EES-framkvæmdin er innanríkismál
Morgunblaðið, föstudagur, 4. október 2019
Vegna óska þingmanna um skýrslu fól Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra okkur þremur lögfræðingum, Kristrúnu Heimisdóttur, Bergþóru Halldórsdóttur og mér, að semja skýrslu um EES-aðildina. Umboðið fengum við 30. ágúst 2018 og var 301 bls. prentuð skýrsla kynnt opinberlega þriðjudaginn 1. október þegar við skiluðum formlega af okkur til utanríkisráðherra. Skýrsluna má nálgast á netinu bæði á vef alþingis og stjórnarráðsins.
Um EES-samninginn hefur mikið verið rætt undanfarin misseri, ekki síst vegna deilna um þriðja orkupakkann. Starfshópurinn tók ekki afstöðu til þess máls. Í skýrslunni er rakin saga þess og Icesave-málsins, rætt um viðskiptabannið á Rússa, fiskimjölsmálið og kjötmálið svo að nokkur dæmi séu nefnd.
Að gera skipulega grein fyrir málum sem reynst hafa flókin og erfið úrlausnar en tengjast EES-aðildinni á einn eða annan hátt ætti að auðvelda stjórnmálamönnum og öllum almenningi að vega og meta réttindi, skyldur og ávinning íslensku þjóðarinnar af EES-aðildinni.
Í fylgiskjali með skýrslunni birtast nöfn 147 einstaklinga sem starfshópurinn hitti að máli hér á landi, í Brussel, Vaduz og Ósló. Viðmælendurnir voru raunar fleiri sé litið til fjölmennari funda.
Í stuttu máli má segja að allir viðmælendur starfshópsins, aðrir en fulltrúar samtakanna Frjálst land hér á landi og Nei til EU í Noregi, töldu EES-samninginn lifa góðu lífi. Hann væri til verulegs gagns og ávinnings fyrir þá sem innan ramma hans starfa.
Við aðildina að EES tók íslenskt þjóðfélag stakkaskiptum. Að fara í samanburð á því sem var og er nú kallar á mun víðtækari úttekt á þróun íslensks samfélags en starfshópurinn hafði tök eða tíma til að gera. Raunar má draga í efa að það þjóni nokkrum tilgangi að hverfa til veraldar sem var þegar breytingar eru jafnróttækar og í skýrslunni er lýst.
Markmið hópsins var ekki að setjast í dómarasæti um kosti og galla EES-samstarfsins heldur að draga fram staðreyndir svo að lesendur skýrslu hans gerðu sjálfir upp hug sinn.
EES-aðildin stærsta skrefið
Íslendingar tóku afstöðu til alþjóðasamvinnu í efnahagsmálum og alþjóðaviðskiptum strax fáeinum vikum eftir lýðveldisstofnunina 17. júní 1944. Í því fólst sigur og viðurkenning fyrir nýstofnaða lýðveldið að verða eitt 44 ríkja á fundunum í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum dagana 1. til 22. júlí 1944 þar sem grunnur var lagður að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum.
Þangað fór þriggja manna sendinefnd: Magnús Sigurðsson bankastjóri, Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands, og Svanbjörn Frímannsson, síðar bankastjóri, auk Mörtu Thors ritara. Í desember 1945 samþykkti alþingi lög um aðild að sjóðnum og bankanum.
Ísland varð því stofnaðili þessara nýju alþjóðasamtaka sem ætlað var að móta nýjar reglur peningamála og heimsviðskipta og vinna gegn fjármálakreppum, gjaldmiðlastríði og viðskiptahömlum er leitt höfðu til heimsstyrjaldar.
Strax í upphafi sjálfstæðis var á þennan hátt lagður grunnur að þátttöku Íslands í alþjóðastarfi sem hvatti til losunar hafta og nútímavæðingar atvinnulífs og styrkti tengsl landsins við vina- og nágrannaþjóðir. Til að ná þessum markmiðum hefur stefna Íslands í utanríkisviðskiptum síðan orðið að haldast í hendur við alþjóðlega þróun viðskipta- og fríverslunarsamninga.
Aðildin að Marshall-aðstoðinni kallaði á þátttöku Íslendinga í enn frekara efnahagssamstarfi vestrænna þjóða. Íslendingar héldu þó ekki í við þróunina vegna þess hve illa gekk að losa hér um höft. Þáttaskil urðu með viðreisnarstjórninni á sjöunda áratugnum. Í lok hans var gengið til samninga um aðild að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu, árið 1970, þegar samtökin höfðu starfað í áratug.
