28.6.2025

Eftir Haag bíður heimavinnan

Morgunblaði, laugardagur, 28. júní 2025

For­ystu­menn NATO-ríkj­anna hitt­ust á morg­un­fundi í Haag, höfuðborg Hol­lands, miðviku­dag­inn 25. júní og tóku ákv­arðanir sem sýna að hrak­spár um framtíð banda­lags­ins í seinni for­setatíð Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta eru hald­laus­ar.

Jafn­framt sló Trump á efa­semd­ir um að hann stæði ekki við skuld­bind­ing­ar í 5. gr. Atlants­hafs­sátt­mál­ans um að árás á eitt ríki yrði árás á þau öll. „Við stönd­um með þeim til enda. Styddi ég það ekki væri ég ekki hér,“ sagði Trump við blaðamenn í Haag.

Megin­ákvörðun leiðtoga­fund­ar­ins var að varn­ar­mála­út­gjöld banda­lagsþjóðanna yrðu ár­lega 5% af vergri lands­fram­leiðslu árið 2035 – 3,5% til kjarna­verk­efna í her­mál­um og 1,5% til varn­artengdra verk­efna. Und­ir 3,5% má fella stuðning við Úkraínu­menn. Sú skil­grein­ing skipt­ir miklu fyr­ir ýms­ar þjóðir, til dæm­is Dani.

Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra og Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra sóttu fund­inn og aðra fundi í tengsl­um við hann. Þarna hittu þær Don­ald Trump í fyrsta sinn og á Face­book-síðu sinni sagði Kristrún: „Ég átti meðal ann­ars gott sam­tal við for­seta Banda­ríkj­anna um varn­ir Íslands. Það er al­veg ljóst að varn­ar­samn­ing­ur­inn við Banda­rík­in verður áfram grunnstoð í okk­ar ut­an­rík­is­stefnu.“

For­sæt­is­ráðherra sagði einnig: „Við ætl­um að styrkja innviði heima sem styðja við ör­yggi og varn­ir Íslands. En það verður eng­in breyt­ing á sam­bandi okk­ar við NATO.“

Í ljósi stefnu Íslands í 76 ár og annarra orða ráðherr­ans ber að skilja þetta á þann veg að hér verði stefnt að því að auka varn­artengd út­gjöld í 1,5% á næstu 10 árum. Sé miðað við verga lands­fram­leiðslu Íslands árið 2025 þýðir þetta aukn­ingu rík­is­út­gjalda um 70 millj­arða króna. Nú er hlut­fall Íslands aðeins um 0,14%. Útgjöld til varn­ar­mála voru 6.562 millj­ón­ir króna árið 2024 sam­kvæmt skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra.

Skuld­bind­ing­in sem for­sæt­is­ráðherra gekkst und­ir um þessa hækk­un á Haag-fund­in­um er póli­tísk en ekki bind­andi að þjóðarétti. Það verður hins veg­ar fylgst með því með út­tekt­um á veg­um NATO hvernig við þetta fyr­ir­heit verður staðið.

Kristrún hef­ur sagt að það sjá­ist nú þegar á fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar að stefnt sé að 1,5%-mark­inu. Fyrsta skrefið hlýt­ur þó að fel­ast í skil­grein­ingu á því hvaða verk­efni er hér um að ræða og geta þess í áætl­un­inni. Þar seg­ir ekk­ert um þetta.

Í grein á Vísi (25. júní) í til­efni af Haag-fund­in­um tí­unduðu for­menn stjórn­ar­flokk­anna 1,5%-verk­efn­in. Þar voru nefnd gam­al­kunn viðfangs­efni. Efla yrði áfallaþol, al­manna­varn­ir og björg­un­ar­sveit­ir. Sama ætti við um Land­helg­is­gæslu Íslands, eft­ir­lit á landa­mær­um, netör­yggi, lög­gæslu og aðra þætti í rétt­ar­vörslu­kerf­inu. Þá væri nauðsyn­legt að byggja upp og verja innviði sem snúa að orku, fjar­skipt­um og sam­göng­um.

