15.4.2023

EES-áttavitinn endurstilltur

Morgunblaðið, laugardagur 15. apríl 2023.

For­vitni­legt er fyr­ir þann sem kom að af­greiðslu EES-samn­ings­ins á alþingi fyr­ir 30 árum að kynna sér efni umræðnanna sem nú fara fram um nauðsyn laga­breyt­inga vegna túlk­un­ar ís­lenskra dóm­stóla á 3. grein lag­anna um samn­ing­inn.

Stefán Már Stef­áns­son, fyrr­ver­andi laga­pró­fess­or við Há­skóla Íslands, og dr. Mar­grét Ein­ars­dótt­ir, laga­pró­fess­or við Há­skól­ann í Reykja­vík, rituðu grein und­ir fyr­ir­sögn­inni: Beit­ing inn­leiddra EES-reglna í ís­lensk­um rétti í ljósi bók­un­ar 35 í 100 ára af­mæl­is­rit hæsta­rétt­ar árið 2020.

Þau rifja upp að í samn­ingaviðræðum um EES-samn­ing­inn hafi verið lögð áhersla á það af hálfu Evr­ópu­banda­lags­ins, sem þá var, að regla ESB-rétt­ar um for­gangs­áhrif ESB-laga yrði einnig hluti EES-rétt­ar. EES/​EFTA-rík­in, þ. á m. Ísland, höfnuðu slíkri reglu, hún fæli meðal ann­ars í sér framsal laga­setn­ing­ar­valds sem sam­rýmd­ist ekki full­veldi ríkj­anna. Kom­ist var að mála­miðlun og varð hún að bók­un 35 við EES-samn­ing­inn.

Compass-web-5803294_iStock_muffinmaker

Í orðalagi bók­un­ar­inn­ar felst skuld­bind­ing EES/​EFTA-ríkj­anna um að þau setji sjálf, ef þörf kref­ur, laga­ákvæði sem tryggi að EES-regl­ur gildi fram­ar öðrum sett­um lög­um, það er tryggi þeim for­gang gagn­vart ákvæðum lands­rétt­ar sé um árekst­ur að ræða. Þannig mætti tryggja að all­ir nytu sama rétt­ar þar sem samn­ing­ur­inn gilti.

Þetta gerði alþingi með 3. gr. lag­anna um EES-samn­ing­inn. Þar seg­ir að skýra skuli lög og regl­ur, að svo miklu leyti sem við á, til sam­ræm­is við EES samn­ing­inn og þær regl­ur sem á hon­um byggja.

Stefán Már og Mar­grét segja að hér sé um „hreina lög­skýr­ing­ar­reglu“ að ræða. Í orðalagi 3. gr. fel­ist að sé ekki unnt að skýra ákvæði lands­rétt­ar til sam­ræm­is við EES-regl­ur ráði lands­rétt­ur, EES-regl­ur gangi ekki fram­ar öðrum regl­um um sama efni. Þau benda hins veg­ar á að at­huga­semd­ir í grein­ar­gerð 3. gr. lag­anna bjóði upp á þann lög­skýr­ing­ar­kost að mark­mið lög­gjaf­ans hafi verið að veita EES-regl­um for­gang. Dóm­stól­ar túlki hins veg­ar lög­in en reisi niður­stöðu sína ekki á grein­ar­gerð með þeim. Þarna er um klass­ískt lög­fræðilegt úr­lausn­ar­efni að ræða.

Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) benti á það fyr­ir sex árum eða svo að vegna dóma­fram­kvæmd­ar hér stæði Ísland ekki við þjóðrétt­ar­leg­ar skuld­bind­ing­ar sín­ar við inn­leiðingu á bók­un 35. Hef­ur málið síðan legið fyr­ir sem álita­mál á borði ís­lenskra stjórn­valda.

Stefán Már Stef­áns­son og Mar­grét Ein­ars­dótt­ir segja ástæðu til að gagn­rýna hvernig ís­lensk­ir dóm­stól­ar standi að því að fram­kvæma skyld­ur Íslands sam­kvæmt EES-samn­ingn­um, til dæm­is með því að hafna því að leitað sé ráðgef­andi álits hjá EFTA-dóm­stóln­um á úr­lausn­ar­efn­um vegna EES-samn­ings­ins.

