Efnahagsþróun til réttrar áttar
Morgunblaðið, laugardagur, 14. september 2024.
Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var kynnt 10. september þegar alþingi kom saman og degi síðar flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína. Síðasta þing kjörtímabilsins hófst þegar vetur minnti á sig fyrir norðan, vestan og austan.
Í stefnuræðunni sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra að ástæða væri til að fara bjartsýnn inn í þingveturinn. Verðbólga væri markvert að lækka. Tryggja þyrfti að sú þróun héldi áfram og beita agaðri hagstjórn. Það væri stærsta hagsmunamál heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Undanfarið hefði ríkið stutt við seðlabankann með aðhaldi, líkt og bankinn sjálfur og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefðu bent á. Ríkisútgjöld ykjust hægar en útgjöld almennt og afkoma ríkissjóðs batnaði hröðum skrefum.
Með styrkri efnahagsstjórn væri raunhæft að afgangur yrði á ríkissjóði strax á næsta ári, þótt opinberar áætlanir gerðu ráð fyrir halla. Niðurstaða ríkisreiknings hefði ítrekað verið langt umfram opinberar áætlanir. Afkoman hefði reynst 100 milljörðum betri þrjú ár í röð. Nú mældist verðbólga 6% en hafa bæri í huga að án húsnæðisliðarins væri hún um 3,6%.
Hvort bjartsýni forsætisráðherra um þingveturinn rætist og á þingi náist samstaða um skynsamlegar niðurstöður í mikilvægum málum kemur í ljós. Að líkindum verður hart barist og ekki alltaf málefnalega þegar flokkar marka sér stöðu fyrir kosningar árið 2025.
Kristrún Frostadóttir, formaður nýju Samfylkingarinnar sem hún nefndi svo, sakaði ríkisstjórnina um „kæruleysi“ en sagði að hjá sér væri allt „samkvæmt áætlun, örugg skref en engin heljarstökk“. Samfylkingin hefði „nú staðsett sig þétt með þjóðinni á hárréttum stað við bak hins vinnandi manns tilbúin til þjónustu“ fengi hún til þess traust eftir næstu kosningar. Ræða hennar einkenndist að efni og flutningi af digurbarkalegu viðhorfi til annarra stjórnmálamanna og flokka. Má vissulega kalla það nýjan tón.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sagði við blaðamenn þegar hann kynnti efni fjárlagafrumvarpsins undir kjörorðinu: Þetta er allt að koma „Við sjáum fram á bjartari tíma með lægri vöxtum.“
Hann vísaði til þess að verðbólga hefði lækkað um meira en 4 prósentustig á 18 mánuðum. Nú væru efnahagsumsvif að komast í jafnvægi hér eftir meiri hagvöxt en í flestöllum þróuðum ríkjum bæði árin 2022 og 2023. Markvert hefði dregið úr þenslu í efnahagslífinu undanfarið ár og útlit væri fyrir að hún hyrfi alveg á næstu misserum.
Þá segir í greinargerð frumvarpsins að atvinnuleysi sé lágt og þróun kaupmáttar hagfelldari en í flestum samanburðarríkjum. Verðbólga sé þó enn of mikil. Mikilvægt sé því að halda áfram á braut aðhaldssamrar ríkisfjármálastefnu sem hafi verið mörkuð undanfarin þrjú ár. Það flýti fyrir hjöðnun verðbólgu og skapi skilyrði fyrir lækkun vaxta, sem síðan styðji við vöxt verðmætasköpunar til meðallangs tíma.
Þessi texti er saminn af þeim sem þekkja best efni fjárlagafrumvarpsins og þau markmið sem þar eru sett. Miðað við reynslu undanfarinna þriggja ára, þegar afkoma ríkissjóðs hefur verið 100 milljörðum króna betri ár hvert en gert var ráð fyrir í fjárlögum, væri stílbrot ef verðbólguspárnar mótuðust af óhóflegri bjartsýni.
Fjármálaráðherrann hafði varla sleppt orðinu og birt frumvarp sitt þegar fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna felldu um það dóm.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, taldi að „þráseta ríkisstjórnarinnar“ væri farin að valda skaða. Í þessa veru hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað í tæp sjö ár. Verði þetta enn og aftur stef Samfylkingarinnar á alþingi í vetur er erfitt að sjá að ný Samfylking hafi fæðst. Raunar hefur Kristrún áður sagt að hún þurfi tvö kjörtímabil eða kannski tíu ár til að árangur stefnubreytingar sjáist, komist Samfylkingin í ríkisstjórn. Hún stefnir á „þrásetu“.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði: „Það þarf hér ríkisstjórn sem brettir upp ermar og gengur í verkin.“ Lausn hennar sjálfrar og Viðreisnar á aðsteðjandi vanda er upptaka evru. Til hennar kemur ekki án þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsókn eftir breytingu á stjórnarskrá. Þegar þeim áfanga er náð hefjast langar aðildarviðræður við ESB, sem er sjálft í breytingaferli sér til bjargar.
Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins segir að engar vísbendingar séu um snögga og alvarlega kólnun efnahagsumsvifa. Það sé þó fjarri því sjálfgefið að hagkerfið lendi mjúklega. Efnahagsstefnan hafi hins vegar nægan sveigjanleika til viðspyrnu, kólni efnahagsumsvif hraðar en segi í þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hátt vaxtastig feli í sér að Seðlabankinn hafi ríflegt svigrúm til að lækka vexti, telji hann ástæðu til. Þá sé hér fyrir hendi sterkara sjálfvirkt viðbragð ríkisfjármála við hagsveiflunni en víðast hvar annars staðar. Það lækki skattbyrði og auki útgjöld sjálfkrafa í niðursveiflum og öfugt í uppsveiflum.
Álit OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, er að það sé til marks um ríki með öfluga efnahagsstjórn að búa við sterkt sjálfvirkt viðbragð ríkisfjármála. Á máli formanns Samfylkingarinnar heitir þetta hins vegar að láta „bara malla á sjálfstýringu“. Það er ekki eitt heldur allt sem ergir stjórnarandstöðuna.
Forsætisráðherra nefndi stjórnarskrárbreytingar í ræðu sinni. Á lokaþingi fyrir kosningar er eðlilegt að taka afstöðu til þeirra. Það verður mælikvarði á samstöðu um þjóðarheill hvort þar dregur til tíðinda í stjórnarskrárvinnunni á næstu mánuðum.