Eftir Haag bíður heimavinnan
Morgunblaði, laugardagur, 28. júní 2025
Forystumenn NATO-ríkjanna hittust á morgunfundi í Haag, höfuðborg Hollands, miðvikudaginn 25. júní og tóku ákvarðanir sem sýna að hrakspár um framtíð bandalagsins í seinni forsetatíð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta eru haldlausar.
Jafnframt sló Trump á efasemdir um að hann stæði ekki við skuldbindingar í 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt ríki yrði árás á þau öll. „Við stöndum með þeim til enda. Styddi ég það ekki væri ég ekki hér,“ sagði Trump við blaðamenn í Haag.
Meginákvörðun leiðtogafundarins var að varnarmálaútgjöld bandalagsþjóðanna yrðu árlega 5% af vergri landsframleiðslu árið 2035 – 3,5% til kjarnaverkefna í hermálum og 1,5% til varnartengdra verkefna. Undir 3,5% má fella stuðning við Úkraínumenn. Sú skilgreining skiptir miklu fyrir ýmsar þjóðir, til dæmis Dani.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sóttu fundinn og aðra fundi í tengslum við hann. Þarna hittu þær Donald Trump í fyrsta sinn og á Facebook-síðu sinni sagði Kristrún: „Ég átti meðal annars gott samtal við forseta Bandaríkjanna um varnir Íslands. Það er alveg ljóst að varnarsamningurinn við Bandaríkin verður áfram grunnstoð í okkar utanríkisstefnu.“
Forsætisráðherra sagði einnig: „Við ætlum að styrkja innviði heima sem styðja við öryggi og varnir Íslands. En það verður engin breyting á sambandi okkar við NATO.“
Í ljósi stefnu Íslands í 76 ár og annarra orða ráðherrans ber að skilja þetta á þann veg að hér verði stefnt að því að auka varnartengd útgjöld í 1,5% á næstu 10 árum. Sé miðað við verga landsframleiðslu Íslands árið 2025 þýðir þetta aukningu ríkisútgjalda um 70 milljarða króna. Nú er hlutfall Íslands aðeins um 0,14%. Útgjöld til varnarmála voru 6.562 milljónir króna árið 2024 samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra.
Skuldbindingin sem forsætisráðherra gekkst undir um þessa hækkun á Haag-fundinum er pólitísk en ekki bindandi að þjóðarétti. Það verður hins vegar fylgst með því með úttektum á vegum NATO hvernig við þetta fyrirheit verður staðið.
Kristrún hefur sagt að það sjáist nú þegar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að stefnt sé að 1,5%-markinu. Fyrsta skrefið hlýtur þó að felast í skilgreiningu á því hvaða verkefni er hér um að ræða og geta þess í áætluninni. Þar segir ekkert um þetta.
Í grein á Vísi (25. júní) í tilefni af Haag-fundinum tíunduðu formenn stjórnarflokkanna 1,5%-verkefnin. Þar voru nefnd gamalkunn viðfangsefni. Efla yrði áfallaþol, almannavarnir og björgunarsveitir. Sama ætti við um Landhelgisgæslu Íslands, eftirlit á landamærum, netöryggi, löggæslu og aðra þætti í réttarvörslukerfinu. Þá væri nauðsynlegt að byggja upp og verja innviði sem snúa að orku, fjarskiptum og samgöngum.
Ríkisstjórnin hefur ekki alfarið frjálsar hendur við að skilgreina varnartengd verkefni. Á vettvangi NATO hljóta fulltrúar aðildarþjóðanna að koma sér saman um leiðbeiningarreglur. Að öðrum kosti verður ekki um hlutlægt mat á framvindunni að ræða.
Það er eitt nýtt við grein flokksformannanna að samstaða sé um efni hennar. Til verkefnanna er þegar varið fé á fjárlögum. Hér eru hins vegar nefndar mun hærri fjárhæðir en við höfum kynnst. Er ætlunin að stofna til kaupa á drónum og þyrlum – eða nýjum skipum? Hefur ríkisstjórnin ákveðið að hætta öðru á fjárlögum í þágu varnartengdu verkefnanna? Hverju?
Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hittu Donald Trump í Haag 25. júní 2025 (mynd: NATO).
Til að njóta trausts í alþjóðlegu samstarfi verða orð að standa. Í apríl gaf utanríkisráðherra alþingi og þjóðinni fyrirheit um að fyrir 21. maí yrði kynnt niðurstaða starfshóps sem ráðherrann stofnaði um gerð draga að stefnu í öryggis- og varnarmálum. Nú í vikunni var hins vegar tilkynnt að niðurstöðu starfshópsins yrði ekki að vænta fyrr en í haust. Engin opinber skýring hefur verið gefin á ítrekuðum töfum á þessari vinnu. Hvað veldur þeim? Ágreiningur?
Í Haag hitti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þegar blaðamaður Vísis spurði hana um þann fund svaraði utanríkisráðherra: „Já, ég náði reyndar líka að taka í spaðann á honum Trump, hann er nú heillandi karlinn. Hann má eiga það.“ Hún sagðist helst hafa rætt „samheldni og samstöðu“ við Rubio.
Ummæli fulltrúa okkar á sögulega NATO-fundinum verða aðeins skilin á þann hátt, að óformleg samtöl þeirra við æðstu menn Bandaríkjanna hafi létt af þeim áhyggjum. Ráðherrarnir vissu ekki hvað myndi gerast við fyrstu kynni af Trump. Hann var bara „heillandi karlinn“! Við þetta situr þar til annað fréttist.
Að baki ákvörðun evrópsku NATO-ríkjanna og Kanada um stóraukin útgjöld til varnarmála býr þó annað en að gleðja Trump. Þjóðarleiðtogarnir styðjast við mat sérfræðinga og leyniþjónustustofnana sem segja að verði ekki ráðist í mikla hervæðingu séu líkur á að innan fimm ára ákveði Rússar að ráðast á eitthvert NATO-ríki.
Það er þetta blákalda mat á stöðu öryggismála í okkar heimshluta sem ræður. Hnattstaða okkar og framlag til hernaðarlegra þátta í starfi NATO ráða úrslitum um inntak og gildi þátttöku okkar í bandalaginu. Að þessu framlagi okkar verður að standa á verðugan hátt.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti reynir daglega á áfallaþol Úkraínumanna með árásum á borgaraleg mannvirki og íbúa landsins. Stuðningur við þá sem við þær hörmungar búa má ekki bresta. Haag-fundurinn er áminning til Pútíns um að frjálsar þjóðir svara stríði hans af miklum þunga. Þess verða einnig að sjást merki í Úkraínu.