Vegna af­stöðu dóm­ara sé ekki unnt að tryggja þá rétt­ar­vernd í ís­lensk­um rétti sem stefnt sé að með EES-samn­ingn­um. Á meðan rétt­arstaðan sé óbreytt hér sé erfitt að ná því meg­in­mark­miði EES-samn­ings­ins að mynda öfl­ugt og eins­leitt evr­ópskt efna­hags­svæði.

Í lok grein­ar sinn­ar leggja pró­fess­or­arn­ir til að litið verði til þess hvernig Norðmenn hafa leyst þenn­an vanda. Er það skoðun þeirra að slík leið „myndi sam­rýmast ís­lensku stjórn­ar­skránni“, vald alþing­is til laga­setn­ing­ar yrði ekki skert með henni. Lög og stjórn­valds­fyr­ir­mæli um inn­leiðingu á EES-regl­um „fengju þannig enga sér­staka stjórn­skipu­lega stöðu held­ur aðeins stöðu sem al­menn lög,“ eins og þau orða það.

Nefnd sér­fræðinga sem ut­an­rík­is­ráðherra fól að vinna til­lögu um lausn á þessu viðfangs­efni samdi frum­varp fyr­ir ráðherr­ann sem er aðeins ein grein auk gildis­töku­ákvæðis. Þar seg­ir:

„Ef skýrt og óskil­yrt laga­ákvæði sem rétti­lega inn­leiðir skuld­bind­ingu sam­kvæmt EES-samn­ingn­um er ósam­rýman­legt öðru al­mennu laga­ákvæði skal hið fyrr­nefnda ganga fram­ar, nema Alþingi hafi mælt fyr­ir um annað...“

Þarna er tekið af skarið í sam­ræmi við það sem seg­ir í grein­ar­gerð EES-lag­anna sem sett voru fyr­ir 30 árum en jafn­framt tekið fram að alþingi geti mælt fyr­ir um að lands­rétt­ur geti gengið EES-rétti fram­ar.

Dr. Davíð Þór Björg­vins­son, dóm­ari við lands­rétt og fyrr­ver­andi laga­pró­fess­or, sagði í færslu á Face­book þar sem hann studdi efni frum­varps ut­an­rík­is­ráðherra að enn og aft­ur færi nú af stað „umræðan um framsal laga­setn­ing­ar­valds, yf­ir­gang Evr­ópu­stofn­ana, lýðræðis­halla, sjálfs­ákvörðun­ar­rétt Íslend­inga og fl.“ Með slík­um full­yrðing­um væri litið fram hjá því að regl­um EES væri „fyrst og fremst ætlað að veita ein­stak­ling­um og aðilum í at­vinnu­rekstri aðild að sam­eig­in­leg­um markaði ESB og veita þeim þar með rétt­indi, en leggja einnig á þá skyld­ur í sam­ræmi við kröf­ur hins sam­eig­in­lega markaðar“.

Dæmi um af­vega­leiddu umræðuna mátti sjá hér í blaðinu miðviku­dag­inn 12. apríl þegar Bergþór Ólason, formaður tveggja manna þing­flokks Miðflokks­ins, lýsti and­stöðu við breyt­ing­una á EES-lög­un­um með rök­um á borð við þau sem Davíð Þór hall­mælti og vikið er að hér að ofan.

Áhöld eru um hvort réð meiru um fylg­istap Miðflokks­ins í þing­kosn­ing­un­um 2021: til­gangs­laust málþóf hans vegna þriðja orkupakk­ans eða subbutalið á Klaust­ur­bar. Ef til vill ætlaði Bergþór að minna á hvort tveggja þegar hann sagði í grein sinni:

„Bók­un 35 sem gár­ung­arn­ir eru farn­ir að kalla „brók­un 35“ geng­ur út á það að Ísland legg­ist flatt fyr­ir er­lend­um rétti sem því er uppálagt að inn­leiða í gegn­um EES-samn­ing­inn.“

Mál­flutn­ing­ur af þessu tagi er eins langt og verða má frá al­var­leika viðfangs­efn­is­ins sem um er að ræða. Að hann sé tal­inn boðleg­ur til að sanna holl­ustu við full­veldi þjóðar­inn­ar er nöt­ur­legt.