Eftir að stofnað hafði verið til sameiginlegs markaðar innan Evrópusambandsins á níunda áratugnum var EFTA-ríkjunum, sem öll voru hlutlaus fyrir utan Noreg og Ísland, boðin aðild að sameiginlega markaðnum á grundvelli sérstaks samnings um evrópskt efnahagssvæði (EES).
Samningur um EES-samstarfið var undirritaður 2. maí 1992 í Porto í Portúgal en strax í janúar 1993 hófu fulltrúar hlutlausu ríkjanna, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar auk NATO-ríkisins Noregs, aðildarviðræður við ESB. Hlutlausu ríkin þurftu ekki lengur að taka tillit til Sovétríkjanna, sem voru hrunin, og samþykktu hlutlausu ríkin aðild að ESB en Norðmenn felldu hana í atkvæðagreiðslu.
Þrjú EFTA-ríki, Ísland, Liechtenstein og Noregur, mynduðu evrópska efnahagssvæðið með ESB 1. janúar 1994.
Þegar litið er til baka var einstaklega heppilegt að það tókst að gera EES-samninginn á þessum tíma og hrinda honum síðan í framkvæmd á þann veg sem gert hefur verið. Hann er stærsta skref Íslendinga til samvinnu við aðrar þjóðir.
Lögfræðin leið að markmiði
Grunnþáttur EES-samstarfsins er lögfræðilegur en lögfræðin er aðeins tæki til að ná fram umsömdum pólitískum markmiðum um fjórþætta frelsið og annað samstarf. Lögfræðileg mælistika er þó of lítil til að leggja mat á samstarfið, sem nær til allra þátta þjóðlífsins. Til hefur orðið nýtt réttarsvið eða réttarkerfi. Að lýsa því sem andstöðu við fullveldi þátttökuríkjanna stenst ekki. Hvert skref hefur verið stigið af fullvalda ríkjum.
Um 40.000 Íslendingar hafa notið fjárhagslegs stuðnings og fyrirgreiðslu til náms undir merkjum EES-samstarfsverkefnisins Erasmus+. Á undanförnum þremur árum hafa verið gefin út um 150.000 evrópsk sjúkratryggingarkort af Sjúkratryggingum Íslands. Ber að túlka fullveldisrétt Íslands á þann veg að svipta skuli íslenska ríkisborgara þessum réttindum vegna ágreinings um valdmörk innan tveggja stoða kerfi EES-samstarfsins?
Í tveggja stoða kerfinu hefur undanfarin ár myndast grátt svæði milli EFTA-stoðarinnar annars vegar og ESB-stoðarinnar hins vegar. Ástæðan fyrir því er fjölgun fagstofnana ESB, það er stofnana sem hvorki eru nefndar í EES-samningnum né Lissabon-sáttmála ESB en veitt hefur verið þröngt sérgreint vald á einstökum fagsviðum. Þetta eru stofnanir um sérfræðiþekkingu.
Í EES-skýrslu starfshópsins er kannað hvers eðlis þessar stofnanir eru og birtar eru frásagnir íslenskra sérfræðinga sem hafa bein kynni af stjórnarháttum innan þeirra. Niðurstaða starfshópsins er að EES/EFTA-ríkin hafi öðlast áhrif á ákvörðunarstigi í EES-samstarfinu með þátttöku í þessum stofnunum. Áhrif sem þau höfðu ekki gagnvart framkvæmdastjórn ESB áður en hún framseldi vald sitt til þeirra.
Í stað þess að fyllast ótta og fara í varnarstöðu vegna þessarar þróunar eiga EES/EFTA-ríkin að nota hana skipulega til að gæta betur eigin hagsmuna, til dæmis með því að efla sérhæfingu innan Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
Í þessu ljósi ber einnig að skoða tillögur starfshópsins um úrbætur á innlendum stjórnarháttum vegna EES-mála með sérstakri EES-stjórnstöð, vel markaðri ráðherraábyrgð og skilum milli innlends þáttar EES-samstarfsins og þess sem snýr út á við. Viðurkenna ber í verki að samstarfið snýst mest um innanríkismál.