3.11.2017

Efla verður varnir gegn skipulagðri glæpastarfsemi

Morgunblaðið 3. nóvember 2017

Nokkrum dögum fyrir þingkosningarnar laugardaginn 28. október birti greiningardeild ríkislögreglustjóra skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi 2017. Efni skýrslunnar sýnir að nýrrar ríkisstjórnar bíða mörg mikil og þung verkefni á þessu sviði sem snertir grunnskyldu stjórnvalda: að tryggja öryggi borgaranna.

Þeir sem vinna að því að taka saman samstarfssáttmála nýrrar ríkisstjórnir ættu að lesa þessa skýrslu. Þar er að finna lýsingar á meira og nýju álagi á lögreglu eins og þessi orð sýna:

„Skipulögð brotastarfsemi er þess eðlis að þörf er á öflugri frumkvæðislöggæslu sem er krefjandi verkefni ekki síst sökum þess að hún krefst ólíkrar nálgunar m.a. eftir brotaflokkum og sérfræðiþekkingar á hinum ýmsu sviðum samfélagsins auk menningarlæsis, tungumálakunnáttu, tölvu- og tækniþekkingar o.fl. Þá felur frumkvæðislöggæsla gagnvart skipulagðri brotastarfsemi iðulega í sér samstarf við hinar ýmsu stofnanir samfélagsins og er það breytilegt eftir viðfangsefni hverju sinni. Þetta á t.a.m. við um vinnumansal, brot á vinnulöggjöf, peningaþvætti o.fl.“

Frumkvæðislöggæsla


Höfundar skýrslunnar telja að lögreglunni hafi ekki verið gert kleift að fylgja eftir þróun og breytingum samfélagsins. Frumkvæðislöggæsla krefjist mannafla og fjármuna til lengri tíma. Skortur á henni geri það að verkum að lögreglan fylgist ekki nægilega vel samfélagsþróun og búi þannig ekki yfir nauðsynlegri getu til að takast á við breytingar sem fylgi alþjóðavæðingu og skipulagðri glæpastarfsemi þvert yfir landamæri.

Einhverjir spyrja vafalaust hvað felist í „frumkvæðislöggæslu“. Stutta svarið er að þar sé um að ræða alla löggæslu sem á sér stað án þess að lögreglan sé kölluð á vettvang, henni er til dæmis beitt gegn vændi og fíkniefnum eða við umferðareftirlit.

Slíka löggæslu má til dæmis stunda með greiningu farþegalista flugvéla sem koma til Keflavíkurflugvallar og nýta við greininguna víðtækar lagaheimildir og samvinnu ólíkra stofnana.

Fordæmi frá Norðurlöndunum


Í skýrslu sinni segir greiningardeild ríkislögreglustjóra að ráðlegt sé að horfa einkum til nágrannalanda, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Þróun þar kunni að lýsa framvindu skipulagðrar glæpastarfsemi hér á landi. 

Dæmin í skýrslunni vekja ugg. Glæpahópar og gengi berjast í mörgum tilvikum um yfirráðasvæði og markaði. Síðustu daga og misseri hafa miklar fréttir borist af slíkum átökum á Norðurlöndum – einkum í Svíþjóð og Danmörku. Þess sjást merki að óþol gagnvart gengjum og glæpum vaxi meðal almennings í þessum ríkjum og kröfur um öryggi og öflugri viðbrögð yfirvalda magnast, segir í skýrslunni. 

Hverfi og götur í stærri borgum Norðurlanda bera þess víða merki, að margra mati, að félagsleg aðlögun hafi mistekist og aðlögun innflytjenda að norrænum samfélögum hafi í mörgum tilvikum ekki verið í samræmi við vonir og yfirlýsta stefnu stjórnvalda. Til verði hverfi og svæði tiltekinna þjóðarbrota sem hafa tilhneigingu til að einangra sig, m.a. vegna þess að hópar viðtökuríkisins draga sig frá þeim eða innflytjendur kjósa einfaldlega að samlagast ekki því nýja samfélagi sem þeir nú tilheyra.

Í ágúst 2017 var frá því skýrt að stjórnvöld í Svíþjóð hygðust á næsta ári hækka framlög til lögreglu um tvo milljarða sænskra króna (um 27 milljarða ÍSK). Á næstu þremur árum verða fjárveitingar til lögreglu auknar um 7,1 milljarð sænskra króna (um 94 milljarða ÍSK). Sænsk stjórnvöld leitast við að auka öryggi vegna nýlegra skotárása víða um landið. „Þetta skapar hræðilegt óöryggi fyrir fólk í þessum íbúðarhverfum. Það er ekki ásættanlegt, við verðum að takast á við vandann með réttu móti,“ sagði Stefan Löfven forsætisráðherra.

