Bandaríkin, Kanada, Noregur og Bretland standa utan ESB ásamt Íslandi.
Með EES-samningnum tengdust Íslendingar Evrópusambandinu með aðild að sameiginlega markaðnum í krafti fjórfrelsisins.
Tvíþætt samstarfsnet aðildar að NATO og EES myndar kjarnann í utanríkisstefnunni. Að þjóðinni er hvorki þrengt né tilvist hennar sýnt skeytingarleysi.