14.9.2024

Efnahagsþróun til réttrar áttar

Morgunblaðið, laugardagur, 14. september 2024.

Fjár­laga­frum­varp árs­ins 2025 var kynnt 10. sept­em­ber þegar alþingi kom sam­an og degi síðar flutti for­sæt­is­ráðherra stefnuræðu sína. Síðasta þing kjör­tíma­bils­ins hófst þegar vet­ur minnti á sig fyr­ir norðan, vest­an og aust­an.

Í stefnuræðunni sagði Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra að ástæða væri til að fara bjart­sýnn inn í þing­vet­ur­inn. Verðbólga væri markvert að lækka. Tryggja þyrfti að sú þróun héldi áfram og beita agaðri hag­stjórn. Það væri stærsta hags­muna­mál heim­il­anna og fyr­ir­tækj­anna í land­inu. Und­an­farið hefði ríkið stutt við seðlabank­ann með aðhaldi, líkt og bank­inn sjálf­ur og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hefðu bent á. Rík­is­út­gjöld ykj­ust hæg­ar en út­gjöld al­mennt og af­koma rík­is­sjóðs batnaði hröðum skref­um.

Með styrkri efna­hags­stjórn væri raun­hæft að af­gang­ur yrði á rík­is­sjóði strax á næsta ári, þótt op­in­ber­ar áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir halla. Niðurstaða rík­is­reikn­ings hefði ít­rekað verið langt um­fram op­in­ber­ar áætlan­ir. Af­kom­an hefði reynst 100 millj­örðum betri þrjú ár í röð. Nú mæld­ist verðbólga 6% en hafa bæri í huga að án hús­næðisliðar­ins væri hún um 3,6%.

Hvort bjart­sýni for­sæt­is­ráðherra um þing­vet­ur­inn ræt­ist og á þingi ná­ist samstaða um skyn­sam­leg­ar niður­stöður í mik­il­væg­um mál­um kem­ur í ljós. Að lík­ind­um verður hart bar­ist og ekki alltaf mál­efna­lega þegar flokk­ar marka sér stöðu fyr­ir kosn­ing­ar árið 2025.

IMG_0622

Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður nýju Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sem hún nefndi svo, sakaði rík­is­stjórn­ina um „kæru­leysi“ en sagði að hjá sér væri allt „sam­kvæmt áætl­un, ör­ugg skref en eng­in helj­ar­stökk“. Sam­fylk­ing­in hefði „nú staðsett sig þétt með þjóðinni á hár­rétt­um stað við bak hins vinn­andi manns til­bú­in til þjón­ustu“ fengi hún til þess traust eft­ir næstu kosn­ing­ar. Ræða henn­ar ein­kennd­ist að efni og flutn­ingi af dig­ur­barka­legu viðhorfi til annarra stjórn­mála­manna og flokka. Má vissu­lega kalla það nýj­an tón.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, fjár­mála- og efna­hags­málaráðherra, sagði við blaðamenn þegar hann kynnti efni fjár­laga­frum­varps­ins und­ir kjör­orðinu: Þetta er allt að koma „Við sjá­um fram á bjart­ari tíma með lægri vöxt­um.“

Hann vísaði til þess að verðbólga hefði lækkað um meira en 4 pró­sentu­stig á 18 mánuðum. Nú væru efna­hags­um­svif að kom­ast í jafn­vægi hér eft­ir meiri hag­vöxt en í flest­öll­um þróuðum ríkj­um bæði árin 2022 og 2023. Markvert hefði dregið úr þenslu í efna­hags­líf­inu und­an­farið ár og út­lit væri fyr­ir að hún hyrfi al­veg á næstu miss­er­um.