Í nýlegri skýrslu sænsku lögreglunnar er talið að um 200 manns tengist skipulagðri glæpastarfsemi í Malmö einni.

Ólga vegna ofbeldisverka glæpagengja fer vaxandi í Kaupmannahöfn. Í ágúst 2017 efndu íbúar í Nörrebro-hverfi til mótmæla vegna skotbardaga glæpamanna og þess almenna óöryggis sem almenningur þar finnur fyrir. Í Nörrebro-hverfi voru tæplega 30 skotárásir skráðar á tveggja mánaða tímabili sumarið 2017 og særðust óbreyttir borgarar í þeim.

Greiningardeildin bendir á að erlendir glæpahópar, einkum frá löndum Balkanskaga, séu umsvifamiklir á fíkniefnamörkuðum Norðurlanda. Þaðan hafa flestar tilhæfulausar hælisumsóknir borist hér á landi undanfarin misseri.

Albanska mafían er talin ráðandi á heróín-markaðnum á Norðurlöndunum. Telur greiningardeildin sérstaka ástæðu til að fylgjast grannt með þróun mála á þessu sviði í nágrannaríkjunum. Heróíns hafi ekki enn orðið vart á Íslandi. Ef og þegar það gerist teljist það þáttaskil.

Ópíumafleiður


Donald Trump Bandaríkjaforseti hratt fimmtudaginn 26. október af stað átaki gegn „lýðheilsu hættuástandi“ í Bandaríkjunum vegna mjög sterkra verkjalyfja sem innihalda ópíumafleiður. Er þetta mannskæðasti fíkniefnafaraldur í sögu Bandaríkjanna og herjar hann einkum þá sem eru undir 50 ára aldri. Létust 64.000 vegna hans á árinu 2016 í Bandaríkjunum, fleiri en samtals í skotárásum og umferðarslysum.

Í skýrslu greiningardeildarinnar segir að aukin neysla sterkra verkjalyfja sem innihalda ópíumafleiður og sterkra eiturlyfja hafi kostað tugi manna lífið hér á landi á síðustu þremur árum. Tollstjóri leggi reglulega hald á sterk verkjalyf sem reynt sé að smygla til landsins. Er talið að reynslan í Bandaríkjunum sýni að líklegt sé að neysla sterkari efna muni, þegar horft er til næstu ára, aukast hér á landi og ástæða er til að hafa áhyggjur af því að heróín nái fótfestu á Íslandi.

Svört atvinnustarfsemi


Loks skal vakin athygli á því sem greiningardeildin segir um „svarta atvinnustarfsemi“. Á Norðurlöndum láti skipulagðir glæpahópar til sín taka á löglegum mörkuðum og raski þannig samkeppnisstöðu. Varar norska lögreglan sérstaklega við „svartri atvinnustarfsemi“ á vegum skipulagðra glæpahópa. Slíkir hópar Albana séu ráðandi á sumum sviðum byggingariðnaðar í Noregi.

Þessi starfsemi byggist m.a. á flóknu kerfi undirverktaka og aðstoðarmanna sem gerir glæpahópunum kleift að stunda undirboð, greiða fyrir „svarta atvinnustarfsemi“ í reiðufé, stunda skattsvik, skjalafals og þiggja m.a. endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði vegna falsaðra reikninga. Albanskir glæpahópar í Noregi tengjast einnig smygli á fíkniefnum, mansali og vændi. Mikið ofbeldi tengist iðulega starfsemi skipulagðra albanskra glæpahópa.

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra segir:

„Á Íslandi ríkja nú um stundir aðstæður sem fallnar geta verið til þess að skipulögð glæpastarfsemi eflist. Útlendu verkafólki fjölgar hratt og ítrekað eru sagðar fréttir í fjölmiðlum um félagsleg undirboð, slæman aðbúnað og önnur réttindabrot gegn vinnulöggjöf. Svonefndar „starfsmannaleigur“, innlendar sem erlendar, og undirverktakar auka flækjustig og ógagnsæi með þeim afleiðingum m.a. að eftirlit verður erfiðara og þyngra í vöfum.

Mikil eftirspurn eftir vinnuafli eykur hættu á mansali og vinnumarkaðsafbrotum. Gríðarlegur vöxtur í byggingariðnaði og ferðaþjónustu skapar margvíslega hættu á að skipulögð glæpastarfsemi geti hagnýtt sér aðstæður og umsvif með áþekkum hætti og þekkist á Norðurlöndum.“

Hér er ekki verið að lýsa ókominni framtíð heldur því sem gerist hér og nú. Markvissra gagnaðgerða er þörf.