Rík­is­stjórn­in hef­ur ekki al­farið frjáls­ar hend­ur við að skil­greina varn­artengd verk­efni. Á vett­vangi NATO hljóta full­trú­ar aðild­arþjóðanna að koma sér sam­an um leiðbein­ing­ar­regl­ur. Að öðrum kosti verður ekki um hlut­lægt mat á fram­vind­unni að ræða.

Það er eitt nýtt við grein flokks­formann­anna að samstaða sé um efni henn­ar. Til verk­efn­anna er þegar varið fé á fjár­lög­um. Hér eru hins veg­ar nefnd­ar mun hærri fjár­hæðir en við höf­um kynnst. Er ætl­un­in að stofna til kaupa á drón­um og þyrl­um – eða nýj­um skip­um? Hef­ur rík­is­stjórn­in ákveðið að hætta öðru á fjár­lög­um í þágu varn­artengdu verk­efn­anna? Hverju?

FVR58223Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hittu Donald Trump í Haag 25. júní 2025 (mynd: NATO).

Til að njóta trausts í alþjóðlegu sam­starfi verða orð að standa. Í apríl gaf ut­an­rík­is­ráðherra alþingi og þjóðinni fyr­ir­heit um að fyr­ir 21. maí yrði kynnt niðurstaða starfs­hóps sem ráðherr­ann stofnaði um gerð draga að stefnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Nú í vik­unni var hins veg­ar til­kynnt að niður­stöðu starfs­hóps­ins yrði ekki að vænta fyrr en í haust. Eng­in op­in­ber skýr­ing hef­ur verið gef­in á ít­rekuðum töf­um á þess­ari vinnu. Hvað veld­ur þeim? Ágrein­ing­ur?

Í Haag hitti Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra Marco Ru­bio, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna. Þegar blaðamaður Vís­is spurði hana um þann fund svaraði ut­an­rík­is­ráðherra: „Já, ég náði reynd­ar líka að taka í spaðann á hon­um Trump, hann er nú heill­andi karl­inn. Hann má eiga það.“ Hún sagðist helst hafa rætt „sam­heldni og sam­stöðu“ við Ru­bio.

Um­mæli full­trúa okk­ar á sögu­lega NATO-fund­in­um verða aðeins skil­in á þann hátt, að óform­leg sam­töl þeirra við æðstu menn Banda­ríkj­anna hafi létt af þeim áhyggj­um. Ráðherr­arn­ir vissu ekki hvað myndi ger­ast við fyrstu kynni af Trump. Hann var bara „heill­andi karl­inn“! Við þetta sit­ur þar til annað frétt­ist.

Að baki ákvörðun evr­ópsku NATO-ríkj­anna og Kan­ada um stór­auk­in út­gjöld til varn­ar­mála býr þó annað en að gleðja Trump. Þjóðarleiðtog­arn­ir styðjast við mat sér­fræðinga og leyniþjón­ustu­stofn­ana sem segja að verði ekki ráðist í mikla her­væðingu séu lík­ur á að inn­an fimm ára ákveði Rúss­ar að ráðast á eitt­hvert NATO-ríki.

Það er þetta blá­kalda mat á stöðu ör­ygg­is­mála í okk­ar heims­hluta sem ræður. Hnattstaða okk­ar og fram­lag til hernaðarlegra þátta í starfi NATO ráða úr­slit­um um inn­tak og gildi þátt­töku okk­ar í banda­lag­inu. Að þessu fram­lagi okk­ar verður að standa á verðugan hátt.

Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti reyn­ir dag­lega á áfallaþol Úkraínu­manna með árás­um á borg­ara­leg mann­virki og íbúa lands­ins. Stuðning­ur við þá sem við þær hörm­ung­ar búa má ekki bresta. Haag-fund­ur­inn er áminn­ing til Pútíns um að frjáls­ar þjóðir svara stríði hans af mikl­um þunga. Þess verða einnig að sjást merki í Úkraínu.