Þá seg­ir í grein­ar­gerð frum­varps­ins að at­vinnu­leysi sé lágt og þróun kaup­mátt­ar hag­felld­ari en í flest­um sam­an­b­urðarríkj­um. Verðbólga sé þó enn of mik­il. Mik­il­vægt sé því að halda áfram á braut aðhalds­samr­ar rík­is­fjár­mála­stefnu sem hafi verið mörkuð und­an­far­in þrjú ár. Það flýti fyr­ir hjöðnun verðbólgu og skapi skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta, sem síðan styðji við vöxt verðmæta­sköp­un­ar til meðallangs tíma.

Þessi texti er sam­inn af þeim sem þekkja best efni fjár­laga­frum­varps­ins og þau mark­mið sem þar eru sett. Miðað við reynslu und­an­far­inna þriggja ára, þegar af­koma rík­is­sjóðs hef­ur verið 100 millj­örðum króna betri ár hvert en gert var ráð fyr­ir í fjár­lög­um, væri stíl­brot ef verðbólgu­spárn­ar mótuðust af óhóf­legri bjart­sýni.

Fjár­málaráðherr­ann hafði varla sleppt orðinu og birt frum­varp sitt þegar full­trú­ar stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna felldu um það dóm.

Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, taldi að „þrá­seta rík­is­stjórn­ar­inn­ar“ væri far­in að valda skaða. Í þessa veru hafa þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar talað í tæp sjö ár. Verði þetta enn og aft­ur stef Sam­fylk­ing­ar­inn­ar á alþingi í vet­ur er erfitt að sjá að ný Sam­fylk­ing hafi fæðst. Raun­ar hef­ur Kristrún áður sagt að hún þurfi tvö kjör­tíma­bil eða kannski tíu ár til að ár­ang­ur stefnu­breyt­ing­ar sjá­ist, kom­ist Sam­fylk­ing­in í rík­is­stjórn. Hún stefn­ir á „þrá­setu“.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, sagði: „Það þarf hér rík­is­stjórn sem brett­ir upp erm­ar og geng­ur í verk­in.“ Lausn henn­ar sjálfr­ar og Viðreisn­ar á aðsteðjandi vanda er upp­taka evru. Til henn­ar kem­ur ekki án þjóðar­at­kvæðagreiðslu um ESB-um­sókn eft­ir breyt­ingu á stjórn­ar­skrá. Þegar þeim áfanga er náð hefjast lang­ar aðild­ar­viðræður við ESB, sem er sjálft í breyt­inga­ferli sér til bjarg­ar.

Í grein­ar­gerð fjár­laga­frum­varps­ins seg­ir að eng­ar vís­bend­ing­ar séu um snögga og al­var­lega kóln­un efna­hags­um­svifa. Það sé þó fjarri því sjálf­gefið að hag­kerfið lendi mjúk­lega. Efna­hags­stefn­an hafi hins veg­ar næg­an sveigj­an­leika til viðspyrnu, kólni efna­hags­um­svif hraðar en segi í þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar. Hátt vaxta­stig feli í sér að Seðlabank­inn hafi ríf­legt svig­rúm til að lækka vexti, telji hann ástæðu til. Þá sé hér fyr­ir hendi sterk­ara sjálf­virkt viðbragð rík­is­fjár­mála við hagsveifl­unni en víðast hvar ann­ars staðar. Það lækki skatt­byrði og auki út­gjöld sjálf­krafa í niður­sveifl­um og öf­ugt í upp­sveifl­um.

Álit OECD, Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar, er að það sé til marks um ríki með öfl­uga efna­hags­stjórn að búa við sterkt sjálf­virkt viðbragð rík­is­fjár­mála. Á máli for­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar heit­ir þetta hins veg­ar að láta „bara malla á sjálf­stýr­ingu“. Það er ekki eitt held­ur allt sem erg­ir stjórn­ar­and­stöðuna.

For­sæt­is­ráðherra nefndi stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar í ræðu sinni. Á lokaþingi fyr­ir kosn­ing­ar er eðli­legt að taka af­stöðu til þeirra. Það verður mæli­kv­arði á sam­stöðu um þjóðar­heill hvort þar dreg­ur til tíðinda í stjórn­ar­skrár­vinn­unni á næstu mánuðum.