Dr. Ólína var skipuð
Morgunblaðið, 17. desember 2020.
Dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur þótti að sér vegið í grein sem ég birti hér í blaðinu 29. október um bók hennar Spegill fyrir skuggabaldur. Bókina taldi ég illa rökstudda, ófrumlega og skrifaða af pólitískum sjónarhóli sem leiddi til fyrirsjáanlegrar en rangrar niðurstöðu.
Höfundurinn trúir því að lína í bréfi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hafi orðið til þess að Edgar J. Hoover, forstjóri FBI, setti útgáfubann á bækur m.a. Halldórs Laxness og bandarískir útgefendur og Laxness hafi tekið því með þögn. Þetta eru getgátur án skjalfestra heimilda.
Í Morgunblaðinu 10. desember segir dr. Ólína að það sé „pólitísk arfleifð Sjálfstæðisflokksins“ að valda samfélagslegum skaða með því að skipa í embætti með „pólitískri misbeitingu ráðherravalds“. Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hafi til dæmis „harðlega átalið [það] í nýföllnum dómi“ í landsréttarmálinu.
Þessi skoðun dr. Ólínu er röng og á alls ekki við vegna niðurstöðu MDE í landsréttarmálinu.
Í greininni 10. desember segir dr. Ólína einnig:
„Spegill fyrir skuggabaldur fjallar um valdbeitingu af fyrrgreindum toga – fyrirgreiðslupólitík og aðra misbeitingu sem grefur undan góðri stjórnskipan, lýðréttindum og mannhelgi. Það er arfleifðin sem Björn Bjarnason og fylginautar horfast nú í augu við.“
Ég hef ekki tölu yfir fjölda embættaveitinga minna árin 13 sem ég var ráðherra. Ég mótmæli harðlega að þau hafi verið veitt á þann veg sem Ólína lýsir.
Byggingar Menntaskólans á Ísafirði.
Það kom til dæmis í minn hlut 22. júní 2001 að skipa dr. Ólínu skólameistara Menntaskólans á Ísafirði til fimm ára frá 1. ágúst 2001. Ólína var eini umsækjandinn. Þegar umsókn hennar barst menntamálaráðuneytinu 31. maí 2001 uppfyllti hún ekki starfsgengisskilyrði skv. ákvæðum laga um framhaldsskóla og laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Úr því var bætt og fékk hún embættið.
Þegar leið að lokum skipunartímans árið 2006, þá var ég dómsmálaráðherra, tilkynnti Ólína að hún myndi ekki óska eftir endurnýjun á skipun sinni og sagði í fréttatilkynningu 25. febrúar 2006 að ákvörðun sín væri tekin „með velferð skólans í huga, í þeirri von að takast megi að leysa þennan mikilvæga vinnustað úr þeim heljargreipum ófriðar sem honum hefur verið haldið í undanfarin misseri“.
Til hvers vísað er með þessum sterku orðum hennar vita aðrir en ég. Telji dr. Ólína þessa embættaveitingu mína dæmi um „fyrirgreiðslupólitík og aðra misbeitingu“ á ráðherravaldi er henni það frjálst.
Hún hampar þessu embættisverki mínu ekki í bók sinni. Það þjónar ekki tilgangi hennar. Þungamiðja bókarinnar er jú að hún fái ekki opinber embætti vegna skuggabaldra.